Blik 1961/Frá Arendal í Noregi
- Torgið í Arendal í Noregi.
Hér var það, sem norskur bóndi auglýsti hrútakjöt til sölu. Þá kom til hans askvaðandi gömul og súrlynd piparmey, lyktaði af kjötinu og sagði: „Fysveiattan, bönnaður dóninn þinn. þú hefur notað hrútinn til ánna.“ „Það er mesti misskilningur, kæra frú,“ sagði bóndi stillilega, „en þú hefðir átt að lykta af honum pabba hans!“
- Sönn saga frá Arendal.
- Sönn saga frá Arendal.
Eitt sinn heimsótti Ólafur 5. Noregskonungur bæinn Arendal. Þegar konungssnekkjan lagðist þar að bryggju, stóð þar bæjarfógetinn, eins og vera bar, í sínum fegursta skrúða, borðalagður með allar sínar orður á brjóstinu.
Konungur steig á land, og bæjarfógetinn flutti honum kveðjuorð, þar sem hann stóð á bryggjubrúninni. Hann sagði: „Yðar konunglega hátign! Í nafni allra íbúa Arendals býð ég yður hjartanlega velkominn hingað til þess að kynnast vorum yndislega bæ.“ Svo steig bæjarfógetinn eitt skref afturábak til þess að hneigja sig á sem virðulegastan og hermannlegastan hátt fyrir konungi.
Og — bæjarfógetinn steig út af bryggjubrúninni á svarta kaf í sjóinn. Þá hló Ólafur konungur, svo að kvað við.