Blik 1937, 1. tbl./Einkennilegur maður
Blik 1937, 1. tbl.
- EINKENNILEGUR MAÐUR
ÞAÐ mun hafa verið nálægt 1840, að danskt seglskip strandaði á Hvolsfjöru í Mýrdal. Skipstjórinn á því var danskur maður, er Stefán Ringsted hét. Dvaldi hann um tíma hjá Hirti bónda Loftssyni og gat son við dóttur hans, sem hét Guðríður. Var sveinninn heitinn í höfuð föður sínum og skírður Stefán Ringsted.
Hann ólst upp með móður sinni og unni hún honum mjög og mælti allt eftir honum í uppvexti hans. Varð drengurinn snemma ódæll og kom sér illa. Ódælska hans og leti varð til þess, að hann dvaldi hvergi lengi á sama stað eftir að móðir hans dó, en jafnan átti hann lögheimili í Út-Mýrdal. Hann dvaldi þó ekki frekar á þeim heimilum en öðrum, en flakkaði jafnan. Framan af ævinni stundaði hann sjóróðra í Vestmannaeyjum og út frá Mýrdalssöndum. Þótti hann heldur góður sjómaður, enda netfiskinn. En sá ljóður var á ráði hans, að hann var mjög sjóhræddur, og jafnan svo lífhræddur, að broslegt þótti. Eitthvert sinn er sjómenn höfðu ákveðið að kveldi að leggja úr Eyjum til lands næsta morgun, fór Stefán ekki úr fötum alla nóttina, en grét fram á hendur sínar og fáraðist um, að þeir myndu allir farast í lendingunni við Dyrhólaey.
Sjaldan var hann tvær nætur á sama bæ samfleytt, nema í stórhríðum, en fyrir kom, að hann var nokkra daga í senn í kaupavinnu. Þótti hann ágætur sláttumaður og flugbeit jafnan í höndum hans, enda var hann laghentur; smíðaði hann svo góðar skónálar, að eftir þeim var sótzt. Hann seldi talsvert af þeim og lét fyrir ýmsan greiða.
Aldrei beiddist hann gistingar munnlega, heldur kallaði eitthvert barn húsbændanna út undir bæjarvegginn, og annað hvort fékk því bréf til húsbændanna, þar sem hann beiddi þá gistingar, eða hann lét skila því; beið hann á meðan fjarri bæjardyrunum.
Urðum við börnin alltaf glöð, þegar til hans sást, og var brýnt fyrir okkur að vera góð við hann, og stranglega bannað að hafa hann að athlægi.
Hann skrifaði fallega hönd, var prýðilega greindur, bókhneigður og stál minnugur. Var hann orðheppinn og fljótur að svara fyrir sig, en illyrtur, ef því var að skipta. Hann hézt oft við þá, er hann reiddist, og hótaði að ganga aftur til þeirra, sem hann reiddist við. Aldrei varð þó vart við, að heitingar hans yrðu að áhrínsorðum.
Hagyrtur þóttist hann vera, en kvað jafnan níð. Einhverju sinni þótti honum vinnukona leggja sér illt til og kvað hann þá:
- „Kjaftagleið er flestum leið,
- með illsku tungu kraftinn,
- Það ætti að skera upp við kok
- úr henni góma raftinn.“
- „Kjaftagleið er flestum leið,
- Maður nokkur kvað til Stefáns:
- Maður nokkur kvað til Stefáns:
- „Stebbi hringur hefur glingursbyrði,
- auma lyngur er sá mann,
- ekki syngur fagurt hann.“
- „Stebbi hringur hefur glingursbyrði,
- Þá sagði Stefán:
- Þá sagði Stefán:
- „Á Ketilstöðum karl sá er,
- sem ekki fagurt syngur,
- en ærukrenking engin er
- um að bera glingur.“
- „Á Ketilstöðum karl sá er,
- Og svo þetta til hins sama:
- Og svo þetta til hins sama:
- „Guðmundur í Bröttuboru,
- kjöti stal og hýddist því
- högg fimmtíu á lendaskoru.“
- „Guðmundur í Bröttuboru,
Stefán var lýttur á auga og heldur ófríður maður, vel í meðallagi hár, þrekinn en lotinn í herðum.
Hann bar jafnan mikið á baki, allskonar dót, úttroðna poka með skjóðum og smá pinklum utan á og neðan í. Það var skoplegt að sjá hann dinglandi með þetta niður í hnésbætur, úttroðinn barminn, alla vasa fulla, og jakkaermarnar einnig úttroðnar. Enginn mátti sjá í pinkla hans.
Hann þótti sí hnuplandi, en jafnan var það lítils virði og lítilmótlegt. Hengdi hann paufa með þýfinu í útihús á þeim bæjum, þar sem hann vissi, að ekki var hnýstst í þá. Stöku sinnum sást hann viðra úr pokunum og sat þá í miðri breiðunni, en ef einhvern bar þar að, var hann öskufljótur að grípa þetta saman.
Sagði hann einhverju sinni, er talað var um þjófnað: „Ég stel aldrei svona stórvægilega.“
Innan um þetta var Stefán guðhræddur, las andlegar bækur, bað og var vel heima í guðsorði. Vanþakkaði Stefán aldrei neitt, en þakkaði jafnan fyrir sig.
Stefán dó aldraður maður, hjá Heiðmundi bónda Hjaltasyni á Götum í
Austur-Mýrdal. Sannaðist þar sem oftar, að „enginn ræður sínum næturstað,“ því í Austur-Mýrdal vildi hann aldrei eiga heima. Hann var ljúft og þakklátt gamalmenni, og dó að síðustu í sátt og friði við alla menn, og fól önd sína guði.
Margt fleira mætti segja um þennan einkennilega og greinda mann, umrenninginn, sem víða var misskilinn, en sem einnig naut víða skilnings og samúðar.