Blik 1963/Hugvekja

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 4. apríl 2010 kl. 22:14 eftir Viglundur (spjall | framlög) Útgáfa frá 4. apríl 2010 kl. 22:14 eftir Viglundur (spjall | framlög) (Verndaði „Blik 1963/Hugvekja“ [edit=sysop:move=sysop])
Fara í flakk Fara í leit

Efnisyfirlit 1963



ÞORSTEINN L. JÓNSSON:

Hugvekja



Séra Þorsteinn Lúther Jónsson. Myndin er tekin eftir málverki, sem séra Jóhann Hlíðar hefur gert af starfsbróður sínum.

Þessa hugvekju flutti séra séra Þorsteinn L. Jónsson, sóknarprestur, í Gagnfræðaskólanum í Vestmannaeyjum 19. des. sl., á skilnaðarstund, er jólaleyfi hófst í skólanum.
Skólabrœður hans áttu mesta sökina. Skólasysturnar björguðu henni frá sömu, slæmu örlögunum. Drengurinn litli, sem ekki gleymdi skyldum sínuni, þó að slysið bæri að höndum. Presturinn kallar hugvekju sína:

Gjafir til lífsins.


Lúkas 2. 1—20.

Jólaguðspjallið er þá sagan, ein af þeim fáu, sem allir kunna.
En af hverju er þá verið að lesa hana upp æ ofan í æ?
Það er einfaldlega vegna þess að þetta er sagan, sem óumdeilanlega hefur heillað fleiri mannshjörtu en nokkur saga önnur.
Enn fremur er hún einstæð að því leyti, að upp af henni hafa sprottið fleiri sögur en nokkur atburður annar hefur megnað að gjöra. Úr tærum lindum hennar hafa sprottið fram hin dýrustu ljóð, sem lifa öldum saman á vörum fólksins. Og í óbundnu máli eru sögur samdar af rótum hennar.
Þá hefur hún og verið, þessi blessaða saga, uppspretta fegurstu tónsmíða og sömuleiðis hefur hún töfrað dásamlega liti fram á lérefti meistaranna og stjórnað þeirra hönd til að draga upp miklar og heillandi myndir bæði fyrr og nú.
Og svo er hún sagan okkar gamla kæra, sem ávallt verður ný með hverjum jólum, saga, sem við öll kunnum, jafnvel orðrétta, en viljum samt fá að heyra aftur og aftur hverja jólahátíð, og í því felast hinir miklu töfrar hennar, að þá verður hún ávallt ný, — skapar umhverfis okkur nýjan himin og nýja jörð, — gefur okkur að sjá út fyrir hinn afmarkaða baug hinna virku daga, og inn í óravíddir þess, sem felst á bak við allt það, sem við erum í hinu hversdagslega lífi. Þá sjáum við inn í sálina, sem býr í liverju okkar handtaki, sem unnið er af alúð og trúmennsku, þá skynjum við fyrst dýrasta geislann í hverju hjartanlegu brosi, og þá kennum við fyrst ylinn og æðasláttinn, sem streymir frá hverju hjarta, sem vill skilja mig, sem vill setja sig í mín spor, svo að hann geti borið í bætifláka fyrir mig — borið með mér mínar byrðar og hjálpað mér við að skilja rök lífsins og tilgang þess.
Þetta er nefnilega sagan, sem segir okkur frá undraverðum viðburði, er skeði fyrir mörgum öldum, en er þrátt fyrir það alltaf jafn sannur og ferskur, einmitt vegna þess, að hann hefur okkur boðskap að flytja. Boðskap svo bjartan og hreinan, að myrkur næturinnar og skammdegisins flýja burtu við fyrsta ljósbrot. Boðskap svo lifandi og sannan, að myrkrin ekki einasta flýja, heldur verða að engu við komu hans. Annars gæti þessi boðskapur ekki verið lifandi, því að ekki getur neitt líf þróazt í myrkri, né sannleikurinn orðið augljós, nema hann opinberist í ljósi skærrar birtu.
Það var þá heldur ekkert eðlilegra en þessi orð engilsins, hina fyrstu jólanótt, reyndu að eyða óttanum, sem hvíldi eins og farg á hverju mannsbrjósti, sem lifði í svo myrkum heimi, að hvenær sem var mátti búast við miskunnarlausri árás úr launsátri. Og þótt ekkert hefði verið annað sagt en þetta: „Verið óhræddir,“ — hefðu mennirnir tekið fagnandi á móti slíkum boðskap frá svo voldugum sendiboða sem hin himneska vera, er við köllum engil, var í augum vottanna.
En boðskapurinn varð meiri og örlagaríkur, því að engillinn hélt áfram þessum orðum: „Því að sjá, ég boða yður mikinn fögnuð, sem veitast mun öllum lýðnum, því að yður er í dag frelsari fæddur, sem er Kristur Drottinn í borg Davíðs.“ —
Og hér var ekkert hálfkák — engin reikul, óljós orð, svo sem einhver véfrétt, loðin og laus í reipunum, sem einn gat túlkað á þennan veg og annar á hinn, en þvert á móti. Engillinn bauð þeim að fara svolítið spottakorn til þess að sjá staðreyndirnar — þarna innan borgarhliðanna í Betlehem. — „Hafið þetta til marks. Þér munuð finna ungbarn reifað og liggjandi í jötu.“
Og svo koma undirtektirnar — allur hinn tæri, dimmblái, stjörnutindrandi upphiminn upplýsist á einni svipstundu, og loftin óma af hinum fegursta söng og viðlagi, sem einnig var boðskapur: „Dýrð sé Guði í upphæðum og friður á jörðu, með þeim mönnum, sem hann hefur velþóknun á.“
„Hvað gat verið listrænna?“ hafa margir sagt. Og þetta er rétt, og ég veit enn fremur, að Skaparinn hefur jafnan verið meira tónskáld en Beethoven, Mozart eða Bach og miklu meiri hugsuður en Göthe, Ibsen eða Björnson. Vogar sér þó enginn að gera lítið úr þeim. Sízt af öllu vil ég gera það.
En hér var Skaparinn að stofna til meira verks en þess, er veldur stemningu og jákvæðum hughrifum, hann var að opinbera nýtt og áður óþekkt lífsviðhorf með fæðingu Frelsarans. — Hann var að ógilda ranglætið —. Hann var í rauninni að brjóta hið kerfisbundna lögmál jarðarbúa — mannlegs lífs, með því að opinberast í Syninum — fátæku og umkomulausu mannsbarni, til þess að sanna það svart á hvítu, hversu mikils virði það er að lifa og starfa sem þjónn annarra, laus við eigingirni, sjálfselsku, dramb, heiftarhug og hefnigirni og hvers konar kvikindishátt í orði og á borði - til þess að sanna það svart á hvítu, að beinasta leiðin og sú einasta rétta til hamingju og heilla í andlegum og veraldleginn efnum, er að koma þannig fram við aðra eins og við kjósum að aðrir komi fram við okkur.
Þessi sigurleið er vegur fórnar og þjónustu, af því að sá sem hana gengur í fótspor Frelsarans byggir í öllum greinum lífsviðhorf sitt á kærleikanum, sem gefur. Meira að segja gefur allt, — gefur aldrei neitt frá öðrum, en gefur öðrum af sínu eigin — gefur að fyrra bragði án afláts, gefur skilyrðislaust og án þess ég eða þú eigum það skilið — eða ef til vill réttara orðað þannig: Hvort sem við eigum það skilið eða ekki.
Og þá er ég kominn að kjarna þessa máls: Barnið í jötunni — Jesús Kristur — Frelsarinn okkar, hann er sú mesta gjöf sem heiminum hefur nokkurn tíma gefin verið. — Með öðrum orðum, meiri gjöf hefur okkur aldrei verið gefin.
Þegar við því höldum jól, eða til þess að geta haldið jól, er það skilyrðið að veita þessari miklu gjöf viðtöku í raun og sannleika, svo að allt hið illa, sem í okkur býr, eyðist. — Ég á ekki við mannvonzku, glæpi eða glæpahneigð, þó að það sé allt saman til í ríkum mæli. — En það, sem ég á við með hinu illa, sem í okkur býr, er eigingirnin og sjálfselskan — syndin, — en þannig verkar gjöfin á allt það, og það sem af rótum syndarinnar er runnið, eins og ljósið verkar á myrkrið. — Myrkrið hverfur, og hið illa þurrkast út, máist út og afleiðingar þess einnig, því að ‘’hann’’ er hið eilífa og sanna ljós, sem upplýsir hvern mann — og séu sálarfylgsnin opin fyrir því ljósi hans frá hæðum, getur ekkert illt þróazt í hugskotum okkar og við erum sjálf farin að gefa, af því að við erum að verða ljós af hans ljósi, hjarta með hans hjartalag, sál af hans sál.
Jafnvel þótt við höfum ekki fullkomlega tekið á móti þessari miklu gjöf jólanna, er áreiðanlega eitthvað bogið við okkur, ef við ekki finnum þessa kennd og ef við ekki einnig finnum meiri fúsleika til að vera öðrum virkilegri vinir og samfélagsverur en aðra tíma, — veitum þessu útrás með gjöfum. — Einmitt jólagjöfum. — Gleðjumst af því að geta og mega gefa slíkar vinargjafir. Hlakka einnig til, gleðjast einnig, er við fáum gjafir frá vinum okkar.
Jólagjöf skal fyrst og fremst vera vinargjöf, og þá er það spurningin: Hvernig eiga gjafir mínar og þínar að vera frambornar?
Þessari spurningu langar mig að svara þannig: Jólagjafir þínar eiga að vera gjafir til lífsins.
En til þess að útskýra betur, hvað ég meina með þessu, vil ég bæta hér við þrem sögukornum, sem ég hef valið einmitt af því að ég er að tala við ykkur, skólaæsku þessa bæjar, en þessi sögubrot eru fengin að láni beint úr daglega lífinu.
Það var einu sinni maður nokkur, sem mörgum árum eftir skólagöngu sína kom til fæðingarbæjar síns. Hann heimsótti þá einn af sínum beztu æskufélögum. — Og er hann sat hjá honum í góðu yfirlæti, varð honum af tilviljun litið út um gluggann. Sá hann þá mann, gamlan bekkjarbróður, á stígnum fyrir utan. Leyndi það sér ekki, að þar fór umkomuleysingi, ólánsmaður. Varð honum þá að orði: „Æ, mikil ósköp er að sjá hann Pétur í Kofanum. Sá hefur ekki breytzt. Hann ætlar svo sem að enda eins og hann byrjaði.“
Þá varð húsbóndinn alvarlegur í bragði og sagði: „En veiztu, hverjir það voru, sem unnu ötulast að því að eyðileggja hann? Mér þykir leiðinlegt að hryggja þig með því, vinur minn, en það vorum við, ég og þú, og svo auðvitað öll hin bekkjarsystkinin. — Nei, segðu ekki neitt, en leyfðu mér að útskýra þetta augljósa mál. — Pétur átti óskemmtilega daga — foreldrar hans voru fátæk og ekki eins og fólk er flest. — Þau voru óráðvönd og drykkjuhneigð, enda bar hann þess óræk merki. Við létum hann líka gjalda þess, létum hann aldrei í friði. Og í okkar hópi var hann eins og sært dýr, sem átti hvergi griðland. Það var eins og við hefðum nautn af að særa hann og erta svo miskunnarlaust, að ég verð miður mín af sjálfsásökun, þegar ég sé hann. Það liggur við, að ég fari að hata ykkur öll hin um leið. Það er óþarfi fyrir okkur að minnast á einstök dæmi. En ég veit ekki til, að neitt okkar hafi nokkurn tíma tekið hann í sína vernd eða gjörzt málsvari hans. Að minnsta kosti gjörði ég það aldrei. — Hann var olnbogabarn, er sannarlega lá á sorgarbrjóstum, hornreka, sem flúið hefur á náðir síns eigin óláns. Þér finnst þetta sjálfsagt hart, en svona hefði farið fyrir okkur líka, ef við hefðum verið í hans sporum. — — Og svo var það eitt kvöld, að samvizkan rak mig til hans. Mig langaði til að reyna að bæta honum upp alla þá grimmd, er ég í ungæðingsskap hafði jafnan beitt hann. Og þótt ég finni nú orðið, þegar ég sit hjá honum eða er honum innan handar, að það snertir viðkvæman streng innra með honum, fellur mér jafn þungt, að ég skuli ekki hafa verið frá upphafi það, sem ég er honum þó nú. Hans innstu strengir, sem fengu aldrei að hljóma, eru nú brostnir og hjáróma. — Þarna hef ég, og við öll, gjört okkur sek um að stuðla að óhamingju og glötun félaga okkar. Og svo þegar ég bætti ráð mitt gagnvart honum, fann ég, að ég kom of seint.
Svo er hér önnur saga. Hún gerðist í telpnabekk. Þar var stúlka, sem líkt var ástatt um og hann ólánssama Pétur, sem nú hefur verið sagt frá. Þetta var heimangönguskóli þorpsins og höfðu allir bita með sér í skólann. En þessi stúlka, sem við skulum kalla Systu, hafði aldrei neitt með sér og var hinn mesti einstæðingur. Enginn vildi vera með henni, sem að sumu leyti var víst eðlilegt.
Dag einn, þegar þessi litli einstæðingur var fjarverandi, þá talaði kennarinn við hin börnin — sýndi þeim fram á þann mismun, sem var á kjörum þeirra og Systu og að þau myndu einnig sjálf fara margs á mis, ef þau ættu við svo bág kjör að búa.
Og svo sagði kennarinn: En það myndi breyta miklu í lífi Systu og verða henni til góðs, ef þið, ein og ein, gæfuð henni með ykkur af bitanum ykkar. En munið, að það er vandi að gefa án þess að særa. — Sá sem ekki getur endurgoldið og finnur það, er viðkvæmur og getur brugðizt til beggja vona.
Nú gekk allt eins og í sögu. Viðmót telpnanna breyttist — og Systa varð allt önnur, já, eins og systir, og það laðaðist fram bjart bros úr augum hennar, bros, sem eftir upplagi hennar var henni eðlilegt.
Um veturinn hafði kennarinn komizt að eftirtektarverðri fórnfýsi, er tók því langt fram, sem hann hafði mælzt og ætlazt til að þær gerðu, þessar göfugu stúlkur. Þær höfðu nefnilega aldrei minnzt á þetta með bitann heima hjá sér og föstuðu þess vegna að nokkru leyti, þegar þær voru að gera Systu gott.
Undir vorið flutti hún með foreldrum sínum í annan landshluta. — Þá talaði kennarinn til telpnanna og þakkaði þeim og spurði jafnframt: Hafið þið hugsað út í eitt, er þið minnist þessarar fórnar og smávegis sjálfsafneitunar, að í rauninni er það ekki Systa, sem hefur mest að þakka, heldur þið henni fyrir liðinn vetur. — Því að þær minningar, sem Systa litla mun vekja hjá ykkur upp frá þessu, mun laða fram hlýju, sem runnin er af rótum þess kærleika, sem gefur án þess að ætlast til að sér sé gefið aftur. — Þarna kom gjöfin að gagni, enda á réttum tíma. Má reyndar vera, að þessi gjöf hafi bjargað einu mannslífi frá hlutskipti ömurlegra örlaga. Og loks er það sagan um litla drenginn. Allt sitt líf hafði hann verið sólargeislinn á heimilinu. En þegar hann stálpaðist, kynntist hann gamalli, fátækri konu, sem bjó í skuggalegri kjallaraholu. Hann stytti henni oft stundirnar og hljóp fyrir hana erindi.
Einu sinni sem oftar sendi hún hann í búð handan götunnar. Það voru margir, sem þurftu að fá sig afgreidda þá stundina, og hinir fullorðnu gengu á undan litla drengnum. Og svo, þegar hann hljóp yfir götuna, flýtti hann sér hvað af tók, en gætti ekki umferðarinnar.
Þegar hann komst til meðvitundar eftir slysið, var það fyrsta, sem hann spurði um: „Skyldi Guðrún gamla hafa fengið olíuna? Hún er svo fátæk, hún Guðrún, og henni var svo kalt. Aurarnir, sem ég fékk til baka, eiga að vera í öðrum buxnavasanum.“
Augu hans ljómuðu af ólýsanlegri innri gleði, þegar honum var sagt, að allt hefði komizt til skila.
Hann hafði gert sínar ráðstafanir eins og þroskaður og skyldurækinn maður. Nú gat hann dáið rólegur.
Þetta er að gefa lífinu ómælt og af kærleika.
Jesús Kristur gaf mannlífinu líf sitt í fullkominni fórnarþjónustu. Hans gjöf var fullkomin.
Sú gjöf, sem að gagni kemur, er einmitt sú, sem þú gefur lífinu, — vinum þínum, félögum þínum, náunga þínum. Gefðu öðrum, þeim til stuðnings og uppbyggingar, öðrum til viðreisnar og sálubótar, og þá muntu sjá að það skapast fagurt mannlíf í kringum þig, sönn jól og jólagleði.
Guð gefi öllum okkur gleðileg jól.

Þorsteinn L. Jónsson.







Þetta er varðan, sem gnæfir við loft á Yztakletti, svo að flestir Eyjabúar mega leiða hana sjónum daglega. Hún er hlaðin 1912 og gerð til heiðurs Sigurði Sveinssyni, bónda í Nýborg. Litlabæjarbræður hlóðu vörðuna í þakklætisskyni við Sigurð, sem hafði Yztaklett á leigu og leyfði þeim bræðrum bjargveiði þar. Þeir bræður vissu ekki annað sannara, en að Sigurður bóndi vœri sjötugur ári 1912, en hann sagði sig tveimur árum yngri en hann var, líklega óviljandi þó; hann var fæddur 1840.
(Páll Steingrímsson tók myndina.)