Blik 1958/Sigling á vélbát frá Danmörku til Íslands 1917

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 23. mars 2010 kl. 20:22 eftir Viglundur (spjall | framlög) Útgáfa frá 23. mars 2010 kl. 20:22 eftir Viglundur (spjall | framlög) (Verndaði „Blik 1958/Sigling á vélbát frá Danmörku til Íslands 1917“ [edit=sysop:move=sysop])
Fara í flakk Fara í leit

Efnisyfirlit 1958



HREFNA ÓSKARSDÓTTIR, 2. bekk verknáms:

Sigling á vélbát frá Danmörku

til Íslands 1917


Ég ætla að segja hér sögu, sem afi minn sagði mér:
„Ég samdi um kaup á 30 smálesta vébát í Fredrikshavn í Danmörku og átti báturinn að vera fullsmíðaður snemma sumars 1917. Seint í maí það ár fórum við héðan með Íslands-Falk til Danmerkur. Hann hafði verið við strandgæzlu. En með honum urðum við að fara vegna þess, að siglingar voru að stöðvast til nágrannalandanna vegna siglingabanns Englendinga, sem þá áttu í styrjöld við Þjóðverja. Þegar við svo loksins komum til Fredrikshavn, var báturinn ekki hálf smíðaður og máttum við bíða allt sumarið eða þar til í ágústlok.
Við fengum einungis 7 tunnur af olíu til fararinnar en 3 tunnum var stolið frá okkur
Frá Danmörku fórum við 1. september og héldum sem leið liggur til Noregs, til Skudesnes. Þar sigldum við inn í svokallaðan Skerjagarð, en urðum að sigla utan skerja með fram Noregsströnd norður fyrir 63° n.br. Það var fyrirskipun Englendinga. Þegar við nálguðumst Skudesnes, var olían þrotin, og urðum við að taka til seglanna. Fórum við því næst á seglum til Björgvinjar. Þegar þangað kom, lá þar dönsk skúta að nafni Ester. Okkar bát var lagt fyrir akkeri þar skammt frá og skyldi sami tollvörðurinn gæta beggja skipanna. En tollgæzlan var aðallega fólgin í því að gæta þess, að við flyttum ekki neitt um borð. Okkur var bannað að kaupa nokkrar vörur, þar á meðal mat. Okkar erindi til Björgvinjar var sérstaklega að reyna að fá olíu, og byrjuðum við á því að fara til danska ræðismannsins. Tjáði ræðismaðurinn okkur, að hann gæti ekkert fyrir okkur gert annað en það að gefa okkur meðmæli til enska ræðismannsins. Því næst fórum við til svokallaðs olíuráðs en án árangurs. Svarið var alltaf það sama: Við höfum ekkert. En þeir vísuðu okkur á að senda umsókn til stjórnarinnar í Kristianíu. Það gerðum við og biðum eftir svari í 4 daga. Svarið var eitthvað á þá leið, að stjórnin réði engu um olíusölu, en hefði Bergensamt eitthvað til miðlunar, myndi stjórnin ekki setja sig upp á móti því. Svarið hjá stjórn Bergensamts var það sama og hjá hinum, að þeir hefðu ekkert til miðlunar. Við höfðum ekki einu sinni olíu til ljósa. Einhvernveginn tókst okkur að smygla um borð 15 lítrum, sem nægðu aðeins til ljósa í íbúðum eða þar sem við héldum okkur. Engin siglingaljós höfðum við.
Í þessar tilraunir til að fá olíu höfðum við eytt átta dögum en máttum svo sigla af stað olíulausir og matarlitlir. Nú lögðum við af stað til Íslands, og hrepptum við mjög vont veður yfir hafið. Frá því við fórum frá Noregi og þangað til við sáum landið, liðu 15 sólarhringar. Þegar við komum upp undir við Austfirði, fengum við norðan storm og týndum landsýn aftur. Eftir 7 sólarhringa sáum við land aftur. Suðvestan átt var á. Við sáum þá fyrst Snæfellsjökul.

Við náðum Ólafsvík á sunnudegi kl. 3 e.h. Við höfðum misst útbyrðis lífbátinn (eða öðru nafni björgunarbát) á leiðinni upp og gátum því ekki farið í land á honum en gerðum vart við okkur með þokulúðri. Komu þá Ólafsvíkingar skömmu seinna. Sendum við síðan í land með þeim einn af skipverjunum og átti hann að útvega olíu, mat og vatn, sem mjög var þrotið um borð, og hann átti að vera eins fljótur og hann gæti. Leið svo dagurinn og nóttin án þess að nokkuð bólaði á manninum. Vindur fór vaxandi af norðri og þess vegna vont að liggja á Ólafsvík. Bátinn gat rekið upp að landi. Bátar reru frá Ólafsvík, en þegar hvessti, sneru þeir við, og komst þá sá, sem þessa sögu segir, í land með einum þeirra. Fengum við 4 tunnur af olíu og komum þeim um borð með herkju. En um mat og vatn var ekki hugsað. Var nú haldið af stað í góðu leiði til Vestmannaeyja og notuð bæði segl og vél. Til Eyja komum við eftir 20 tíma siglingu frá Ólafsvík. Voru þá liðnir 36 dagar frá því að við lögðum af stað frá Danmörku. Var okkur vel fagnað, þegar við komum heim, því að við höfðum verið taldir af. Þegar við komum til Eyja, fréttum við af dönsku skútunni, sem fyrr er getið. Það sagði stýrimaðurinn okkur. Þeir áttu að fara til Austurlandsins. En þeir villtust og ætluðu að reyna að ná til Vestmannaeyja. Seglin voru orðin ónýt. Þeir ætluðu að sigla austur með Klettinum en sáu ekki Faxasker á kortinu og sigldu á það, og þar sökk danska skútan Ester, en mennirnir komust lífs af í björgunarbát. Bátinn, sem við komum með, nefndi ég Harald.“ Hér lýkur frásögunni um sjóhrakninga þessa árið 1917.

Hrefna Óskarsdóttir, 2. bekk verknáms.