Blik 1955/Vestmannaeyjaklaustur

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 18. febrúar 2010 kl. 22:41 eftir Viglundur (spjall | framlög) Útgáfa frá 18. febrúar 2010 kl. 22:41 eftir Viglundur (spjall | framlög) (Ný síða: Efnisyfirlit 1955 BJÖRN SIGFÚSSON: =Vestmannaeyjaklaustur= <br> thumb|350px|Björn Sigfússon Það sýnist kynlegt að segja sögu sto...)
(breyting) ←Fyrri útgáfa | Nýjasta útgáfa (breyting) | Næsta útgáfa→ (breyting)
Fara í flakk Fara í leit

Efnisyfirlit 1955




BJÖRN SIGFÚSSON:

Vestmannaeyjaklaustur


Björn Sigfússon

Það sýnist kynlegt að segja sögu stofnunar, sem dó rétt áður en hún fæddist. Þetta helgisetur átti að verða fyrsta klaustrið í Skálholtsbiskupsdæmi og fá í vöggugjöf allar eyjarnar og brátt fleiri jarðir. Því var ætlað stærra hlutverk en Þingeyrarklaustri, sem stofnað hafði verið 1133, en síðan var liðinn fullur áratugur, þegar saga þessi hefst.
Í Skálholti sat þá skörungurinn Magnús Einarsson biskup. Langafi hans í karllegg var Þorsteinn Síðu-Hallsson, og svo frábær mannasættir var Magnús biskup, eigi síður en Hallur forfaðir hans, að allar deilur stöðvuðust milli höfðingja, meðan hans naut við að sætta þá, og sparaði hann ekki eigur sínar til að kaupa menn sátta, þegar þurfti. En honum var sýnt um fjáröflun og jarðakaup. Hann keypti undir Skálholtskirkju stórjarðir í Árnesþingi og nær allar Vestmannaeyjar. Hungurvaka tekur fram, að þær ætlaði hann til að stofna þar klaustur, sennilega á árinu 1149, en haustið fyrir, 1148, gerðist sá voveiflegi atburður, að biskup brann inni í Hítardal með 80 manna, þar með taldir fjölmargir klerkar, sem sumir hafa verið ráðnir til forstöðu hinu ófædda klaustri. Engir stóðu uppi, sem höfðu hvöt til þess í klerkaskortinum að stökkva frá kirkjum sínum í munklífiseinangrun í Eyjum, svo að málið frestaðist.
En hugmyndin varð ekki stöðvuð, og klaustrið reis innan skamms. En það var í staðinn sett austur á Síðu, Kirkjubæjarklaustur. Þessi tilviljun réð því, að ábótastarf Þorláks helga, síðar biskups, var unnið þar og ekki í Eyjum, svo að hann missti af því að verða íslenzkur sæfaradýrlingur og Landakirkja (nánar sagt: Klemenzkirkjan fyrirrennari hennar) missti af því að verða tíu sinnum betri og frægari til áheita en Strandakirkja.
Á klausturstöðunum elztu var haldið til haga munnmælum um fyrri ábúendur. Á Kirkjubæ, þar sem klaustrið kom, hafði aldrei getað búið heiðinn maður, síðan Ísland fannst. Hildir hinn heiðni barð bráðkvaddur, er hann vildi flytjast þangað og náði svo nærri, að hann sá heim að bænum. Á Helgafelli hafði rétt eftir kristnitöku lifað Guðlaugur munkur og Guðrún Ósvífursdóttir nunna. Gæti ekki verið, að Magnús biskup Einarsson hafi verið búinn að hugsa sér fyrir sögn um kristna frumbýlinga í Eyjum?
Nútíðarmenn gera sér varla ljóst, hve miklu helgari Eyjakirkjan forna var fyrir það, að smíði hennar hófst fyrir kristnitöku, — trúboðskirkja í uppreisn gegn heiðnu valdi. Smíðina hófu þeir Hjalti og Gissur hvíti vorið 1000, er þeir komu með kirkjuviðinn og voru á leið til Alþingis, þar sem svo lauk, að kristni varð lögtekin. Þá hefur Ormur auðgi Herjólfsson búið í Eyjum, og átti hann þær allar. Hann hefur sennilega verið skírður af Þangbrandi áður eða Gissur vitað hug hans til kristninnar, því ella hefðu þeir farið með kirkjuviðinn, konungsgjöfina, í annan lendingarstað.

Nú er spurn: Hefur Herjólfur Bárðarson, fyrstur bóndi Vestmannaeyja (Hauksbók og frumgerð Landnámu), verið enn á lífi og kristnazt með Ormi syni sínum? Það gæti hann vel, því að dóttir Orms og Eilífur, maður hennar, hafa ekki getað átt afkvæmi sín fyrr en í kristnum sið eftir niðjum að dæma. Einnig var Eilífur 5. ættliður frá mörgum landnámsmönnum, svo að þeir ættu að vera 1 1/2 öld eldri en þau Eilífur og kona hans, elzta heimasætan í Eyjum. Það er því eflaust rétt, sem Landnáma lætur á sér skilja, að Eyjarnar hafa líkt og Grímsey verið almenningseign til fuglatekju og veiða fyrstu öldina eftir landnám, en þeir Herjólfur feðgar hafa lagt undir sig Heimaey fremur stuttu fyrir krisntitökuna.
Til marks um vinsældir þess eignaréttar, sem Herjólfur náði og tók frá almenningi, eru eldforn munnmæli, sem gera hann að svíðingi einum og kenna ágirnd hans um það, að „hraun brunnið“, sem Landnáma talar um, eða skriður þykkar eyddu Herjólfsdal og sökktu bænum. (Þjóðsögur J.Á. II. 81).
En hvort sem Herjólfur karl var góður eða vondur, hefði það verið æskilegt fyrir Vestmannaeyjaklaustur að geta sannað, að engir hafi þar ævilangt heiðnir búið. Og kristnir voru hinir herteknu Írar, sem komu þar fyrstir og vígðu eyjarnar með blóði sínu. — Merkilegt, hve arfsögnin frá veganda þeirra er skilningsrík í þeirra garð, hefnir Hjörleifs án þess að áfellast þá.
Samkvæmt þessu hefur e.t.v. litlu munað, hvor bústaðurinn átti minni heiðni fólgna í fortíð sinni, Eyjarnar eða Kirkjubær á Síðu. Og ólíkt meiri var auðs og matfangavon fyrir klaustur í eyjunum en á Síðu. Við bætist, að erlendis var mjög sótzt eftir því að einangra klaustrin í eyjum.
Eftir þennan samanburð finnst mér sannað mál, að eitthvað annað en munur á helgi staðanna ýtti klaustrinu frá Vestmannaeyjum í Kirkjubæ á Síðu. Og þetta eitthvað var dómkirkjusmíðin, sem Klængur biskup, eftirmaður Magnúsar biskups, hóf í Skálholti þegar eftir komu sína til stólsins.
Svo stórfengleg og dýr var sú kirkjugerð, „að svo þótti skynsömum mönnum sem öll lausafé þyrfti til að leggja, þau er til staðarins lágu ...,“ segir höfundur Hungurvöku, sem mundi þetta vel. Tekjurnar af Vestmannaeyjum voru eigi lítilvægur skerfur til kostnaðargreiðslu og til að fæða vinnuflokka, sem að dómkirkjusmíð unnu. Það verður ekki skýrar sagt en Hungurvaka segir, að Klængi og ráðunautum hans hefur þótt ófært með öllu að afsala sér Vestmannaeyjum til klausturs þar. Þess vegna var það, að Bjarnhéðinn í Kirkjubæ og Þorkell Geirason björguðu máli með því að gefa jarðir sínar til að stofna austur milli Sanda fyrstu klaustur biskupsdæmisins, en þriðja kom vestur í Flatey.
Þannig lauk klaustursögu Vestmannaeyja, á dögum Klængs. Rúmri öld síðar, 1280, þegar kirkjur eyjanna voru orðnar 2 eða 3, gaf Staða-Árni eina þeirra Kirkjubæjarkirkju, klaustri Mikjáls erkiengils í Björgvin, og fylgdi dálítil jarðeign. Ágirnd konungs á eyjunum hefur orðið mikil á 14. öld, eftir því sem útvegur óx, enda kom að því, að hann náði þeim, e.t.v. þó eigi fyrr en á dögum Árna biskups milda, sem var minni gæfumaður en glæsimenni.
Nú má hverjum finnast eins og vill, hvort betra var að byggja musteri í Skálholti eða klaustur í Eyjum.