Blik 1973/Til Vestmannaeyinga

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 12. janúar 2010 kl. 21:10 eftir Viglundur (spjall | framlög) Útgáfa frá 12. janúar 2010 kl. 21:10 eftir Viglundur (spjall | framlög) (Verndaði „Blik 1973/Til Vestmannaeyinga“ [edit=sysop:move=sysop])
Fara í flakk Fara í leit

Efnisyfirlit 1973



Til Vestmannaeyinga


Sturla Jónsson er maður nefndur, vestfirzkur að kyni, fæddur og alinn upp á Suðureyri við Súgandafjörð og fyllti 70 aldursárin á s.l. ári. Hann hefur alið allan aldur sinn á Suðureyri og innt þar af hendi hin margvíslegustu störf um ævina. Sturla Jónsson var sjómaður lengi og útgerðarmaður og skipstjóri um tugi ára. Á Suðureyri hefur hann jafnframt verið gildur hlekkur í margvíslegu menningarstarfi, svo sem bindindis- og íþróttastarfi, leikfélags- og safnaðarstarfi. Þá hefur Sturla Jónsson verið trúnaðarmaður hreppsfélagsins í hrepps- og sýslunefnd, í skóla- og skattanefnd, verið um tug ára formaður Kaupfélags Súgfirðinga og forseti Fjórðungssambands Vestfirðinga. Í síðastnefnda trúnaðarstarfinu safnar hann skýrslum um framleiðslu Vestfirðinga til lands og sjávar fyrir opinberan aðila. Þessum skýrslum lætur Sturla Jónsson jafnan fylgja nokkrar vísur frá sjálfum sér. Efni þeirra er þess háttar, að við getum heimfært það upp á Vestmannaeyinga með því að setja það orð í stað ,,Vestfirðingar“. Þess vegna eru þessar vísur birtar hér í Bliki og vonast ég til að Eyjamenn veiti þeim athygli.
Við Sturla Jónsson höfum kynnzt lítilsháttar á Sambandsfundum sparisjóðanna, en hann hefur verið þar fulltrúi sparisjóðs þeirra Súgfirðinganna, með því að hann er þar hlutgengur stjórnarmaður.
Hér kemur svo ljóðaþáttur þessi:

Vestfirðingar vita bezt,
(Vestmannaeyingar vita bezt)
að vinnan herðir sókn til dáða,
framleiða og fiska mest, —
fólki skal til heilla ráða.
Eflum landsins byggð og bú,
bætum kjör og eflum trú,
drögum fisk úr djúpum mar, —
dáðir skapi þáttur snar.
Vestfirðingar allir eitt,
(Vestmannaeyingar allir eitt)
áfram sóknartökin greitt
herði fast og haldi strik,
hugann stæli, — hvergi hik.
Heilladísir haf um mið
hamingjunnar biðjum við;
Rán og Ægir gefi gnótt,
og gætum heilir þangað sótt.
Kynslóðanna arfur er
okkar veganesti hér,
afli sjávar björg í bú
berist þjóðargifta sú.
Þeim, er sóttu björg í bú,
bæði fyrr og einnig nú,
flytjum heill í hugaróð
hafs á miðin þeirra slóð.
Sú er óskin okkar bezt,
að aflamiðin leysi flest,
bjartan hag og bætta trú,
björg að landi veitist nú.
Öllum fylgi ósk mín heit
afla með í fiskileit,
hvar sem fer um fiskigrund
fylgi gæfan hverja stund.
Lýk ég þessum ljóðaþátt,
löngum seiði hafið blátt
fram á miðin frækna menn,
fullhuga og gætna senn.
St.J. (1971).


Vestfirðingar áfram enn,
(Vestmannaeyingar áfram enn)
ákveðnir og frjálsir menn,
sjóinn vilja sækja mest,
svo að aflað verði bezt.
Þeirra hlut í þjóðarbú
því mun verða stærri nú,
sæki aðrir sömu leið,
sæmdar renna fagurt skeið.
Heill sé þeim, sem sækja sjó
og sæmdir hljóta á hrannajó,
nýta landsins gæði góð
og gullið færi í okkar sjóð.
Þegar Ísland öðlast rétt
yfir landsins grunni, frétt
sú mun bera sigurvon,
sæmd og heiður landsins son.
Íslands framtíð björt og blíð
blómgist, dafni alla tíð,
gullið hafs í hildarleik
á hrannarslóðum hvergi sveik.
Látum heilir dáð og dug,
drengskap, hreysti, manndómshug
ljóma bera lífs um skeið
langt og fagurt æviskeið.
St.J. (1972).