Blik 1976/Samvinnusamtökin í Vestmannaeyjum, III. hluti

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 28. nóvember 2009 kl. 17:18 eftir Viglundur (spjall | framlög) Útgáfa frá 28. nóvember 2009 kl. 17:18 eftir Viglundur (spjall | framlög)
Fara í flakk Fara í leit

Eiríkur Ögmundsson, formaður kaupfélagsstjórnarinnar, skýrði frá því á fundinum, að stjórnin hefði boðað til hans vegna deilu þeirrar, sem risið hefði milli meiri hluta stjórnar og framkvæmdastjórans. Þótti stjórnarformanninum það lítt viðurkvæmilegt, að upp hefðu verið festar auglýsingar eða tilkynningar í búðargluggum Kaupfélagsins Drífanda frá Alþýðusamböndum Vestur og Norðurlands viðvíkjandi klofningi Alþýðuflokksins í Vestmannaeyjum. Í tilkynningum þessum hefði verið rætt um „flokkssvikara". Þar sem nú þrír stjórnarmenn kaupfélagsins væru við þessi átök riðnir og verið reknir úr verkamannafélaginu og auglýstir síðan verkalýðssvikarar í búðargluggum kaupfélagsins, þá væri naumast hægt að gera þeim meiri svívirðu, og það af þeirra eigin fyrirtæki. Vonaðist formaður kaupfélagsins til þess, að félagið sjálft liði ekki hnekki við þessi mistök og vanhugsuðu vinnubrögð. Formaður kvaðst harma það, ef sú yrði raunin.
Formaður óskaði að lýsa afstöðu kaupfélagsstjórnarinnar til þessara deilumála, og hún væri sú, að Kaupfélaginu Drífanda yrði algjörlega haldið utan við pólitísk átök og stjórnmálalegar hreyfingar. Formaður hafði orð á því, að hann vildi helzt þegar í stað víkja úr stjórn kaupfélagsins, en þar sem aðalfundur yrði haldinn á nálægum tíma, mundi hann sitja í stjórninni þar til. Formaður stjórnarinnar lauk máli sínu með þeirri ósk, að deila þessi félli niður bráðlega.
Annar stjórnarmaður kaupfélagsins tók því næst til máls. Það var Guðmundur Sigurðsson frá Heiðardal (nr. 2 við Hásteinsveg). Kvað hann fundarmönnum kunnugt um deilu þessa, enda hefði formaður stjórnarinnar farið nokkrum orðum um hana. Guðmundur æskti þess, að sem minnst yrði rætt um stjórnmálaerjur á fundi þessum en því meir rætt um framtíð kaupfélagsins og erfiðleika þá, sem við væri að etja í rekstri þess. Ræðumaður kvað stjórnina hafa lagt drög að því að fá sendan fulltrúa frá S.Í.S. til Eyja til þess að athuga rekstur kaupfélagsins til þess að róa félagsmenn og koma í veg fyrir deilur og tortryggni, sem gjört hefði vart við sig með félagsmönnum, síðan hin pólitísku átök hófust innan kaupfélagsins og verkamannafélagsins. Kvaðst ræðumaður viss um, að ekkert nýtt kæmi fram í rekstri kaupfélagsins, heldur væri þar allt með röð og reglu sem endranær. Síðast í ræðu sinni lýsti hann yfir megnri óánægju sinni með gluggaaugsýsingarnar og brigslyrðin í þeim um svik og „hægri villu.“
Næstur tók til máls á fundi þessum hinn þriðji burtrekni stjórnarmaðurinn úr verkalýðssamtökunum, Guðlaugur Hansson á Fögruvöllum. Hann ræddi mikið um stofnun Verkamannafélagsins Drífanda árið 1917 og svo stofnun Kaupfélagsins Drífanda árið 1920. Kaupfélagið kvað hann hafa risið á erfiðum krepputímum, en fyrir samheldni verkamanna og minni útvegsbænda í bænum hefðu safnazt peningar í sjóð til stofnunar og reksturs kaupfélaginu og til byggingar verzlunarhúss. Eftir vandlega yfirvegun forustumanna kaupfélagsins og stofnenda þess, hefði ungum efnismanni, Ísleifi Högnasyni, verið falin forustan. Kaupfélaginu hefði til þessa vegnað vel, það hefði vaxið og blómgazt til þessa tíma undir hans handleiðslu þrátt fyrir skuldasöfnun af eðlilegum orsökum. Ræðumaður kvað kaupfélagsstjórann hafa að vísu ónáðað lítið stjórnina eða leitað minna samvinnu við hana nú um sinn en áður. Þó vildi hann ekki átelja það, þar sem kaupfélagsstjórinn hefði gleggra auga fyrir hag félagsins en stjórnarmennirnir. Þá ræddi ræðumaður um sögur, sem gengju um bæinn þess efnis, að kaupfélagsstjórnin hefði í huga að víkja framkvæmdastjóranum úr stöðu sinni af stjórnmálaástæðum. Kvað ræðumaður slíka hugmynd aldrei hafa borið á góma með stjórnarmönnum, og væru dylgjur þær uppspuni einn. Því næst átaldi hann kaupfélagsstjóra fyrir gluggaauglýsingarnar eða tilkynningar þar um „pólitísk svik“ stjórnarmanna, og að sér þætti hart að vera þannig mannskemmdur á slíkum stað eftir 12 ára starf í þágu verkalýðshreyfingarinnar í kaupstaðnum. Hann bað menn samt standa sem fastast um kaupfélagið og efla hag þess af alefli. Alltaf kvað ræðumaður sig reiðubúinn til samvinnu við kaupfélagsstjórann á heilbrigðum grundvelli.
Síðast mæltist ræðumaður fastlega til þess, að þeim mönnum, sem vikið hefði verið úr Verkamannafélaginu Drífanda, yrðu teknir inn í það aftur, og það kunngjört í þeim dagblöðum landsins, sem birtu fréttir um brottreksturinn, og mundi þessi leiðinlegi atburður gleymast brátt.
Framkvæmdastjóri tók næstur til máls á fundi þessum. Hann undirstrikaði í ræðu sinni, að framkoma „klofningsmanna“ (eins og hann orðaði það) við síðustu bæjarstjórnarkosningar yrðu að kallast afbrot „innan flokksins“, og íslenzk verkalýðshreyfing væri dauðadæmd, ef slakað væri í nokkru á flokksaga. Því næst mótmælti hann þeim sögum, sem um bæinn færu, þess efnis, að skrifstofa kaupfélagsins væri notuð til pólitískra fundarhalda, og ennfremur því, að hann notaði aðstöðu sína sem kaupfélagsstjóri til að vinna sér pólitískt fylgi. Annars sagðist hann tala um áhugamál sín á skrifstofunni, ef svo bæri undir. Spurði hann fundarmenn að því, hvort nokkur gæti borið sér á brýn, að hann lofaði lánum og öðrum fríðindum gegn pólitísku fylgi. — Því var svarað neitandi. Sagðist hann ekkert tillit taka til pólitískra skoðana viðskiptamanna félagsins, enda sýndu bækurnar, að menn úr öllum stjórnmálaflokkum hefðu viðskipti við félagið, og stæði félagið jafnrétt fyrir þessu. Drap hann á það, að forstjóri S.Í.S. hefði grennslazt eftir deilumáli þessu og hefði hann svarað því, að stjórn félagsins hefði samþykkt að blanda ekki kaupfélaginu í deilu þessa. Gat hann þess að síðustu, að lífsskoðun sinni breytti enginn, hún yrði ekki seld fyrir brauð, og mætti þess vegna víkja sér úr stöðunni.
Í umræðum þessum, sem spunnust út af brottrekstrinum og „auglýsingunni“ í búðarglugga kaupfélagsins, tók Guðlaugur Brynjólfsson frá Odda við Vestmannabraut til máls. Hann var einn af einlægustu kaupfélagsmönnum bæjarins og félagshyggjumaður mikill. Hann taldi mjög í óefni komið um tilveru kaupfélagsins, þar sem það væri auðsjáanlega orðin pólitísk stofnun, sem léti nota glugga sína til þess að mannorðsskemma forgöngumenn félagsins og brautryðjendur. Þá lýsti ræðumaður megnri óánægju yfir því, að Jóni Rafnssyni hefði verið veitt atvinna við kaupfélagið. Taldi ræðumaður þann mann skemmdarmanninn mikla, sem m.a. hefði að undanförnu spillt mest fyrir útgerð Eyjaskeggja með því að fæla fólk frá að koma til Eyja til vertíðarstarfa.
Björn Jakobsson fullyrti, að Jón Rafnsson gerði það eitt í þessum málum, sem Sjómannafélag Vestmannaeyja fæli honum, og væri það þess vegna Sjómannafélagið, sem spillti fyrir útgerðinni, ef svo væri. Og hver stjórnaði svo samþykktum þess, var þá spurt á fundinum. Um það var þráttað.
Guðlaugur Hansson, einn af skeleggustu forgöngumönnum verkalýðssamtakanna í Eyjum og bæjarfulltrúi Alþýðuflokksins, endurtók það í ræðu sinni til svars við fullyrðingu, að stjórn kaupfélagsins hefði aldrei komið til hugar að víkja forstjóranum úr stöðu sinni. Einnig tók hann það fram, að Sósíaldemókratar og Kommúnistar gætu hvergi unnið saman. Það væri reynsla út um allan heim.
Guðlaugur Hansson ræddi síðan um brottreksturinn á þeim sexmenningunum úr verkamannafélaginu, sem væri fáheyrt ofbeldisverk, lagaleysa og heimskupör. Þá vakti ræðumaður athygli á því, að fylgismenn kaupfélagsstjórans hefðu sífellt haldið sig svo að segja dag og nótt í nágrenni við verzlunarhús kaupfélagsins fyrir bæjarstjórnarkosningarnar hinar nýafstöðnu.
Guðlaugur Hansson kvaðst alltaf hafa verið Jafnaðarmaður. Og hann kvaðst fús til að sættast við kaupfélagsstjórann og nánustu pólitíska félaga hans, ef tök yrðu á að jafna þessa deilu og þeir sexmenningarnir yrðu teknir aftur inn í verkamannafélagið.
Kaupfélagsstjórinn svaraði ræðu stjórnarmannsins Guðlaugs Hanssonar. Hann kvaðst að lokum á engan hátt beygja sínar stjórnmálaskoðanir undir vilja kaupfélagsstjórnarinnar.
Því næst bar bæjarpólitíkin á góma og tóku ýmsir til máls. Urðu þar harðar umræður um Kommúnisma og Sósíalisma.
Undir lokin endurtók Guðlaugur Brynjólfsson ávítur sínar í garð stjórnar og kaupfélagsstjóra fyrir það glappaskot að ráða mann eins og Jón Rafnsson til starfa hjá kaupfélaginu. Hann var þarna talinn potturinn og pannan í svívirðingu þeirri, sem kaupfélagsstjórnarmönnum var gjörð með auglýsingunni um „brottrekstur þeirra og svik“ í búðarglugga félagsins. Jafnframt var þessi starfsmaður kaupfélagsins talinn halda uppi látlausum áróðri fyrir kommúnismanum og foringjum hans í Rússlandi í búðum og öðrum vistarverum kaupfélagsins, svo að fólk hneykslaðist og fældist verzlunina.
Guðlaugur Hansson, sem þá var stjórnarmaður kaupfélagsins, svaraði ávítunum Guðlaugs Brynjólfssonar varðandi ráðningu Jóns Rafnssonar til starfa hjá kaupfélaginu. Guðlaugur Hansson sagði, að sér hefði verið vikið úr stöðu hjá Gísla J. Johnsen vegna stjórnmálaskoðana sinna, og „dytti sér ekki í hug að láta slíka ósanngirni ráða gerðum sínum. Hefði hann því verið samþykkur á sínum tíma að Jón Rafnsson yrði ráðinn starfsmaður kaupfélagsins.“ Þessi orð þóttu lýsa vel manninum.
Ísleifur Högnason: „Jón Rafnsson er ráðinn með samþykki stjórnarinnar og ég virði það við hana.“ Guðmundur Sigurðsson kvað sér aldrei hafa dottið í hug að stuðla að því, að kaupfélagsstjóra yrði vikið. Vildi helzt sjálfur víkja úr stjórninni, þegar til aðalfundar kæmi. Taldi hann sig hafa fengið álitsspjöll vegna umræddra gluggaauglýsinga, en vildi gjöra allt, sem í hans valdi stæði, til þess að deila þessi jafnaðist með friði og spekt.
Þorbjörn Guðjónsson minnti fundarmenn á, að nú væri kaupfélagið 10 ára, ætti sæmileg húsakynni og væri á framfaravegi. Það hefði haldið niðri vöruverði á útlendum nauðsynjum. Það mætti því ekki sundrast af pólitískri óánægju. Var hann því fylgjandi, að endurskoðandi yrði fenginn að (frá S.Í.S.), þótt hann væri þess fullvís, að ekkert færi þar fram vítavert. Kvað hann ómögulegt að ætlast til, að kaupfélagsstjórinn yrði allt í einu ópólitískur. Vonaðist hann eftir góðri samvinnu stjórnar og kaupfélagsstjóra, ekki fram að aðalfundi, heldur lengur.
Eiríkur Ögmundsson. fyrrv. formaður félagsins, bar þá fram svohljóðandi tillögu:
„Fundurinn samþykkir að banna allar pólitískar æsingar í húsum kaupfélagsins og sömuleiðis pólitískar auglýsingar í gluggum þess.“ Þessi tillaga var samþykkt með öllum greiddum atkvæðum.
Guðlaugur Hansson og Eiríkur Ögmundsson áttu enn á ný nokkur orðaskipti við kaupfélagsstjórann, en ekkert nýtt kom þar fram viðvíkjandi deilumálum þessum.
Guðlaugur Brynjólfsson bað fundarmenn að leggja deilumálin á hilluna.
Fundarmenn voru því samþykkir og töldu rétt að snúa nú umræðunum að sjálfu kaupfélaginu, hag þess og rekstri.
Þá hélt Ísleifur kaupfélagsstjóri langa ræðu. Drap hann á fisksölu félagsins, sölu þess á lýsi, sundmaga, hrognum og beinum. Jafnframt gaf hann félagsmönnum ráð og bendingar. Hann skýrði frá því, að skuldir félagsins hefðu aukizt þetta ár, sem aðallega stafaði af lítilli lifur í fiskinum og lágu verði á lýsi. Kaupfélagsstjórinn taldi tjón félagsins af lifrarkaupunum nema 30-40 þúsundum króna. Þá taldi kaupfélagsstjórinn, að vertíðarfiskurinn hefði yfirleitt reynzt 10% léttari en áður hefði átt sér stað samkvæmt reynslu. Þá gat hann þess, að blautfiskkaup kaupfélagsins myndu aukast um helming á þessu ári.
Þá ræddi hann um Lánadeildina í kaupfélaginu. Hann sagði, að viðskiptamenn hennar hefðu orðið að leita til Söludeildarinnar með úttekt sína. Félagsmönnum hefði fallið illa hið nýja skipulag um verzlun félagsins, þ.e. skipting þess í Lánadeild og Söludeild. Félagsmönnum hefði þótt þetta skipulag á viðskiptum kaupfélagsins of einhæft og tæplega samkeppnisfært nú á tímum. Samkomulag varð um það að halda gömlu viðskiptaháttunum áfram, hafa fast reikningsverð og gefa 10% afslátt gegn peningagreiðslum út í hönd.
(Þessa löngu og að mörgu leyti merku fundargjörð hefur skráð Þórður Benediktsson, deildarstjóri lánadeildar kaupfélagsins (síðar brautryðjandi að Reykjalundi í Mosfellssveit, framkvæmdastjóri þar um langt árabil).
Já, fundargjörð þessi er að mörgu leyti markverð og fundurinn sérlegur fyrir þessi verzlunarsamtök alþýðu manna í Vestmannaeyjum. Á yfirborðinu virðist allt falla að lokum í ljúfa löð. En reyndin varð allt önnur. Kaupfélagið Drífandi klofnar sökum pólitísks ágreinings og mylst niður, jafnframt klofnaði Alþýðuflokkurinn í Vestmannaeyjum í tvær fylkingar, sem aldrei sátu síðan á sárshöfði, andstæðingum verkalýðssamtakanna þar til ómetanlegs hagræðis. Þarna gerðist fyrsti opinberi klofningur alþýðusamtakanna í landinu, svo að örlögum réði.
Ekki ýkjalöngu seinna hætti Verkamannafélagið Drífandi að vera til. Máttvana og vanrækt af öllum öðrum en „Félögum Stalíns“ lagðist það niður af sjálfu sér. Verkamenn í Eyjum stofnuðu nýtt verkamannafélag.
Við höldum sögu Kaupfélagsins Drífanda áfram til hinztu stundar.
Við lestur fundargjörða og blaða um þessi átök öll innan kaupfélagssamtakanna er erfitt að losna við þá sannfæringu, að einn maður sé í rauninni potturinn og pannan í allri þessari ógæfu. Það er þó ofmikil þröngsýni að álykta þannig, þó að hann ætti þar sinn drjúga þátt.
Á stjórnarfundi kaupfélagsins, sem haldinn var 19. apríl 1930, óskaði formaður félagsins þess og stjórnin í heild, að Jón Rafnsson yrði látinn víkja úr starfi hjá kaupfélaginu þá undir eins fyrirvaralaust, en honum greidd laun til 15. maí um vorið, en þá var ráðningartími hans á enda.
Svo mjög lá á að losna við hann frá störfum að áliti stjórnarinnar.
Frá stofnun kaupfélagsins 1920 höfðu sömu menn ávallt skipað stjórn þess, ávallt verið endurkjörnir. Nöfn þeirra hef ég greint hér framar.
Sigfús Scheving sagði sig úr stjórninni 1929 og um leið úr kaupfélaginu. Þá var gamanið tekið að grána, stjórnmálaerjur teknar að gera vart við sig milli ráðandi manna þess og opinber áróður hafinn hjá „Félögum Stalíns“ í kaupfélagsstörfunum. Samfara þeirri óánægju, þeim skaða, sem þeir menn ollu félaginu, þá olli skuldasöfnun félagsmanna miklum erfiðleikum i rekstri þess.
Stjórnin fól framkvæmdastjóranum að innheimta 5% vexti af öllum útistandandi skuldum.
Jafnframt uxu skuldir kaupfélagsins við S.Í.S., svo að ein ógæfan reið annarri til hnekkis kaupfélaginu. Stjórn S.Í.S. skrifaði um þessar mundir stjórn kaupfélagsins og benti á þessa óheillaþróun í rekstri þess, sem hlyti að enda á einn veg, ef ekki yrði þá þegar breytt um verzlunarhætti.
Ég óska að taka það hér skýrt fram, að aldrei fundu endurskoðendur að reikningshaldi eða bókhaldi kaupfélagsins og enginn tortryggði það starf í rekstri þess.
Hinn 15. maí 1930 var haldinn aðalfundur Kaupfélagsins Drífanda og lagðir fram reikningar félagsins fyrir árið 1929. Ekkert var við reikningana að athuga og hafði endurskoðandi frá S.Í.S. endurskoðað reikningana vandlega eins og tekið er fram í fundargjörð. Arður af afrakstrinum 1929 nam kr. 16.230,54.
Framkvæmdastjóri skýrði frá hag félagsins og framtíðarhorfum og æskti þess, að fundarmenn, sem voru um helmingur allra félagsmanna, gerðu fyrirspurnir um eitt og annað varðandi rekstur félagsins og hag. -Enginn fyrirspurn. -Steinhljóð.
Því næst skyldi fram fara kosning tveggja manna í stjórn félagsins í stað Sigfúsar Schevings og Eiríks Ögmundssonar, sem áttu að ganga úr stjórninni. Lýsti þá framkvæmdastjóri yfir því, að honum þætti það „óviðeigandi að margir stórskuldugir menn væru í stjórninni og óskaði eftir að mega stinga upp á mönnum í stjórnina og lét í ljós, að hann mundi segja af sér framkvæmdastjórastörfum, ef kosningin gengi sér mjög á móti skapi, eins og stendur skráð í frumheimild.
Kosningin fór þannig, að endurkosinn var Eiríkur Ögmundsson með 48 atkvæðum og Guðlaugur Brynjólfsson með 47 atkvæðum í stað Sigfúsar Schevings.
„Þá sagði framkvæmdastjórinn af sér störfum með 4 mánaða fyrirvara, og tók stjórnin það gilt, þó að ekki væri skriflega." (Orðrétt eftir sömu heimild).
Samkvæmt uppsagnartíma framkvæmdastjórans átti hann að hverfa frá félaginu um miðjan september (1930), en stjórn félagsins féllst á þá ósk S.Í.S., að hann hefði á hendi störf sín og framkvæmdastjórn til næstu áramóta. Það varð að samkomulagi allra aðila.

Bjarni Jónsson frá Svalbarði, sem ráðinn var kaupfélagsstjóri Kaupfélagsins Drífanda árið 1930. Hann stundaði skrifstofustörf í Eyjum um tugi ára. Síðast var hann gjaldkeri Lifrasamlags Vestmannaeyja.


Í ágústmánuði um sumarið gekk stjórn kaupfélagsins frá að ráða framkvæmdastjóra fyrir félagið frá 1 .janúar 1931. Ráðinn var Bjarni Jónsson, skrifstofumaður að Svalbarða hér í bæ, enda hafði S.Í.S. ekki hirt um það til þess tíma samkvæmt tilkynningu stjórnarinnar að ráða neinn mann í stöðu Ísleifs Högnasonar, þrátt fyrir beiðni félagsstjórnarinnar.
Þegar stjórn kaupfélagsins hafði gengið frá starfssamningi við Bjarna Jónson, boðaði hún til almenns fundar í félaginu. Sá fundur var haldinn 8. ágúst 1930 í Kvikmyndahúsinu Borg að Heimagötu 3.
Á fundi þessum kom berlega í ljós, að kaupfélagsmenn voru klofnir í tvær pólitískar fylkingar, sem tókust á í orðasennum á fundinum, og vönduðu foringjarnir lítt kveðjurnar hver öðrum. Hinn nýráðni kaupfélagsstjóri sat fund þennan og fékk óþvegin hnýfilyrði í sinn garð, svo að hann kvartaði sáran. Hann var þó viðurkenndur hið mesta ljúfmenni, sem starfað hefði í bænum tugi ára við góðan orðstír. En nú var fundarmönnum heitt í hamsi og þá lítið um það hirt, hvar og hvernig stungið var og mannskemmt. Kaupfélagið var nú mulið niður vegna pólitísks ágreinings.
Á fundi þessum bar hinn fráfarandi framkvæmdastjóri fram þessa tillögu frá sér sjálfum og nokkrum öðrum félagsmönnum:
„Fundurinn samþykkir að skipta Kaupfélaginu Drífanda í tvö sjálfstæð kaupfélög, sem yfirtaki skuldir og eignir félagsins eftir nánari ákvörðunum. Ástæðurnar eru þessar: Deila sú, sem risið hefur milli stjórnar kaupfélagsins annars vegar og ýmissa félagsmanna hins vegar verður eigi á annan hátt betur jöfnuð en þann, að deiluaðiljar skilji og eignum og skuldum félagsins verði skipt í réttum hlutföllum við skiptingu félagsmanna í deildinni. Vegna hinna stöðugt vaxandi skulda ýmissa félagsmanna við félagið og samfara því, að nokkur hluti félagsmanna hefur engin not af félagsskapnum, skulda ekkert, hafa myndast hagsmunaandstæður innan félagsins, sem eigi verða jafnaðar á annan hátt en með skiptingu.“
Miklar umræður áttu sér stað um tilögu þessa. Hinn fráfarandi framkvæmdastjóri gat þess, að Sigurður Kristinsson, forstjóri S.Í.S., væri meðmæltur slíkum skiptum á félaginu, og skoraði á formann kaupfélagsins að bera upp tillöguna þegar í stað til samþykktar.
Þá bar Guðmundur stjórnarmaður Sigurðsson frá Heiðardal upp þessa breytingartillögu við tillögu hins fráfarandi framkvæmdastjóra: „Fundurinn samþykkir, að Kaupfélagið Drífandi starfi óskipt til næsta aðalfundar og tillaga Ísleifs Högnasonar o.fl. verði þá tekin til umræðu.“
„Breytingatillaga þessi var síðan borin upp til atkvæða og samþykkt með 2/3 hluta fundarmanna gegn 1/3 sem atkvæði greiddu,“ segir í frumheimild.
Um haustið 1. okt. 1930 hóf Bjarni Jónsson störf í skrifstofu kaupfélagsins og starfaði með stjórnarmönnum að athugun á skuldum félagsmanna og greiðslugetu þeirra.
Í desember (1930) tjáði formaður kaupfélagsins félagsstjórninni þá ákvörðun forstjóra S.Í.S., að Sambandið mundi ekki lána Kaupfélaginu Drífanda neinar vörur eftir næstu áramót (1930/1931). Þessi tilkynning forstjórans kostaði félagsstjórnarmenn nokkrar ferðir til Reykjavíkur á fund forstjórans, og býsna mörg símtöl.
Jafnframt var rætt við bankastjóra Útvegsbankans í Eyjum (Viggó Björnsson) um rekstrarlán til handa kaupfélaginu. Niðurstaðan af þessum umræðum og ráðagerðum varð sú, að forstjóri S.Í.S. afréð að halda áfram að lána kaupfélaginu vörur gegn tryggingu. Þá samþykkti bankastjórinn jafnframt að lána kaupfélaginu fé út á afurðir eins og öðrum, sem þær hefðu til veðsetningar.
Eftir áramótin 1931 hélt svo rekstur og starf kaupfélagsins áfram eins og ekkert hefði í skorizt, en þó með meiri gætni um öll lánaviðskipti og meiri kröfur um auknar tryggingar fyrir skuldum og lánum, ekki sízt lánum til útgerðar.
Endurskoðandi frá S.Í.S. starfaði að því öðru hvoru fyrri hluta árs 1931 að endurskoða reikninga kaupfélagsins og gera sér grein fyrir rekstri þess og fjárhag. Mikill halli hafði orðið á rekstri félagsins árið 1930. Í viðtali við stjórnarformann kaupfélagsins og hinn nýja framkvæmdastjóra þess lét forstjóri S.Í.S. í ljós þá skoðun sína, að starfsfólk kaupfélagsins væri allt of margt, svo að vonlaust væri, að reksturinn gæti borið sig með ekki meiri veltu. Leiddi þetta viðtal til þess, að öllu starfsfólki kaupfélagsins nema hinum nýráðna kaupfélagsstjóra var sagt upp starfi (1931) með þriggja mánaða uppsagnarfresti.
Hinn 15. ágúst (1931) hélt stjórn kaupfélagsins aðalfund fyrir árið 1930. Ýmsir höfðu hugsað til þessa fundar með nokkrum spenningi.
Hvað um framtíð kaupfélagsins eftir þann fund? Yrði því skipt eða það lagt niður?
Framkvæmdastjórinn, Bj. J., las upp reikninga félagsins og skýrði þá eftir beztu getu. Úr stjórninni skyldi ganga hinn reyndi verkalýðsforingi Guðmundur Sigurðsson frá Heiðardal, sem vikið hafði verið úr Verkamannafélaginu Drífanda að undirlagi „Félaga Stalíns“, og Guðmundur Magnússon á Goðalandi. Báðir voru þeir endurkosnir í einu hljóði. Stungið var upp á fyrrverandi framkvæmdastjóra í stjórnina. En sú tillaga fékk ekki byr á fundinum. Það sannar okkur, að mesti vindurinn var tekinn að minnka í „Félögum Stalíns“ í þessum deilumálum.
Fundarmenn litu samt fyrrverandi framkvæmdastjóra Í.H., velvildaraugum, þrátt fyrir allt, sem á undan var gengið, sökum mikilhæfni í framkvæmdastjórastörfum og einlægs velvildarhugar til verkalýðsins í kaupstaðnum.
Að fundarlokum minntist fundarstjóri á það, að stjórn félagsins hefði heitið félagsmönnum á síðasta félagsfundi að ræða skiptingu kaupfélagsins og gaf því orðið laust til að ræða það mál. Ísleifur Högnason tók þá til máls og kvaðst ekki vera undir það búinn að ræða skiptinguna að svo stöddu. Hann bar upp tillögu um að fresta því máli til næsta fundar. Sú tillaga var samþykkt í einu hljóði.
Í nóvember haustið 1931 tilkynnti S.Í.S. stjórn kaupfélagsins, að það sæi sér ekki fært að veita Kaupfélaginu Drífanda lengur stuðning og gerði ráð fyrir því, að félagið hætti störfum. Sambandsstjórn eða forstjórinn sendi kaupfélagsstjórninni lögfræðing til aðstoðar við slit kaupfélagsins. Þarna reyndist því full ástæða til að fresta skiptingu þess!
Hinn 21. nóv. 1931 var boðað til almenns kaupfélagsfundar með bréfi, sem sent var inn á hvert heimili félagsmanna. Guðmundur Sigurðsson í Heiðardal, sem verið hafði í stjórn kaupfélagsins frá upphafi, var kjörinn til þess að stjórna þessum fundi. Fyrstur tók til máls Guðlaugur Hansson á Fögruvöllum, sem einnig hafði verið í stjórn félagsins frá upphafi. Eins og áður segir voru þeir báðir í hópi sexmenninganna, sem, Félagar Stalíns“ og fylgifiskar þeirra ráku úr Verkamannafélaginu Drífanda. Nú máttu þessir baráttumenn verkalýðsins einnig þola það, að kaupfélagið þeirra væri gert upp, lagt í rúst.
Lögfræðingur Sambandsins skýrði fyrir fundarmönnum hag kaupfélagsins í stórum dráttum. Síðan greindi hann frá afstöðu Sambandsins til kaupfélagsins. Hvergi er skráð orð um þá afstöðu, að ég bezt veit, svo að mér gefst ekki kostur á því hér, að tjá hana.
Þegar hér var komið umræðum, bar lögfræðingur S.Í.S. upp tillögu. Hún hljóðaði þannig:
„Almennur, lögmætur félagsfundur í Kaupfélaginu Drífanda í Vestmannaeyjum, haldinn í Goodtemplarahúsinu 21. nóv. 1931, samþykktir, að Kaupfélaginu Drífanda skuli slitið og þriggja manna skilanefnd skuli kosin á þessum fundi samkvæmt 33. gr. samvinnulaganna, lög nr. 36 frá 1921, til þess að sjá um og hafa á hendi allt, sem að skiptum á búi félagsins lýtur. Skal nefnd þessi bera alla þá ábyrgð og þær skyldur og hafa allt það vald, sem slíkri skilanefnd ber samkvæmt samvinnulögunum ...“
Formaður félagsins, Guðlaugur Hansson, tók þá aftur til máls og lýsti með skýrum rökum andúð sinni á meðferð Sambandsins á kaupfélaginu.
Þá tók til máls Ísleifur Högnason, fyrrverandi framkvæmdastjóri félagsins, og hvatti menn að standa fast saman og biðja um eftirgjöf og greiðslufrest á skuldum félagsins. Einnig skoraði hann á fundarmenn, bæði smáútvegsmenn og verkamenn, að gera strangar kröfur til banka og stjórnvalda um nægilegt rekstrarfé handa smáútvegsmönnum.“
Allmiklar umræður urðu nú um þetta mál og var sumum heitt í hamsi. Nú virtist enginn ágreiningur lengur milli „vinstri“ og „hægri“ armanna í kaupfélaginu.
Guðlaugur Brynjólfsson, stjórnarmaður kaupfélagsins, bar fram breytingartillögu við hina fyrr skráðu svo hljóðandi: „Þar sem ákvörðun sú, sem Samband íslenzkra samvinnufélaga hefur tekið gagnvart Kaupfélaginu Drífanda virðist ekki nægilega vel yfirveguð, hvað hagsmuni beggja aðilja viðvíkur, þá skorar fundurinn á Samband íslenzkra samvinnufélaga að taka mál þetta nú þegar enn á ný til rækilegrar yfirvegunar að viðstöddum fulltrúum, sem stjórn Kaupfélagsins Drífanda útnefnir.“
Þessi breytingartillaga Guðlaugs var samþykkt einróma.
Fjórum dögum síðar, eða 25. nóvember (1931), var boðað til annars almenns kaupfélagsfundar. Þar lá fyrir úrslitasvar frá S.Í.S.: Kaupfélaginu Drífanda skal slitið.
S.Í.S. var aðallánardrottinn kaupfélagsins. En mér er ekki kunnugt um, hversu hárri upphæð skuldir þess námu við Sambandið, með því að reikninga þess hef ég ekki séð.
Skilanefndina skipuðu fimm félagsmenn. Þeir voru þessir: Jóhann Gunnar Ólafsson, þá bæjarstjóri í Eyjum, Bjarni Jónsson, framkvæmdastjóri kaupfélagsins, Guðlaugur Hansson, bæjarfulltrúi og stjórnarmaður, Ísleifur Högnason, fyrrv. framkvæmdastjóri og Árni Oddsson, innheimtumaður, frá Burstafelli í Eyjum.
Þegar hér er komið atburðum og sögu er neyðin orðin stærst og hjálparhellan fjærst. Það var Kaupfélagið Drífandi. Alheimskreppa þjáði alla heimsbyggðina. Fjárhagsleg vandræði krepptu hvarvetna að, og ekki minna að smáútgerðarmönnum í Vestmannaeyjum og verkamannaheimilum þar en öllum öðrum Íslendingum. Allt var ástandið ömurlegt. Þó var það e.t.v. ömurlegast öllum hinum máttarminnstu í Eyjum. Verzlunin, sem hafði verið hinum smáu útgerðarmönnum í bænum og verkalýðsstéttinni í heild vernd og skjól, hjálparhella og öryggi undanfarin 10 ár, var í rúst, gjaldþrota fyrirtæki. Nú var illa fokið í það skjólið.
Þessar sáru staðreyndir ollu því, að hinn fyrrv. kaupfélagsstjóri Kaupfélagsins Drífanda, Í.H., bar fram á fundi þessum svohljóðandi tillögu:
„Vegna yfirvofandi neyðar smáútvegsmanna og verkamanna samþykkir fundur í Kaupfélaginu Drífanda eftirfarandi kröfur til lánadrottna félagsins:

  • 1. Eftirgjöf skulda; og til vara:

Frestur á greiðslum skulda félagsins í tvö ár; vextir falli niður.

  • 2. Félög smáútvegsmanna og verkamanna njóti forgangsréttar að leigu á verzlunarhúsum Kf. Drífanda.“
    Bjarni Jónsson frá Svalbarði, sem ráðinn var kaupfélagsstjóri Kaupfélagsins Drífanda árið 1930. Hann stundaði skrifstofustörf í Eyjum um tugi ára. Síðast var hann gjaldkeri Lifrasamlags Vestmannaeyja.


S.Í.S. hafði veð í báðum verzlunarhúsum kaupfélagsins fyrir skuldum þess hjá því og fékk þannig ráðstöfunarrétt á þeim eftir slit félagsins.
Þessar kröfur hlutu enga áheyrn.
Eftir viku, eða 28. nóvember, var enn boðað til félagsfundar. Þá var endanlega orðið vonlaust um líf félagsskaparins. Fundur þessi samþykkti þá umræðulaust að slíta kaupfélaginu.
Eftir þá samþykkt tóku umræður að hefjast og magnast að hita og stóryrðum. Minnisstæðastar fundarmönnum urðu þá hnippingarnar á milli fyrrv. framkvæmdastjóra og síðasta formanns félagsstjórnarinnar, Guðlaugs Hanssonar.
Hvers vegna var komið eins og komið var? Hverjar voru orsakir félagsslitanna? Um þetta deildu fulltrúar „vinstri“ og „hægri“ harkalega, og „Félagar Stalíns“ fengu vissulega orð í eyra.
Með bréfi 21. des. 1931 löggilti dómsmálaráðuneytið skilanefnd Kf. Drífanda.
S.Í.S. eignaðist húseignir félagsins.
(Heimildir: Fundagjörðarbækur stjórnar og félagsfunda Kf. Drífanda, Vestmannaeyjablöð, félagsmenn kaupfélagsins og eigin vitund og reynsla.

Til baka


                          ———————————————————


Vélbátur frá Vestmannaeyjum flytur vörur austur til Víkur í Mýrdal. Skaftfellskir víkingar lenda skipi sínu fermdu nauðsynjum við sandinn í Vík í brimi og við boðaföll.