Blik 1967/Jónas skáld Þorsteinsson, IV. hluti

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 5. nóvember 2009 kl. 12:07 eftir Viglundur (spjall | framlög) Útgáfa frá 5. nóvember 2009 kl. 12:07 eftir Viglundur (spjall | framlög)
Fara í flakk Fara í leit

Á ýmsum stundum lét Jónas skáld hugann reika um liðnar lífsstundir. Endurminningarnar voru oftast nær dökkar, sárar, beiskar. Eitt sinn kvað hann, er hann minntist brautastunda sinna:

Út á lífsins ólgusjó
einatt djarft ég reri,
happadrátt ég hlaut ei þó
heims í nauðaveri.
Hverfist tímans harða röst
heims í nauðaveri,
bátinn hennar bylgjuköst
brutu á ólánsskeri.
Lendi ég við lífsins höfn
loksins brotnum kneri,
hrakinn yfir heljardröfn
heims úr nauðaveri.

Veröldin var skáldinu nauðaver. Það hefur því miður æðioft verið mörgum gáfnabræðrum hans á þessu landi.
En ef til vill átti Jónas skáld Þorsteinsson það Högna Sigurðssyni í Vatnsdal hér í Eyjum meira að þakka en öllum öðrum, að hann náði andlegri heilsu sinni aftur 1897 og hélt henni síðan til aldurtilastundar. Þá tók þessi gáfaði og skilningsríki Eyjasonur skáldið undir væng sinn, ef svo mætti orða það, orkaði til bóta og endurvakti von og trú á lífið. Síðan er þessi vísa, sem skáldið orti og kvað í léttum tóni:

Á mig sækir ólánsfár,
aldrei sést ég glaður;
Högna bregðast heillaspár,
þótt hann sé góðviljaður.

En reyndin varð einmitt hin gagnstæða. Með góðviljanum og mannlundinni, sem glædd var guðsloga, megnaði Högni að veita þá lækningu, sem lyf og aðrir læknadómar megnuðu ekki. Eru þessa ekki mörg dæmin?

MEIRA LJÓS
Minn ljúfi vinur! Ljóssins dís
mig lúinn gleður títt,
og þrátt í dáum draumi
hún dillar mér svo blítt.
En þegar bregð ég blundi,
mér blæðir hjartans und,
því unaðsmynda himnesk hnoss
er horfin mér um stund.
Það skyggja tíðum skýjatjöld
á skæra unaðssól
og blóm í brjóstum manna,
þá brestur líknarskjól.
Á heimsins nauðahjarni
ei hlýnar lífsins rós;
hún á sinn rétt að þróast þó
og þráir yl og ljós.
Þrátt skyggist drottins dýrðarljós
á dögum syndugs manns,
því villugjarnt oss verður
á vegi sannleikans,
og sálir þreytu þjáðar
á þyrnum stráðri braut
til hvíldar leita hælis sér
við hverfileikans skaut.
Æ, mildi faðir! Meira ljós!
Því myrk er þessi öld.
Þinn himinn heiður skíni
á harma vorra fjöld.
Þitt ástarauglit blíða
lát oss í trúnni sjá
og ljóssins hallar ljóma skraut,
sem lýsa enginn má.
Á PÁSKADAG
Guðdóms dýrðar sólna sól
signist frelsuð öndin.
Sveipast dauðans sorta-pól
sigurgeisla böndin.
Ljóma birtir lífsins hvel,
ljósið dauðann þýðir.
Dáðlaus hímir döpur Hel,
drottins boði hlýðir.
Gæzkan lifir, guðson kær,
grafinn himnablómi.
Augljós verður unaðsskær
upprisunnar ljómi.
Villumyrkrið dapurt dvín
dróttum sannleiksgjörnum.
Unaðsljós um eilífð skín
öllum drottins börnum.
Dauðans birtir dimmu spor
dagur upprisunnar,
senda þangað sæluvor
sætir lífsins brunnar.
Þennan líkam saurgar synd,
sem til jarðar dettur.
Æðri, dýrðleg, eilíf mynd
upp af honum sprettur.
Það má veita þjóðum ró,
þar og krafta hvetja,
að með oss lifði, leið og dó
ljóssins sigurhetja.
Í DÖGUN
Kom blessuð sól með árdagsyl,
við auglit þitt ég gleðjast vil.
Þín heilög mynd er hjartakær,
því hún er unaðsskær;
þú hrífur oss frá sorgaseim
í sæluríkan dýrðarheim,
því hvar sem vér þitt lítum ljós
skín lífsins bjarta rós.
Þú kallar lífið fram úr fold
og frjóvga gjörir dauða mold,
því guðdómsandi gæzku hýr
í geisla þínum býr.
Þú gulli skýrðir blóm og björk
um byggðir, fjöll og eyðimörk
og laugar allt með líknaryl
á láði, sem er til.
Hve gleðjast má ég sérhvert sinn
við sælan dýrðar bjarma þinn.
Þú átt mitt líf, - ég elska þig,
sem endurnærðir mig.
Og nær mín hérvist enda á
ég óska mér að svífa þá
á geislum þínum glæsta braut
í guðs míns friðarskaut.
KVÖLD
Höfuð mitt á hægum dún
hafi værðir góðar
og dula nemi draumarún,
sem dísir rista fróðar, -
unz röðull roðar tind
og guðdómlegri geislaveig
hin gullna dreifir mynd;
ég fer þá út og tek mér teig
úr tærri himinlind.
Eins og ljóssins unnir frá
upp heimsveldi streyma,
aldinblóma angan má –
æðri drottins heima –
andans ilman ná.
Æðstu lífsins ósk ég næ,
ef ég vesall má,
drottins sæta dýrðarblæ
daglega andað fá.
VEÐURBLÍÐA
Trauðla ennþá tekur rýrð
tíðar blíðu megin.
Himinblámans heilög dýrð
hvergi verður orðum skýrð,
morgunroða rósaböndum dregin.
Engill drottins unaðsblítt
andar mér á kinnum;
vestanáttar blær, sem blítt
barna máli hjálpar títt;
hann mitt signir höfuð þúsund sinnum.
Hverfileikans endar önd –
annar lýsir dagur.
Dýrðar himins dregst um tjöld,
dauðans fyrir handan kvöld,
sælu lífsins sólarroði fagur.
HERHVÖT
Sungið á bindindisfundi í Norðfirði 1890.
Bakkus, þú ert böli valdur,
brenni' á þér vor tár!
Vorri þjóð um allan aldur
eitruð bjóstu sár.
Ránum fé af rekkum tættir,
ristir þeim svo níð;
saklaust brjóst þú sárast grættir, -
svei þér fyrr og síð.
Æðstu landsins óskamegi,
öll sem harmar þjóð,
hraktir þú á láð og legi,
laptir þeirra blóð.
Jónas, Kristján, - finnum fleiri, -
felldir þú í val.
Hitnar því vor hjartadreyri;
hefna þeirra skal.
Mæddri tíðum móður tókstu
málung hinzta frá;
hennar með því harma jókstu
hungruð börn að sjá.
Þó er verst af þessum málum:
Þú hvern rýfur eið,
tryggðir slítur, týnir sálum,
tapar dyggðaleið.
Heyrið tímans heróp gellur
hátt í hverjum tind;
þyngri engin þruma svellur
þrúðgri himinlind.
Finnið ekki ferðamóðinn
færast hjörtun í?
Hefði forna hetjuþjóðin
hræðst við slíkan gný?
Stígum vér á stokka, bræður,
strengjum þannig heit:
„Brátt skal rekinn Bakkus skæður
brott úr frónskri sveit.“
Móðurlandsins freyjan fríða,
fylgdu máli því.
Það er allt eins þrek og blíða
þínu brjósti í.
TIL MATTHÍASAR JOCHUMSSONAR
Garpur skarpur gígjuslög
gjörir í bezta lagi.
Ólu þennan óskamög
Ísafold og Bragi.
Slíkan finna má ei mann,
menn þó leita vildu.
Eðalborinn öðling þann
allir heiðra skyldu.
Allt er mærings óðarspjall
unaðsfágað ljóma,
andans líf og ómur snjall
uppheims dýrðar hljóma.
Skáldið góða Garðarsströnd
getur frægð og sóma,
er þess líta önnur lönd
andans helgidóma.
ÍSLAND
Þú falda skautar fríð og há,
hin fjallaprúða eyjadrottning,
þér færðu goðin fórn með lotning
og guðastólum gengu frá.
Með góðri Freyju gyllti dali;
þig gæddi Óðinn kappavali;
þér lagði Bragi hörpu í hönd,
er hetjur sáu þína strönd.
Þinn hástóll yzt við himingátt
í hafís - köldum - geimi stendur,
þars rammefld hamast Rán við strendur,
svo klettadrangar kveina þrátt.
En hvar mun svanur syngja fegra,
og sýnið himins prýðilegra?
Hvar verður heims í villtum glaum
eins værum haldið æskudraum?
Á SUMARDAGINN FYRSTA
Lýði gleðja lífsins jól, -
létt er vetrardrunga.
Í geislabaði gullin sól
grasið laugar unga.
Það má reifað síðan sjá, -
svona er drottinn góður. –
Bráðum þroska blómin ná
á brjóstum sinnar móður.
HAUSTSTÖKUR
Fannir stækka, freyðir hrönn,
fenna góðar vonir senn;
sannarlega bjargarbönn, -
brenni helzt þó skorti menn.
Mjöllin kæfa mengi vill,
mollan þyngist eigi holl.
Tröllum hæfir tíðin ill,
tollir hríðin þeim við koll.
Leynir sunna ljóssins hrönnum,
lokast brunnur himinyls.
Varla grunnum fá í fönnum
fleinarunnar slyddu byls.
Fölvarós í kuldaklóm
kreystir grimmur vetur,
en guðs náðar blessuð blóm
bliknað aldrei getur.
Út um hóla grimmdargjóla
gullið fjólu hefur máð.
Hverfur sól, en nú er njóla
nærri jólum skrauti fjáð.
HAUST
Haustar í dölum
með blómskreyttum bölum
og brumfagra skóga.
Grösunum fölum
í gammsanda svölum
má gaddurinn óga.
Hætt er vér kölum
með holdlegum kvölum
og hugarkröm nóga.
Ljúfa von ölum,
að ljóssins frá sölum
oss líkn muni fróa.
Finn ég æ betur
að færist að vetur
forlaga minna
Líkamatetur
ei gagn unnið getur
og glapin er sinna.
Örbirgðin hvetur,
en eymdin mig letur
til auðlegðar vinna.
Enginn það metur,
hvað armóður étur
margt áformið svinna.
HAUSTIÐ 1917
Heimsstyrjöldin fyrri (1914-1918) hefur þjáð mannkynið í þrjú ár, þegar þetta ljóð er ort:
Við skulum, lyngormsvallar slóð,
velja slyngast lag við óð;
Það má yngja þrotinn móð,
þegar klingja fögur ljóð.
Margt á seiði orðið er,
öllum leiðast tíminn fer;
gæfu sneyðir gjörðan hér
guðareiði köllum vér.
Höldar fengið hafa mát,
hnignar gengi, minnkar stát;
er á mengi fallið fát,
finnst ei lengur hyggja kát.
Refsar veröld sjálfri sér,
syndin þvera dóminn ber.
Ægir mér að inna þér
allt sem skera hjörtun fer.
Kulnar gróður kristninnar,
kærleikssjóður veraldar;
dansa um slóðir dreyrugar
djöfulóðar þjóðirnar.
Friði spottast öldin að,
allt, sem gott er, fótum trað.
Sefur drottinn? - Sýnist það!
Satan glottir veröld að.
Dýrðleg kirkja dáð ei ber
dyggð að styrkja, - því er ver!
Grimmdin Tyrkja göfgast fer,
guðlaust myrkur hrósar sér.
Reynum flug þeim raunum frá
rýrum hugarvængjum á;
trauðla duga mærðin má,
mest er bugar neyð og þrá.
Við skulum ræða' um veðrin hörð,
varla stæð á frónskri jörð;
hriktir svæði' - og grundargjörð
gýs með æði' um fjallaskörð.
Flestir hýrast inni' í yl,
af sér stýra norðan byl;
kúra hlýr í kör ég vil,
kuldi býr fyrir utan þil.
Frostið bítur helju hart,
hríðar þýtur élið margt,
fannir lýta foldarskart,
fellur ýtum tíðin vart.
Himins skyggir bláu brá.
Börnin þiggja ljós að fá.
Spila glyggur Grýlu á,
greyið liggur þá á skjá.
Látum grímu leika sér
lítinn tíma að stjörnu hér.
Móðir híma megum vér,
minnkar skíma, - kvöldað er.
Gjaldahólið eygló á,
alda hjól hún knýja má;
halda' í bólið fljótt vill fá
faldasólin ung og smá.
Þá skal kvæðið þagna skjótt,
það er bæði stirt og ljótt.
Lofi í næði sætt og rótt
seljan klæða hverja nótt.
Hana dreymi unaðsauð -
æðri heima daglegt brauð. –
Dýrðargeim, sem drottinn hrauð,
drósin sveimi frí við nauð.
Fauskur „kallinn“ orðinn er,
óðarspjall sem flytur þér;
þreyttan skalla beimur ber,
bráðum hallar klumsa sér.
Það vill enginn þennan brag,
þótt gullstrengja - hörpuslag
syng'ann mengi sérhvern dag,
samt ég fengi hryggjar nag.
Barnagælan hættir hér
helzt sem fælu þvætting ber, -
en þó hæla ætti mér,
ef hún skælur bætti þér.
HUGLEIÐING Á FERÐ UM NÓTT
Ég er sem barn og skoða megin skara,
sem skautið auðga náttúrunnar ber.
En hvaðan kom ég? Hvert er ég að fara?
Minn hugur spyr, en svar ei fengið er.
Í gegnum myrkrið leiftra stjörnuljósin
og lífi mínu vekja himinþrá,
og hverfulleikans reglu táknar rósin,
sem rís og fellur jarðargrundum á.
Ég þreifa á og því ég trúa kunni,
í þeirri skoðun sæla veitist mér,
því auglit guðs í allri náttúrunni
við anda mínum brosir hvar ég er.
Frá guði sérhver geisli lífsins stafar,
og guði þjónar tilverunnar heild.
Til guðs er allt, þó gjarnan ekki án tafar,
en guð mun hefja lífsins neðri deild.
SJÓFERÐARSÁLMUR
Á djúpið ræ ég drottinn kær
með djörfung fyrir kraftinn þinn.
Ef býður þú, þá blíðkast sær
og bátinn ekki skaðar minn.
Ef hasta þú á vindinn villt,
þá verður kyrrð um land og sjá,
og himinbráin hýr og stillt
oss hermir þinni gæzku frá.
Ég leita hafsins auðlegð að,
sem öllum gafst til líknar þú.
Ég veit ei henni vísan stað,
ég verð að þreyta bæn í trú.
Ó, drottinn gef mér daglegt brauð,
sem duga má til bjargar mér.
Ég fel þér lífið, lán og auð,
í lífi' og deyð ég treysti þér.

Ekkjan Rósa Bjarnadóttir, sem bjó í Hvammi í Mjóafirði á árunum 1880-1887 og missti mann sinn, Jón Hermannsson það ár, varð aftur fyrir sárri sorg þrem árum síðar, er hún missti tvö börn sín sama haustið, 1890. María Ingibjörg dóttir hennar lézt 15. nóvember, þá 8 ára gömul, og Hermann sonur hennar 18. des. sama ár, 23 ára.
Jónas skáld orti þetta ljóð í nafni móðurinnar henni til fróunar:

SYSTKININ HERMANN JÓNSSON OG MARÍA I. JÓNSDÓTTIR
Hvað er lán og atgjörvi? Hvað er æskan blíð?
Himinperla fallandi, blóm í vetrarhríð.
Lífið manns er bóla á brimóðum ver
borin hörðum straumi á fjörbrotasker.
Hvað er það, sem friðlausu hjarta veitir ró?
Hvað er lífsins bjargráð í tímans ólgusjó?
Það er drottins svalandi sæta náðarlind;
sýnir hún oss lifandi Jesú dýrðarmynd.
Mér brunnu tár á kinnum og blæddi hjartans und.
Ég ber í fersku minni þá sáru raunastund,
bani þegar lífinu barna minna hratt,
blómi ættar sinnar þau voru, það er satt.
Það er satt, að atgjörvi var þeim lánað bezt,
þrek og fegurð andans þau prýddi allra mest.
Undi ég við sælustu ellidagavon
um efnilega dóttur og mannvænlegan son.
Þannig fer oss aumum í þessum bernskuheim;
þykist taka gæfuna maður höndum tveim;
það er aðeins geisli, sem glitrandi deyr;
gleður snöggvast augað og sést ekki meir.
Ég heyri rödd, sem komin er himninum frá:
,,Hver, sem á mig trúir, mun ekki dauðann sjá“.
Fagna ég nú vissu, en framar ekki von, -
faðir himna kallaði dóttur mína' og son.
Friður sé með duftinu, - færi ég því tár.
Fylgja hlýtur lífinu tregi hjartans sár.
Finn ég þau svo sannlega fjarri þessum heim
fáguð lambsins blóði í sælunnar geim.
ÞANNIG BAÐ JÓNAS SKÁLD FYRIR PRESTINUM SÍNUM:
Gautur kjóla gæfukrans
guðs í skjóli beri;
æskusólar unaðsdans
andans bólin lýsi hans.
SLÉTTUBANDAVÍSA UM VORIÐ
Blómin fríðu þróast þétt,
þekur víðir hjalla
rómin blíða lóan létt
lætur tíðum gjalla.

Ekki er ég alveg viss um, að allir lesendur mínir viti einkenni sléttubandavísna, síður hinir yngri, en hana má kveða afturábak sem áfram með réttu rími og óbrenglaðri hugsun:

Gjalla tíðum lætur létt
lóan blíða róminn
hjalla víðir þekur þétt,
þróast fríðu blómin.
---
Sléttubandavísur vel
virðum, branda kveddu;
léttu andans þunga þel,
þína landa gleddu.
ÁHRIF VETRARINS Á SKÁLDIÐ
Vetrarnorn með hljóðahorn
hugann þorna lætur vorn;
jötunborna flægðar þorn
fótum ornar minnsta korn.
SLÉTTUBÖND:
Fellur tíðin ekki enn
eftir lýða högum;
gellur hríðin mögnuð; menn
mega kvíða dögum.

STÖKUR

EINLÆG ÁST
Hvað friðar lífið svo sem einlæg ást?
Og enn spyr ég: Hvað sízt í dauða brást?
Oft veitir auður vesalt líf þá stund,
en veikum fróar ástrík vinarmund.
SEINT FYRNIST FORN ÁST
Kærleiks ornar ljósið leynt
lífs í neyðarkælu;
ástin forna fyrnist seint,
fyrri þornar særinn hreint.
Hún er eilíft unaðsskin,
alvalds dýrðarljómi;
því ég feginn faðma vil
fjörs á vegi', er þungt ég styn.
Á FYRSTA SUMARDAG
Lýði gleður lífsins sól,
léttir vetrardrunga;
í geislabaði gullin sól
grasið laugar unga.
Það má reifað síðan sjá,
svona er drottinn góður;
bráðum þroska blómin ná
á brjóstum sinnar móður.
HAUSTKVÖLD
Ó, ég dáist út að sjá,
undraljós ei dvína,
himinsgljáum guðvef á
geislarósir skína.
Liljan frýs, en ljóðadís
líkinu heldur ræður.
Hreinar lýsa hálan ís
himins elda glæður.
Ó, hve dýrlegt er að sjá
upp á himinboga
hreinu glansa í heiði blá
helgan stjörnuloga.
En það helzt mér yndið fær
og undrun sálu fyllir,
er segulljósa-sían skær
sunnutjaldið gyllir.
ÞRÁIR SÓL
Eygló skær ég eina þig
eins og lífið þrái;
sigurgeislum signdu mig,
svo ég blessan fái.
---
Hrynur fram um hnattastig
hrönn af ljóssins brunni;
farðu máni að fela þig
fyrir sólgyðjunni.
---
Nóttin sjálf í felur flýr
felmtruð, - það við sjáum,
af því dagsins engill hýr
er á næstu stráum.
---
Heiðan stari ég himin á,
hygg að ljóssins gáttum.
Honum leikur bros um brá,
birtir af hýrudráttum.

Skáldið gekk fram hjá bóndabæ um nótt, og kemur honum þá í hug sjálfur bóndinn:

Bóndinn heima blundar nú
í bólinu holulausu;
sælt hann dreymir seims hjá brú
og setur upp nef á ausu.

Sláttur lét skáldinu illa:

Mætti ég líta aldrei orf,
enginn maður nefndi hrífu;
hvílíkt blessað heillahorf
og himinskin í mótgangsdrífu.

Steinn Jónsson kennari og Jónas skáld glettust títt og sendu þá hvor öðrum vísu:

Steinn er oft með stirða lund
og starir á lífið hissa,
af því rínar - eldagrund
engin vill hann kyssa.

Verkamaður á Nesi í Norðfirði var kunnur að kerskni við samstarfsmenn sína. Eitt sinn unnu þeir saman, verkamaðurinn og Jónas skáld, sem gekk daglega með gleraugu, er var ekki algengt þá. Verkamaðurinn erti skáldið og kallaði gleraugnaglám. Þá kvað það:

Þótt ég horfi gegnum gler
glöggskyggni að reyna,
sómakosti samt hjá þér
sé ég ekki neina.

Sögnin segir, að verkamaðurinn hafi þagnað. Ekki óskað eftir fleiri vísum, sem yrðu húsgangar þarna austur í fjörðum, eins og þessi varð.

Tvær einsetukonur gerðu hagyrðing heimboð af gömlum kunningsskap og báðu Jónas skáld að yrkja svo sem tvær vísur, sem þær þá flytti gestinum við komuna til þeirra. Hagyrðingurinn hét Jón.

1. k.:
Jóni lætur ljóðasmíði,
löngum kætir sprund og hal.
Hann er mætust húsaprýði,
honum sæti bjóða skal.
2. k.:
Vertu hingað velkominn,
vísna slyngur smiður;
senn í kringum sessinn þinn
sætur dyngjast niður.

Páll jökull Pálsson, sem fylgdi W. L. Watts yfir Vatnajökul þveran árið 1875, kynntist Jónasi skáldi á Austfjörðum. Páll fullyrti eitt sinn, er þeir ræddust við, að tilfinningar sínar væru ýmist heitar sem bál eða kaldar sem sjálfur Vatnajökull. Þá kvað skáldið:

Sami jökull, sem að frýs,
svellabrynju klæddur,
einatt heitum eldi gýs,
innan loga bræddur.
HEILRÆÐI
Falskan gimstein, ef þú átt
og þér svíður skaðinn,
fleygðu honum frá þér brátt
og finndu gull í staðinn.

Sigling og sjómennska var skáldinu unun:

Á SIGLINGU
Festir böndin fegin hönd.
Fram með strönd og boðum
súðaönd um sílalönd
siglir þöndum voðum.
Syndir márinn súða nú
sollið þara-inni;
blíður Kári, ber oss þú
beint í vararmynni.
Gefist leiði grund að ná,
gæfa þreyð er fengin;
valinn reiða vængi þá
vel út breiða skaltu sjá.
Reiðatjaldur reisir hlið
ránarfaldi móti.
Báran skvaldrar borðið við
barnakjaldur þungskilið.
Herðir sprettinn heim á leið
húnalétti jórinn
hægir þétta hugarneyð
hans ið netta renniskeið.
„STRENDINGUR“ HÉT BÁTUR SKALDSINS
Þegar Strending er ég á
út úr lending kominn,
gleðifjendur, þraut og þrá
þönkum venda mínum frá.
Svei því doði svæfir mann,
sá er gnoðablómi,
fer með voð um flyðrurann,
fær ei boði tekið hann.

Á dögum Jónasar skálds nutu sumir kaupmenn lítillar ástsældar með alþýðu manna þar austur í fjörðunum. Þeir virtust hafa öll ráð almennings í sínum höndum og þóttu harðdragir, illskeyttir og ágengir í meira lagi í viðskiptum við verkafólk og smærri útvegsbændur a. m. k.
Sumir þeirra lögðust til hinztu hvíldar með fálkaorðuna íslenzku á brjóstinu.
Hug almennings til kaupmanna túlkaði Jónas skáld með vísu þessari:

Kaupmenn véla og kúga þjóð,
köldum þela beita,
svíkja, stela, sjúga blóð,
söfn í pelann reyta.

Um margra ára bil og fram yfir aldurtilastund Jónasar skálds Þorsteinssonar var líkkistusmiður á Nesi í Norðfirði Páll Markússon, faðir tónlistamannsins Helga heitins Pálssonar.
Jónas skáld sendi eitt sinn Páli líkkistusmið tvær stökur. Þá mun skáldið hafa grunað, að það ætti ekki langt eftir. Á þeim árum voru líkkistur ætíð málaðar svartar og silfurlitaðir málmkrossar stóðu upp af skrúfum þeim, sem héldu kistulokinu.
Jónas skáld hafði hugsað sér kistuna sína málaða hvíta. Hann sendi því líkkistusmiðnum þessar stökur:

Fögur héðan ferðin er,
flestir svo á líta.
Kæru bræður, krítið þið
kistuna mína hvíta.
Það skal nýjung það að sjá
þar á grafarfundi.
Krossinn rauði ofaná
all-vel fara mundi.

Norðfirðingar segja mér, að farið hafi verið að ósk skáldsins í þessum efnum og síðan hafi hvíti liturinn tíðkazt þar á líkkistum.

MIKIÐ FAGNA ÉG MÍNUM DAUÐA
Mikið fagna ég mínum dauða,
miskunnsami Jesús minn.
Heimtu mig úr haldi nauða
heim í dýrðar bústað þinn,
svo ég megi sjá þig bert,
sem að guðdómsljómi ert;
maður þó af meyju fæddur,
mætti guðs og speki gæddur.
Þú ert sól í sannleiksheimi,
svalalind og náðarskjól.
Hátt í dýrðar-geislageimi
guðdóms tignar áttu stól.
Á þig hrópar andi minn
eins og barn á föður sinn;
brjóstið þá af böli stynur,
bróðir minn og einkavinur.

Júlíus Rafn, tengdafaðir Ísleifs Högnasonar fyrrv. kaupfélagsstjóra hér í Vestmannaeyjum, var hagorður vel og greindur. Hann kynntist Jónasi Þorsteinssyni skáldi þau árin, sem Júlíus Rafn dvaldist á Austfjörðum.
Eitt sinn sendi hann Jónasi skáldi þessi tvö erindi:

Komstu til að kæta sál,
kvæðaskáldið góða;
eld og stál en ekkert prjál
áttu til að bjóða.
Þú átt gnótt af guðamóð,
gnægð af þrótt að stríða;
kraft þú sóttir krists í blóð,
er kvalir mátti líða.

(Hinar kirkjulegu heimildir að efninu í greinarkorn þetta kannaði fyrir mig sveitungi minn Sigurður Helgason rithöfundur mér til léttis og tímasparnaðar. Kann ég honum beztu þakkir fyrir).

Til baka