Blik 1946. Ársrit/Þáttur nemenda

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 3. nóvember 2009 kl. 12:05 eftir Viglundur (spjall | framlög) Útgáfa frá 3. nóvember 2009 kl. 12:05 eftir Viglundur (spjall | framlög)
Fara í flakk Fara í leit

Þáttur nemenda

Keflavíkurför

Þriðjudaginn 3. júlí 1944 þrömmuðum við Ásta niður á Steindórsstöð í Reykjavík. Að þessu sinni átti leið okkar að liggja til Keflavíkur.
Samferðafólkið var af ýmsu tagi, svo sem stórútgerðarmenn, skólakrakkar, fínar frúr, hermenn og skrítnar kerlingar, — fyrir utan okkur Ástu, auðvitað.
Allt gekk slysalaust.
Á leiðinni var kona nokkur alltaf öðru hvoru að spyrja bifreiðarstjórann, hvar Innri-Njarðvík væri. Bifreiðarstjóranum leiddist rausið í konunni, og hét að síðustu að segja henni, þegar við kæmum að Innri-Njarðvík. En þegar við ókum þar fram hjá, var bifreiðarstjórinn alveg búinn að gleyma loforði sínu. Við Ytri-Njarðvík mundi hann eftir því. Sneri hann þá við og ók í skyndi miklu til Innri-Njarðvíkur, því að þar hélt hann, að konan ætlaði úr.
Þegar þangað kom, tilkynnti hann konunni, að nú værum við í Innnri-Njarðvík.
— „Jæja, — já“, sagði konan, „svo að þetta er Innri-Njarðvík. Systir mín sagði mér, að sér fyndist svo einkar vinalegt hérna, svo að mig langaði bara að sjá, hvernig hér liti út. Annars ætla ég úr í Ytri-Njarðvík.“
Ekki er hægt að lýsa uppistandinu, sem varð í bifreiðinni við þessa fregn.
Þegar til Keflavíkur kom, var móttökunefnd á staðnum til að taka á mói okkur. Frá dvölinni í Keflavík er önnur saga.

Á. H. II. bekk.


Klukkan mín og ég

Það eru til margs konar vekjaraklukkur í þessum heimi. Alls staðar eru þessir gripir illa liðnir og jafnvel hataðir, en samt eru þeir bráðnauðsynlegir. Sumir þessara kostagripa eru búnir til úr gljáandi nikkel, aðrir eru allavega litir. Sumir ganga rétt, aðrir flýta sér eða seinka sér. Ég átti eina; hún var fágurblá. Þegar ég fékk hana, var hún afarfögur, en ekki leið á löngu, þar til ég fór að sjá, hvern mann hún hafði að geyma. Á morgnana hringdi hún svo illilega, að eftir mánuð var vesalingurinn fótbrotin á öðrum fæti, vegna stöðugra ferða á gólfið. Nú í vetur held ég, að hún hafi verið hálfvitlaus, annaðhvort af elli eða af illri meðferð. Hún stóð á skrifborðinu hjá mér hallaðist út í aðra hliðina. Blái liturinn var gersamlega horfinn. Hún gekk oftast á brokki, en stundum fékk hún æðisköst, þannig, að hún tók til að hlaupa í kapp við sjálfa sig. Það var líka einkennilegt, að hún var næstum því hætt að hringja, og þegar hún söng ekki sinn ámátlega, skerandi morgunsöng, varð ég reið og henti henni frá mér, eins langt og ég gat. Eftir þetta hvarf hún mér alveg sjónum og hef ég ekki frétt neitt af þessum tryggðarvini, síðan ég rak hann úr minni þjónustu, enda hef ég víst ekki verið neitt eftirsóknarverður húsbóndi.

E. Á. II. bekk.


Skrítinn reimleiki

„Góðan daginn, Óli.“
„Góðan daginn, Kalli, hvað segir þú í fréttum?“
„Ég skal segja þér dálítið, sem kom fyrir mig í nótt, ef þú gætir þess að segja engum það.“
„Já, blessaður, segðu mér það. Ég lofa að segja það engum.“
„Jæja, ég vaknaði við það í nótt, að ég heyrði eitthvert þrusk í herberginu mínu. Ég glaðvaknaði undir eins, eins og nærri má geta, og skimaði út í myrkrið. Ég ætla ekki að lýsa þeirri hræðslu, sem greip mig, þegar ég sá gráa og loðna ófreskju stefna í áttina til mín. Ég hrökk undir sængina og hnipraði mig í einn hnút. Þannig lá ég skjálfandi langan tíma, en hversu lengi, veit ég ekki. En þegar ég vaknaði um morguninn, var mér mjög starsýnt á kisu litlu, þar sem hún lá og sleikti sólskinið og skildi ég þá, hvers kyns reimleikar þetta höfðu verið.
Í fyrstu ætlaði ég að lemja kisu fyrir athæfið, en mér brást hugur, þegar ég sá, hve sakleysislega hún horfði á mig. Fór ég því fram í eldhús og náði í mjólk og gaf henni.
Ég get ekki annað en hlegið, þegar ég hugsa um það, hvað þetta var allt kjánalegur daugagangur.“

Á. K. 1. bekk.


Ferð til Danmerkur

Einhvern tíma seinni partinn í júnímánuði árið 1938, lagði ég af stað áleiðis til Danmerkur með eimskipinu „Lyra“.
Það var svo mikill ferðahugurinn í mér, að mér fannst okkur ekkert miða áfram.
Eftir hálfan annan sólarhring komum við til Þórshafnar í Færeyjum. Þar stönzuðum við í einn dag. Við fórum í land strax, þegar við vorum búin að borða, og skoðuðum bæinn. Um kvöldið lögðum við af stað til Bergen. Veðrið hafði verið gott hingað til, en nú fór að hvessa, svo að „sumar“ fóru að verða sjóveikar. Þegar við loksins komum til Bergen, voru víst flestir búnir að fá nóg af sjóferðinni og dauðfegnir að komast á þurrt land. Við fórum beina leið upp á eitthvert hótel, sem mig minnir að héti „Hótel Rósenkrans“. Þar dvöldum við í tvo sólarhringa, og ég var alveg orðin ringluð af allri umferðinni. Þá fórum við með járnbrautarlest til Osló. Við vorum 13-14 tíma á leiðinni og stönzuðum á nokkrum stöðum. Ég hékk mest alla leiðina úti við glugga og horfði út.
Á leiðinni voru mörg jarðgöng, sem við fórum í gegnum, og vorum við allt að því 20 mínútur að fara í gegnum þau lengstu.
Seint um kvöldið komum við svo til Oslóar og þar tóku á móti okkur föðursystir mín og maður hennar. Hjá þeim dvöldum við í viku og skoðuðum borgina og nágrennið en fórum svo með járnbrautarlest til Malmö í Svíþjóð. Er við komum þangað, lá þar ferja tilbúin að taka á móti lestinni og flytja hana yfir Eyrarsund. Eimvagninn var tekinn frá og hinum vögnunum síðan ekið á ferjuua. Ég var nú orðin hálfsmeyk um, að hún myndi sökkva þá og þegar með allt saman. En við komumst nú samt heilu og höldnu yfir sundið.
Þegar við vorum komin í land, var annar eimvagn tengdur við og við ókum af stað á ný. Ég var nú orðin syfjuð og átti fullt í fangi með að halda mér vakandi. En þá sáum við ljósin í höfuðborg Danmerkur, og þegar við ókum inn á stöðina þar, var ég glaðvöknuð.
Loksins vorum við komin á leiðarenda og fólkið tók að þyrpast út. Von bráðar fundum við fólk, sem var að taka á móti okkur og lögðum við af stað heim með því.

Á. H. II. bekk.


Sjóferð

Einn góðviðrisdag í vetur gengu tveir strákar niður að höfn. Þá langaði til að komast út á sjó, eins og gengur og gerist meðal drengja. Þá varð fyrst að reyna að útvega bát. Ekki gekk það vel í fyrstu. Loks fundu þeir bát, ef bát skyldi kalla. Hann var svo lítill, að hann var töluvert hlaðinn með þá báða. Þarna réru þeir fram og aftur og tíndu upp tóma bjórbrúsa, sem karlarnir á skipunum höfðu hent í sjóinn, þegar þeir voru búnir að gæða sér á innihaldinu. Þarna möruðu margir tugir brúsa í hálfu kafi og tínslan gekk bara vel. Þá var allt í einu kallað úr einu skipinu, sem lá utarlega á höfninni:
„Strákar, flytjið okkur í land, við skulum gefa ykkur tuttugu og fimm aura.“
„Það er allt of mikið,“ kölluðu strákarnir á móti í mesta háði, auðvitað.
Fjórir menn stóðu við borðstokkinn, og að því er þeim virtist, heldur „rakir“. Þeir ætluðu allir í einu að ryðjast út í þessa litlu fleytu.
„Við flytjum ekki nema tvo í einu,“ sögðu strákarnir og virtust ákveðnir.
En þeir ruddust allir ofan í bátinn, nema einn, sem virtist skynsamastur eða minnst „rakur“. Hann varð eftir í skipinu. Svo var ýtt frá og þessi mikla sigling hófst. Þá byrjuðu karlarnir að rugga — og rugga, eins og það væri þeirra líf og yndi. Það má nærri geta hvernig fór. Báturinn hálffylltist af sjó. Strákarnir reyndu að róa, en þessir heiðursmenn rugguðu, þangað til allt fór yfir um og steyptist í hið bláa haf. Það rann af körlunum við baðið. Þeir voru allir syndir og syntu út í sitt eigið skip. Strákarnir voru báðir ósyndir. Öðrum skaut upp við hliðina á færeyskri skútu, sem lá nálægt skipinu, sem fyrr er getið um. Hann var dreginn upp í skútuna. Hinum skaut upp mitt á milli skútunnar og skipsins og náði í björgunarhring, sem mennirnir á færeyska skipinu höfðu hent út. Hann var einnig dreginn upp í skútuna á hringnum. Færeyingarnir á skútunni voru hinir beztu. Einn spurði, hvort þeir þyrftu ekki að fara til „doktorsins“ og láta hann dæla upp úr þeim sjónum. Strákarnir gátu ekki varist brosi. Þeim fannst Færeyingurinn segja þetta svo einkennilega. Þeir neituðu því, og óskuðu eftir að þeir yrðu strax fluttir í land, því að þeim var að verða kalt. Ölög bátsins urðu þau, að hann lá á hvolfi á haffletinum og bjórbrúsarnir, sem drengirnir höfðu innbyrt, möruðu í hálfu kafi allt í kring.
Þegar í land kom, flýttu strákarnir sér heim og sögðu farir sínar ekki sléttar. Reynsla þeirra í þessari för var sú, að það er ekki alltaf gott að stelast út á sjó og því síður að treysta drykkjumanninum.

S. G. I. bekk.