Blik 1940, 8. tbl./Kaplagjóta og kaplapyttir
Kaplagjóta og kaplapyttir
Margar getgátur eru um það, hver sé uppruni þessara tveggja örnefna hér, og ber mönnum ekki saman um það. Hér fer á eftir sú tilgáta, sem þykir einna líklegust og margir aðhyllast.
Hér í Vestmannaeyjum eru hin mestu landþrengsli. Hagar voru og litlir og snöggir. Hér var margt um sauðfé og þurfti það allmikinn haga. Auk þess og nautgripa var hér nokkuð af hrossum til fiskdráttar úr fjöru og annars flutnings. Sáu menn fljótt, að ekki mátti beita hér nema ákveðnum fjölda kvikfjár. Lá þá næst fyrir að takmarka tölu hrossa, sem menn gátu helzt án verið, enda var það snemma gert. Árið 1528 féll dómur á Vilborgarstöðum um kaplatölu. Var þar ákveðið, að hestar skyldu vera 16 að tölu, svo sem venja hafði verið að fornu. Væru á Heimaey fleiri hestar, skyldu þeir falla undir umboðsmann konungs, „hvort hann vildi eignast þá eða gjöra annað ráð fyrir þeim, nema hinir hefðu burt flutt innan 14 nátta.“
Ekki munu flutningar á hrossum til meginlandsins hafa tíðkazt, enda miklum erfiðleikum bundnir. Umboðsmenn konungs munu ekki hafa hirt um rétt sinn til þess að hirða hross þessi, enda lítil gróðavon að því, þar sem ekkert var hirt nema háin. Eins og kunnugt er, var hrossakjöt bannað í hinni gömlu kirkjulöggjöf vorri; en eftir að það bann var afnumið, komst hrossakjötsát ekki á, þó að menn byggju við sult og seyru. Það þótti jafnan hinn mesti ósómi að eta hrossakjöt og voru hrossakjötsætur hafðar að háði og spotti.
Voru því góð ráð dýr að koma hrossum þeim, sem voru umfram ákveðna tölu, fyrir kattarnef með hægu móti, þar sem rotnun skrokkanna gæti farið fram án óþæginda fyrir Eyjabúa.
Þessi hross voru því leidd þangað, sem auðvelt var að koma þeim í sjó eftir að hnífi hafði verið brugðið á háls þeim, og straumur tók þau og bar til hafs. En til þessa voru einmitt Kaplapyttir og Kaplagjóta vel fallin. Þess vegna eru örnefni þessi minjar hleypidómanna og áminning um landþrengsli og einangrun Eyjabúa.
- Hildur Árnadóttir, 1. b., skráði.