Blik 1939, 4. tbl./Minningarorð um Þórunni Friðriksdóttur frá Löndum

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 6. október 2009 kl. 08:57 eftir Saerun (spjall | framlög) Útgáfa frá 6. október 2009 kl. 08:57 eftir Saerun (spjall | framlög)
Fara í flakk Fara í leit

Minningarorð
um Þórunni Friðriksdóttur frá Löndum.
F. 9. júní 1922. D. 14. jan. 1939.

Í Gagnfræðaskólanum laugardagsmorguninn 14. jan. Oss setur hljóð. Þórunn Friðriksdóttir dáin — horfin, — hún, sem hafði starfað hér hjá oss og með oss fyrir þremur dögum — dáin.
Gleðibragðið, gáskinn, hin hispurslausa umgengni í frímínútunum, hverfur skyndilega. Alvara; kyrrð. Dauðinn sækir oss heim. Hjá þeim unglingum, sem lengst höfðu starfað með Þórunni, nemendum 3. bekkjar, vara áhrif þessarar sorgarfregnar lengst. Minnin koma fram, ljúf og hlý. Betri félagi varð ekki kosinn ; svo góð, svo blíð, svo einlæg. Alltaf glöð, alltaf jafn látprúð og innileg. Minnin skapa söknuð, — söknuðurinn sorg.
Þórunn hafði fengið gott uppeldi í sínu kyrrláta heimili, í ástríki góðrar og áhrifaríkrar móður. Hún bar þess vott í starfi, orði og æði. — Skylduræknin, samvizkusemin var mjög ríkur þáttur í skapgerð hennar. Henni leið miður vel, ef hún gat ekki fullnægt til hlítar þeim kröfum, sem hún gerði til sjálfrar sín, eða aðrir gerðu til hennar um störf og afköst.
Hún var fáguð í hugsun og sál hennar opin og næm fyrir áhrifum göfugra hugsana og góðra verka.
Hún var gædd farsælum gáfum. Hún var trúrækin og unni öllu góðu og allir, sem henni kynntust, unnu henni.
Áberandi var ást hennar til móður sinnar, systkina sinna og heimilis síns í heild.
Hún var sönn fyrirmynd unglinga. Mættu þau ungmenni, sem báru gæfu til að kynnast henni og starfa með henni, minnast hennar sem allra lengst, og taka hana sér til fyrirmyndar um allt, sem gott er.
Vér kennarar og nemendur þökkum henni fyrir allar hugljúfu samverustundirnar og viljum minnast hennar með þessari hugsun og í þessari trú:

Sæll er sá,
er síns guðs leitar
á unga aldri.
Góðum guði
gimsteinn í hendi
er sál þin, Þórunn.
Þ. Þ. V.