Blik 1936, 2. tbl./Sér grefur gröf, þótt grafi
Blik 1936, 2. tbl.
SÉR GREFUR GRÖF, ÞÓTT GRAFI
ÉG var 9 ára og Árni 10 ára gamall. Hann var bezti skólafélaginn minn. Við sátum saman, lékum okkur saman og lásum saman, og gerðum öðrum smágrikki í félagi, þegar svo bar undir.
Árni átti það til, að vera dálítill hrekkjalómur á stundum, og ég var heldur ekki alltaf bezta barnið hennar mömmu minnar.
Það var komið sól og sumar.
Einu sinni tókum við okkur til í löngu fríi, sem við fengum, og löbbuðum út í skóginn, sem var skammt frá skólanum. Þar fundum við mauraþúfu. Maurarnir voru af rauðu tegundinni, illir og eitraðir.
„Hér bar vel í veiði,“ sagði Árni. „Bara að ég hefði nú eitthvað til þess að tína maura í.“ „Hvað ætlarðu með þá?“ spurði ég. „Jú, það gæti orðið smellið,“ sagði hann, „að taka með sér nokkra maura inn í skólastofuna, og sleppa þeim á treyjukragann þeirra Sigga og Nonna, sem sitja fyrir framan okkur. Þeir munu tæpast sitja kyrrir á eftir, býst ég við.“
Ég féllst á það. Ég hafði með mér tóman eldspýtnastokk og fyllti hann af maurum. Árni hafði engan stokkinn, en hann var aldrei ráðalaus. Hann bjó sér til poka úr bréfsnepli og fyllti hann af maurum. Síðan braut hann vandlega fyrir hann, og við stungum þannig maurunum í vasa okkar. Þá var hringt inn. Það var sögutími og lexían var Svoldarorusta. Við Árni vorum illa undir tímann búnir. Við höfðum leikið okkur kvöldið áður, og ekkert nennt að lesa.
Ég var fyrstur „tekinn upp.“ Það gekk illa — afarilla. Ég stóð þarna og stamaði, rauður og sneyptur, því að kennarinn horfði fast á mig, og mér fannst krakkarnir kíma og stinga saman nefjum í kring um mig, þegar ég „gataði“ og sagði vitleysurnar. Ég óskaði, að sú hryðja mætti sem fyrst líða hjá.
Árna veslingnum leið heldur ekki vel. Hann bjóst auðvitað við að verða næstur. Hann gat ekki setið kyrr. Hann færði sig ýmist nær mér eða fjær og klóraði sér á hálsinum og bakinu, þá á hægra lærinu, síðan á mjöðminni.
„Veslings Árni,“ hugsaði ég. „þú ert ólesinn líka.“
„Sittu kyrr, Árni!“ kallaði kennarinn byrstur. Hann var óblíður núna. Árni blóðroðnaði, og ég sá, að honum vöknaði um augu. Andartak sat hann kyrr og horfði í gaupnir sér. En svo tók hann til að klóra sér aftur, ákafar en fyrr.
„Þú átt bágt með að sitja kyrr í dag, Árni,“ sagði kennarinn. „Ó já, Árni minn,“ bætti hann við. „Sá, sem ekki gerir skyldu sína, hefir jafnan vonda samvizku og lítinn frið. Það er nú þannig. — Nú, hver sigraði svo við Svoldur?“ spurði hann mig.
Nei, nú féll mér allur ketill í eld. Grúfði þá ekki hann Árni andlitið í höndum sér á borðinu og grét. Skárra var það samvizkubitið. Ekki hafði ég orðið var við það hjá honum áður, þótt hann svikist um að lesa lexíurnar sínar. Ég fann grátstafinn í kverkum mér, svo vorkenndi ég honum.
„O, að við skyldum ekki lesa Svoldarorustuna í gær,“ hugsaði ég. Við fórum heldur sjö sinnum í bað. Við hefðum betur látið nægja að fara það bara sex sinnum, og lesa heldur svolítið í staðinn.
„Hver sigraði við Svoldur? Seg þú það, Árni,“ sagði kennarinn höstugur.
Árni litli tók nú til að háskæla og ók sér.
„Æ, æ — ei — ei — ei — eiturmaurinn,“ sagði hann hikstandi. Öll börnin í bekknum litu upp undrandi. Um leið fékk ég sáran sviða í hálsinn aftanverðan.
„Hvað er að tarna?“ hugsaði ég, „eru maurarnir sloppnir út?“
Ég rak hendina ofan í buxnavasannn og tók upp stokkinn og opnaði hann.
„Hvað ertu með þarna, Björn?“ spurði kennarinn mig. Ég varð hræddur og missti opinn stokkinn á gólfið. Maurarnir, sem eftir voru í honum, skriðu nú út um allt
gólf. Það, sem eftir var af tímanum, fór til þess að tína þá upp og koma þeim út. Við Árni vorum reknir inn til konu kennarans.
Þar vorum við berháttaðir og fötin okkar gaumgæfilega skoðuð og saumfarin, og úr þeim tíndar kindurnar. Kennarinn gat ekki stillt sig um að brosa, þegar
hann sá, hve rauðflekkóttir við vorum eftir bit mauranna. Við grétum báðir. Ég var þó ekki eins illa leikinn og Árni. En mig tók það sárt, að sjá þennan hrausta og hugrakka félaga minn, sem aldrei skorti ráð, hágráta.
Við sluppum með það að „sitja eftir“ svo sem hálfan tíma.
„Maurarnir hafa að mestu leyti hegnt ykkur fyrir slóðaskapinn og letina,“ sagði kennarinn.
Þegar við fórum, sagði hann: „Sér grefur gröf, þótt grafi.“
Við skildum þá ekki þenna málshátt, en síðar varð okkur hann ljós.
Þýtt.