Blik 1969/Endurminningar Magnúsar á Vesturhúsum

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 13. ágúst 2007 kl. 11:02 eftir Daniel (spjall | framlög) Útgáfa frá 13. ágúst 2007 kl. 11:02 eftir Daniel (spjall | framlög)
Fara í flakk Fara í leit

(Magnús Guðmundsson, bóndi og formaður á Vesturhúsum, skrifaði eitt sinn brot úr minningum sínum frá bernsku- og æskuárunum á Vesturhúsum, og svo minningar frá sjómennsku sinni og sjósókn, athöfnum á sjó og landi. Magnús Guðmundsson var einn af hinum þróttmiklu forustumönnum í sveitarfélaginu og atorkusömu á tímum nýbreytni og framfara, - tímum byltingar í atvinnumálum, hugsunarhætti og framtaki til aukinnar verkmenningar og betri afkomu, vaxandi fræðslustarfs og mennilegri aðbúnaði með Eyja búum í heild. Þessir kaflar úr sögu hans eru jafnframt kaflar úr sögu byggðarlagsins, svo langt sem þeir ná. Þess vegna eru þeir öðrum þræði birtir hér, endurprentaðir hér, en þeir birtust fyrst í blaðinu Víði á árunum 1933 og 1934. Ég hef skipt þessum skrifum Magnúsar Guðmundssonar í kafla og sett þeim fyrirsagnir. - Þ. Þ. V.)

Snemma beygist krókurinn

Ein hin fyrstu mynni mín frá bernskudögunum eru þau, að ég átti nokkuð margar öðuskeljar. Voru það vertíðarbátar mínir og hétu þekktum skipsnöfnum hér: Gideon, Auróra, Friður, Enok og yfirleitt öllum þeim nöfnum skipa, er í þá daga gengu til fiskjar hér á vertíðinni.

Þessa farkosti mína gerði ég löngum út á einhverjum polli eða bala. Þannig lék ég „stóru mennina“, sérstaklega formennina, sem ég leit upp til og bar mikla lotningu fyrir.

Ég hafði haft opin eyrun fyrir mörgum afreksverkum slíkra manna, bæði þeirra, er þá lifðu, og eins hinna, er dánir voru. Ég hafði heyrt sögur af snilldarstjórn, ráðsnilld og ratvísi þeirra, þegar ýmsar hættur steðjuðu að og veður voru válynd.

Þegar hagstæð voru veður og öll vertíðarskip á sjó, mátti ég helzt ekki vera að því að borða, því að allur hugur minn var úti á sjó hjá þessum vertíðarskipum. Sérstaklega var gaman að sjá þau koma í einum flota siglandi í austanvindi „undan Sandi“. Og við strákarnir hrópuðum svo hátt, sem við gátum, hver til annars, að þarna kæmi Gideon, - þarna Friður, eða þá eitthvert annað skip, - og „hlypi langt fram úr hinum“. Aðrir sögðu, að Aurora og Enok „hlypu“ mest o.s. frv. Annars var það skipið, sem faðir hvers og eins okkar strákanna var á, mesta uppáhaldsskipið. Þegar skip það, sem faðir minn réri á, kom að, fékk ég að færa honum kaffi. Það var kallað í mæltu máli, að „fara í Sandinn“. Ég hlakkaði til þess allan daginn, því að „niður í Sandi“ var margt skemmtilegt að sjá, t. d. þegar sjómennirnir voru að seila fiskinn úr skipunum. Stundum unnu 12 sjómenn við að seila úr einu skipi. En hvað þeir óðu djúpt við skipin, alveg upp í mitti! Og svo, hvernig þeir bökuðu skipin við setningu ! Sjá allt kvenfólkið um allar klappir og stíga við að draga fiskinn „úr Sandi“ upp að króm. Hver þeirra dró tvo fiska í hvorri hendi á þar til gerðum krókum. - Já, þarna var líf og fjör og gaman að vera, - já, ólíkt skemmtilegra en að vera heima undir strangri stjórn, - stundum „fyrir rétti“, þegar eitthvað var að hafzt, sem eldra fólkinu líkaði ekki.

„Gengið með skipum“

Svo kemur að því, að þessum þróttmikla unglingi halda engin heimilisbönd. Hann sækir ákaft sjóinn. Á 13. árinu fær hann leyfi foreldra sinna til að snuðra eftir skiprúmi með færisstúfinn sinn á svalkaldri vetrarvertíðinni. Skinnklæðin fóru honum illa, því að þau voru alltof stór. Hver lagði í það að sauma hæfilega stór skinnklæði á ungling? Það var alltof mikil vinna, því að þau entust svo stutt vegna þess að unglingurinn óx brátt upp úr þeim. Þannig varð það verk að nokkru unnið fyrir gýg. Þess vegna varð hann að notast við skinnklæði af fullvöxnum sjómanni. En hvað um það? Unglingurinn fann vissulega til sín, þegar hann gekk til skips eins og fullgildur háseti, þó að hann væri aðeins hálfdrættingur, fengi aðeins helming þess, sem hann dró á færismyndina, og sakkan var aðeins af hálfri stærð og þyngd við þær, sem hinir fullgildu notuðu.

Þannig liðu árin til vertíðarinnar 1884. Þá var ég kominn á 13. árið og var látinn „ganga með skipum“ - þ. e.: biðja þennan eða hinn að lofa mér að róa. Þessa vertíð fór ég 17 sinnum á sjó og fékk í hálfdrættið 86 þorska og 18 ýsur.

Fyrsti fiskurinn, sem ég dró, var stór þorskur. Hann var kallaður „maríufiskur“, og var hann víst alltaf gefinn einhverjum bágstöddum. Þennan fisk minn var ég látinn gefa aldraðri einsetukonu. Bað hún guð að vera með mér og sagðist vona, að ég yrði gæfumaður á sjónum.

Einn morgun þessa vertíð bað ég alla þá formenn, er ég náði til, að lofa mér að róa, en enginn kvaðst geta það. Rö1ti ég þá heim grátandi og hét því, að aldrei skyldi ég láta grátandi drengi fara frá mér, þegar ég sjálfur væri orðinn formaður.

Víst fannst mér það, að ég yrði formaður, enda þótt ég væri svo ónýtur, að ég gæti ekki hjálparlaust innbyrt þorsk. Það gerði venjulega sá, sem renndi færi næst mér. Þessa vertíð (1884) réri ég einu sinni sem oftar hjá Hannesi Jónssyni á Gídeon. Þá réri með Hannesi Árni Diðriksson í Stakkagerði, sem áður var formaður á skipi þessu. Við vorum „undir Sandi“. Þá hvessti snögglega á austan svo að siglt var heim. Á Leiðinni (innsiglingunni) hreppti skipið grunnsjó, og „hljóp“ það geipihratt í sjónum. Við Árni Diðriksson vorum aftur í skut. Mér þótti þessi sigling skemmtileg, en bar ekki skyn á lífshættuna, ef eitthvað hefði út af borið, t. d. stjórnin á skipinu farið illa úr hendi. Þegar sjórinn var 1iðinn hjá, hrópa ég upp og segi: „Ó, hvað þetta var gaman!“

Þá sagði Árni Diðriksson: „Þú verður einhvern tíma nógu vitlaus“. Hann sagði þetta þannig, að ég gleymi því aldrei.

Strákar saman á sjó

Fjórrónir bátar í Eyjum voru kallaðir jul. Það orð mun samstofna með danska orðið jolle og afbökun úr því. Hér mun gæta áhrifa frá máli skipshafna á dönsku verzlunarskipunum frá tíma einokunartímabilsins.
Unglingarnir Magnús á Vesturhúsum og Vigfús Jónsson frá Túni (síðar búandi að Holti við Ásaveg) réru saman til fiskjar sumarið 1884. Báðir þá innan við fermingu.

Sumarið eftir þessa vertíð fór ég svo að róa á hinum svo nefndu julum. Helzt var það með strákum á mínu reki. Við grófum upp fjörumaðk, fórum í skeljafjöru eða höfðum fuglainnyfli, fuglaslóg, í beitu. Oft fiskuðum við allvel, - helzt smáfisk og keilu. Stundum fengum við lúðu í svo þungan drátt, að ég varð fljótlega að biðja Vigfús að hjálpa mér.

Um haustið þetta sama ár rérum við Vigfús á Hóls-julinu og rérum helzt út á víkina suðaustur af Klettsnefi. Þar fiskaðist oft mikið af lúðu, sérstaklega á haustin. Vigfús andæfði, en ég var undir færi. Einn daginn höfðum við fengið 8 lúður og nokkrar þeirra um og yfir 100 pund (50 kg), en aðrar voru smáar. Vigfús dró undir íburð, en ég bar í. En þá kom 9. lúðan á öngulinn. Þegar ég vildi bera í hana, steyptist ég á höfuðið í sjóinn. Mér skaut fljótlega upp, og náði ég í bátinn. Lúðan var enn föst á færinu. Þegar Vigfús sér mig hanga á bátnum, segir hann: „Á ég ekki að bjarga lúðunni fyrst inn bátinn?“

Ég hafði heyrt margar sögur um það, að í sjónum væru margskonar ófreskjur, þar á meðal hákarlar og hvalir, sem væru hinar verstu mannætur. Og mér fanst þá, að eitthvað af þessu illþýði hlyti að vera rétt að mér til þess að gleypa mig. Þess vegna bað ég Vigfús að meta mig meir en lúðuna og innbyrgða mig fyrst. Á meðan hann var að hjálpa mér inn í bátinn, fór lúðan af færinu.

Eftir þessa sjóferð munum við Vigfús ekki hafa farið á sjó tveir saman um lengri tíma.

Aftur gengið með skipum
Stráksskapur á sjó

Vertíðina næstu, 1885, gekk ég enn með skipum. Fór ég þá 18 róðra og fékk samtals 69 fiska. Þetta sama ár réri ég 52 róðra utan vertíðarinnar.

Fyrst fram eftir sumri rérum við saman fjórir strákar á bát þeim, er áður er frá sagt og kallaður var Hóls-julið. Þann bát átti Gísli kaupmaður Stefánsson á Hóli. Ágúst sonur hans var formaðurinn. Hann var víst tveim árum yngri en ég, en bráðþroska eftir aldri. Ágúst var hinn mesti fjörkálfur og þó hinn bezti drengur.

Eitt sinn rérum við snemma morguns og fórum vestur fyrir Faxasker. Vorum við þar um fallaskiptin og komumst á allgóðan fisk. Engan bát sáum við þar á sjó, þar til bátur kemur róandi austur í Faxasundi. Hann stefndi rétt fyrir sunnan okkur. Þegar hann nálgast, þekkjum við þar Sigurð Ólafsson í Litlakoti. Þeir voru fjórir á og réru á skyrtunni, því að logn var og hiti mikill.

Allt í einu urðum við gripnir þeirri þrá að fara í sjóslag. Tókum við þá upp á því að krækja dauðum fiskum á önglana og renna þeim síðan ofan í sjóinn. Þóttumst við draga þannig nógan fisk. Jafnframt klæddum við okkur í sjóstakkana og bjuggum okkur að öðru leyti undir bardagann. - Þetta bragð okkar hreif, svo að þeir komu alveg til okkar.

Þegar þeir uppgötvuðu, að við vorum að narra þá, ávítuðu þeir okkur harðlega og sögðu, að við ættum ekki að haga okkur þannig á sjó. Við kváðumst eiga erindi við þá. Í þeim töluðu orðum gripum við austurtrog og fötu og jusum yfir þá. Þetta kom þeim svo á óvart, að þeim féllust alveg hendur, þar til þeir gripu til ára og lögðu á flótta. En þá voru þeir allir orðnir holdvotir. Auðvitað kærðu þeir okkur fyrir feðrum okkar, en Gísli Stefánsson kom víst sættum á við Sigurð nágranna sinn og háseta hans.

Nokkru eftir þetta rérum við með fjörumaðk í beitu og fórum „Undir Hamarinn“. Við fengum í hálfan bátinn, mest smáfisk. Þegar leið á daginn, gerði austanvind, sem fór heldur vaxandi, svo að við hrepptum barning austur að Eiði.

Og áfram var barizt á árunum alla leið austur fyrir Klettinn. Þá var seglbúið og siglt inn Víkina. Við höfðum til þess hlakkað að fá kvikuna á eftir inn að Læk.

Við komum okkur saman um að taka tvo stærstu fiskana og kaupa okkur sælgæti fyrir þá. Annars var það regla okkar að taka alltaf stærsta fiskinn úr hverjum róðri til þeirra hluta.

Eitt sinn sem oftar rérum við Vigfús Jónsson saman. Ætlun okkar var að veiða smálúðu, sem þá fékkst allmikið af sunnan við Sæfellsklakk.

Við rérum á minnsta bátnum, sem hér var þá til, og var það alltaf kallað „Hólsjulið“. Ræðin á julinu voru negld með þrem stórum trénöglum í gegnum hástokkinn. Hausinn á nöglum þessum var langur, stóð eina 2-3 þumlunga upp fyrir keipstokkinn.

Við komumst á sömu mið og stærri bátarnir og drógum fáeinar litlar sprökur.

Eftir að hafa dvalizt þarna um skeið, tókum við að róa heim á leið. Áður en inn var róið, renndi ég færi austur af Yztakletti. Nokkru eftir að ég hafði tekið grunnmálið, komst ég í svo þungan drátt, að ég varð fljótlega að fá Vigfús til að hjálpa mér við dráttinn. Aftur og aftur reif skepnan færið út úr höndunum á okkur. Loks fór hún að sefast og lá á færinu eins og klettur. Þetta reyndist vera geysistór lúða. Við höfðum ífæru og tvöfalt kaðalband í henni og lykkjan efst.

Ég set ífæruna í lúðuna strax og hún kom að borðinu. Hún tók skarpt viðbragð og reif strax af mér ífæruna. Um leið festist lykkjan á ífærutóginu á einum af nöglunum, sem áður getur. Þarna hangir lúðan við borðstokkinn og eys yfir okkur sjónum. Jafnframt setur hún hina litlu fleytu okkar á hliðina, svo að sjórinn hellist inn í hana. Skriðum við þá í sinn hvorn enda af bátnum alveg yfirkomnir af hræðslu. - Allt í einu sé ég, að lúðan er farin og báturinn marar nær tóftufullur af sjó.

Við vorum æðistund að jafna okkur. Svo jusum við bátinn og héldum til lands. Við hétum hvor öðrum að segja engum frá þessu lúðuævintýri, því að þá fengjum við aldrei að róa saman framar.

Um haustið rérum við Vigfús á Hóls-julinu og fórum út á Víkina út að Klettsnefinu. Þá veiddist oft mikið af lúðu á færi, sérstaklega á haustin. Vigfús andæfði en ég var undir færi. Einn daginn fengum við 8 lúður og sumar þeirra um og yfir 100 pund, en aðrar voru smáar.

Vigfús dróg undir íburð en ég bar í.

Þá kom 9. lúðan á færið. Þegar ég ætlaði að bera í þessa lúðu, steyptist ég á höfuðið í sjóinn. Mér skaut fljótlega upp, og náði ég mér þá strax í borðstokkinn. Þegar Vigfús sér hanga á bátnum, segir hann: „Á ég ekki að ná lúðunni fyrst inn?“ Ég hafði heyrt margar sögur um það, að í sjónum væru margkonar ófreskjur, þar á meðal hákarlar og hvalir, sem sæktust eftir mannakjöti. Ég bað því Vigfús að meta mig meir en lúðuna.

Þegar hann hafði lokið við að tosa mér inn fyrir borðstokkinn, var lúðan farin af færinu. Eftir þessa sjóferð munum við Vigfús ekki hafa farið á sjó saman um lengri tíma.

Róðrum strákanna lokið
Kinnhestur með blautum sjóvettlingi
„Á misjöfnu þrífast börnin bezt
Gefðu duglega á ...“

Ekki fengum við strákarnir að róa saman fleiri róðra þetta sumar. Það sem eftir var sumarsins réri ég með fullorðnum mönnum á bát, sem hét Immanúel. Faðir minn átti hlut í báti þessum. Formaður á bátnum var Magnús Gíslason á Fögruvöllum.

Ég var látinn renna færi í formannssæti og fékk helming þess, er ég dró. Formaðurinn lét mig stýra undir segli, þegar lítil kvika var. En báturinn var mjög valtur, þegar hann var tómur og erfitt að stýra honum.

Eitt sinn vorum við inni á Flúðum og fengum lítinn eða engan fisk. Brátt fór að kalda af norðvestri. Var þá dregið upp segl og siglt heim. Vindur fór bráðvaxandi.

Þegar við vorum komnir austur fyrir Lat, bið ég formanninn að taka við stýrinu, en hann anzar því engu. Nú fannst mér það ábyrgðarhlutur að sitja undir stjórn, svo snöggar og miklar sem rokhviðurnar voru úr Faxanefinu. Báturinn þeyttist áfram, svo að þeir urðu höndum seinni að ná inn seglinu, enda stóð dragreipið fast í fyrstu. Hrópa ég þá á Magnús formann og bið hann að taka við stjórninni. Hann svaraði beiðni minni með því að slá mig framaní með blautum sjóvettlingi og sagði: „Haltu kjafti, strákur, og stýrðu!“

Hálfdrættingur á „Halkion“

„Gerðismenn“ nutu trausts og virðingar í útgerðarstarfi sínu og sjómennsku. Hverjum unglingi var það góður skóli að ráðast fastur háseti á bát þeirra „Halkion,“ þó að hann væri þar hálfdrættingur. Magnús Guðmundsson var aðeins 14 ára, er hann réðist til hins mæta formanns og kunna sjómanns Jóns bónda Jónssonar í Stóra-Gerði. Það eitt sannar það orð, er fór nú af dugnaði „formannsefnisins“ á Vesturhúsum.

Vertíðina 1886 réri ég á sexæringi, sem hét „Halkion“. Formaðurinn var Jón Jónsson bóndi í Stóra-Gerði. Hann var talinn formaður góður og aflasæll. Sagt var um hann, að aldrei fengi hann svo vont veður á sjó, að hann gæti ekki kveikt í pípu sinni.

Ég var ráðinn hálfdrættingur. Hálfdrættingarnir áttu við setningu skips að annast hlunnana, draga þá fram fyrir stafn, þegar skipin voru sett í hróf, og draga þá aftur fyrir skutinn, þegar sett var fram. Hlunnarnir voru hvalbeinshlunnar með gati í enda og dráttartaug í.

Fljótlega olli ég vandræðum á bátnum sökum þess, að ég dró oft meira en í tvo hluti, sérstaklega þegar fáir renndu og margir andæfðu. Þá þótti ófært eins og líka var, að ég bæri meira frá borði en fullorðinn maður. Það varð því úr, að ég fékk heilan hlut.

Vertíð þessi hófst 2. marz og enti 3. maí. Farnar voru 34 sjóferðir og fengum við alls 303 í hlut af þorski og löngu.

Ræðst til Ólafs Magnússonar í tómthúsinu London

Gæfan var með Magnúsi á Vesturhúsum og örlögin ætluðu honum veglegan sess í útgerðarsögu byggðarlagsins og sögu sjósóknar og formennsku í Eyjum. Nú ræðst hann háseti til mannsins, sem bæði hafði efni á að búa allt sem bezt í hendur hins unga formanns og vilja til þess að hlynna svo að starfinu, að það mætti sem bezt takast. Þrjár vertíðir réri Magnús Guðmundsson háseti hjá Ólafi Magnússyni, áður en hann tók við skipinu úr höndum hans og gerðist formaður, þá aðeins hálfs átjánda árs.

Næstu þrjár vertíðarnar (1887, 1888 og 1889) réri ég hjá Ólafi Magnússyni í London hér. Við rérum á litlum báti eftir því sem önnur vertíðarskip voru þá. En báturinn hét stóru nafni, því að hann hét „Hannibal“. Hafði Ólafur smíðað hann sjálfur. Hann var skipasmiður góður og fór ekki almannaleiðir með lögun á skipum þeim, sem hann smíðai, og svo var með bát þennan, því að bátur þessi var mjög ólíkur öðrum skipum, er honum voru hér samtímis. Hannibal var ágætur gang- og siglingarbátur. Það kom sér oft vel, því að hásetar Ólafs á þeim báti voru oftast kraftlitlir unglingar.

Okkur farnaðist vel á báti þessum undir stjórn Ólafs Magnússonar, enda var hann þaulæfður formaður.

Fyrri hluta ævi sinnar átti Ólafur í London heima undir Eyjafjöllum og var formaður þar. Eitt sinn er hann réri þaðan út frá sandinum ásamt fleiri skipum, brimaði svo fljótlega að enginn treystist til að lenda þar aftur. Héldu þá öll skipin til Vestmannaeyja, - það var kallað að „leggja frá“, nema Ólafur Hann varð einn eftir og beið úti fyrir ströndinni. Þetta mun hafa átt sér stað í marzmánuði.

Tóku nú hásetar Ólafs Magnússonar að mótmæla því að vera einir eftir af skipunum og kváðust vilja fylgja hinum til Eyja. Þá er sagt, að Ólafur hafi mælt: „Látið þið ekki svona, piltar, einhverntíma deyr sjóskrattinn“. Hann lá svo þarna úti fyrir opinni sandströndinni alla nóttina og lentu þeir heilu og höldnu um morguninn, þegar bjart var orðið.

Ég varð þess aldrei var, að Ólafur formaður mælti æðruorð, meðan ég var hjá honum. Þó sótti hann alldjarft og stundum gaf á bátinn, - en Ólafur var sérlega veðurglöggur.

Veðurglöggur, sem bandaði hættunum frá

Eitt sinn vorum við morgun einn komnir austur á Mannklakk. Þar voru þá nokkur skip og flest stór. Við renndum þarna færum nema tveir, sem andæfðu. Logn var á og nokkur austan sjór.

Ólafur formaður leysir utan af færi sínu og fleygir öngli og sökku útbyrgðis. Meðan færið rennur út, skyggnist formaðurinn til lofts. Allt í einu stöðvar hann útrennslið á færinu, horfir til veðurs æðistund en segir ekki orð. Við drögum þarna nokkra fiska, en hann skeytir því engu.

Allt í einu kallar hann til okkar og biður okkur að vera fljóta að hafa uppi færin. Þegar við höfðum það gert, skipar hann okkur að leggja út árar og róa vel heim á leið. Svo var gert sem skipað var, og tvívegis herti hann á okkur að róa betur. Þegar við vorum komnir vestur fyrir Bjarnarey, verðum við hásetarnir loksins þess áskynja, að hann var að ganga í austan rok. Nokkru síðar komu öll skipin siglandi austan frá Mannklakki vestur fyrir Bjarnarey. Sögðu þeir, sem á þeim stóru skipum voru, að mjög drægju þeir í efa, að við á litlu fleytunni okkar hefðum hafð það vestur fyrir Álinn gegn stórstraums útfallinu, ef við hefðum ekki þá þegar haft uppi og lagt af stað heim af miðinu.

Eitt þótti mér kynlegt, sem Ólafur formaður gerði, þegar við sigldum í liðlegum vindi, og stærri kvikur komu vaðandi að okkur, - líklegar til að vaða inn í bátinn. Formaðurinn bandaði ætíð hendi gegn þeim. Þetta hafði ég ekki séð neinn stjórnara gera áður. En síðar hefi ég heyrt það sagt, að áður fyrr hafi það verið trú manna, að kvikuna lægði við þetta og jafnvel missti afl, svo færi síður inn í bátinn.

„Setuhundar“
„Þið hafið það þá svona bræður“

Frekar mun Ólafur hafa fengið orð fyrir að vera þaulsætinn undir færum. Slíkir menn voru kallaðir ljótu nafni á sjómannamáli. Þeir voru kallaðir „setuhundar“.

Ekki þurfti mikið til þess, að formenn fengju þetta nafn. Flestir munu þeir hafa verið nefndir því einhvern tíma.

Við rérum 8 á Hannibal og eftir bátinn tók Ólafur formaður tvo hásetahluti: Hann fékk þannig helming þess afla, er á bátinn kom, svo að eðlilegt var, að hann vildi sitja undir færunum, meðan sætt var á sjónum.

Tvívegis kom það fyrir, þegar við vorum orðnir leiðir á þrásetu undir dauðum færum og sigling var í land, að við settum upp segl án þess að fá skipun um að gjöra slíkt. Þá sagði Ólafur einungis: „Þið hafið það þá svona, bræður.“

Flestir eða allir formenn sögðu: „Hankið þið upp“, það þýddi, að þá átti að halda heim. Væri þess kostur að sigla heim í höfn eða slaga, (krussa) þá bættu þeir við: „Og setjið þið upp.“ En Ólafur sagði jafnan: „Við skulum fara að yfirgefa það, bræður.“

Eitt sinn tókum við upp á því að róa bátinn aftur á, þegar við vorum orðnir leiðir og þreyttir á þrásetunni og okkur farið að langa í land. En þá fauk í formanninn. Hann reiddi upp stýrissveifina og kvaðst berja okkur með henni, ef við hættum ekki þeim leik, því ekki væri hægt að auðsýna formanni sínum meiri óvirðingu en að róa skipi hans aftur á undir honum. Aðeins í þetta eina sinn sá ég Ólaf Magnússon reiðast. Hann var með afbrigðum stilltur maður og gætinn og prýðisvel greindur.

„Í ergju og kergju“
„Þvílík heppni, þvílík fyrirtekt“
Fékk 10 kr. gullpening fyrir tillöguna

Eitt sinn snemma í marzmánuði 1889 höfðum við verið langan tíma sólarhrings vestur á Mannklakk. Liðið var fast að hádegi, og flest skip, sem þar höfðu verið, farin á önnur mið eða heim. Við höfðum aðeins fengið fáa fiska og bjuggumst við að fá heimafararleyfi þá og þegar.

Við vorum allir hásetarnir orðnir þreyttir og leiðir og komum okkur saman um í ergi og kergju að leggja það til að fara „undir Sand“, þegar heimfararleyfi oks kæmi. Rétt á eftir segir formaðurinn: „Við skulum fara að yfirgefa það, bræður.“ Hafði ég þá orð fyrir okkur og sagðist vilja fara „undir Sand“. Allir tóku undir það mér. Karl sagði, að tillaga mín væri hin mesta fjarstæða, því að enginn fiskur væri þar svo snemma vertíðar. Við fylgdum hinsvegar tillögu okkar fast fram. - „Jæja þá,“ sagði formaður loks, „þið reynið þetta mest á ykkur.“ Þar með var snúið til norðurs og róið af kappi. Þegar við vorum komnir skammt norður af Elliðaey, sáum við súlukast mikið um Álinn. Þá héldum við þangað. Þar reyndist vera nógur fiskur uppi í sjó, svo að við hlóðum bátinn á skömmum tíma.

Meðan við rérum heim, heyrðum við Ólaf formann tauta við sjálfan sig öðru hvoru: „Þvílík heppni og þvílík fyrirtekt.“

Þegar búið var að setja bátinn og skipta alanum, baut formaður okkur góðgjörðir.

Þegar við sátum yfir borðum, rétti formaður mér 10-króna gullpening með þeim ummælum, að ég ætti hann fyrir tillöguna. Auðvitað lét ég félaga mína njóta peningsins með mér.

„Hættu að skæla, Mundi, ekki gráta þeir hinir“
Hvalur hafði nærri grandað formanninum

Eitt sinn kom það fyrir, þegar við vorum vestur af Elliðaey í síldartorfu, að við umkringdumst af hvalavöðum. Einn hvalurinn rann svo nærri bátnum, að andófsmaðurinn lyfti ári upp, svo að hvalurinn rynni ekki á hana.

Á hitt borðið munaði minnstu að hvalur slægi í bátinn með sporðinum, er hann veifaði honum upp úr sjónum. Þá tók einn af hásetunum til að gráta. Svo hræddur var hann um líf sitt. Þá sagði Ólafur formaður: „Hættu að skæla, Mundi, ekki gráta þeir hinir“. Því næst bað hann austurrúmsmanninn að ausa. Var þá blóðugur sjór í bátnum. Þá fóru hvalirnir að fjarlægjast bátinn.

Í annan tíma vorum við vestur af Faxaskeri. Kræktist þá færisöngull Ólafs formanns í hval. Þá munaði minnstu, að dagar formannsins væru taldir, því að færið flæktist um fætur hans, þegar hvalurinn kippti í færið.

Á síðasta augnabliki tókst einum hásetanna að skera á færið. Eitthvað mun formaður hafa tognað á fætinum, þó að hann hefði ekkert orð um það, en lasinn var hann í honum lengi eftir þetta.

Í mínu ungdæmi og lengur var oft krökkt af hval á fiskimiðum Eyjasjómanna. Hvalavöður fylgdu sérstaklega loðnugöngum á vetrum.

Þá sögu sögðu aldraðir menn, að hvalur hefði eitt sinn slegið gat á vertíðarskip austur af Yztakletti. Ekkert manntjón hlauzt þó af óhappi þessu, því að nálæg skip björguðu skipshöfninni.

Magnús Guðmundsson gerist formaður á vertíðarskipi
Yngstur allra formanna, 17 ½ árs, með minnsta skipið

Síðasta árið, sem ég réri með Ólafi, varð hann eitt sinn lasinn, svo að hann treysti sér ekki til að róa. Þetta 19. marz, og hafði þá fiskast vel í nokkra daga, því að síli hafði gegnið. Þennan morgun var blíðu veður og þótti okkur strákunum súrt í broti að vera í landi, þar sem öll skip voru róin. Ólafur formaður bað Hallvarð son sinn að vera formann á bátnum, en hann neitaði því með öllu. Fleiri af okkur bað hann að vera fyrir bátnum, en við neituðum allir að bera ábyrgðina á bát og skipshöfn.

Loks lét ég tilleiðast og hét því að stýra og lesa bænina. Að öðru leyti skyldu allir ráða.

Þegar við vorum komnir út fyrir Hringskerið, spyr ég strákana, hvert halda skuli. Þeir hlógu og svöruðu því til, að ég væri formaðurinn og skyldi ráða í einu og öllu í dag. Ég afréð þá að halda vestur að Smáeyjum, því að ég vissi ekki, hvert hin skipin hefðu farið.

Þegar við komum vestur Hrauney, var þar stór sílatorfa. Þar hlóðum við bátinn fljótlega.

Ekki sáum við neitt til annarra skipa.

Við rerum austur að Eiðinu, seiluðum aflann þar og skildum einn hásetann eftir til þess að bjarga fiskinum undan sjó. Síðan átti hann að fara heim og útvega sér bát til þess að flytja fiskinn yfir Botninn. Um leið bar honum að ráða sér kvenfólktil þess að draga fiskinn yfir Eiðið. Einnig skyldi hann skipta aflanum réttlátlega.

Síðan rérum við hinir aftur. Það var kallað „að róa út“ eða „að tvíróa“. Og við Smáeyjar þennan dag hlóðum við í annað sinn. Fleiri skip komu þangað og hlóðu.

Eftir þennan dag bað Ólafur formaður mig oft að taka við bátnum næstu vertíð. Ég var mjög tregur til þess. Fannst mér ég vera of ungur, vanta alla reynslu og þekkingu. Ólafur kvað það leggjast í sig, að ég yrði heppinn. Loks hét ég honum því að vera með bátinn næstu vertíð, ef „strákarnir“ vildu þó róa með mér.

Þegar til kom, vildu strákarnir allir róa með mér. Ég réði svo ungling í skiprúm Ólafs Magnússonar. Sá hét Auðunn. Fyrstu formannsvertíð mína, 1890, var ég 18 ára og þess vegna langyngstur af formönnunum i Eyjum. Ég var með minnsta vertíðarbátinn og hafði litla sem enga þekkingu á formannsstarfinu. Verst var þó, að ég hafði engan til að sækja ráð til á sjónum.

Formennskan. Sjóferðarmannsbænin. Þóknun til formanns af hverjum hlut, 10 krónur. „Skipsáróður“, 4 krónur

Formennskan hófst með því hverju sinni, að ég varð sem aðrir formenn að lesa langa sjóferðamannsbæn upphátt og Faðir vor að lokinni bæninni. Bænin var alltaf lesin úti á höfninni. Haldið var úti árum á meðan, svo að báturinn héldist á sama stað. Oft voru skipin dreifð um höfnina (Botninn), meðan flestir eða allir lásu bænina samtímis.

Fyrsti róður hvers og eins á vertíð var kallaður „útdráttur“. Helzt vildu menn „draga út“ á föstudögum eða laugardögum, því að menn höfðu almenna ótrú á fyrri dögum vikunnar.

Alltaf fengu menn útdráttarkaffi hjá skipeiganda og þar að auki einu eða tvisvar sinnum á vertíð hverri. Að lokinni vertíð héldu síðan skipseigendur skipshöfninni veizlu. Hét það sumarveizla.

Í þóknun fyrir að róa á skipinu fengu fullgildir hásetar 4 krónur fyrir vertíðina. Þessi greiðsla hét „skipsáróður“. En formaðurinn fékk 10 krónur af hlut hverjum, sem borgaður var eftir skipið. T.d. fékk ég 20 krónur í formannskaup eftir Hannibal, því að eftir hann voru teknir 2 hlutir, eins og fyrr greinir.

Formaðurinn átti að sjá um, að allt væri í standi, er hafa átti í sjóferð hverja. Einnig bar honum að sjá um hirðingu á öllum áhöldum og veiðitækjum, þegar hætt var á róðrum. Einnig var það skylda formanns að kalla hásetana, hvar sem þeir bjuggu, í hvern róður. Fyrstu formannsvertíð mína (1890) fengum við 300 í hlut.

Vertíðina 1891 fengum við aðeins 210 í hlut. Þá var lítill afli eins og reyndar flestar vertíðirnar, sem frásögn mín hér greinir frá. Fyrstu tvær formennsku-vertíðirnar mínar man ég ekki til þess, að nokkuð sérstakt kæmi fyrir mig á sjónum, svo að það sé í frásögu færandi. Þó langar mig að greina hér frá einu atviki, því að það var óvenjulegt.