Blik 1969/Endurminningar Magnúsar á Vesturhúsum

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 10. ágúst 2007 kl. 09:07 eftir Daniel (spjall | framlög) Útgáfa frá 10. ágúst 2007 kl. 09:07 eftir Daniel (spjall | framlög)
Fara í flakk Fara í leit

(Magnús Guðmundsson, bóndi og formaður á Vesturhúsum, skrifaði eitt sinn brot úr minningum sínum frá bernsku- og æskuárunum á Vesturhúsum, og svo minningar frá sjómennsku sinni og sjósókn, athöfnum á sjó og landi. Magnús Guðmundsson var einn af hinum þróttmiklu forustumönnum í sveitarfélaginu og atorkusömu á tímum nýbreytni og framfara, - tímum byltingar í atvinnumálum, hugsunarhætti og framtaki til aukinnar verkmenningar og betri afkomu, vaxandi fræðslustarfs og mennilegri aðbúnaði með Eyja búum í heild. Þessir kaflar úr sögu hans eru jafnframt kaflar úr sögu byggðarlagsins, svo langt sem þeir ná. Þess vegna eru þeir öðrum þræði birtir hér, endurprentaðir hér, en þeir birtust fyrst í blaðinu Víði á árunum 1933 og 1934. Ég hef skipt þessum skrifum Magnúsar Guðmundssonar í kafla og sett þeim fyrirsagnir. - Þ. Þ. V.)

Snemma beygist krókurinn

Ein hin fyrstu mynni mín frá bernskudögunum eru þau, að ég átti nokkuð margar öðuskeljar. Voru það vertíðarbátar mínir og hétu þekktum skipsnöfnum hér: Gideon, Auróra, Friður, Enok og yfirleitt öllum þeim nöfnum skipa, er í þá daga gengu til fiskjar hér á vertíðinni.

Þessa farkosti mína gerði ég löngum út á einhverjum polli eða bala. Þannig lék ég „stóru mennina“, sérstaklega formennina, sem ég leit upp til og bar mikla lotningu fyrir.

Ég hafði haft opin eyrun fyrir mörgum afreksverkum slíkra manna, bæði þeirra, er þá lifðu, og eins hinna, er dánir voru. Ég hafði heyrt sögur af snilldarstjórn, ráðsnilld og ratvísi þeirra, þegar ýmsar hættur steðjuðu að og veður voru válynd.

Þegar hagstæð voru veður og öll vertíðarskip á sjó, mátti ég helzt ekki vera að því að borða, því að allur hugur minn var úti á sjó hjá þessum vertíðarskipum. Sérstaklega var gaman að sjá þau koma í einum flota siglandi í austanvindi „undan Sandi“. Og við strákarnir hrópuðum svo hátt, sem við gátum, hver til annars, að þarna kæmi Gideon, - þarna Friður, eða þá eitthvert annað skip, - og „hlypi langt fram úr hinum“. Aðrir sögðu, að Aurora og Enok „hlypu“ mest o.s. frv. Annars var það skipið, sem faðir hvers og eins okkar strákanna var á, mesta uppáhaldsskipið. Þegar skip það, sem faðir minn réri á, kom að, fékk ég að færa honum kaffi. Það var kallað í mæltu máli, að „fara í Sandinn“. Ég hlakkaði til þess allan daginn, því að „niður í Sandi“ var margt skemmtilegt að sjá, t. d. þegar sjómennirnir voru að seila fiskinn úr skipunum. Stundum unnu 12 sjómenn við að seila úr einu skipi. En hvað þeir óðu djúpt við skipin, alveg upp í mitti! Og svo, hvernig þeir bökuðu skipin við setningu ! Sjá allt kvenfólkið um allar klappir og stíga við að draga fiskinn „úr Sandi“ upp að króm. Hver þeirra dró tvo fiska í hvorri hendi á þar til gerðum krókum. - Já, þarna var líf og fjör og gaman að vera, - já, ólíkt skemmtilegra en að vera heima undir strangri stjórn, - stundum „fyrir rétti“, þegar eitthvað var að hafzt, sem eldra fólkinu líkaði ekki.

„Gengið með skipum“

Svo kemur að því, að þessum þróttmikla unglingi halda engin heimilisbönd. Hann sækir ákaft sjóinn. Á 13. árinu fær hann leyfi foreldra sinna til að snuðra eftir skiprúmi með færisstúfinn sinn á svalkaldri vetrarvertíðinni. Skinnklæðin fóru honum illa, því að þau voru alltof stór. Hver lagði í það að sauma hæfilega stór skinnklæði á ungling? Það var alltof mikil vinna, því að þau entust svo stutt vegna þess að unglingurinn óx brátt upp úr þeim. Þannig varð það verk að nokkru unnið fyrir gýg. Þess vegna varð hann að notast við skinnklæði af fullvöxnum sjómanni. En hvað um það? Unglingurinn fann vissulega til sín, þegar hann gekk til skips eins og fullgildur háseti, þó að hann væri aðeins hálfdrættingur, fengi aðeins helming þess, sem hann dró á færismyndina, og sakkan var aðeins af hálfri stærð og þyngd við þær, sem hinir fullgildu notuðu.

Þannig liðu árin til vertíðarinnar 1884. Þá var ég kominn á 13. árið og var látinn „ganga með skipum“ - þ. e.: biðja þennan eða hinn að lofa mér að róa. Þessa vertíð fór ég 17 sinnum á sjó og fékk í hálfdrættið 86 þorska og 18 ýsur.

Fyrsti fiskurinn, sem ég dró, var stór þorskur. Hann var kallaður „maríufiskur“, og var hann víst alltaf gefinn einhverjum bágstöddum. Þennan fisk minn var ég látinn gefa aldraðri einsetukonu. Bað hún guð að vera með mér og sagðist vona, að ég yrði gæfumaður á sjónum.

Einn morgun þessa vertíð bað ég alla þá formenn, er ég náði til, að lofa mér að róa, en enginn kvaðst geta það. Rö1ti ég þá heim grátandi og hét því, að aldrei skyldi ég láta grátandi drengi fara frá mér, þegar ég sjálfur væri orðinn formaður.

Víst fannst mér það, að ég yrði formaður, enda þótt ég væri svo ónýtur, að ég gæti ekki hjálparlaust innbyrt þorsk. Það gerði venjulega sá, sem renndi færi næst mér. Þessa vertíð (1884) réri ég einu sinni sem oftar hjá Hannesi Jónssyni á Gídeon. Þá réri með Hannesi Árni Diðriksson í Stakkagerði, sem áður var formaður á skipi þessu. Við vorum „undir Sandi“. Þá hvessti snögglega á austan svo að siglt var heim. Á Leiðinni (innsiglingunni) hreppti skipið grunnsjó, og „hljóp“ það geipihratt í sjónum. Við Árni Diðriksson vorum aftur í skut. Mér þótti þessi sigling skemmtileg, en bar ekki skyn á lífshættuna, ef eitthvað hefði út af borið, t. d. stjórnin á skipinu farið illa úr hendi. Þegar sjórinn var 1iðinn hjá, hrópa ég upp og segi: „Ó, hvað þetta var gaman!“

Þá sagði Árni Diðriksson: „Þú verður einhvern tíma nógu vitlaus“. Hann sagði þetta þannig, að ég gleymi því aldrei.

Strákar saman á sjó

Fjórrónir bátar í Eyjum voru kallaðir jul. Það orð mun samstofna með danska orðið jolle og afbökun úr því. Hér mun gæta áhrifa frá máli skipshafna á dönsku verzlunarskipunum frá tíma einokunartímabilsins.
Unglingarnir Magnús á Vesturhúsum og Vigfús Jónsson frá Túni (síðar búandi að Holti við Ásaveg) réru saman til fiskjar sumarið 1884. Báðir þá innan við fermingu.

Sumarið eftir þessa vertíð fór ég svo að róa á hinum svo nefndu julum. Helzt var það með strákum á mínu reki. Við grófum upp fjörumaðk, fórum í skeljafjöru eða höfðum fuglainnyfli, fuglaslóg, í beitu. Oft fiskuðum við allvel, - helzt smáfisk og keilu. Stundum fengum við lúðu í svo þungan drátt, að ég varð fljótlega að biðja Vigfús að hjálpa mér.

Um haustið þetta sama ár rérum við Vigfús á Hóls-julinu og rérum helzt út á víkina suðaustur af Klettsnefi. Þar fiskaðist oft mikið af lúðu, sérstaklega á haustin. Vigfús andæfði, en ég var undir færi. Einn daginn höfðum við fengið 8 lúður og nokkrar þeirra um og yfir 100 pund (50 kg), en aðrar voru smáar. Vigfús dró undir íburð, en ég bar í. En þá kom 9. lúðan á öngulinn. Þegar ég vildi bera í hana, steyptist ég á höfuðið í sjóinn. Mér skaut fljótlega upp, og náði ég í bátinn. Lúðan var enn föst á færinu. Þegar Vigfús sér mig hanga á bátnum, segir hann: „Á ég ekki að bjarga lúðunni fyrst inn bátinn?“

Ég hafði heyrt margar sögur um það, að í sjónum væru margskonar ófreskjur, þar á meðal hákarlar og hvalir, sem væru hinar verstu mannætur. Og mér fanst þá, að eitthvað af þessu illþýði hlyti að vera rétt að mér til þess að gleypa mig. Þess vegna bað ég Vigfús að meta mig meir en lúðuna og innbyrgða mig fyrst. Á meðan hann var að hjálpa mér inn í bátinn, fór lúðan af færinu.

Eftir þessa sjóferð munum við Vigfús ekki hafa farið á sjó tveir saman um lengri tíma.


Aftur gengið með skipum
Stráksskapur á sjó

Vertíðina næstu, 1885, gekk ég enn með skipum. Fór ég þá 18 róðra og fékk samtals 69 fiska. Þetta sama ár réri ég 52 róðra utan vertíðarinnar.

Fyrst fram eftir sumri rérum við saman fjórir strákar á bát þeim, er áður er frá sagt og kallaður var Hóls-julið. Þann bát átti Gísli kaupmaður Stefánsson á Hóli. Ágúst sonur hans var formaðurinn. Hann var víst tveim árum yngri en ég, en bráðþroska eftir aldri. Ágúst var hinn mesti fjörkálfur og þó hinn bezti drengur.

Eitt sinn rérum við snemma morguns og fórum vestur fyrir Faxasker. Vorum við þar um fallaskiptin og komumst á allgóðan fisk. Engan bát sáum við þar á sjó, þar til bátur kemur róandi austur í Faxasundi. Hann stefndi rétt fyrir sunnan okkur. Þegar hann nálgast, þekkjum við þar Sigurð Ólafsson í Litlakoti. Þeir voru fjórir á og réru á skyrtunni, því að logn var og hiti mikill.

Allt í einu urðum við gripnir þeirri þrá að fara í sjóslag. Tókum við þá upp á því að krækja dauðum fiskum á önglana og renna þeim síðan ofan í sjóinn. Þóttumst við draga þannig nógan fisk. Jafnframt klæddum við okkur í sjóstakkana og bjuggum okkur að öðru leyti undir bardagann. - Þetta bragð okkar hreif, svo að þeir komu alveg til okkar.

Þegar þeir uppgötvuðu, að við vorum að narra þá, ávítuðu þeir okkur harðlega og sögðu, að við ættum ekki að haga okkur þannig á sjó. Við kváðumst eiga erindi við þá. Í þeim töluðu orðum gripum við austurtrog og fötu og jusum yfir þá. Þetta kom þeim svo á óvart, að þeim féllust alveg hendur, þar til þeir gripu til ára og lögðu á flótta. En þá voru þeir allir orðnir holdvotir. Auðvitað kærðu þeir okkur fyrir feðrum okkar, en Gísli Stefánsson kom víst sættum á við Sigurð nágranna sinn og háseta hans.

Nokkru eftir þetta rérum við með fjörumaðk í beitu og fórum „Undir Hamarinn“. Við fengum í hálfan bátinn, mest smáfisk. Þegar leið á daginn, gerði austanvind, sem fór heldur vaxandi, svo að við hrepptum barning austur að Eiði.

Og áfram var barizt á árunum alla leið austur fyrir Klettinn. Þá var seglbúið og siglt inn Víkina. Við höfðum til þess hlakkað að fá kvikuna á eftir inn að Læk.

Við komum okkur saman um að taka tvo stærstu fiskana og kaupa okkur sælgæti fyrir þá. Annars var það regla okkar að taka alltaf stærsta fiskinn úr hverjum róðri til þeirra hluta.

Eitt sinn sem oftar rérum við Vigfús Jónsson saman. Ætlun okkar var að veiða smálúðu, sem þá fékkst allmikið af sunnan við Sæfellsklakk.

Við rérum á minnsta bátnum, sem hér var þá til, og var það alltaf kallað „Hólsjulið“. Ræðin á julinu voru negld með þrem stórum trénöglum í gegnum hástokkinn. Hausinn á nöglum þessum var langur, stóð eina 2-3 þumlunga upp fyrir keipstokkinn.

Við komumst á sömu mið og stærri bátarnir og drógum fáeinar litlar sprökur.

Eftir að hafa dvalizt þarna um skeið, tókum við að róa heim á leið. Áður en inn var róið, renndi ég færi austur af Yztakletti. Nokkru eftir að ég hafði tekið grunnmálið, komst ég í svo þungan drátt, að ég varð fljótlega að fá Vigfús til að hjálpa mér við dráttinn. Aftur og aftur reif skepnan færið út úr höndunum á okkur. Loks fór hún að sefast og lá á færinu eins og klettur. Þetta reyndist vera geysistór lúða. Við höfðum ífæru og tvöfalt kaðalband í henni og lykkjan efst.

Ég set ífæruna í lúðuna strax og hún kom að borðinu. Hún tók skarpt viðbragð og reif strax af mér ífæruna. Um leið festist lykkjan á ífærutóginu á einum af nöglunum, sem áður getur. Þarna hangir lúðan við borðstokkinn og eys yfir okkur sjónum. Jafnframt setur hún hina litlu fleytu okkar á hliðina, svo að sjórinn hellist inn í hana. Skriðum við þá í sinn hvorn enda af bátnum alveg yfirkomnir af hræðslu. - Allt í einu sé ég, að lúðan er farin og báturinn marar nær tóftufullur af sjó.

Við vorum æðistund að jafna okkur. Svo jusum við bátinn og héldum til lands. Við hétum hvor öðrum að segja engum frá þessu lúðuævintýri, því að þá fengjum við aldrei að róa saman framar.

Um haustið rérum við Vigfús á Hóls-julinu og fórum út á Víkina út að Klettsnefinu. Þá veiddist oft mikið af lúðu á færi, sérstaklega á haustin. Vigfús andæfði en ég var undir færi. Einn daginn fengum við 8 lúður og sumar þeirra um og yfir 100 pund, en aðrar voru smáar.

Vigfús dróg undir íburð en ég bar í.

Þá kom 9. lúðan á færið. Þegar ég ætlaði að bera í þessa lúðu, steyptist ég á höfuðið í sjóinn. Mér skaut fljótlega upp, og náði ég mér þá strax í borðstokkinn. Þegar Vigfús sér hanga á bátnum, segir hann: „Á ég ekki að ná lúðunni fyrst inn?“ Ég hafði heyrt margar sögur um það, að í sjónum væru margkonar ófreskjur, þar á meðal hákarlar og hvalir, sem sæktust eftir mannakjöti. Ég bað því Vigfús að meta mig meir en lúðuna.

Þegar hann hafði lokið við að tosa mér inn fyrir borðstokkinn, var lúðan farin af færinu. Eftir þessa sjóferð munum við Vigfús ekki hafa farið á sjó saman um lengri tíma.