Orðaforði og málvenjur
Algengt var að eldri Vestmannaeyingar töluðu með flámæli, en það er óalgengara meðal yngri kynslóðanna og er flámæli nú nær óþekkt. Á einangruðum stöðum eins og Vestmannaeyjum má búast við að nokkuð sértækur orðaforði verði til. Nokkur dæmi um slík orð eru:
- útsuður - suðvestur, í átt að eyjunum sem eru þar, Suðurey, Brandi , og fleiri.
- landsuður - merkir á sama hátt suðaustur.
- landnorður - norðaustur, í átt að meginlandi Íslands. Í landnorðri eru Elliðaey og Bjarnarey, því að oftast er miðað við Heimaey í þessum áttalýsingum.
- útnorður - merkir á sama hátt norðvestur.
- Áður fyrr var algengt að Eyjamenn töluðu um að hann væri að ganga í lannering sem er afbökun á „landnyrðing“ norðaustanátt. Á sama hátt var talað um útsyning sem er afbökun á „útsynning“ suðvestanátt.
- Þessi heiti á áttum og vindáttum eru reyndar vel þekkt um nær allt land og eru ævagömul. Landnámsmenn tóku þessar áttakenningar með sér frá Noregi þar sem þær voru bundnar við staðhætti á vesturströndinni og áttu þær því misjafnlega vel við hér á landi. Í Vestmannaeyjum falla þær einkar vel að staðháttum og hafa því lifað hér góðu lífi, allt fram á okkar daga en þessi áttaheiti eru minna notuð annars staðar á landinu.
- peyi - ungur strákur. Einnig hefur orðið polli skotið upp kollinum á seinni árum, líklega fyrir áhrif ofan af fastalandinu.
- pæja - ung stúlka. Samanber Pæjumótið í fótbolta. Þetta orð er þó mun yngra í málfari Eyjamanna en peyi og áður fyrr var ævinlega talað um stelpur..
- lagga - lögga. Sérstök mynd af orðinu, og á meðal barna er frasinn „lagga tagga táfýla“ oft notaður.
- tríkot - íþróttagalli. Orðið er komið af frá því ÍBV pantaði íþróttagalla erlendis frá rétt eftir miðja síðustu öld, en allir gallarnir sem komu voru merktir framleiðanda þeirra - Tricot. Frá þeim tíma hafa íþróttagallar af öllum toga hlotið þetta heiti.
- gæjalegt - tiltölulega nýtt orð í orðaforða Eyjamanna en þar sem aðrir landsmenn nota orðið, eðli þess samkvæmt, yfir karlkynið, gera Eyjamenn engan greinarmun á kynjum og tala gjarnan um að stúlka, sem þeim þykir álitleg, sé gæjaleg.