Mynd:311g.jpg

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 13. janúar 2007 kl. 01:18 eftir Frosti (spjall | framlög) Útgáfa frá 13. janúar 2007 kl. 01:18 eftir Frosti (spjall | framlög) (Lækurinn == Athafnasvæði Vestmannaeyinga í þúsund ár == Nafnið er dregið af því, að þarna seytluðu eilitlar lækjarsprænur fram undan hraunbrúninni norðan við Strandveginn við fjarandi sjó, - sjór, sem flætt hafði inn í holt )
(breyting) ←Fyrri útgáfa | Nýjasta útgáfa (breyting) | Næsta útgáfa→ (breyting)
Fara í flakk Fara í leit

311g.jpg(400 × 260 mynddílar, skráarstærð: 43 KB, MIME-gerð: image/jpeg)

Lækurinn

Athafnasvæði Vestmannaeyinga í þúsund ár

Nafnið er dregið af því, að þarna seytluðu eilitlar lækjarsprænur fram undan hraunbrúninni norðan við Strandveginn við fjarandi sjó, - sjór, sem flætt hafði inn í holt hraunið Til vinstri á myndinni sér á Stokkhellu. Á henni byggði sýslufélagið "Gömlu bæjarbryggjuna" í áföngum 1907 og 1911.


Til vinstri á myndinni sér á Stokkhellu. Á henni byggði sýslufélagið "Gömlu bæjarbryggjuna" í áföngum 1907 og 1911. Til hægri blasir Nausthamarinn við með græna gróðurtorfu á toppi. Henni hélt hann um aldir þrátt fyrir ásókn sjávarstorma og sævarkólgu. Við Nausthamarinn vestanverðan og fast við hann byggði Gísli J. Johnsen fyrsta vísi að bryggju sinni sumarið 1907.


Hrófin - skipanaustin - voru þarna efst við Strandveginn ofan við lækjarseytlurnar. Þangað var skipunum ráðið til hlunns að enuðum hverjum róðri. Annað var ekki öruggt, því að brotstjóir gengu inn á höfnina í austan og suðaustan veðrum, meðan engir voru hafnargarðarnir. Hér er athafnasvæðið sýnt, áður en mannshöndin kom til með nokkrar hafnarbætur eða framkvæmdir í þá átt. Þó er rétt að geta þess, að Godthaabsverslunin - Miðbúðin, - lét byggja bryggjuna í Læknum á næst seinasta áratug síðustu aldar. Það var trébryggja, en burðartréin eða bryggjubálkarnir lágu á ferhyrndum grjóthleðslum. Bryggjan lá norð-vestur í stefnu á Stokkhellu. Þegar Gísli J. Johnsen keypti leifar Miðbúðarinnar 1901, eignaðist hann þessa bryggju og notaði hana a.m.k. til ársins 1910.


Áraskip

Þessi áraskip sjást á myndinni: Tvö áraskipin koma að landi. Skipið, sem á undan fer, er áttæringurinn Ísak, blár í sjó en hvítur að ofan með rauðu borði. Skipshöfnin er 18 menn. Formaður er Þorsteinn Jónsson frá Hrauni í Eyjum, síðar kunnur útgerðarmaður og skipstjóri í Laufási. Hann var formaður á Ísak fyrstu fimm vertíðir aldarinnar. Síðara skipið, skipið til hægri er teinæringurinn Skrauti, svartur með hvíta rönd, skipshöfnin er 20 menn. Formaður er Sigurður Sigurðsson Ffrá Frydendal (Vershúsinu í Eyjum). Austan við Stokkhelluna utanverða liggja þrjú áraskip. Þar er áttæringurinn Farsæll, grænn í sjó, svartur að ofan með tvær hvítar rendur. Formaður á áttæring þessum er Kristján Ingimundarson í Knöpp. Verið er að seila aflann úr skipinu og bera úr því farviði (siglutré og árar) í land til þess að létta skipið fyrir setning. Í námunda við Farsæl er áttæringurinn Mýrdælingur, svartur með hvíta og svarta reiti á næst efsta borði. Það var kallað "kanonport". Formaður á Mýrdæling var þá Guðlaugur bóndi Vigfússon á Vilborgarstöðum. Þá er þarna þriðja áraskipið og snýr framstafni í suður. Þetta skip er áttæringurinn Blíða, græn í sjó en hvít að ofan með svarta rönd. Formaður á Blíðu er Stefán Gíslason í Hlíðarhúsi. Fyrir framan Blíðu og næst okkur er teinæringurinn Áróra, stærsta áraskipið í verstöðinni. Skipshöfnin er að rétta skipið við og búa það undir setning. Við teljum þófturnar í teinæringi þessum. Formaður á Áróru er Sigfús Árnason organisti og póstafgreiðslumaður á Löndum. Skipin í Hrófunum eru þessi talin frá vinstri: Áttæringurinn Gideon, svartur með hvítu borði. Verið er að setja skipið upp í Hrófin. Nokkru austar í Hrófunumn er ættæringurinn Friður, svartur með hvíta hástokka og skvettlista. Formaður á Frið er Gísli Lárusson, bóndi, útgerðarmaður og gullsmiður í Stakkagerði. Austan við Frið stendur áttæringurinn Ingólfur, rauður í sjó, hvítur að ofan með rauðu borði. Formaður á Ingólfi er Magnús Guðmundsson bóndi á Vesturhúsum.


Máluð hver með sínum lit

Öll skipin í verstöðinni eru máluð þannig, að eitthvað ber á milli um lit eða einkenni, svo að þau þekkist af bæjunum á austanverðri Heimaey, er þau koma að landi. Þannig fá aðgerðarkonurnar vitneskju um það, að skipið með aflann, sem þær gera að, er komið að. Þá er ekki til setu boðið fyrir þær. Þær tigja sig til starfans og "ganga í sandinn", eins og það hét á Eyjamáli.


Fiskurinn seilaður

Allur fiskur var seilaður við skipshlið sökum útgrynnis eða örfiris í Læknum. Á hverri seil voru 50-70 fiskar. Síðan voru seilurnar dregnar að landi og aflanum skipt eftir föstum reglum milli skipshafnarmanna og skipsins (skipshlutir). Alls var skipt í 20-22 hluti eftir stærð skipsins.


Konurnar vinna

Konurnar, sem "gengu í sandinn" til þess að gera að fiskinum, voru ýmist vinnukonur bændanna, sem jafnframt voru útgerðarmenn oft og tíðum og fengu þá skipshlutina, eða eiginkonur tómthúsmannanna, en flestir hásetarnir voru úr tómthúsmannastéttinni og bjuggu í kofum niður við höfnina, -hafnarvogin. Aðgerðarkonurnar gerðu að hlutum sjómannanna, hvers fyrir sig og svo skipshlutunum, ef þær voru vinnukonur á heimilum skipseigendanna. Aðgerðarkonurnar "drógu fiskinn úr sandi" með þar til gerðum krókum, fiskdráttarkrókum, og voru tveir fiskar dregnir í hvorri hendi frá skiptistað upp fyrir (suður fyrir) Strandaveginn, þar sem þær gerðu að aflanum úti á öllum tímum árs, hvernig sem viðraði. Þegar búið var að fletja fiskinn og þvo hann, var hann saltaður inni í króarholu, - kofa, sem byggður var úr torfi og grjóti. Aðgerðarkrær þessar stóðu í röðum sunnan við Strandveginn.


Á myndinni er að öðru leyti þetta að sjá: Tvær konur klæddar strigasvuntu með prjónahyrnu á herðum og ullarklút (skýluklút) um höfuðið "draga fisk úr sandi" upp fyrir Strandveg til aðgerðar. Aðgerðarkona ber sjó í tveimur fötum upp fyrir Strandveg til þess að þvo fiskinn úr. Kona færi bónda sínum kaffi á blikkbrúsa til þess að hressa hann, nýkominn af sjónum. Verið er að skipta afla á einni sjávarklöppinni. Seilaður fiskur flýtur við borð tveggja skipa. Fjórir hásetar koma vaðandi í land með farviði (siglutré og árar) á öxlum sér til þess að létta skipið og búa það undir setning. Tveir sjómenn bera bjóð undir hendinni, en lína var tekin í notkun hér í Eyjum 10. apríl 1897. Þá var hún beitt í svokölluð bjóð, trékassa með sérstöku lagi (Sjá bjóð á Byggðarsafninu). Háseti ber saltpoka á baki sér austan úr Austurbúð. Það er saltið í hlutinn hans þann daginn. Svo smátt er þetta allt í sniðum og framkvæmd. Maður ber burðarskrínu á baki til vörukaupa austur í Austurbúð (Garðsverslun, hina gömlu einokunarverslun). Hundur eltir húsbónda sinn. Á grasflötunum næst okkur á myndinni voru farviðir skipanna lagðir og geymdir milli róðra. Þar skyldu toppar siglutrjánna og svo hlunnar áranna vita í áttina að skipinu, sem þeir voru af, svo að vissu trúaratriði væri fullnægt. Annars var ekki rétt að þessu staðið og hart tekið á því, ef það starf var kæruleysislega af hendi innt eða brugðið út af vana þeim. Skerið til vinstri á myndinni er Ytra-Básaskerið. Á því var öðrum þræði byggður haus Básaskerbryggjunnar, hins mikla mannvirkis, á árunum 1927-1936. Austan við Nausthamarinn, upp með honum að vestanverðu, var sérstakt uppsátur, sem landmenn fengu oft not af, er þeir lágu við fiskveiða á vertíðum í Eyjum. Þetta uppsátur var kallað Fúla.

Málarinn

Kristinn Ástgeirsson frá Litlabæ í Eyjum.


Heimildir

Breytingaskrá skjals

Smelltu á dagsetningu eða tímasetningu til að sjá hvernig hún leit þá út.

Dagsetning/TímiSmámyndVíddirNotandiAthugasemd
núverandi13. janúar 2007 kl. 01:18Smámynd útgáfunnar frá 13. janúar 2007, kl. 01:18400 × 260 (43 KB)Frosti (spjall | framlög)Lækurinn == Athafnasvæði Vestmannaeyinga í þúsund ár == Nafnið er dregið af því, að þarna seytluðu eilitlar lækjarsprænur fram undan hraunbrúninni norðan við Strandveginn við fjarandi sjó, - sjór, sem flætt hafði inn í holt