Lundalús
Lundalús er eitt af því sem angrar marga lundaveiðimenn. Lundalúsin er áttfætt blóðsuga af mauraætt og líklegast liggur hún í dvala yfir sumarið. Þegar lúsin er orðinn full af blóði þá getur hún orðið allt að sjö til átta millimetra á lengd og er hún þá kölluð „álkulús“. Sumir staðir eru þó lússæknari en aðrir til dæmis Lúsafles í Álsey, Neðsta-Bring sunnan í Bjarnarey, og Hrygg, veiðistað upp af Syðri-Hafnarbrekku í Bjarnarey. Lundalúsin leggst mest þó á eldri lunda en sjaldséð er að lúsin leggist á pysjur.
Húsráð Gegn lundalúsinni
Lúsin er mjög lævís og hún deyfir um leið og hún stingur fórnarlambið. Joð og spritt virka best gegn henni með því að bera það á svæðið þar sem hún hefur fest sig við og deyr hún fljótlega. Ekki er æskilegt að slíta hana af ef hún hefur fest sig, þar sem að þá getur komið sýking í sárið mjög auðveldlega.
Heimildir
- Hlöðver Johnsen. 1986. Bergið klifið. Minningar veiðimanns. Almenna Bókafélagið 1986. ISBN 00001194409