Sögur og sagnir úr Vestmannaeyjum/Örnefni (JGÓ II.)

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 25. október 2023 kl. 20:08 eftir Frosti (spjall | framlög) Útgáfa frá 25. október 2023 kl. 20:08 eftir Frosti (spjall | framlög)
(breyting) ←Fyrri útgáfa | Nýjasta útgáfa (breyting) | Næsta útgáfa→ (breyting)
Fara í flakk Fara í leit


Örnefni.


Árnasteinn. Skammt fyrir neðan Olnboga lá til skamms tíma sæbarinn blágrýtissteinn utan við veginn upp fyrir Hraun.
Steinn þessi hafði verið um þrjú hundruð pund að þyngd. Steinn þessi var þangað kominn með þeim hætti, að maður, sem hét Árni og bjó í Norðurgarði fyrir alllöngu, bar hann upp eftir neðan úr Skipasandi. Einhverju sinni þegar Árni kom af sjó var honum sagt, að kona hans hefði látizt meðan hann var í róðrinum. Þegar honum var sögð þessi sorgarfregn, var hann að skorða skip sitt með steininum, og var með hann í fanginu. Varð honum svo mikið um fregnina, að hann þaut þegar af stað heimleiðis, en hann gætti þess ekki fyrr en uppi undir Olnboga, að hann var með steininn í fanginu. Árni hafði verið heljarmenni að burðum. Var steinninn síðan við hann kenndur.


Hundraðmannahellir. Í Ofanleitishrauni norðanverðu, skammt eitt frá Herjólfsdal, er hellir, sem nefndur hefir verið Hundraðmannahellir. Er það í munnmælum í Vestmannaeyjum, að í helli þessum hafi falizt hundrað manns, þegar Tyrkir rændu þar árið 1627. Einn þeirra, sem leitað hafði fylgsnis í hellinum, hafði haft hund sinn með sér, og var hann að snuðra kringum hellismunnann, og hafði Tyrkjum þótt það grunsamlegt. Gjörðu þeir því leit þarna og fundu allt fólkið, og fluttu það á sölutorgin í Algeir.


Illugahellir og Illugaskip. Skammt vestur af Hvíld eru tveir hraunhólar. Í syðri hólnum er smáskúti, sem nefndur er Illugahellir. Nyrðri hóllinn er nefndur Illugaskip, og er hann ekki ólíkur skipi á hvolfi.
Sagt er, að einhvern tíma hafi maður, sem Illugi hét, búið í hellinum, og dragi hann nafn af því. Átti hann að hafa flutt skip sitt þangað og sé það nyrðri hraunahóllinn. Ekki er nú kunnugt, hvers vegna Illugi þessi lagðist þarna út.
Aðrir segja, að landvættur ein, er Illugi hét, hafi búið í hellinum, og sé Illugaskip steinnökkvi hennar.
Þá hafa verið uppi sagnir um það, að séra Illugi Jónsson, sem prestur var á Ofanleiti árin 1733—1745 hafi látið gjöra helli þenna til þess að menn gæti leitað þar hælis í óveðrum á leið sinni upp fyrir Hraun, en hellirinn er stuttan spöl vestan við veginn.


Hvítingar. Um langt skeið var þingstaður Vestmannaeyinga að Hvítingum, og var þar nefnt Hvítingaþing.
Dró þingstaðurinn nafn sitt af tveimur hvítleitum steinum, sem voru þar. Talið er, að staður þessi hafi verið nokkurn spöl í norðaustur frá Landakirkju, en nú sjást hans engar menjar, því að byggð er nú á þeim slóðum, og ekki hefir verið hirt um að varðveita staðinn.
Í munnmælum er sú sögn, að í Hvítingum væri öxi falin í jörðu, og mundi Eyjarnar verða rændar þegar hún fyndist. Enn hefir öxi þessi ekki komið í leitirnar, enda hafa Eyjarnar ekki verið rændar síðan Tyrkjaránin urðu árið 1627. Árið 1808 kom Gilpin að vísu í Vestmannaeyjar og tók nokkrar sauðkindur, en hann galt mönnum fullt verð fyrir þær, að því er Jón Espólín segir í Árbókum sínum.