Magnús Stefánsson (Örn Arnarson)

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 15. nóvember 2006 kl. 17:58 eftir Viglundur (spjall | framlög) Útgáfa frá 15. nóvember 2006 kl. 17:58 eftir Viglundur (spjall | framlög) (Eytt misræmi)
Fara í flakk Fara í leit

Magnús Stefánsson (Örn Arnarson) skáld fæddist 12. des. 1884 að Kverkártungu á Langanesströnd í N-Múlasýslu og lézt 25. júlí 1942 á St. Jósefs spítala í Hafnarfirði.

Foreldrar hans voru Stefán bóndi í Kverkártungu, f. 1832, drukknaði í Kverká 25. maí 1887, Árna á Hofi í Mjóafirði eystri 1816, bónda á Hjálmárströnd í Loðmundarfirði, f. 1799, Guðmundar bónda á Hofi, Guðmundssonar frá Stórabakka og konu Árna, Ragnheiðar, f. 1787 í Skorrastaðasókn í Norðfirði, Magnúsdóttur bónda á Bakka í Norðfirði, Björnssonar. Móðir Magnúsar og kona Stefáns var Ingveldur húsmóðir, f. 22. jan. 1850, d. 9. maí 1925, Sigurðar bónda, síðast á Svínafelli í Hjaltastaðaþinghá, f. 1797 í Kirkjubæjarsókn í S-Múl., Jónssonar og seinni konu hans Ragnhildar húsmóður, f. 1815 í Hofteigssókn, Gísladóttur. Stjúpfaðir hans var Þórarinn Árnason bóndi á Þorvaldsstöðum á Langanesströnd.

Eftir lát Stefáns föður síns fór Magnús með móður sinni í vinnumennsku að Þorvaldsstöðum í sveitinni og þar bjó hún með Þórarni bónda. Hann fékk skólagöngu á Þórshöfn hjá Guðmundi Hjaltasyni. Þarna eystra var Magnús fram yfir tvítugsaldur, stundaði kaupavinnu og sjómennsku. Fór hann þá til Akureyrar, þar sem honum hafði verið lofað skólavist, en var svikinn um hana, en var þó einn vetur í skóla á Grund í Eyjafirði. Hann settist svo í Flensborgarskóla í Hafnarfirði 1907-08, síðan var hann einn vetur í Kennaraskólanum og lauk prófi um vorið 1909.


Gerðist hann kennari í heimasveit sinni 1909-10. Fluttist hann þá til Reykjavíkur og síðan til Eyja og dvaldi þar 1911-18, stundaði skrifstofu- og verzlunarstörf, m.a. hjá Kaupfélaginu Herjólfi, en lengst var hann skrifari hjá Karli J. Einarssyni sýslumanni. Hann ferðaðist nokkuð um landið á þessum árum, var m.a. á Siglufirði.

Glímu og knattspyrnu stundaði hann af kappi, bæði í Eyjum og Hafnarfirði. Auk þess var hann mikill göngugarpur. Hann hafði mikinn áhuga á náttúruskoðun og jarðfræði. Átti hann gott steinasafn og safnaði jurtum seinni árin. Orðasöfnun stundaði hann af krafti og lét eftir sig mikinn fjölda orðaseðla með sjaldgæfum orðum og orðatiltækjum.

Frá Eyjum fluttist hann til Hafnarfjarðar og bjó þar síðan til æviloka. Í Hafnarfirði fékkst hann við verzlunarstörf, en stundaði einnig síldarvinnu á Norðurlandi, vegavinnu víða um sveitir og á Þingvöllum kringum Alþingishátíðina 1930. Hann fór víða um land og alltaf fótgangandi.

Ritstörf

Magnús var mjög dulur framan af ævi hvað snerti birtingu ljóða sinna eða jafnvel að hann stundaði ljóðagerð. Eitthvað mun hann hafa ort í skólablöð á fyrri árum, en fyrstu kvæði birti hann í Eimreiðinni 1920 undir dulnefninu Örn Arnarson. Loks 1924 kom út ljóðabókin Illgresi og var það aðallega fyrir atbeina Kristins Ólafssonar, þá verðandi bæjarstjóra í Eyjum. Auk þess birti hann kvæði í tímaritum og blöðum. Frá 1935 átti Magnús við veikindi að stríða, fékk hjartabilun og varð þaðan af lítt vinnufær. Árið 1936 fékk hann 1000 króna skáldastyrk og kom það sér vel í veikindum hans. Var styrkurinn veittur án umsóknar. Er talið, að þingmenn hafi fengið í hendur kvæðið um Stjána bláa og það ráðið úrslitum. Styrknum hélt hann síðan og var hann hækkaður í 1800 krónur 1940. Hann var svo skipaður bókavörður við hið endubætta bókasafn í Hafnarfirði 1938, en sá sér ekki fært að sinna því sökum veikinda. Fyrir tilstuðlan Sigurðar Nordals voru Oddsrímur sterka gefnar út 1938, en þær hafði Magnús ort 1932. Illgresi, ný útgáfa og aukin kom út 1942, eftir dauða hans, en hann hafði getað valið þau til birtingar. Þriðja útgáfa Illgresis kom út 1949.
Magnús kvæntist ekki og átti ekki börn.


Heimildir

  • Upphaflegu greinina skrifaði Víglundur Þór Þorsteinsson.
  • Bjarni Aðalbjarnarson: Magnús Stefánsson. Eftirmáli í Illgresi 3. útgáfu. Reykjavík: Byggingarsjóður Dvalarheimilis aldraðra sjómanna, 1949.
  • Kennaratal á Íslandi.
  • Páll Eggert Ólason: Íslenzkar æviskrár.