Suðurgarður
Húsið Suðurgarður er í byggðinni fyrir ofan hraun. Það var byggt árið 1925 af Jóni Guðmundssyni sem áður bjó í Svaðkoti. Suðurgarður stendur svo til á sama stað og Svaðkot stóð áður, örlítið vestar og útihúsin sem fylgja Suðurgarði eru á sama stað og þau voru þegar bærinn nefndist Svaðkot.
Búskapur hefur ekki verið stundaður í Suðurgarði frá því um og eftir miðja síðustu öld en síðast var þar hænsnabú. Útihúsin eru nýtt af tómstundabændum sem einnig nytja tún Suðurgarðs.
Sama fjölskyldan hefur búið í Suðurgarði frá því að húsið var byggt. Fyrst bjuggu þar Jón í Suðurgarði og Ingibjörg kona hans og börn þeirra en þau hjón fluttu til Eyja úr Landeyjum rétt eftir aldamótin 1900. Síðan bjó þar dóttir þeirra Margrét Marta Jónsdóttir og eiginmaður hennar Árni J. Johnsen og svo tóku við búi í Suðurgarði dóttir Margrétar, Anna Svala Johnsen og eiginmaður hennar Ólafur Þórðarson rafvirki. Í húsinu bjuggu árið 2005, sonur þeirra Árni Óli Ólafsson og kona hans Hanna Birna Jóhannsdóttir.