Jens Benediktssen

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 26. júlí 2021 kl. 19:54 eftir Viglundur (spjall | framlög) Útgáfa frá 26. júlí 2021 kl. 19:54 eftir Viglundur (spjall | framlög)
(breyting) ←Fyrri útgáfa | Nýjasta útgáfa (breyting) | Næsta útgáfa→ (breyting)
Fara í flakk Fara í leit

Jens Jakob Benediktssen kaupmaður og eigandi Garðsverzlunar.
Foreldrar hans voru Bogi stúdent, fræðimaður, bóndi og verzlunarstjóri, síðast á Staðarfelli á Fellsströnd í Dalasýslu, f. 24. sept 1771, d. 25. marz 1849, Benedikts stúdents og bónda, síðast að Staðarfelli, f. 1749, d. 1819, Bogasonar og konu Benedikts, Hildar húsfreyju, f. 1744, d. 1828, Magnúsdóttur. Móðir Jens Jakobs og kona Boga á Staðarfelli var Jarþrúður húsfreyja, f. 8. maí 1776, d. 13. marz 1858, Jóns prests í Holti í Önundarfirði, f. 1747, d. 1796, Sigurðssonar og konu Jóns prests, Solveigar húsfreyju, d. 1805, Ólafs lögsagnara á Eyri í Skutulsfirði, Jónssonar.

Jens stundaði verzlun frá unga aldri, en faðir hans var um skeið verzlunarstjóri, bæði á Bíldudal og í Stykkishólmi. Hann var kvæntur danskri konu og bjó í Kaupmannahöfn.
Þegar Gísli kaupmaður Símonarson dó frá eignum sínum í Garðinum, keypti Jens Jakob verzlunina af ekkju hans Guðrúnu Bjarnadóttur. Með í kaupunum voru tveir fiskibátar, Vestmannö og Merkurius, tvær fiskiskútur og enn eitt þilskip. Afsal var gefið út 15. febrúar 1838.
Jens Jakob hafði mörg skip í förum og gerði út. Átti hann einnig verzlun á Ísafirði og víðar. Kom hann á mörgum endurbótum við verzlunarreksturinn, lýsisvinnslu, lét reisa kornmyllu ofan á bakarahúsið í Garðinum sumarið 1842 með meira.
Hann naut ekki lengi lífs eftir þetta, en lézt í Eyjum, er hann var þar í heimsókn 14. júní 1842.
Bú hans var gert upp og var verzlunin seld á uppboði í Kaupmannahöfn. M. W. Stass stórkaupmaður var með hæsta boð og framseldi Niels Nicolaj Bryde boð sitt 9. marz 1844 og fékk hann afsal fyrir eigninni 6. júní 1844.


Heimildir


Þessi grein tilheyrir Æviskrám Eyjafólks eftir Víglund Þór Þorsteinsson.