Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 2003/ Franskir fiskimenn og togarar á Íslandsmiðum

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 31. júlí 2019 kl. 15:02 eftir Valli (spjall | framlög) Útgáfa frá 31. júlí 2019 kl. 15:02 eftir Valli (spjall | framlög)
Fara í flakk Fara í leit
Guðjón Ármann Eyjólfsson


Franskir fiskimenn og togarar á Íslandsmiðum


Ástandið á Íslandsmiðum upp úr aldamótunum 1900

Guðjón Ármann Eyjólfsson

Matthías Þórðarson frá Móum á Kjalarnesi var frá 1899 til 1908 eða í 10 sumur leiðsögumaður dönsku varðskipanna, sem störfuðu við sjómælingar, haf- og fiskirannsóknir og gæslu landhelginnar hér við land. Matthías var frá 1899 á skrúfuskonnortunni Diömi, síðan beitiskipunum Heklu og Geysi, og fallbyssubátunum Islands Falk og Beskytteren. Matthías ritaði stórfróðlegar og skemmtilegar æviminningar í tveim bindum, sem hann nefndi „Litið til baka“ og komu þær út í Kaupmannahöfn á árunum 1945 og 1947.
Matthías var faðir Ástþórs, sem var þekktur maður í Vestmannaeyjum á sínni tíð, forstjóri Fiskimjölsverksmiðjunnar, bæjarfulltrúi og forseti bæjarstjórnar frá 1934 - 1945, m.m. Ástþór var kvæntur Sigríði, dóttur Gísla J. Johnsen og bjuggu þau hjón að Sóla við Ásaveg.

Í 2. bindi æviminninganna segir Matthías m.a. frá fiskveiðum útlendinga og gæslustörfum dönsku herskipanna hér við land á fyrsta áratugi 20. aldar. Matthías var fyrsti ritstjóri tímaritsins Ægis og forgöngumaður að útgáfu blaðsins, en 1. tölublaðið kom út í júlí 1905. Undirtitill Ægis var „Mánaðarrit um fiskveiðar og farmennsku“. Frá þessum viðburðaríku árum er að finna mikinn fróðleik um sjávarútveg og siglingar í Ægi.

Franskir sjómenn, skútukarlar og togaramenn á Fáskrúðsfirði. Úti á firðinum liggja nokkrar skútur og einn togari
Matthías Þórðarson frá Móum
Franskur togari að taka inn trollið á Íslandsmiðum; fjœr er fiskiskonnorta undir fœrum. Frönsku togararnir sem sóttu á Íslandsmið voru stœrstu togararnir á miðunum, 42-45 rnetrar á lengd. Frá og með árinu 1909 stunduðu þeir veiðar við Ísland frá því í febrúar og fram í maí, en voru á Nýfundnalandsmiðum frá júní og fram í október. Eftir 1910, þegar frönsku togararnir gátu fengið kol og aðra þjónustu í Reykjavík, voru þeir samfleytt mánuðum saman á veiðum hér við land. Fyrir þann tíma komu seglskip, bœði til Seyðisfjarðar og Reykjavíkur, með kol og vistir og tóku umsaltaðan afla aftur til Frakklands. Áhöfnin var 35 til 40 manns og allur aflinn var saltaður um borð

Í 6. tölublaði Ægis í desember 1905 er t.d. skýrsla um störf beitiskipsins Heklu frá 1902 - 1905 og skrá yfir nöfn togara sem voru teknir í landhelgi sumarið 1905. Þar kemur fram að Hekla undir stjórn G. Schack skipherra tók samtals 24 togara (leiðr. í Sjómannadagsblaði Vestm. 2002, þar sem var talan 22) frá 28. mars til 2. nóvember, þar af voru 5 togarar teknir við Vestmannaeyjar, 8 við Portlandið og 5 við Ingólfshöfða, samtals 18 togarar á þessu litla svæði. Oft er skemmtilega tekið til orða í Ægi: „Botnvörpungaveiði „Heklu“ hefir verið misjöfn þessi ár, eða með öðrum orðum aldrei náð annari eins upphæð eins og í sumar. (þ.e. sumarið 1905). Árið 1902 voru hér við land teknir 5 botnvörpungar, 1903 8 botnv. 1904 8, að viðbættum þeim sem Beskytteren hefir tekið hvort ár fyrir sig.“ „Það voru Englendingar, sem oftast urðu fyrir barðinu á landgæzlunni. Aftur á móti voru Þjóðverjar manna löghlýðnastir og kom það mjög sjaldan fyrir, að þeir væru sektaðir fyrir landhelgisbrot.
Eins voru franskir togarar, sem voru mjög fáir við Ísland, sjaldan teknir fyrir landhelgisbrot, enda var það geysimikil áhætta fyrir þá að fiska í landhelgi. Franskir togarar voru hér um bil helmingi stærri en enskir togarar og voru oftast gjörðir út til 6-8 vikna tíma. Aflinn var mest þorskur, sem var saltaður í tunnur, eða þá í stafla í lestinni, svo farmurinn í lok útgerðartímans var jafnvel margfalt meira virði en þeirra togara, er lögðu aflann í ís. Áhættan við að fiska fyrir innan landhelgistakmörkin og fá veiðarfæri og afla gjört upptækt, auk hárrar sektar var því of mikil til þess, að skipstjórarnir leyfðu sér að sýna af sér svo mikla léttúð og óvarkárni. En þó kom þetta fyrir.“
Jafn glöggum og vitrum manni, sem Matthías Þórðarson var, rann mjög til rifja hvernig komið var á Íslandsmiðum í upphafi 20. aldar með aukinni vélvæðingu erlendra fiskiskipa og stórsókn þessa flota og stærstu fiskveiðiþjóða í Evrópu á fiskimiðin umhveifis Ísland eftir að botnvarpan og togararnir komu til sögu upp úr 1890. Um þetta skrifaði Matthías m.a.:
„Það sem særði rjéttlætiskend mína einna mest árin, sem jeg var með varðskipunum, voru aðfarir Englendinga í Faxaflóa og Norðmanna við aðrar strendur landsins. Enskir fiskimenn skófu botninn - öll beztu fiskimið í flóanum - og drápu í tugum þúsunda allskonar fiska og fleygðu útbyrðis, sem svo flutu um allan sjó. Aðeins þann ljúffengasta og verðmætasta fiskinn hyrtu þeir. Bátafiskimenn höfðu engan frið með veiðarfæri sín á þessum slóðum og urðu varla varir þó þeir reyndu.“
„Frá varðskipinu varð maður sjónarvottur að því árið um kring, að útlendar þjóðir fiskuðu meira og minna við strendur landins á því svæði, er þeir sjálfir viðurkendu að innlendir menn einir hefðu rjétt til að fiska.
Þessir útlendu aðkomumenn notuðu beztu hafnir landsins og firði til sóknar út á miðin við ströndina og til verkunar og umhleðslu á aflanum. Það voru einkum Norðmenn fyrir austan og norðan, en Frakkar við aðrar strendur landsins er þetta gjörðu. Þeir voru skatt- og tollfrjálsir að mestu. Landsmenn urðu að greiða skattana, af því litla sem þeir báru fá borði. Allt þetta fanst mjer órjettlátt.“

Fiskveiðar Frakka á tvímöstruðum fískiskonnortum

Fiskiskonnortur frá Dunkerque láta úr höfn á leið til Íslands
Fiskiskonnortan Dunkerquoise (Dúnkirkjustúlkan) undir færum á Íslandsmiðum
Franskur sjómaður jarðsettur í kirkjugarði Landakirkju (sennil. 1912 - 15)

Fiskveiðar Frakka á Íslandsmiðum hafa fyrst og fremst verið tengdar fiskiskonnortunum og veiðum frá þremur borgum og bæjum í Frakklandi: Dunkerque, Gravelines og Pompól (Paimpol). Dunkerque (75.000 íbúar) er borg við Norðursjóinn, en Gravelines smábær þar skammt frá, hvorutveggja í Flandri, sem er nyrst í Frakklandi við landamæri Belgíu. Pompól er lítill en vinalegur bær norðan til á Bretaníuskaga, syðst við Ermarsund, þar hafa um aldir búið Bretónar, sem töluðu fyrr á tíð eingöngu bretónsku. Hér er notað heitið Pompól,sem var a.m.k. notað í Vestmannaeyjum og skipskex, sem nefnt var Pompólabrauð þótti hnossgæti.
Dúnkirkjumenn höfðu stundað veiðar við Ísland frá því stuttu eftir 1600. Alla nítjándu öld og langt fram á 20. öld var Dunkerque öflugasta fiskveiðiborg í Frakklandi og þaðan voru ætíð flestar skútur á Íslandsmiðum. Gravelinesbúar hófu veiðar við Ísland um 1830.
Flestar voru frönsku skúturnar árið 1886 eða 347 með um 6.100 sjómenn um borð. Árið 1880 voru 96 skútur frá Dunkerque á veiðum við Ísland með 1912 menn um borð. Dúnkirkjumenn söltuðu aflann í tunnur og árið 1880 var heildaraflinn 48.840 tunnur af saltfiski eða um 70.000 tonn, en hver tunna tók 142 kg. (eftir 1862) og var sóst eftir að veiða sem stærstan fisk til að setja í tunnurnar. Bretónar frá Pompól hófu íslandsveiðar árið 1852 og stunduðu veiðarnar fram til 1935, þegar síðasta skútan, Glycine, var á íslandsmiðum. Með fiskveiðunum við ísland hófst gósentími í Pompól, sem menn minnast enn í dag. í Pompól bjuggu, þegar flest var, nærri 3.000 manns eða 2.873 árið 1911, en Pompól og skútusjómenn á Íslandsmiðum, íslendingarnir (Islandais) eins og þeir voru kallaðir, bæði á Bretaníuskaga og norður í Flandri, urðu frægir og ódauðlegir af skáldsögunni Íslands-fiskimaðurinn (Pécheur d'Islande) eftir Pierre Loti sem kom út í Frakklandi árið 1886.
Frá Pompól voru skúturnar flestar árið 1886 eða 54. Árið 1906 voru 180 skúturá íslandsmiðum með 3.868 menn um borð. Skipin voru á fyrstu árum Íslandsveiðanna um 100 tonn að stærð, en eftir 1870 á bilinu 120 til 140 tonn. Skútumar voru um og yfir 30 metrar á lengd,, 6 til 7 metra breiðar; ristu fullhlaðnar 3,7 til 4,5 metra og voru sérstaklega liprar og léttar á báru. Rúlluseglið á framsiglunni, sem nefnist fokkumastur, var ofan við fokkuna og skonnortuseglið og auðveldaði að snúa og venda skipunum. Áhöfnin var 23 til 26 menn og á flestum skipum var léttadrengur, 12 - 14 ára gamall, og stundum voru þeir tveir, oft í skjóli föður síns. Aflinn á hvert skip var sextíu til sjötíu þúsund þorskar. Pompólar söltuðu fiskinn holt og bolt og jafnóðum í stæður í lestinni. Ef skyndilega skall á stormur fundu menn fljótt að skipum frá Dunkerque var hættara við að hvolfa, en skipum frá Pompól, vegna þess að þau voru alltaf með mikinn afla á þilfari meðan verið var að salta aflann í tunnurnar og þyngdarpunktur skipsins því ofarlega og stöðugleikinn rýr.

Tíð slys

Siglingaleiðin frá Dunkerque og Flandri til Íslands
Franskur sjómaður kveður konu og börn áður en haldið er á Íslandsmið venjulega í 7 mánaða úthald. Allt of margir sneru aldrei aftur heim
Aflinn umsaltaður í tunnur inni á íslenskum firði. Þetta er um borð í skútu frá Dunkerque

Úthaldið á Íslandsmiðum stóð yfirleitt í sjö mánuði, frá miðjum febrúar eða byrjun mars, er skipin létu úr höfn í Frakklandi og fram í september, þegar þau komu tilbaka. Allan þennan tíma voru fréttir af skipunum stopular og fyrr á tíð litlar sem engar.
Slys voru tíð og í áhlaupaveðrum urðu iðulega stórslys fleiri skipa. Hinn 6. mars árið 1873 skall t.d. skyndilega á sunnan stormur með stórsjó sem stóð beint upp á landið hér við suður- og suðausturland. Þegar veðrið skall á voru tugir franskra skipa að veiðum út af Vestra- og Eystrahorni. Skipin náðu ekki að beita út á djúpið og hrakti 14 skútur á land. Með þeim fórust 79 manns, en bændur á Horni, Hvalsnesi og fleiri bæjum þar í grennd björguðu 30 sjómönnum. Í miklu norðaustan veðri í byrjun apríl árið 1905 fórust og hurfu sporlaust 5 skip í Eyrabakkabugt og með þeim 111 manns, þar af 74 frá Pompól.
Frá Pompól og þorpum þar í nánd á Bretaníuskaga fórust um 100 skip og með þeim nærri 2000 sjómenn á íslandsmiðum á þeim 83 árum, frá 1852 til 1935, sem Bretónar stunduðu fiskveiðar hér við land.
Á skipum frá Dunkerque voru sömu mannskaðarnir. Árið 1836 voru 96 skútur frá Dunkerque á íslandsmiðum og fórust 132 sjómenn á vertíðinni. Á árunum 1836 - 1839 fórust 28 skip frá Dunkerque og með þeim 407 sjómenn. Í aftakaveðri 28.apríl 1888 fórust 7 skonnortur frá Dunkerque og með þeim 165 menn. Frá 1880 til 1914 var 101 skipsskaði á skipum frá Dunkerque og með þeim fórust 582 sjómenn.
Erfitt er með vissu að segja til um orsakir þessara tíðu slysa á skipum frá Dunkerque. Að margra áliti var haldið of snemma vetrar á miðin og ástand sumra skipanna var bágborið; í lestunum vantaði langskips uppstillingu í allar skútur frá Dunkerque, þannig að farmurinn, bæði salt og tunnur, gat auðveldlega runnið til svo að skipin fengu slagsíðu. Þau gátu þar með orðið stjórnlaus og hvolfdi jafnvel, ef þau fengu á sig sjó eða snögga vindhviðu í seglin. Mikill þilfarsfarmur, sem fyrr er nefndur, gat einnig reynst hættulegur. Þá átti ómæld áfengisdrykkja sök á mörgum slysum. Á skipunum frá Flandri var ásamt vistum tekið mikið magn af sjenéver, ódýru en rótsterku brennivíni. Í hverja veiðiferð til Íslands og mannskapnum á þeim tíma gefinn daglegur skammtur af brennivíni á kostnað útgerðarinnar.
„Sterkt áfengi var alltaf álitið besta ráðið gegn hvers konar kvillum i hópi fiskimanna, sem drukku kvart lítra á dag (25 cl) , þó að skammturinn samkvæmt reglugerðinn væri aðeins 20 sentilítrar.“ segir Louis Lacroix í riti sínu um þorskveiðarnar við Ísland og Nýfundaland. Lengst af alla 19. öld var snöfsum úthlutað sex sinnum á dag, samtals 36 sentilítrum á dag. Yfirvöld reyndu að draga úr þessu og árið 1896 var skammturinn settur niður í 25 centílítra og ári síðar, árið 1897, niður í 20 sentilítra. Árið 1907 voru settar reglur um að minnka áfengisskammtinn niður í 5 centilítra á dag og þá aðeins í norðurhöfum, þegar hitinn færi niður fyrir 5 stig. Þetta var þó dauður bókstafur, sem enginn fór eftir, því miður.

Aðrir útgerðarbæir

Útgerðarbæir fiskveiðanna á Íslandsmiðum. Myndin er úr Fransí Biskví- Frönsku Íslandssjómennirnir eftir Elínu Pálmadóttur

Lítið hefur verið getið um sókn annarra útgerðarstaða í Frakklandi á Íslandsmið, en skipa frá Dunkerque,Gravelines og Paimpol. Auk þessara staða má nefna Dieppe og Fécamp í Normandí, en þó einkum Boulogne-sur-Mer við Ermarsund, skammt fyrir sunnan og vestan Dunkerque. Þessar borgir urðu á 20. öld þekktar fiskveiði- og togaraborgir úthafsveiðiflotans, sérstaklega Boulogne. Frá þessum borgum og einnig nokkrum smábæjum á Bretaníuskaga, Binic, Saint-Brieux og Dahouét, var alltaf talsverð skútuútgerð. Frá 1815 til 1895 voru t.d. 76 skip frá Boulogne á veiðum við Ísland og flest voru skipin 1869 og '70 eða 16.

Tregfiski selgatogara í Norðursjó
Í kjölfar velgengni ensku og þýsku togaranna á Íslandsmiðum upp úr 1890 komu fram raddir i fiskveiðiborgunum við Ermarsund og Norðursjó, að Frakkar hæfu úthafsveiðar á gufutogurum, við Ísland, í Biscayaflóa og vestur af Spáni.
Fyrsti franski togarinn var gerður út frá borginni Dieppe árið 1892. Þetta var lítið tréskip og gat aðeins togað með bómutroll sem dregið var með einni trossu sem lá um skutinn. Árið eftir, 1893, var keyptur lítill stáltogari, L'Eugénie, frá Skotlandi.
1896 var ördeyða hjá frönskum seglatogurum í Norðursjó, en 87 skip stunduðu þær veiðar. Þeir reyndu þó víða fyrir sér t.d. í Morayfirði við Skotland, og einn seglatogarinn, Saint - Louis, hafði farið alla leið til Færeyja, en afli var tregur.

Íslandsmið - Aðalmið frönsku togaranna við Ísland

Fyrsti franski togarinn á Islandsmiðum

Fyrsti franski gufutogarinn, l´Éspérance (Vonin) tréskip, 26 metra langur með 118 ha. gufuvél og gat aðeins togað með bómutroll. Gerður út frá Dieppe árið 1892

Vorið 1898 fór fyrsti franski togarinn, Goéland (Mávurinn) frá Dimkerque, til veiða á Íslandsmið með botnvörpu. Goéland kom til heimahafnar eftir 17 daga túr með rúmlega 30 tonn af söltuðum þorski og auk þess allgóðan afla af ísuðum þorski og skarkola. Goéland hafði verið að veiðum út af Suðausturlandi, á miðunum við Hvalbak, sem Frakkar nefndu Bock á Vase og í Meðallandsbugt á miðum sem þeir nefndu Bock d'Hekla.
Þetta var utan þriggja mílna landhelginnar, en samt hengilrifu þeir þrjú troll í túrnum.. Menn voru þó allánægðir með árangurinn og blaðið „La France du Nord skrifar m.a.: „ og bendir allt til þess að þetta sé upphafið að betri tíð“. enskra togara á Íslandsmiðum færðist allur í aukana á þessum árum. Árið 1898 voru aðeins 10 enskir togarar að veiðum við Ísland, en árið 1899 voru þeir 40. Úthaldstími þeirra var alltaf að lengjast og var nú ekki lengur bundinn við sumarmánuðina. Aldamótaárið 1900 kvörtuðu frönsku skútukarlarnir á Íslandsmiðum mjög undan togurunum og fullyrtu að um 200 togarar væru komnir á miðin. Þetta árið sigldi enskur togari niður skonnortu frá Gravelines.

Togarar í vari undir Eiðinu og norðan við Heimaey árið 1909

Yfirburðir togaranna.

Haldið á Íslandsmið frá Boulogne
Gunar Ólafsson kaupmaður og útgerðarmaður á Tanganum

Frönsku togararnir söltuðu aflann um borð.
Togararnir sönnuðu strax yfirburði sína framyfir skúturnar og árið 1903 sendu þrjár útgerðir í Boulogne fjóra togara á Íslandsmið. Þeir veiddu allir í salt. Þetta árið voru 150 enskir togarar að veiðum við Ísland og 30 þýskir, hollenskir og belgískir.
Árið eftir héldu einnig fjórir togarar frá Boulogne á Íslandsmið og nú bættust við tveir togarar, annar frá Dunkerque og hinn frá Gravelines, sem hét l'Hecla (Hekla). Sem dæmi um góðan árangur miðað við skúturnar er sagt frá því að togarinn Blanc-Nez frá, Boulogne, sem fór ekki til veiða á Íslandsmið fyrr en í byrjun maí sumarið 1904 kom aftur til heimahafnar í Boulogne eftir 40 daga túr með 591 tunnu af söltuðum þorski, sem jafngilti um 84 tonnum (hver tunna tók 142 kg.) og auk þess 14 tonn af þorski sem var saltaður í stæður. Þessi veiðiferð togarans jafnaðist á við sex mánaða úthald venjulegrar Íslandsskútu. Árið 1906 fóru 10 stórir togarar (42-43 metrar á lengd) frá Boulogne til Íslands. Árið 1907 voru togararnir 33, frá Fécamp fóru það árið 6 togarar á Íslandsmið.

„Sunnudagur togarakarla“ í Vík í Mýrdal

Franski togarinn Suzanne et Marie (súsanna og María) smíðaður í Dunkerque 1907, 43 metra langur og gerður út til ársins 1951, þegar hann var tekinn í brotajárn
L´Afrique (Afríka), byggður 1911 fyrir úthafsveiðar
Fiskurinn þveginn um borð í La Flandre, einum af fyrstu togurunum fræa Boulogne

Fyrstu árin hafa frönsku togararnir sennilega haldið hópinn, þegar komið var á erlendar og framandi slóðir og fyrstu veiðiferðirnar voru eins konar könnnunarferðir. Gunnar Ólafsson var þekktur athafnamaður í Vestmanneyjum á fyrri hluta 20. aldar. Hann átti ásamt fleirum fyrirtækið Gunnar Ólafsson & Co. -Tangann - sem rak verslun, fiskverkun og útgerð margra báta og var venjulega nefndur Gunnar á Tanganum.
Gunnar Ólafsson ritaði endurminningar sínar sem komu út árið 1948. Hann var um tíma verslunarstjóri í Brydes verslun í Vík í Mýrdal.
Gunnar segir frá skemmtilegum viðskiptum við franska togaramenn:
„Rétt fyrir miðjan ágústmánuð, líklega 1905, lögðust 6 botnvörpungar á Víkina nær því fast upp við land, og mun það hafa verið um dagmálabil.
Veðrið var einstaklega gott og sjórinn eins og tjörn, alveg öldulaus, eins og einstöku sinnum kom fyrir, svo að báran sprakk hvorki við sandinn né heldur á Reynisdröngum, er jafnan sögðu manni greinilega frá afli öldunnar, sem gekk upp að landinu.“
„Nokkru síðar þegar litið var í áttina til skipanna, sáust margir menn á leið frá sjónum og upp að búðinni. Það leyndi sér ekki að þetta voru Frakkar, búningurinn, þótt ekki væri annað, sagði til þess. Þeir stikuðu stórum, og brátt fylltist búðin fyrir utan borðið.“
„Þeir vildu fá brennivín eða „brandy“ og sígarettur, sem ekki munu hafa verið til“....
Er ekki að orðlengja það að Fransmennirnir fengu sitt brennivín!
„Karlarnir sulgu stórum, og flöskurnar tæmdust ótt og títt við búðarborðið að minnsta kosti fyrst í stað, á meðan kverkarnar voru þurrar. Eftir það tíndust þeir út smám saman, og aðrir komu í staðinn. Alltaf komu fleiri og fleiri í land, og hinir, sem fyrir voru, gengu út og inn í búðina, eftir því sem þeim hentaði. Þriggja pela flöskurnar reyndust of fáar, og var þá ekki um annað að gera en taka hálfflöskur.“
Endaði þetta með því að Friðrik Þorsteinsson hreppstjóri í Dyrhólum kom á staðinn „gekk til strandar og hjálpaði körlunum að komast í bátana slysalaust.“ ,og þóttist ég heppin, að hann var þarna til hjálpar“, skrifar Gunnar.
„Dagsverkinu var lokið. Ég sá það eftir á, að ég hafði gert skakkt í því að hleypa öllum þessum sæginn í búðina og selja þeim vín. Hefði sjóinn brimað, eins og oft gat átt sér stað, þótt veður væri stillt,þá mundu menn þessir tæplega hafa komizt allir út í skipin slysalaust.“ ....
„Um kvöldið eða nóttina brimaði sjóinn. Þá voru skipin komin út á haf og sáust ekki framar í Vík.“

Sjóvíkingar frá Dunkerque

Afturhlerinn kemur úr sjó á La Flandre
Trébobbingar eins og farið var að nota upp úr aldamótunum 1900
Staðið á spilgrindinni á La Flandre

Útgerðarmenn í Boulogne tóku strax forystu í smíði og útgerð úthafstogaranna og héldu henni. Fór svo að þeir tóku við hlutverki Dúnkirkju (réttara er þó Sandhólakirkja á íslensku!) og Boulogne - sur -mer varð öflugasta útgerðarborg fiskiskipa Frakklands. Eftir því sem leið á 20. öldina fækkaði skipum í Dunkerque. Borgin fór mjög illa út úr báðum heimsstyrjöldunum, sérstaklega síðari heimsstyrjöldinni (1939 -1945), er miklar loftárásir voru gerðar á borgina og hluti hennar var lagður í rúst. Í dag eru þar olíuhreinsistöðvar og málmbræðslur og ferjur sigla þangað yfir Ermarsund til og frá Bretlandi.
Ein frægasta sjóhetja Frakka, víkingurinn Jean Bart sem uppi var á 17. öld var frá Dunkerque. Annar sjóvíkingur og áreiðanlega frægasti fiskimaður Íslands á tuttugustu öld, Benóný Friðriksson frá Gröf í Vestmannaeyjum, betur þekktur sem Binni í Gröf, átti einnig ættir sínar að rekja til Dunkerque og Flandurs (Flæmingjalands). Hann var einn afkomenda skútusjómannsins Louis Hendrik Joseph Vanderoruys, sem var einn skipverja á fiskiskútunni LAurore (Morgunroðinn) frá Dunkerque, sem strandaði á Skálarfjöru í Meðallandi 13. apríl árið 1818. L'Aurore var lítið skip um 50 smálestir og ellefu manna áhöfn bjargaðist öll í land.
Strandmennirnir hurfu á braut úr Meðallandi, en um níu mánuðum síðar, 26. janúar 1819, eignaðist Valgerður Jónsdóttir soninn Benóný og lýsti hún „föður Hendrik, sem meðal ellefu strönduðu*' (Prestþjónustubók Sr. Jóns Jónssonar á Hnausum, prests í Langholtsprestakalli ). Valgerður var þá til heimilis að Skurðbæ í Meðallandi. Hún var ógift og átti fyrir dótturina Margréti, sem var fædd 1815. Benóný, sonur Valgerðar og Hendriks, kvæntist Sigríði Jónsdóttur og bjuggu þau að Ormskoti undir Vestur-Eyjafjöllum. Hann var afi Binna í Gröf. Meðal sjö barna Benónýs Hinrikssonar og Sigríðar sem náðu fullorðinsaldri var Friðrik Gissur, f. 13. ágúst 1858, dýralæknir og formaður í Gröf í Vestmannaeyjum (d. 23. ágúst 1943). Kona Friðriks í Gröf var Oddný Benediktsdóttir (d. 10. apríl 1940) og eignuðst þau hjón 20 börn. Mikill ættbogi er kominn frá þessum franska skipbrotsmanni frá Dunkerque, allt hið mesta kjarnafólk og bera margir greinileg einkenni hins franska uppruna síns.

Rithöfundar sjómanna

Fluglínutæki

Á sama hátt og skútukarlarnir komust inn í bókmenntir Frakka með hinni frægu sögu um íslandsfiskimanninn eftir Pierre Loti, sem fyrr er vitnað til hafa verið skrifaðar skáldsögur um frönsku togarasjómennina. Að minnsta kosti tveir rithöfundar hafa ritað um togaralífið. Önnur bókin gæti á íslensku heitið „Í ölduróti Íslandsmiða“ (Dans les Houles d'Islande) eftir franskan blaðamann, Emile Condroyer, sem segir frá erfiði og oft vosbúð og vökum á 600 tonna togara frá Fécamp, sem veiðir með 35 manna áhöfn í salt við Ísland og Nýfundnaland.
Hin sagan heitir eftir aðalsöguhetjunni, „Jean Villemeur“ og er eftir allfrægan rithöfund, Roger Vercel (1894 - 1957), sem hefur fyrst og fremst skrifað skáldsögur um sjómenn og lífið til sjós. Hann hlaut hin eftirsóttu Goncourt- verðlaun í bók-menntum árið 1934 fyrir skáldsöguna Conin skipstjóri. Einnig fékk hann verðlaun fyrir bók mánaðarins í Bandaríkjunum árið 1948. „Jean Villemeur“ segir frá ungum 18 ára pilti sem fer háseti með föður sínum sem er skipstjóri á stórum úthafstogara við Íslandsstrendur. Þarna er komið víða við, m.a. farið inn til Vestmannaeyja og Reykjavíkur og lýst þar aðstæðum.
Lýkur hér með frásögn af frönskum sjómönnum og upphafi veiða franskra togara á Íslandsmiðum, sem stóðu fram undir síðari heimsstyrjöldina 1939.

Hinn 24. rnars árið 1931 strandaði Franski togarinn Cap Fagnet. 600 - 700 tonna skip, við Skarfatanga, skarnmt austan við Grindavík. Björgunarsveitin Þorbjörn bjargaði allri áhöfninni, 38 skipverjum, rneð fluglínutœkjum og var það i fyrsta skipti, sem skipbrotsrnönnum hér við land var bjargað með þannig tœkjurn, sem Slysavarnafélag Íslands og björgunarsveitir þess keyptu og kynntu um allt land eftir stofnun félagsins 1928. Stuttu eftir að síðasti rnaður hafði verið dreginn f'rá borði rann Cap Fagnet út af skerinu og hvarf í djúpið.Á 25 ára afmœli Slysavarnafélags Íslands árið 1953 hafði yfir 800 rnanns verið bjargað með fluglínutœkjum félagsins. Urn fluglínutæki segir i sögu Slysavarnafélags Íslands- Mannslíf í húfi- eftir Einar S Arnalds : “Fluglínutœki, þ.e.a.s. línubyssa og björgunarstóll, ásamt tilheyrandi skotlínum, líflínu og dráttartaugum, hafa reynst stórvirkust af öllum björgunartœkjum félagsins til bjargar rnannslífum við skipströnd og þar var árangur Slysavarnafélagsins framan af mestur og áþreifanlegastur. Á þeim rúmum 70 árurn sern félagið starfaði var nálœgt 2.500 manns bjargað með fluglínutœkjum þess af erlendum (aðallega togurum) sem innlendum skipum sem höfðu strandað hér við land.“

Eftirmáli'

Saint-Pierre (Sankti-Pétur) dæmigerður franskur togari, byggður 1914, 53,5 metra langur, 632 brúttórúmlestir
Mauritanie - byggður í Nantes 1908, 446 brúttí rúmlestir, 47,2 metrar á lengd
Franskur togari kominn úr saltfisktúr á Íslandsmiðum

Eftir stríðið fóru sumir hinna stærri frönsku togara í fraktsiglingar og man ég eftir einum frönskum togara sem kom eitt sinn til Vestmannaeyja um 1950. Togarinn var að taka saltfisk og sá Tómas Guðjónsson í Höfn um afgreiðslu togarans. Eg var ásamt fleiri strákum að vinna við útskipun í togarann og fól Tómas mér að lóðsa skipstjórann og fleiri skipsmenn upp í bæ til þess að kaupa brauð. Ég kunni þá ekki stakt orð í því eðla máli frönsku, en einhvern veginn tókst okkur með pati og bendingum að skilja hvorir aðra. Frakkarnir voru mér góðir og almennilegir og þegar við komum aftur um borð var mér boðið upp á rauðvínsglas í borðsal yfirmanna. Ekki minnkaði áhugi minn á tungumálanámi við þetta. Nokkru síðar keypti ég mér í Bókaverslun Snæbjarnar í Reykjavík franskan orðalista, sem ég á enn í dag.
Ég óska öllum sjómönnum til hamingju með daginn og sendi bestu hátíðarkveðjur heim til Eyja.

Guðjón Armann Eyjólfsson.


Heimildir:
1. Malthías Þárðarson frá Móum: Endurminningar, 2. hindi, Kaupmannahöfn 1947.
2. Gunnar Olafsson: Endurminningar, Reykjavik 1948.
3. GUENNOC, Francois : La péche boulonnaise, Tome I Boulogne 2000.
4. DENISE. Jean: la Belle Epoque á Dunkerque, Tome 2, Dunkerque.
5. Lacroix, Louis: les derniers voiliers MORUTIERS, París 1970.
6. ÆGIR, Mánaðarrit um fiskiveiðar og farmensku, I. árg. 1905, Reykjavik.
7. Jóhann Gunnar Ólafsson; Strandsaga úr Meðallandi, Sjómannadagsblað Vestmannaeyja, 1973-1974.
8. Elín Pálmadóllir: Fransí Biskví, frönsku Íslandssjómennirnir, Reykjavík 1989.
9. Einar S. Arnalds: Mannslíf í húfi. Saga Slysavarnafélags Íslands, Reykjavík 2001.
10. Guðjón Armann Eyjólfsson: Siglingareglur, stjórn og sigling skipa. Reykjavík 1989.