Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 2003/ Glefsur úr sjóferðasögu Ása í Bæ

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 29. júlí 2019 kl. 15:05 eftir Valli (spjall | framlög) Útgáfa frá 29. júlí 2019 kl. 15:05 eftir Valli (spjall | framlög)
Fara í flakk Fara í leit
Glefsur úr

>

sjóferða-sögu Ása í Bæ


Gunnlaugur Ástgeirsson

Ási í Bæ stundaði mestanpart sjó framan af ævi. Um sjómennsku hans og fiskni .hafa spunnist margar og skemmtilegar sögur og myndi fylla stóra bók að greina frá því öllu saman. Annars hefur Ási sjálfur greint best frá sjómennsku sinni í bókinni Sá hlær best... sem kom út árið 1966. Meginviðfangsefni þeirrar frásagnar er að greina á kaldhæðinn hátt frá draumnum um að verða ríkur útgerðarmaður og hvernig hann fór. En ég held að ekki sé að finna annarsstaðar betri lýsingar á sjómennsku og veiðiskap og hvernig tilfinningar veiðimannsins eru þegar vel fiskast.
Það sem hér fer á eftir er að verulegu leyti byggt á þeirri bók og reyndar best að láta Ása tala sem mest sjálfan frekar en að ég sé að endursegja hans orð.
´

Niðri í sandi.
Ási í Bæ, Ástgeir Ólafsson, var fæddur 27. febrúar 1914, niðrí sandi eins og það hét þá í Vestmannaeyjum, í Litlabæ við Strandveginn í húsi afa síns og nafna en við það hús var fjölskyldan löngum kennd. Að honum stóðu sjómenn í marga ættliði en faðir hans og afi voru einnig mikilvirkir bátasmiðir. Þeir frændur stunduðu sjó, fóru í egg og fugl en létu landbúnað að mestu eiga sig eftir því sem ég kemst næst. Af ástæðum sem ekki verður farið út í hér héldu þeir sig að mestu við trillur og smærri báta þrátt fyrir að flotinn í Eyjum efldist og stækkaði í tímans rás.
Ási var sem sagt alinn upp í flæðarmálinu og var að eigin sögn býsna efnilegur: „Ég man ekki eftir mér svo ungum að ég væri ekki reiðubúinn að gefa hverjum þeim á kjaftinn sem lét í ljós minnsta efa um ágæti mitt. Sex ára var ég svo hittinn með steini að ég gat brotið hverja rúðu á 70 metra færi.
Sjö ára var ég orðinn frægasti smábátaþjófur hafnarinnar, mér fannst ég raunar eiga þá því afi og pabbi höfðu smíðað þá alla. Átta ára komst ég í hendur yfirvaldanna fyrir þátttöku í innbroti, hlutur minn í þýfinu var einn nokkuð stór pípuhaus - að maður minnist ekki á þau ógrynni eggja og þorskhausa sem hurfu ofan í okkur ófrjálsri hendi á vorin. Ég var svo metnaðargjarn að ég kleif hvern heljarstíg bjarga ef ég var manaður til þess, einkum ef stelpur voru viðstaddar. Tíu ára drakk ég mig fullan í brúðkaupi frænku minnar. Ellefu ára rændum við tveir saman heilli lifrartunnu og seldum eigandanum stundu seinna. Eftir svoddan kúpp reyktum við stórsígara. ... Þetta pikka ég upp úr registri hugans þar sem skráðar eru þúsundir lukkustrika, sannanir fyrir því að ég var fæddur athafnamaður.“

Fótarmein.

Ási í löndun

En örlaganornirnar höfðu ekki markað Ása beina og breiða braut athafnamannsins. Þegar hann var þrettán ára veiktist hann hastarlega og lá mánuðum saman milli heims og helju. Illyrmisleg baktería sem olli beinátu réðst á vinstra fótinn og fyrir daga penisilíns var illt að ráða við slíkt og gat dregið fólk til dauða. Til æviloka átti hann að stríða við meinsemd þessa og afleiðingar hennar, stundum meira og stundum minna. Veikindin og fötlunin í kjölfar þeirra ollu því að næstu árin var með höppum og glöppum að Ási væri vinnufær. Fékkst hann einkum við að róa á trillum, fór stundum norður á síldarbáta sem kokkur eða beitti í landi á vertíðum.
Á þessum árum, upp úr 1930, varð til sú vinátta milli Ása í Bæ, Oddgeirs frá Heiðarbrún og Árna á Háeyri sem entist ævilangt og gat af sér menningarverðmæti sem seint verða fullmetin. Þessir ungu menn þá voru uppteknir af því að spekúlera í lífinu og tilverunni, allir mjög róttækir í pólitík og vildu skapa nýja menningu, frábrugðna sveitamenningunni, handa fólkinu í ört vaxandi sjávarplássi. Elsta lag og texti eftir Ása sem ég veit um er frá 1931 þegar hann er 17 ára, angurvær tangó sem heitir Ó, komdu kær.
Tuttugu og fimm ára tekur Ási sig upp og sest í Samvinnuskólann sem þá var í Reykjavík og lauk þaðan prófi á einum vetri. Það átti nú samt ekki fyrir honum að liggja að gerast samvinnufrömuður eða kaupfélagsstjóri eins og flestir bekkjarbræður hans urðu og hvorki var hann sérlega hrifinn af Framsóknarflokknum né Jónasi frá Hriflu. Þessa skrifstofumenntun nýtti hann engu að síður nokkuð því um tíma vann hann á skattstofunni í Vestmannaeyjum og löngu síðar varð hann bæjarritari.
Nokkrum árum eftir þetta ákvað Ási að láta skera af sér löppina en læknarnir vildu það ekki heldur sögðust geta lagað hana til og rétt nokkuð úr henni. Það var gert en tók langa spítalalegu. Þar kynntist hann ungri og glæsilegri hjúkrunarkonu frá Laxnesi í Mosfellssveit, Friðmeyju Eyjólfsdóttur og gengu þau í hjónaband árið 1947.
Meðfram öðrum störfum fékkst Ási við að semja texta, sögur og gamanvísur og flytja við margvísleg tækifæri þó aldrei væri það beinlínis atvinna. Árið 1948 kom út fyrsta bók hans, skáldsagan Breytileg átt. Sú saga segir frá nokkrum strákum sem eru á vertíð í Eyjum og er fyrsta og gott ef ekki eina íslenska skáldasagan þar sem segir frá lífi sjómanna út frá þeirra eigin sjónarhóli.

Útgerðarsagan hefst.
Árið 1952 ákveður Ási (að eigin sögn) að leggja á hilluna alla skáldadrauma um frægð og frama á því sviði og fara að gera út. Ekki var nú um neina stórútgerð að ræða, hann festi kaup á meðalstórri trillu, kallaði Ugga, og réri að sjálfsögðu á færi. Ekki gekk þetta vel til að byrja með. Einmunaótíð fram í apríl en ördeyða eftir það. Sumarveiði var þó sæmileg og eitthvað skaut hann af fugli til að selja svo útkoman var viðunandi þegar upp var staðið.
Veröld trillukarlanna var og er sjálfsagt enn sérstök: „Ég hafði fengið inngöngu í trillubransann, fengið að taka þátt í grimmdarlegum metingi þeirra, tekið þátt í spjalli þeirra, þessu gamansama útsmogna fagmáli þeirra sem ekki kærðu sig um að ánetjast þeirri stóru drift sem nú var að komast í algleyming en lifðu fyrir sinn hatt. Í sínu voru þeir dugnaðarjaxlar, þeim varð ekki skotaskuld úr því að taka hálfsmánaðar hrotu með fuglsblundi einum ef svo bar undir. En að ýta þeim til vinnu í landi, ég tala nú ekki um innan húss, uss.
Æ, þú hefðir átt að sjá þá í eldingu sumarnæturinnar þegar þeir komu labbandi með bitakassana undir hendinni, reykjandi pípur sínar, takandi í nef og vör, stíga oní kænurnar og kasta milli sín gamansömum klúryrðum sem enginn skildi utan bransans, spjalla um liðinn dag einnig a lítt skiljanlegu máli, því fæstir hétu sínu nafni heldur: Sá konulausi, Karlinn í tunglinu, Sunnanblærinn, Hrafna-Flóki, Fjallið eina, Glöggur og Mjóni. Ufsinn hét blámaður, færið dræsa, síldin padda, vínið snækus. Og það er næturslikja á höfninni, varla vaknaður fugl í bergi, lágvær kliður smávélanna blandast skrafi þeirra og nývöknuðum hlátrum“ (bls. 34-35).

Örn.

Uggi. Upphaf útgerðar Ása í Bæ 1952
Hersteinn. Á hann fiskaði Ási mikið

„Næsti farkostur minn var ellefu tonna kuggur, sem ég tók á leigu. í fyrndinni hafði þetta verið súðbyrtur tvístöfnungur og sem slíkum verið beitt í báru undir stjórn frægra sjósóknara og sómt sér vel í veiðiflota þeirrar tíðar. Seinna var hann sagaður sundur í miðju, lengdur og sett á hann hekk og þótti þá ærinn sægammur. En ekki fannst hagleiksmönnum nóg að gert því enn lögðu þeir að honum hendur og kantsettu hann utan á súðina og eftir það klauf hann ótal öldur, alltaf sama happafleytan.
Síðasta hlutverk hans í framasögu útvegsins var að þeir gerðu úr honum nótabát og rifu af honum stýrishúsboruna og afturmastrið svo að nótin hefði gott pláss á þilfarinu. Nú var hann orðinn utanveltubesefi sem virtist ekki eiga annað eftir en að grotna niður í fjörunni eins og flestir jafnaldrar hans.
Eftir talsverða heilastorma hafði ég komist að þeirri niðurstöðu að þessi kuggur væri tilvalinn á handfæri og þó einkum til loðnuveiða. En ekki reyndust allir hugfangnir af þeirri kenningu að hér væri fundinn ein gullæðin; ég fékk engan vélpassara. Hér kom margt til greina. Það var nú tilaðmynda báturinn, þessi dolla með einu mastri og engu stýrishúsi og kolsvartur í þokkabót. Allir almennilegir sjómenn vildu vera á stórum bátum, fallegum bátum. Þegar spurt var, á hvaða bát ert þú góði, þá var afar tilkomumikið að geta svarað: Ég er á þessum stóra fallega. Og svo veiðiskapurinn, á þessum árum voru handfærin nánast afkáraleg. Færeyingar einir stunduðu þau á þessum skútukláfum sínum af því að þeir voru enn í fornöldinni. Það var sök sér að aflóga karlar og vanmetagemlingar væru að skælast á trillum með handfæri en að ætla sér að stunda þetta í alvöru, nei það hafði ekki þekkst hér, á því var enginn stæll Og loðna? Var ekki eitthvað broslegt við það fiskirí, ha?“
En hrakspár og háðsglósur hljóðnuðu skjótt því þeir rótfiskuðu á færi og oft betur en línubátarnir. Vélpassari fékkst, þó ekki gengi það harmkvælalaust í fyrstu og fleiri bættust við. Þar með var ljóst að unnt var að stunda alvöru veiðar með handfærum á báti sem væri töluvert stærri en trillurnar þótt ekkert stórskip væri.
Og loðnuveiðin. Á þessari tíð réru vertíðarbátar faraman af vertíð með línu en síðar með net. Hörgull var á góðri beitu en þegar loðnan kom leit fiskurinn varla við öðru og höfðu línubátamir það fyrir sið að dýfa háfi í sjóinn þegar loðnan var kominn og afla þannig beitu. En þetta gat verið tafsamt og tímafrekt. Hugmynd Ása var að veiða loðnu fyrir línubátana svo þeir þyrftu ekki að standa í þessu veseni sjálfir. Ekki höfðu allir trú á að vit væri í þessu en ég er ekki frá því að þetta sé með fyrstu skipulegu veiðum á loðnu við landið.
En grípum aftur niður í Sá hlær best... þar sem þeir eru að koma að landi með fyrsta loðnufarminn: „Beitumennirnir höfðu strax pata af okkur, það var þeirra að sjá til þess að ná í hnossið og þeir svikust ekki um það. Þeir komu þjótandi úr öllum áttum með stampa og tunnur um leið og við lögðumst að bryggju, steyptu sér á bátinn eins og brim, æði gripnir frammi fyrir þessari glitrandi beitu. Ég hélt að kænan myndi sökkva undan þeim. Þeir ýttu hver við öðrum svo lá við slagsmálum og öskruðu:
„Láttu okkur fá, við vorum fyrstir“. Ég reyndi að stilla þá en það heyrðist ekki mannsins mál og þegar þeir sáu að við stóðum þarna gapandi og ráðþrota, réðust þeir á loðnuna, jusu henni í ílátin eins og þeir væru að gramsa í gulli. Þetta var múgæsing. Ég sá einn sleppa sér svo gersamlega að hann rótaði í loðnunni upp fyrir hausinn á sér eitthvað út í loftið og enn fullyrði ég að hann hafi gleypt nokkrar í æðinu. Ég reyndi að kríta niður hver fengi hvað en það fór allt í handaskolum, sumir fengu kastið og aðrir ekki neitt og tók ekki svipstund að tæma bátinn. Og þeir sem stóðu upp tómhentir óðu um froðufellandi og ætluðu að drepa okkur svikarana. Mér létti stórum þegar við komumst út aftur. En ekki dugði að glutra aflanum svona úr höndum sér. Næst þegar við komum að landi lögðumst við ekki að bryggju, heldur dokuðum við skammt utan við og sögðum þeim að þeir fengju ekki bröndu ef þeir æddu oní bátinn, við ætluðum sjálfir að skammta hverjum sitt. Þá urðu lætin svo mikil að tveir þeirra sem fremstir stóðu á bryggjubrúninni hrökkluðust í sjóinn og við færðum okkur nær til þess að kippa þeim upp úr og um leið ruddist allur skarinn um borð. En þar sem báturinn var ekki orðinn landfastur lögðum við frá og lónuðum með alla þessa skipshöfn út á miðja höfnina. Þá urðu þeir lúpulegir og sefuðust. Eftir það gekk allt betur.“ (bls. 67-68).

Hersteinn.

Úthaldið gekk það vel að upp úr því festi Ási ásamt tveimur öðrum, Eggert Olafssyni og Þorsteini Gunnarssyni, kaup á Hersteini, 16 tonna báti. Og enn var hugmyndin að gera fyrst og fremst út á handfæraveiðar. Um haustið 1955 fara þeir samt á línu og gengur sæmilega.

Uggi, síðasti bátur Ása. Þarna heitir hann Hvalsnes GK 376

Þessi mynd er í Sá hlær best af andrúmsloftinu um borð: “Sameignarmennirnir eru elskulegustu piltar, obbolítið góðir með sig að vera orðnir útgerðarmenn liðlega tvítugir. Þeir eru jafnaldrar og vinir, hafa stundað sjó frá barnæsku, kunna öll verk til hlítar, kappsamir, snarhentir, þrifnir. Báðir vélstjórar, báðir giftir og nýlega orðnir pabbar og hafa reist sér húsgrunna hlið við hlið. En fyrst og fremst hraustir og skapgóðir strákar og andskoti góðir bruggarar, annan eins landa hef ég aldrei smakkað. Nú segjast þeir vera búnir að grafa niður þessar átján flöskur sem eftir voru og líta á mig ákveðnu auga. Já, þeir eru sem sagt á sundi í lífsins tjörukagga eins og þeir segja, með börn og byggingarframkvæmdir og hafa því um margt að spjalla, kátir, bjartsýnir og njóta þess að vera til núna. Og svo er ilmandi knorrsúpan framreidd með brauði og áleggi og nýlagað kaffi á eftir og þegar við erum búnir að súnna okkur með smók og meira spjalli þá erum við að verða tilbúnir til þess að skoða undir.“(bls. 77-78).
Á vetrarvertíðinni 1956 hófst ævintýralegt tímabil sem lengi hefur verið í sögum haft. Þá rótfiskuðu þeir á handfæri meira en áður hafði þekkst og komu að landi dag eftir dag með fullfermi eða því sem næst. Ahöfnin á Hersteini varð hlutahæsta skipshöfn á vertíðinni og þóttu tíðindi um 16 tonna færabát. Og ekki nóg með það, sama gerðist vertíðina eftir og þótti ekki með öllu einleikið.
En grípum aftur niður í Sá hlær best...: „Já það segi ég satt, maður veit ekki mikið um lífið og tilveruna, í eitt skipti hafði ég reyndar skilið fuglamál - en að dularöflin ættu eftir að leika á mig eins og harmónikku, því hefði ég aldrei trúað. ... í fyrstu fannst mér allt normalt, eðlisávísun dýranna sérðu; þegar maður hættir að leika þetta skrípi sem kallast síviliséraður maður og kastar sér heilum og óskiptum út í frumskógarlífið, bara ég, bara mitt, beitir klóm og kjafti og gefur skít í náungann, þá verður maður eðli sínu samkvæmur, þá spretta fram gleymdir eiginleikar eðlisávísunarinnar, ratvísi, þefvísi. Ég hélt ég fyndi á mér hvar fiskur var. En þegar til lengdar lét var þessi skýring ekki nægileg. Það var nú til dæmis þetta með draumana. Það byrjaði með því að mig dreymdi fyrir vertíðinni; nei ekki bara eitthvað um kúk og kjöt eða brotinn bát. Mig dreymdi ákveðna upphæð og þegar ég vaknaði vissi ég hvað þetta væri: vertíðarhlutinn okkar. En þetta var svo æðisgengin upphæð, að ég dirfðist ekki að minnast á þennan draum við nokkurn mann. ...
Jæja, þegar við höfðum verið hlutahæstir í stærstu veitíð landsins tvær vertíðir í röð á þessum fimmtán tonna pæng, þá komust menn að þeirri niðurstöðu að það væri vélin í bátnum sem gerði allan galdurinn; hljóðið sko, það dró fiskinn að bátnum. Og menn kepptust við að panta þessar úreltu glóðarhausvélar í skakbátana. Það sæti síst á mér að lasta þessa maskínu, búmmbúmmið í þeim er einhver viðkunnanlegasta músikk sem ég heyri og þó ég geti fallist á það álit sérfræðinga að þorskurinn við íslandsstrendur sé gæddur fjölbreytilegri tónlistargáfum en landfólkið yfirleitt, þá sný ég ekki aftur með það; hér voru einhverjar flóknari vélasamstæður að verki en þessi 35 ára gamli Tuxhamrokkur. En hver þessi öfl voru og af hverju þau létu svona, það er mér hulin ráðgáta.“(bls 81-83).
Í Sá hlær best... eru margar frásagnir af fiskistuðinu og hugarheimi skipstjórans meðan þetta ástand varir. Hér verður gripið niður í eina slika:
„En þegar hann var genginn í Drangahraunið þá var sagan önnur; ef hann var þar fékkst hann örugglega á færi. Mér eru margir dagar minnisstæðir af þessu blessaða hrauni og mörg matarholan frá Blindskerjum suður á Hvítabjarnarboða. Við áttum til dæmis eina holu vestan við Blindsker sem brást helst aldrei. Það gekk þarna örmjó skora inn í hraunið og ég var sannfærður um að í enda hennar væri skúti sem fiskurinn héldi sig í, maður sá sjaldan lóðningu og mið var svo hárnákvæmt að ekki mátti muna hársbreidd.Yfirleitt fannst mér hvergi eins gaman að vera á færum og á Drangahrauninu, það var eitthvað sérstakt. Og hvernig fiskurinn gat gengið inn á það í torfum, furðulegt. Einhverju sinni komum við þar að morgni ásamt fleiri bátum og hvergi sást nokkurt minnsta líf. Bátarnir héldu áfram suður yfir hraunið og svo áfram að Geirfuglaskeri. Við hinkruðum, ekki af því að maður hefði hugboð í það sinn, kannski bara af því að hinir fóru suður á undan okkur, vera ekki eins og hinir, svekkja þá með því að vera eftir, vissi að þeir myndu segja: Ætli helvítið hitti ekki áann þegar við erum farnir. En það gerðist ekki neitt, ýmist lónað eða keyrt á fullu hingað og þangað, en hvergi fannst neitt. Ekkert var í holunni góðu. Það var liðið fram um hádegi, búið að reyna allar kúnstir og ég kominn á fremsta hlunn að halda suðrá, farinn að segja við sjálfan mig: Þeir eru líklega að fáann þarna suður frá; rólegir eru þeir, tala ekkert. En þegar maður er búinn að taka eitthvað í sig, er ekki svo Iétt að gefa sig, ekki gaman að vita þá segja: Nú þarna kemur hann, hefur þá gefist upp kauðinn. Ég reyni eina rútuna enn, lóna með hraunjaðrinum með stefnu á Einidrang. Loksins fer að punkta og við verðum varir, þó lítið sé. Það ber upp á Þrídranga og við kippum hvað eftir annað út að hraunjaðrinum og alltaf fóru lóðningarnar vaxandi og þar með aflinn uns sjórinn var orðinn krökkur af físki, maður sá bókstaflega hvernig torfurnar flæddu inn á hraunið. Það var óhemju afli þennan dag, bátarnir komu að sunnan og allir fengu fisk. Þetta var einn besti dagurinn okkar á Hersteini, rúm 16 tonn og hefði orðið meira ef netabátur hefði ekki sett mig út af strikinu.“ (bls 103-104).
„Ég gat ekki sofið þegar mesta stuðið var á okkur, það var alveg magnaður djöfull; þó ég legði mig útaf úrvinda af þreytu og héti því að vakna ekki fyrr en á skikkanlegum tíma, þá var það alveg sama. Ég hrökk upp og var glaðvaknaður eftir 3-4 tíma, það var engu líkara en þessi ofsa spenningur þurrkaði burt tíma líkamans, ég fann ekki betur en ég væri jafn frískur eftir þennan stutta svefn og 7-8 venjulega eða jafnvel frískari. Maður datt útaf með þessa spurningu á vörum: hvað á morgun, og vaknaði til hennar aftur. Iðulega var svefninn beint áframhald vökunnar; báturinn, sjórinn, félagarnir.'Xbls. 105).
Næstu tvær vertíðir á Hersteini gengu ekki eins vel en þó allsæmilega og ekki verr en hjá öðrum.

Lóðaði á mér strákar?

Skáldið Ási í Bæ

A fjórðu vertíðinni kynntist Ási hafinu frá nýrri og óskemmtilegri hlið: “Nú er þar til máls að taka að við erum þennan dag við Einidrang, það er norðan gjóla með vinalegri báru og heiðum himni, báturinn á lullferð og ég einn uppi að kíkja á mælinn, þá finn ég hvöt hjá mér til þess að fá mér spásertúr út á þilfarið en um leið og ég stíg þetta eina skref niður úr stýrishúsinu veifar skútan hekkinu í trippislegum galsa, ég missi fóta hendist á borðstokkinn, gríp í tómt og beint í sjóinn. Fyrsta viðbragð: Barkinn framleiðir ógurlegt öskur, orðlaust öskur. Um leið og ég kem í þann græna segi ég við sjálfan mig: Sýndu nú einu sinni að þú getir haldið kjafti, ekki gleypa sjó. Ég reyni að sprikla en bæði er kalt í sjó og svo er ég í lambskinnsúlpu, sem drekkur í sig sjóinn og gerir mig þungan og stirðan og brátt fæ ég ekki hreyft annað en lappirnar. Ég sé bátinn halda burt frá mér. Ég sé himininn yfir mér blárri en nokkru sinni, finnst mér og hafið blágrænt alveg oní mér, sami sjórinn og við busluðum í þegar við vorum krakkar. Þegar ég fann, sá eða vissi að ég var fallinn fyrir borð hugsaði ég fyrst um það, hvort þeir ætluðu ekki að drullast til þess að bjarga mér frá dauða því ég vissi um leið að um líf eða dauða var að tefla. Ég hafði hugmynd um að þeir komu á þilfar æpandi og sáu mig afturút og snéru bátnum, fann á mér vilja þeirra til að bjarga mér en ég þyngdist mjög og þrátt fyrir meðvitaðan vilja til lífs og veikburða fálm til að halda mér uppi duldist mér ekki að ég myndi sökkva. Og ég sökk. Ég lá á bakið og sá sjóinn lokast yfir mér og þegar ég sá birtuna gegnum hann fannst mér ég sakna hennar ákaflega en hugsaði enn um að halda kjafti. Ég held ég hafi ekki verið hræddur en ég hef alltaf elskað hreint loft, mikið loft og þegar ég fann að það var ekki lengur til barðist ég um augnabliksstund, síðan settist að mér ósegjanlegur viðbjóður, ég vissi að ég var að kafna. Það syrti í kringum mig. En áður en slokknaði á mér varð mér hugsað til krakkanna minna. Svo skall myrkrið á...

Heima hjá Oddgeiri Kristjánssyni

Þegar ég rankaði við mér var myrkrið enn í huga mínum svo sterkt að augu mín námu ekki dagsbirtuna, en þegar ég skynjaði ótvírætt andrúmsloftið í vitum mundi ég fyrst eftir viðbjóði helgreipanna, svo var ég glaður, mjög glaður og spurði hvort þeir hefðu fundið mig með dýptarmælinum. Nei, þeir sáu bólur. Og það vildi svo til að við höfðum sundkappa um borð, sundkappa og þrekmenni sem var fær um að kafa niður eftir mér og draga mig upp, og þó var það kannski oddhvasst skap hans sem réð úrslitum. Þeir höfðu dröslað mér innbyrðis steindauðum og voru lengi búnir að gera á mér lífgunartilraunir þegar loks fór að umla í flykkinu. Þá fóru þeir með mig í lúkarshitann þar sem ég vaknað til lífsins.“(bls. 116-118). Sundkappinn og heljarmennið sem um er rætt er Óskar Þórarinsson frá Háeyri (nú kenndur við Frá) sem löngum var með Ása á sjó á þessum árum.
Eftir þessa vertíð var Hersteinn seldur og enn keypti Ási bát og nú einn.

Uggi.
Uggi var 40 tonna eikarbátur og enn var hugmyndin að gera út á færi: „Það orgínala við planið var að hafa bátinn svo stóran að hægt væri að salta fiskinn um borð. Auðvitað kæmi ekki til mála að færafiskur brygðist þriðju vertíðina í röð, sennilega yrði uppgripaafli á komandi vertíð og ef hægt væri að salta um borð með sjö til átta mönnum, þá var þetta pottþétt. Hugmyndin var svo hrífandi að ég smakkaði ekki brennivín í marga daga og þegar ég í þessu hugljómunarástandi lagði línurnar fyrir bankastjórann, komst hann ekki hjá því að vikna og hrífast af óbugandi athafnaþrá minni og sigurvissu, varð allur af vilja gerður og þá var mikið fengið.“(bls 119).
En hugljómunarástand og sigurvilji dugði ekki til í þetta sinn. Færavertíðin brást, þá var farið á línu, síðan á humar, og enn á færi, síðan línu, snurvoð, aftur á humar og loks á net. Í stuttu máli sagt gekk þessi útgerð heldur illa, óhöpp urðu og Ási að stunda veiðiskap sem hann þekkti misjafnlega til, færið var hans veiðarfæri. Eftir þrjú ár var svo komið að hann fær ekki meira útgerðarlán. Þá gjaldfalla að sjálfsögðu allar skuldir. Ekki það að hans staða væri verri en margra annarra en á blómatíma kalda stríðsins og í árdag viðreisnar þótti ekki sjálfsagt að gamlir kommar væru að vasast um of í útgerð og ekki endilega ástæða að þeir fengju sömu fyrirgreiðslu og aðrir. Útgerðin varð gjaldþrota og Ási missti allt sitt. Þetta var að gerast sama sumarið og hann samdi Ég veit þú kemur. En þetta væri nú varla kallað gjaldþrot í dag. Báturinn var hirtur upp í skuld sem var 850 þúsund. Skömmu seinna seldi bankinn bátinn fyrir 1250 þúsund. Þá var Ása ekki skemmt og fór á fund bankastjórans sem lofaði að hann fengi mismuninn. Öll þau loforð voru svikin.

Af Ögmundi og göldrum.
Undir lokin í Sá hlær best.. segir Ási frá því að þegar öll þessi svik og prettir voru endanlega komin í ljós hittir hann karl á læknastofu. Sá fer mjög að spyrja hann um Ögmund í Auraseli sem var síðasti galdramaður á Íslandi og veitti vötnum og kunni fleira fyrir sér. Ási var alinn upp með afa sínum, Ástgeiri í Litlabæ sem alinn var upp hjá afa sínum, Ögmundi í Auraseli, svo stutt er leiðin. Og karlinn fer að þýfga Ása um hvort hann kunni ekki eitthvað fyrir sér en hann þvertekur ekki fyrir það, þótti stundum ekki allt með felldu hvernig hann hitti á fisk. Kallinn segir honum þá sögu af Ögmundi um viðbrögð hans við illri framkomu við smælingja og álög sem því fylgdu. Síðan fer hann mjög að spyrja um gjaldþrotið: „Ég sagði honum það. Hann hristi höfuðið lengi alveg dolfallinn, sagði loks eins og við sjálfa sig: Ég býð ekki í þann banka sem setur þig á hausinn. Af hverju ekki? spurði ég og þótti auðvitað vænt um hvernig hann tók á málinu.
Það er gefið, það getur enginn gert á hluta þíns fólks nema honum hefnist fyrir það. Það eru álögin. Þið eigið umfram aðra menn að njóta Ögmundar í - í ja lfklega fjórða, nei sjöunda lið... Þetta er lögmál, náskylt því sem segir, eins og þú sáir, nei þú sleppur vel út úr þessu en þeir mega vara sig...“ (bls 165).
25 árum seinna fór Utvegsbanki Íslands á hausinn.

Um leið og svartfuglinn.
Eftir þetta stundaði Ási ekki mikið sjóinn, var reyndar kokkur um tíma bæði með Binna í Gröf og Gauja á Landmótum og um sumartíma leigði hann bát til lúðu og skötuveiða.
Arið 1966 varð hann bæjarritari í Vestmannaeyjum en undi ekki of vel við hefðbundin skrifstofustörf þó hann væri góður í því.
Vorið 1968 keypti hann ásamt fleiri gamanblaðið Spegilinn og flutti þá úr Eyjum. Eftir það fékkst hann mest við ritstörf og komu frá honum einar sex bækur og ein hljómplata á árunum frá 1970 til 1985.
En ævinlega þegar komið var fram í mars fór hann að ókyrrast og áður en varði var hann kominn út í Eyjar og farinn að róa með Óla Tótu, eða Sigga bróður sínum eða Jóni frænda sínum í Sjólyst. Haft var á orði að hann birtist ævinlega um leið og svartfuglinn settist upp.

Gunnlaugur Ástgeirsson


Pus og meira pus. Re´tt grillir í Ísleif VE 63. Ljósm. Sigurg. Sævaldsson