Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1984/ Vélstjórafélag Vm. 45 ára

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 5. júní 2019 kl. 12:57 eftir Vpj1985 (spjall | framlög) Útgáfa frá 5. júní 2019 kl. 12:57 eftir Vpj1985 (spjall | framlög)
Fara í flakk Fara í leit
Gísli Eiríksson


Vélstjórafélag Vm. 45 ára



Á komandi hausti mun Vélstjórafélag Vestmannaeyja verða 45 ára, en það var stofnað 29. nóvember 1939.
Stofnendur félagsins voru 42. Í fyrstu stjórn voru kosnir: Formaður Páll Scheving (núverandi heiðursfélagi), ritari Guðjón Karlsson og gjaldkeri Ísleifur Magnússon. Félögum fjölgaði ört og eru nú um 140. Margir mætir menn hafa gegnt trúnaðarstörfum fyrir félagið og færir núverandi stjórn þeim bestu þakkir.
Það sem áður hefur hér í blaðinu verið getið formanna félagsins til ársins 1970 sé ég ekki ástæðu til að endurtaka það hér, en frá 1970 hafa formenn verið:

Alfreð Þorgrímsson

Ágúst Guðmundsson kosinn 8. febrúar 1970, Helgi Egilsson kosinn 11. júlí 1971 og Hjálmar Guðmundsson kosinn 16. febrúar 1975.
Núverandi formaður er Gísli Eiríksson.
Í svo stuttu yfirliti sem þessu er ekki hægt að telja upp alla þá sem gegnt hafa trúnaðarstörfum fyrir félagið. Þó verður að gera eina undantekningu og minnast Alfreðs Þorgrímssonar fyrrverandi gjaldkera félagsins en hann lést árið 1978. Alfreð er sá maður sem lengst hefur setið í stjórn félagsins, frá 1948 til dauðadags og hafði þá starfað samtals 30 ár sem stjórnarmaður og ávallt sem gjaldkeri. Verða störf hans aldrei nægilega þökkuð.
Vélstjórafélagið festi á sínum tíma ásamt fleiri félögum kaup á húsnæði undir starfsemi sína í „Básum”. Var þetta stórt og erfitt verkefni fjárhagslega fyrir félagið, en nú er loksins farið að sjá fyrir endann á því.
Félagið hefur barist fyrir ýmsum málum í gegnum tíðina auk beinna kjarasamninga, t.d. stofnun vélskóla hér í Eyjum á sínum tíma. Það varð fyrst til að koma á námskeiði í meðferð talstöðva, en það varð síðar fastur liður í námskeiðum Fiskifélagsins. Enn fremur er félagið vel virkt í fiskideildinni hér og hefur beitt sér fyrir ýmsum málum á þeim vettvangi. Það hefur látið að sér kveða í þeirri umræðu sem verið hefur um öryggismál sjómanna, Sigmundsbúnaðinn o.fl. Félagið beitti sér mjög fyrir lækkun lífeyrisaldurs sjómanna, sem nú er 60 ár eftir 25 ára starf á sjó. Ennþá er þó margt óunnið í lífeyris- og tryggingarmálum, svo sem iðgjaldagreiðslur sjómanna í lífeyrissjóðina og bætur vegna sóttdauða úti á sjó.
Þau mál, sem valda hvað mestum áhyggjum í dag, eru minnkandi aðsókn í vélstjóradeildina hér og undanþágumálin. Margir hafa legið félaginu á hálsi fyrir að gefa meðmæli með undanþágum, en því er til að svara að í lögum um atvinnuréttindi vélstjóra er því miður skýrt tekið fram að heimilt sé að veita undanþágu til vélstjórnar séu ekki nægileg réttindi fyrir hendi, og leita beri umsagnar viðkomandi stéttarfélags. Félagið telur sér því skylt að fjalla um þessi mál, auk heldur að hafa hönd í bagga með hverjir fá undanþágu þótt æskilegast væri að vera laus við þær.
Vélstjórafélag Vestmannaeyja varð fyrst til að taka ákveðið gjald af meðmælum fyrir undanþágu. Á síðasta F.F.S.Í. þingi í haust var samþykkt að hafa þennan háttinn á hjá aðildarfélögum F.F.S.Í. Gjald þetta er látið renna í sérstakan sjóð óháðan fjármálum félagsins. Sjóður þessi er notaður til að styrkja þá menn sem vilja fara í vélskóla, og hafa þegar nokkrir aðilar fengið úthlutað úr honum. Enn fremur er hann notaður til námskeiðahalds fyrir starfandi vélstjóra með fyrirbyggjandi viðhald í huga.

Núverandi stjórn Vélstjórafélags Vm.: Ólafur Guðmundsson ritari, Gústaf Guðmundsson gjaldkeri, Hjálmar Guðmundsson varaform., Viðar Sigurbjörnsson, Gísli Eiríksson formaður, Bragi Júlíusson. Á myndina vantar Guðmund Alfreðsson

Eitt námskeið hefur félagið þegar haldið í samvinnu við Útvegsbændafélag Vestmannaeyja. Var það um olíuverk og var nokkuð vel sótt. Bráðlega verður svo rafmagnið tekið fyrir, — þannig að gjöld þessi eru ekki fjárhagsgrundvöllur félaganna eins og gefið hefur verið í skyn á öðrum vettvangi.
Lagt hefur verið fram á Alþingi tímabært frumvarp til laga um atvinnuréttindi vélstjóra og hefur félagið fylgst mjög vel með gangi þeirra mála og reynt að hafa áhrif þar á.
Róleg umræða hefur verið manna á meðal um stofnun allsherjarsambands vélstjóra og hefur félagið fylgst vel með henni og mun þegar þar að kemur beita sér í þeim málum.
Ég sé ekki ástæðu til að vera að þylja mikið meira upp hér, en óðum styttist í hálfrar aldar afmæli félagsins, og vona ég að það eigi eftir að eflast mjög á þeim tíma.

Gísli Eiríksson.