Herjólfsbær

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 6. júlí 2006 kl. 11:31 eftir Daniel (spjall | framlög) Útgáfa frá 6. júlí 2006 kl. 11:31 eftir Daniel (spjall | framlög)
Fara í flakk Fara í leit

Þessi grein fjallar um sögu. Sjá einnig Herjólfsbær (hús)

Samkvæmt Hauksbók var Herjólfur fyrsti landnámsmaðurinn í Eyjum. Hann settist að í Herjólfsdal, á 10. öld, og hafa margar kenningar verið uppi um hvar í dalnum þessi fyrsta byggð var staðsett. Margrét Hermanns Auðardóttir fornleifafræðingur hóf uppgröft í Herjólfsdal sumarið 1971 og vann þar fimm sumur. Við rannsóknina kom í ljós að byggð í Herjólfsdal var mun eldri en áður hefur verið talið eða frá því snemma á 9. öld. Herjólfsbær er talinn vera fyrsta grjóthúsið á Íslandi. Byggð hefur verið eftirmynd þess bæjar í Herjólfsdal.

Fyrstu heimildir um Landnám í Vestmannaeyjum

Bygging Herjólfsbæjar, hins nýja.

Í Hauksbók og Sturlubók segir frá landnámi í Vestmannaeyjum. Í Sturlubók, sem er eldri heimild, kemur fram að Ormur auðgi sonur Bárðar Bárekssonar hafi fyrstur byggt Eyjar. Í Hauksbók, sem er yngri, segir aftur á móti að Herjólfur sonur Bárðar Bárekssonar hafi fyrstur manna setist að í Vestmannaeyjum og reist býli sitt í Herjólfsdal. Þar er Orms auðga getið sem sonar Herjólfs.

Hauksbók hefur verið talin áreiðanlegri heimild og Herjólfur því almennt talinn fyrsti landnámsmaður Vestmannaeyja. Samkvæmt henni átti landnámið sér stað, í Herjólfsdal, seint á landnámsöld eða eftir árið 900. Um staðsetningu hinnar fyrstu byggðar hefur lítið verið efast því þar rennur eina bergvatnslindin í Vestmannaeyjum sem er frumskilyrði til búsetu.

Kenningar um fyrstu byggð í Vestmannaeyjum

Ýmsar kenningar hafa verið uppi um staðsetningu þessarar fyrstu byggðar í Herjólfsdal. Talið var, samkvæmt einni kenninganna, að bærinn hafi staðið í vestanverðum Herjólfsdal, undir Dalfjalli, en hafi horfið undir skriðu. Nokkrar tilraunir með uppgröft voru gerðar til að finna ummerki um búsetuna en engin fundust. Jafnframt var gerð tilraun til að renna stoðum undir þjóðsöguna um Vilborgu Herjólfsdóttur og grafið var austan við Fjósaklett í þeim tilgangi (væntanlega í Herjólfsdal?) en að árangurslausu. Samkvæmt þjóðsögunni var Vilborg mjög ósátt við að faðir hennar bannaði nágrönnum þeirra aðgang að lindinni. Hún veitti fólki aðgang þegar faðir hennar sá ekki til. Sagan segir að Vilborg hafi, einn góðan veðurdag, setið fyrir utan bæjardyrnar þar sem hún gerði skó þegar hrafn einn kom fljúgandi, hrifsaði annan skóinn og flaug á brott. Hún veitti honum eftirför en í sömu andrá féll skriða á bæinn og var henni borgið. Vilborg setti bæ sinn austur á Heimaey og var nefndur Vilborgarstaðir. Árið 1924 stóð Matthías Þórðarson, þáverandi þjóðminjavörður, fyrir uppgreftri suður af Tjörninni í Herjólfsdal. Ætlunin var að grafa í kringum einkennileg vegsummerki og kanna hvort um fornt híbýli væri að ræða. Eftir tveggja daga uppgröft áleit Matthías að langhúsið sem hann gróf upp væri líklega leifar af býli Herjólfs.

Fornleifauppgröftur í Herjólfsdal

Sumarið 1971 hóf Margrét Hermanns Auðardóttir, fornleifafræðingur, ásamt öðrum sérfræðingum, uppgröft á sama svæði og Matthías hafði grafið upp langhús áratugum áður. Rannsóknin hélt áfram í fimm sumur en tafðist um nokkur ár vegna eldgossins í Heimaey 1973. Haustið 1980 lauk formlega áralöngum rannsóknum Margrétar og sagði hún í fréttatilkynningu í september, þetta sama ár, að á því 1300 m² uppgraftarsvæði hefðu m.a. fundist átta hús og garðhleðslur. Þau tilheyrðu 4-5 byggingarskeiðum og voru frá mismunandi tímum. Þarna bjuggu bændur, enda ummerki um húsdýr, en einnig nýttu bændur sér hin ýmsu hlunnindi s.s. fugl og fisk. Samkvæmt aldursgreiningum Herjólfsdalsbyggðarinnar, sem formlega voru gefnar út ári seinna, var um mjög forn híbýli að ræða. Elstu húsbyggingarnar eru frá fyrri hluta 9. aldar eða mun eldri en áður var talin. Byggð þessi virðist síðan hafa lagst af á seinni hluta 10. aldar líklega vegna uppblásturs. Landnámsbyggð í Vestmannaeyjum er því, samkvæmt því, eldri en kemur fram í elstu heimildum, Sturlubók og Hauksbók.

Endurbygging Herjólfsbæjar

Í októbermánuði 2005 var ráðist í byggingu nýs Herjólfsbæjar í Herjólfsdal. Við bygginguna er notast við áreiðanlegastu heimildir og reynt að gera hann sem líkastan upprunalegum bænum. Húsið er byggt sem langhús og gripahús. Lista- og menningarfélagið Herjólfsbæjarfélagið hafði frumkvæði að byggingu hússins. Að byggingunni stóðu Árni Johnsen, Þórður Guðnason, Þorsteinn D. Rafnsson, Esra Ó. Víglundsson og Víglundur Kristjánsson.