Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1958/ Vegna hvers valdi Kristur sjómenn að sendiboðum?

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 15. mars 2018 kl. 15:25 eftir Viglundur (spjall | framlög) Útgáfa frá 15. mars 2018 kl. 15:25 eftir Viglundur (spjall | framlög)
Fara í flakk Fara í leit
Vegna hvers valdi Kristur sjómenn að sendiboðum?


Ræða eftir séra HALLDÓR KOLBEINS, Ofanleiti


BÆN


Almáttugi, eilífi Guð. Blessa þá, er sjóinn sækja og helga þér störf þeirra. Bæg frá slysum og lát engla þína vaka á höfunum. Blessa þú ástvini sjómanna og helga þér heimili þeirra. Lát þú óslökkvandi vald kærleikans vera uppsprettulind máttarins í lífi sjómanna. Ver með þeim á höfunum og ver með ástvinum þeirra, sem í landi bíða. Varðveit oss öll í þínum kærleika, sökum sonar þíns Jesú Krists, Drottins vors.
Amen.

Matt. 4. 18. 19. og Post. 27, 21.
En er hann gekk fram með Galileu-vatninu, sá hann bræður tvo: Símon, sem kallaður er Pétur og Andrés bróður hans, er voru að leggja dragnet á vatnið, því að þeir voru fiskimenn. En hann segir við þá: Komið og fylgið mér og mun ég gera yður að mannaveiðurum. — Og er menn höfðu lengi verið matarlausir, stóð Páll upp meðal þeirra og mælti: Á þessari nóttu stóð hjá mér engill þess Guðs, sem ég tilheyri, sem ég og þjóna, og mælti: Vertu óhræddur, Páll. . . . Verið því menn með öruggum huga.
Amen.

Séra Halldór Kolbeins


Vegna hvers valdi Kristur sjómenn að sendiboðum og brautryðjendum fagnaðarerindisins? Hvers vegna voru postularnir, sem Kristur valdi, sjómenn? Hví valdi hann ekki, til dæmis, fremur hjarðmenn? Margir þeirra leituðu Guðs í einveru fjallanna og voru þegar sem helgir menn. Og Guðs velþóknun hvíldi oft yfir þeim og starfi þeirra. Það sjáum vér glöggt í frásögunni um fæðingu Jesú, er herskarar englanna birtust fjárhirðum. — En þegar Kristur hóf starf sitt valdi hann þó sjómenn sér að einkavinum. Og sendi þá um byggðirnar til þess að boða erindi sitt. Hann kallar til sín alla, allar stéttir, en fyrst snýr hann sér til sjómannanna Andrésar og Péturs og segir: Komið og fylgið mér. Vér skulum nú reyna að gera oss grein fyrir svari við spurningunni: Hvers vegna valdi Kristur sjómenn að sendiboðum?
Sjómenn eru félagslyndir menn. Þeir starfa jafnan saman, ekki einn og einn, heldur margir sem einn maður. — Líf hjarðmanns var líf í einveru, líf sjómanns var líf í samveru. Mikil er hamingja einverunnar, að geta haft næði til djúpra hugsana um mestu vandamál tilverunnar. Hvar er kraftur eilífðar nálægur mönnum, ef ekki í einverunni. Og veitir ekki guðstilbeiðslan í einveru lundarþor og innsæi? Áreiðanlega, einvera er auðsuppspretta og Guð hefur oft birzt þeim, sem einir bíða. En samveran, félagslundin, samátökin, sem er sjómanns eigið eðli, ber þó í skauti sínu enn stærri fjársjóði. Kristur kom til þess að flytja boðskap um ríki, um samfélag manna. Og þess vegna leitar hann þeirra sem eru sameinaðir fjöldanum: sjómanna. Þeir komu hvarvetna, töluðu við alla: bátasmiðina, netaviðgerðarmennina, tollheimtumennina, fóru víða, þekktu marga og voru í vissum skilningi lagsbræður allra. Hins vegar var fjárhirðirinn fjarri ys og þys og heimsins glaum að gæta hjarðar sinnar í fjallshlíðinni. En Jesús vildi hrinda af stað fjöldahreyfingu, hefja lífið allt hærra, kalla til sín alla, sem erfiða og eru hlaðnir þunga. Mannfjöldinn safnaðist ekki í kring um fjárréttir á kvöldin, heldur bátana, er þeir lentu. Hann safnaðist líka um bátana, er þeir lögðu frá landi. Mannfjöldinn var þar sem sjómennirnir voru, því að þeirra var líka lífæð allra samgangna, og þess vegna voru sjómenn kallaðir af Drottni til þess að hafa áhrif á mannfjöldann. Þeir þekktu félaga sína. Þeir þekktu lífið eins og því var lifað. Þeim var kunnugt um vonir og þrár mannlífsins, hugsjónir almennings og hugsunarhátt. Um þá lék allur straumur elfunnar, elfu lífsbaráttunnar. Sjómenn eru samverkamenn.
Hjarðmaður fór sínar eigin leiðir, vann upp á eigin spýtur, treysti á sjálfan sig og var óháður. Sjómenn fóru saman á sjóinn í flokk. Og mannkynssagan hefur fært sönnur á, að slíkir menn geta verið samvinnuþýðastir. Þeir ná bezt til þess að hafa áhrif á aðra. Svona var þetta á holdsvistardögum Krists. Og sjómannalífið hefur þessa sérstöðu að mörgu leyti enn þann dag í dag. Ekki sízt á voru landi er þessu þannig farið. En: Föðurland vort hálft er hafið, helgað þúsund feðra dáð. Þangað lífsbjörg þjóðin sótti, þar mun verða stríðið háð. — Það á líka við um andlegt líf þjóðar vorrar. Helmingur þjóðarinnar eru sjómenn og sjómannaástvinir. Og andleg viðhorf þeirra verða því lífsbjörg þjóðarinnar.
Vér lítum á Ísland, eyjuna í þjóðahafinu, og skiljum, að á hafinu er stríðið háð, stríðið fyrir frelsi og sjálfstæði íslenzka lýðveldisins. Þess vegna kallar kristin kirkja á Íslandi sjómannastéttina alveg sérstaklega um gjörvallt landið: Komið og fylgið Kristi, og verið kletturinn, sem kirkjan er reist á. Lifið heilögu lífi, flytjið þjóðinni upprisuboðskapinn. Ég hef aldrei sjálfur verið sjómaður, en ég hef alla ævi verið í andlegu samstarfi við sjómenn. Ég man eftir litlu bátunum, róðrarbátunum, sem fluttu mig sem fylgdarmann með föður mínum, er hann var á húsvitjunarferðum yfir Miðfjörðinn. Það voru að vísu stuttar sjóferðir, en þó giltu þar sömu lög eins og vísast á öllum fleytum: Meðan við erum sjómenn erum við allir eitt. Allir sem einn og allir sem eitt hlýða formanninum, hvort sem er að færa sig til í skipinu eða leggjast á árarnar, því að líf okkar allra er eitt. — Svo voru fallegu seglskipin, bátarnir á Breiðafirði. Það var tign og fegurð meira að segja í storminum, er borðstokknum hallaði alveg að haffleti, svo að ef fáum sentimetrum hefði munað, þá hefði fyllt. Og það voru hin hárvissu tök og samtök, svo að ekki skeikaði, og aðdáanleg stjórn, er báturinn stundum skreið í úfnum sæ milli skerjanna. Margar eru minningarnar, hrifningin yfir mótorskipunum, er þau komu fyrst og klufu öldurnar beint á móti sjó og stormi. Þá er mér enn í fersku minni lítill sjávarhrakningur, er kallað var á hjálp herskipsins Ægis, farþegar sóttir, en við höfðum verið nálægt því að sökkva og kastað var út einhverju af farminum. — En svo eftir að við höfðum yfirgefið skipið, beið það byrjar og betra veðurs undir Snæfellsjökli nokkra daga: — „En þó tækjum sé breytt, þá er eðlið samt eitt, eins og ætlunarverkið, er sjómannsins beið.“
Frá þessum sjóferðum er mynd sjómanna mér mynd einingar. Hvergi hef ég séð eins ríka einingu og samtök eins og á sjónum. Sjómenn leggja líf við líf, og baráttuhugur þeirra er ótrauður. Og er ég hugsa sérstaklega um sjósóknina, skil ég vel, af hverju Jesús sagði: Komið og fylgið mér og ég mun gera yður að mannaveiðurum, það er að segja postulum nýrrar kenningar, boðberum fagnaðarboðskapsins og baráttumönnum. Veiðimaður, það er postulaeinkenni. Veiðimaður hugsar alltaf um nýjan feng. — Göfugt er starf hjarðmanns, það að gæta fjárins, vernda það gegn hættum, koma því heilu og höldnu heim og vaka yfir því um dimmar nætur. En til þess að flytja fagnaðarerindið eru þeir eiginleikar, sem í sjómannslífi þroskast sérstaklega, enn nauðsynlegri, — baráttuhugurinn, krossferðarandinn, áhugaeldmóðurinn, framkvæmdarhugsýnin. Sá er vandi kristinnar kirkju, er hún kallar: Farið út um allan heim og gerið allar þjóðirnar að lærisveinum. — Beitið þeim aðferðum í andlegu lífi, sem hafa reynzt sigursælar við sjósóknina. Leggið, sjómenn, baráttuhug yðar, eldmóð og framkvæmdarhugsýn í þjónustu kristinnar trúar. Berið fram hið kristna merki af öllum krafti sálar yðar. Verið æfinlega að kalla menn til þess að ganga Kristi á hönd.
Svo er þá mál með vexti: Samfélagslundin og baráttuhugurinn eru þeir skapgerðareiginleikar, sem sjómannalífið getur látið þroskast, en auðvitað geta þessir góðu eiginleikar eins og allir góðir eiginleikar þroskazt í hvaða stétt og stöðu sem maðurinn er. En fyrstu lærisveinar Jesú voru sjómenn. Hér kemur líka eitt enn til athugunar. Þess er ekki hægt að dyljast, að þeir eru ekki fáir þeir sjómenn, sem geta sagt frá reynslu, sem minnir á mynd Páls postula, er draumhöfgi kom yfir hann og honum birtist engill Guðs og náðarboðskapur. Páll stóð upp og sagði: Verið því menn með öruggum hug. Því að á þessari nóttu stóð hjá mér engill þess Guðs, sem ég tilheyri, sem ég og þjóna. — Þvílík dulræna er mörgum sjómönnum, ég fullyrði það, í brjóst borin. Það er eins og þeir með bæn sinni taki stundum svo fast í klæðafald Guðs, að hann verði að blessa þá. Þessi jakobsglíma á hafinu ber ótvírætt vott um þá staðreynd, að eyjar og skip eru áreiðanlega með sérstöku móti farvegir blessunar Guðs. Sjómenn eru sjaldnast rithöfundar, en sannsögulegar frásagnir þeirra um hið dulræna, um blessun Guðs, um það, hvernig hann hefur blessað á hafinu oft og mörgum sinnum í myrkrum og stormum, er efni í miklar og góðar bækur.
En í einni bók um þetta efni mundi alltaf einn sterkasti þátturinn vera bænir og blessunarhugsanir ástvinanna í landi, því að elskan heldur vörð í óveðrunum.

Vér þökkum Guði þá giftu, sem um aldir hefur í svo mörgum skilningi fylgt sjósókn Íslendinga, og biðjum hann um blessun yfir framtíðina.
Opnist oss auðlindir hafsins. Fylgi farsæld og lán. Guð veri með sjómönnunum, varðveiti þá í hættunum. Breiðist hans blessun yfir bát á miði, skip á sjó. Haldi Drottinn verndarhendi sinni yfir heimilunum. Verði elska og bænir eiginkvenna og barna, systra, bræðra og allra vina farvegir fyrir mátt hins almáttuga. Ljómi ljóshringur engla Guðs um skipin öll. Helgi Drottinn hvert áratak og hreyfilshögg.

Svo að segja hvern einasta helgidag er messað í Landakirkju. Þegar þér af einhverjum ástæðum getið ekki komið til kirkjunnar, þá reynið samt að eiga með oss á messutímanum hljóða bænarstund, er við biðjum Drottin að farsæla atvinnuvegina til lands og sjávar. — Breiðist, Guð, þín blessun yfir bát á miði, skip á sjó. Leið þú aftur heilu og höldnu heim til lands hvern unnarjó. Forsjá þinni felum vér fiskimanna djarfan her. Lífsins Guð, ljóssins faðir. Blessa þú sjómannastéttina. Helga þér líf hennar. Haltu þinni almáttugri verndarhendi yfir hverjum íslenzkum sjómanni, hvar sem hann siglir um höfin eða kemur til hafnar. Blessa þú Vestmannaeyjar og Vestmannaeyinga. Friðarins Guð, veit oss gjafir þínar. Kærleikans Guð, send oss anda þinn. Almáttugi faðir. Vernda oss börnin þín. Amen.