Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1957/ Úr gömlum minnisblöðum

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 11. febrúar 2018 kl. 19:27 eftir Viglundur (spjall | framlög) Útgáfa frá 11. febrúar 2018 kl. 19:27 eftir Viglundur (spjall | framlög)
(breyting) ←Fyrri útgáfa | Nýjasta útgáfa (breyting) | Næsta útgáfa→ (breyting)
Fara í flakk Fara í leit


EIRÍKUR JÓNSSON


Úr gömlum minnisblöðum


Sumarið 1918 var ég vélamaður á vélbát frá Reyðarfirði, sem Ingólfur hét, 9 smálestir að stærð. Á Ingólfi voru þessir menn: Formaður Sigurður Jónsson (Siggi Ben.) frá Vestmannaeyjum, hásetar Magnús Valtýsson, Lambhaga, Vestmannaeyjum, Jörgen Hólm nú á Siglufirði og undirritaður.
Það var seint í ágúst, að farið var í róður laust eftir miðnætti. Þegar út úr Reyðarfirði kom, var farið að birta. Var þá norðaustan vindur (sennilega 5—6 vindstig).
Stefna var tekin norðaustur og byrjað að leggja línuna norður af Seley, beint út af Gerpi.
Norðurfall var, og var því straumur sem næst beint á móti vindi og báru. Straums gætir þarna mjög mikið, enda er þetta sunnarlega í Gerpisröstinni.
Þegar atburður sá gerðist, er nú skal greina, vorum við um það bil hálfnaðir að leggja línuna. Var verkaskipting þannig á dekkinu, að Magnús var að leggja línuna, Jörgen stoppaði og ég var við að hnýta saman. Þá tók sig upp mjög krappur straumhnútur við bakborðssíðu bátsins, sem braut yfir hann enda á milli og færði hann í kaf stjórnborðsmegin, og hugsaði ég með mér, hvort bátnum væri að hvolfa. Ég fann að ég flaut af stað með hinum mikla sjóþunga, sem á mig féll. Vissi síðan ekki af mér nokkur augnablik.
Það næsta sem ég vissi, var að ég var utan við rekkverk bátsins, en var þó hangandi í kaðli, sem ég hafði gripið í. Og sýndi það sig seinna, að kaðalendi þessi var fastur í stól þeim, sem seglgaffallinn var festur í. Einhvern veginn komst ég inn á dekk um leið og báturinn var að rífa sig upp úr sjónum.
Var þá ömurlegt um að litast, bjóð, belgir og lestarhlerar flutu á sjónum allt í kringum bátinn. Magnús og Jörgen báðir horfnir.
Í sama mund og ég var eitthvað að átta mig á, hvað gerzt hafði, kemur Sigurður formaður út úr stýrishúsinu. Og heyrum við báðir, að kallað er: „Komið þið hér.“ Varð okkur litið aftur fyrir bátinn og sáum þá á höfuð og herðar Jörgens, sem hélt sér óhætt að segja dauðahaldi um stýri bátsins. Gekk okkur vel að ná honum inn í bátinn, og var hann ekkert dasaður eftir þetta.
Vorum við þá búnir að koma auga á Magnús, sem flaut skammt frá bátnum, og hélt hann tómu línubjóði ofan á bringunni.
En nú vandaðist fyrst málið. Vélin var alveg að stöðvast, því svo mikill sjór hafði komizt í bátinn, þar sem lestin var opin, þegar við fengum áfallið. Og jós nú drifhjól vélarinnar látlaust sjó yfir glóðarhausinn, svo að merkilegt mátti kallast, að vélin var ekki þá þegar stönzuð.
En Sigurður var ekki ráðalaus, hann sagði mér að fara niður og gefa vélinni fullt loft á hausinn og hvolfa svo fötunni, sem var í mótorhúsinu yfir glóðarhausinn. Og var þá Jörgen farinn að dæla úr bátnum og dró ekki af sér.
Ég var fljótur að gera eins og fyrir mig var lagt. Og þurftum við eftir það ekki að kvíða því, að vélin stöðvaðist, vegna þess að hún kældi sig. (Ég vil geta þess hér, að vélin í bátnum var 10 hestafla, að nokkru leyti Dan og nokkru leyti Alfa. Samansett af hinum þjóðkunna vélsmíðameistara Jóhanni heitnum Hanssyni á Seyðisfirði, og hafði hann fundið upp þennan loftútbúnað á glóðarhausinn, sem gerði það að verkum, að vélin kraflaði mun betur, og eins var alltaf hægt að hafa glóðarhausinn hæfilega heitan. Og býst ég við, að þessi útbúnaður hafi átt drjúgan þátt í því, að þarna fór betur en á horfðist).
Á meðan þetta gerðist hafði Sigurður skorið línuna, sem var margflækt um rekkverkið og niður í skrúfu bátsins. Og þegar kóflað var að, sem kallað er, ætlaði vélin hvað eftir annað að stöðvast, vegna þess hve mikið af línunni var í skrúfunni.
Magnús sáum við alltaf, en bilið milli hans og bátsins stækkaði ört. Og virtist hið barða norðurfall hafa áhrif á rek hans, en vindurinn aftur virka meira á rek bátsins.
Sigurður gerði nú ítrekaðar tilraunir til að ná bátnum upp í vindinn og nálgast Magnús. En það tókst ekki vegna þess hvað lítil ferð náðist, sökum þess hve mikið var í skrúfunni.
En Sigurði varð ekki ráðafátt, sem fyrr segir. Hann náði bátnum undan vindi og þar með talsverðri ferð og tók hann nokkuð stóran sveig. Jókst ferð bátsins mikið og gekk nú greiðlega að ná honum upp í vindinn.
Nálguðumst við Magnús nú fljótt. Alltaf var hann með bjóðið í fanginu, en þegar eftir voru ein til tvær bátslengdir, braut yfir hann smákvika, og missti hann við það bjóðið. Báturinn rann samstundis á staðinn, þar sem Magnús var og sáum við hann mjög vel, því hann var í gulum olíubuxum, sem vel sáust í sjónum.
Í fyrstu tilraun tókst okkur að bera í hann með fiskistjaka (sem til allrar hamingju var fastur í seglgaffli bátsins, annars hefði hann farið í sjóinn eins og annað, sem á dekkinu var).
Ekki virtust miklar líkur fyrir því, að Magnús væri lifandi, þegar hann náðist inn á dekk. Þó rann strax mikill sjór upp úr honum. Eitthvað kunni Sigurður í lífgun úr dauðadái og tók hann strax til við þær æfingar. Og eftir stutta stund vorum við vissir um að Magnús væri á lífi. Fórum við þá með hann niður í lúkarinn og hélt Sigurður áfram lífgunartilraununum. Ég lífgaði eldinn í ofninum, sem ekki var alveg kulnaður, en Jörgen hafði stjórn bátsins á hendi, sömuleiðis gæzlu vélarinnar meðan þessu fór fram. Stóð hann sig með mikilli prýði eftir það volk, sem hann hafði fengið. Stefna var tekin inn til fjarðarins og var ákveðið að fara beint til Eskifjarðar, því þar var læknir.


Nú er öldin önnur.



Þarfasta skipið í hinum stóra flota Vestmannaeyja, dýpkunarskipið ,,Heimaey“, að störfum.


Eftir þriggja tíma siglingu vorum við komnir inn á móts við Litlu-Breiðuvík. Svo allir, sem til þekkja þessa vegalengd, geta gert sér í hugarlund, að hægt hefur Ingólfur farið. Enda ekki furða með alla þá línuflækju, sem í skrúfunni var.
Þegar þarna var komið, var Magnús búinn að fá meðvitund. Var þá hætt við Eskifjarðarferðina og haldið til Reyðarfjarðar. — Og áður en heim var komið um hádegi þennan eftirminnilega dag, var Magnús bæði búinn að taka í nefið og drekka kaffi. Varð honum ekki meira um þetta en það, að hann lá í rúminu það sem eftir var af þessum degi og var heima daginn eftir, þegar farið var að leita að línunni, sem búið var að leggja, þegar óhappið vildi til. Síðan fór hann á sjóinn aftur.
Eftir 39 ár, sem liðin eru síðan atburður þessi gerðist, minnist ég með hlýjum huga þessara góðu félaga minna. Og ekki sízt Sigurðar Jónssonar, sem látinn er fyrir allmörgum árum. En hann lézt í umferðarslysi í Reykjavík.
Þess skal að lokum getið, að Sigurður heitinn og hinn dugmikli sjósóknari og aflakóngur, Benóný Friðriksson frá Gröf, voru bræðrasynir. Og dettur mér Sigurður oft í hug, þegar ég heyri talað um ráðsnilld og sjómennsku Binna, eða hefur nokkur heyrt, að honum hafi nokkurn tíma orðið ráðafátt á sjónum?

12. maí 1957.

Handrit að frásögn þessari hefur sá, er skrásetti, lesið mér, og er hún að öllu leyti rétt.

Magnús Valtýsson.