Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1986/Síðasti veiðitúrinn

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 1. september 2017 kl. 10:29 eftir Mardis94 (spjall | framlög) Útgáfa frá 1. september 2017 kl. 10:29 eftir Mardis94 (spjall | framlög)
(breyting) ←Fyrri útgáfa | Nýjasta útgáfa (breyting) | Næsta útgáfa→ (breyting)
Fara í flakk Fara í leit

Jóhann Pálsson skipstjóri:

Úr ruslakistu minninganna:


Síðasti veiðitúrinn


Árið 1961 hafði ég verið að hugsa um það stundum að hætta á sjónum. Ýmsar ástæður lágu þar til, en veigamest var áreiðanlega sú að heilsan var eitthvað farin að bila. Ég varð oft að beita mig hörðu gagnvart starfinu í heild og hafði svo verið í mörg ár, en ágerðist.
Í ársbyrjun 1962 vorum við á síldveiðum með hringnót á seinna Hannesi lóðs sem ég hafði þá átt í nokkur ár. Fyrri part febrúar var skipt yfir á línu og var einmitt verið að beita hana þennan dag. Jafnframt voru ýmsar breytingar um borð í þessu sambandi svo að nóg var að gera.
Kl. um 3 um daginn fæ ég boð frá Einar Sigurðssyni útgerðarmanni. Hafði hann heyrt að ég vildi selja útgerð mína og vildi hann kaupa. Báðir lögðu sínar hugmyndir fram í málinu. Kl. um 7 var Einar orðinn eigandi að útgerð minni. Það var ekki verið að tvínóna við hlutina, en það skilyrði setti Einar að ég yrði með Hannes lóðs um veturinn.
Þetta gekk allt vel. Um vertíðarlok vildi ég hætta en Einar fékk mig til að fara á síldveiðar smátíma þar til skipstjórinn, sem taka átti við bátnum, væri búinn að vera um borð og kynnast öllu. Það dróst nokkuð að maður-inn kæmi. Vorum við fyrst við Eyjar en fórum svo vestur undir Jökul, nánar til tekið í Kolluálinn. Þar fengum við góða veiði og lönduðum í Reykjavík.
Svo var það einn dag, snemma morguns í rjómalogni og sléttum sjó, að asdikið bilaði um leið og byrjað var að leita að síldartorfum. Ekki var hægt að fá það í lag hvernig sem reynt var. Það var frekar leiðinleg ákvörðun að þurfa nú að keyra alla leið til Reykjavíkur, um 60 sjómílur, með tóman bát. Dagurinn tapaður með afla. En það var sama hvað reynt var við tækið, enginn árangur náðist. Þá datt mér það í hug að tala við viðgerðarþjónustu umboðsins sem ég þekkti vel. Lýsti ég þessu nákvæmlega fyrir þeim og þeir gáfu okkur ýmis ráð. Ekki leið langur tími þar til við höfðum fengið tækið í lag eftir ábendingum úr landi.
Skipin sem þarna voru á veiðum kvörtuðu um að síldin væri á mikilli ferð og vont að ná henni. Ekki höfðum við lengi leitað þegar mjög stór síldartorfa kom inn á asdikið. Þarna var ekkert skip nálægt svo að hún var tekin rólega ákvörðunin um hvernig best væri að kasta á þessa torfu sem var á talsverðri ferð í ákveðna átt. Eftir þessa athugun var svo kastað á torfuna, en þó í lengra lagi framan við hana og nótin látin sökkva niður í fimm mínútur. Það var langur tími að manni fannst, en þá var byrjað að snurpa saman nótina. Fljótlega kom í ljós, er farið var að draga nótina, að síldin var inni í nótinni því að mikið af lifandi síld var í garninu.
Þetta var mjög stórt kast, báturinn var fylltur, eins og á honum tolldi, því að veður og sjór voru upp á það besta. Báturinn var 65 tonn, en 1200 tunnur af síld komu upp úr honum eða 120 tonna þungi.

Hannes lóðs í Reykjavíkurhöfn

Svona geta smáatvikin oft valdið miklu. Hefðum við ekki fengið asdikið, sem er eitt af furðutækjum nútímans, í lag hefði engin síld komið í bátinn þennan dag. Þetta er svo aðeins eitt dæmi af síldarhleðslu-ævintýrinu eins og það gekk oft til er silfur hafsins var hér um allan sjó allt í kringum landið, allt árið. Skammsýni og græðgi útrýmdu þessum nytjafiski okkar á ótrúlega skömmum tíma með aðstoð nútíma-tæknivæðingar, þrátt fyrir ábendingar margra góðra manna sem sáu hvert stefndi í þessu máli. En þessir liðnu tímar eru mörgum eldri mönnum ógleymanlegir af því að síldveiðarnar þá voru taldar allra veiða skemmtilegastar ef vel gekk og allir vildu fara á síld. Þessum veiðum var þó oft líkt við happdrætti, því að mörgum gekk það illa að fá þar stóru vinningana í sinn hlut.
Þetta er nú orðinn býsna langur útúrdúr — en sem sagt löndunarhöfn var ákveðin Reykjavík. Meðan á löndun stóð frétti ég af síld út af Grindavík. Nú hafði sá, sem taka átti við bátnum, komið um borð. Leist mér því vel á að fara suður fyrir Reykjanes og prófa hvort mér tækist að fá þar í bátinn og fara með þann afla til Vestmannaeyja og slá þar með botninn í sjómennsku mína, sem staðið hafði tæp 40 ár, — ég var búinn að vera nær eingöngu við störf á sjónum allan þann tíma og næstum 30 ár skipstjóri.
Á þessi mið komum við árla næsta morgun. Var þá lítið um að vera og nánast engin veiði þar. Loks þegar farið var að halla að hádegi fundum við stóra torfu lengra úti en skipin héldu sig. Á þetta var kastað og þegar búið var að háfa úr nótinni reyndist vanta svo lítið á bátinn að ekki þótti taka því að kasta aftur. Er búið var að gera allt klárt var stefnan sett á Vestmannaeyjar í góðu veðri og sléttum sjó með fulla lest og um það bil sléttfullt dekkið.
Það var óneitanlega skrýtin tilfinning sem greip mig á heimleiðinni þó að ég léti á engu bera. Ekki hvarflaði að mér að sofna. Ég hafði því góöan tíma til aö láta hugann reika um farinn veg. Margs var að minnast, í margri slyddu-sjóferðinni var búið að lenda á löngum tíma. Þá kom það fyrir í fárviðrum að stutt virtist í endalokin og jafnvel gerði maður sér ekki fullkomnlega grein fyrir slíku fyrr en eftir á. Margir voru skiptaparnir orðnir á þessu tímabili. Ég slapp ekki við það sem við kölluðum manndrápsveður þann tíma sem ég stundaði sjóinn, þau veður grönduðu bátum frá Eyjum á vetrarvertíðum.

Mynd: Jóhann Pálsson

Minnisstæðastur er mér, held ég, 1. mars 1942, þegar fjórir bátar töpuðust úr hópnum, einn sprengdi sig sem kallað er, en á honum varð mannbjörg, fyrir ótrúlegt snarræði annars báts. Annan rak upp á land og allir á honum héldu lífi, en tveir bátar fórust með öllu innanborðs. Þessu dagur er kapituli út af fyrir sig, en hér yrði hann of langur. Þó að allir slíkir dagar væru öllum mikið áhyggjuefni var sorgin þó mest hjá þeim sem misstu sína nánustu.
Annað atvik úr starfi mínu: Við vorum þrír bátar við Dyrhólaey kl. 8 um kvöld, í því sem maður kallar brjáluðu veðri, suðaustan fárviðri með slyddubyl. Þetta voru stórir og góðir bátar, allir tókum við sömu ákvörðunina, að andæfa þarna án þess að hafa samband um það okkar á milli. En sama sjónarmið hefur ráðið, að ef við færum heim, sem við gátum auðvitað gert og það var það langhægasta, var útilokað að við kæmumst hingað á morgun. Við áttum öll okkar veiðarfæri fram af Hjörleifshöfða, en þau voru í stórhættu vegna þessa óveðurs (enda töpuðust þau). Um nóttina var svo keyrt upp í veðrið eins mikið og þurfti, á þessu dýpi, stundum hálf ferð, þrír-fjórðu ferð, upp í fulla ferð svo að bátarnir stýrðu upp í sjó og vind en þeim slægi ekki flötum. Veðrið var óskaplega hart, nánast ekki stætt á dekki og ekki sást glóra út fyrir borðstokkinn.
Um morguninn í birtingu glórði aðeins í land hjá einum okkar og taldi hann að við værum komnir austur á Vík. Þótti okkur það mjög trúlegt að bátarnir hefðu halað það upp í veðrið eftir andófið um nóttina. Skömmu seinna grillti ég í land. Vorum við þá aðeins norðvestan við Holtsnúp að sjá, höfðum farið aftur á bak um 20sjómílur, eða nálægt 37-40 kílómetra vegalengd um nóttina á 12 tímum. Nú var það ljóst að ekki þýddi að hugsa um veiðarfærin í dag svo að við lónuðum heim til Eyja. Stórhöfði sagði 17 vindstig og ekki var viðlit að taka höfn í Eyjum vegna hafróts. Urðum við því að fara vestur fyrir Eyjar að leita skjóls, sem þó var ekkert. Rétt í dimmingu næsta kvöld brutumst við inn í höfnina og ekki gaf á sjó næstu þrjá daga vegna óveðurs.
Svona gat nú harkan og kappið verið mikið, en þá voru ekki komnir ríkisstyrkir. ríkisábyrgðir, kauptrygging og hvað það heitir allt. Þá var það að duga eða drepast. Sú hugsun var áreiðanlega ofarlega þá við erfiðar aðstæður. Oft voru fiskileysis- og ótíðar-kaflar mörgum áhyggjuefni í Vestmanna-eyjum öðrum landshlutum frekar því að þar byggðist allt lífið hjá fólkinu á sjónum.
Ekki get ég sagt að ég hlakkaði beint til að hætta þessu starfi. Eitthvað óþekkt hlaut að taka við, sennilega ekki eins frjálst, ekki eins spennandi, eins og einræðisstaða skipstjóra er. Eitt var þó sem ég réð aldrei við. Það var hin miður skemmtilega eða ánægjulega fylgikona, ótætis sjóveikin sem alla tíð hafði fylgt mér, frá fyrsta degi til þeirra síðustu. Í fjöldamörg ár byrjaði ég að kasta upp á leiðinni niður að sjó er við vorum að fara til róðra og áfram meira og minna allan daginn. Eftir landlegur eða ef gerði vond veður á sjónum var ég þó langverstur af sjóveikinni. Þeir sem ekki þekkja sjóveikina munu varla trúa þeim þjáningum sem hún veldur, en hinir þekkja þær af reynslunni.
En þrátt fyrir þá miklu erfiðleika, sem fylgja allri sjómennsku, sé hún stunduð af kappi, er hún frjálst líf, heillandi ungum og upprennandi mannsefnum, hún herðir þá í átökum lífsins bæði andlega og líkamlega.
Ég á heilan hafsjó af skemmtilegum minningum úr starfu mínu sem skipstjóri. Þori þó ekki að byrja á neinu hér því að leiðin til hafnar styttist óðfluga. — Þó eru það fjögur atriði úr starfssögu minni sem eru mér ofarlega í huga einmitt núna við upprifjun minninganna.
Fyrsta skipstjóra-sigling mín var frá hafnarbænum Fraserburg í Skotlandi, örskammt frá Kinnerhet er margir sjómenn þekkja, til Suðureyjar í Færeyjum og þaðan til Vestmannaeyja í kolbrjálaðri janúar-veðráttu. Fragtskip á þessari leið gáfu oft upp 12 vindstig. Við vorum í átta sólarhringa á milli eyja, ég réttindalaus en nýbúinn að fá 60 tonna skipstjórapróf.
Annað atriði: Fyrsta róður sem skipstjóri fór ég einskipa á sjó í mjög vondu veðri. Allir kusu heldur að vera í landi. Við slóuðum í þrjá tíma móti sjó og vindi. Þegar búið var að leggja tvo parta línunnar stoppaði vélin, fékk ekki kælivatn. Við vissum hvað var að en höfðum engin verkfæri um borð. Bátinn rak svo fyrir sjó og vindi þar til birti. Engin talstöð var þá komin í báta. í birtingu lagaðist veðrið. Við gerðum þá tilraun til að fá vélina í gang og það furðulega skeði að nú var allt í lagi. Ég keyrði í átt að línunni og hitti beint á rétta endann. Allt fór þetta ágætlega en um leið og búið var að binda bátinn við bryggjuna steinstoppaði vélin, dælan hafði verið brotin allan daginn. Þriðja atriðið var að ég tvísótti eitt sinn laugardaginn fyrir páska þegar allir voru í landi vegna óveðurs. Allir fóru heim strax í birtingu en við slóuðum við netin fram á hádegi. Var veðrið þá farið að skána en mikill sjór. Við komum heim um kvöldmatarleytið. Var lestin troðfull og talsvert meira af fiski á dekkinu en í lestinni, fullkomin síldarhleðsla!
Nokkrir bátar fóru á sjó er við komum að bryggju. Við losuðum allan fisk af dekkinu og meiri partinn úr lestinni, — og þá strax út aftur. Klukkan 5 um morguninn eftir var sólarhringstörn lokið. Það voru þreyttir menn sem þá fóru að sofa. Báturinn var þá 22 tonn, en dagsaflinn var 54 tonn.
Fjórða atriðið var síðusta sjóferðin sem ég fór í. Kem að landi með fullt skip af síld, fulla lest og fullt dekkið.
Eg lít nú heim til Eyjanna sem færast smámsaman nær og nær. f hugann kemur „Yndislega Eyjan mín" eftir Sigurbjörn Sveinsson kennara og skáld með meiru, hin sígilda perla, eitt fegursta átthagaljóð sem gert hefur verið um nokkra byggð. Hana fór ég nú að raula og aldrei hafði ég séð Eyjarnar eins fagrar og núna er sumarsólin skein á þær og ljóðlínur Sigurbjörns eins og leystu alla þessa fegurð úr læðingi í nýju ljósi fyrir mér. Og áfram mjakaðist báturinn heim til hafnar.
Já, hér vil ég una alla mína ævidaga, að þessu starfi loknu, svo vænt þótti mér um þessar undurfögru og margbreytilegu eyjar, enda höfðu þær gefið mér ótrúlega mikla hamingju í lífi mínu og starfi.

Hjónin Jóhann Pálsson og Ósk Guðjónsdóttir

Eitthvað á þessa leið hugsaði ég er ég stýrði báti mínum í síðasta sinn inn í Vestmannaeyjahöfn með afla, heim af hinum gjöfulu fiskimiðum er ég hafði stundað í svo langan tíma og átt allt mitt undir. Ég var sannarlega sáttur við Guð og tilveruna.
Bátnum lagði ég svo í Friðarhöfn. Er landfestar höfðu verið bundnar þakkaði ég skipshöfn góða samvinnu í öllum störfum og óskaði þeim alls góðs. Þegar ég kom á bryggjuna klappaði ég kinnung bátsins sem svo margan harðan löðrung hafði fengið undir minni stjórn. Ég minntist hans góðu þjónustu við mig og kvaddi hann, að vissu leyti með söknuði.
Þarna gaf ég sjálfum mér það loforð að hætta öllum veiðiskap á sjó, og við það hef ég getað staðið. Þar með lauk síðustu veiðiferð minni.
Jóhann Pálsson.