Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1996/ Eyjabanki - suður á banka

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 18. apríl 2017 kl. 15:51 eftir Karibjarna2 (spjall | framlög) Útgáfa frá 18. apríl 2017 kl. 15:51 eftir Karibjarna2 (spjall | framlög)
Fara í flakk Fara í leit
Guðjón Ármann Eyjólfsson skólameistari


EYJABANKI
SUÐUR Á BANKA


Ég minntist á það í Sjómannadagsblaðinu í fyrra að ég myndi bæta í safnið um Eyjamið ef menn hefðu gaman af því spjalli.
Ég fékk mjög góð viðbrögð og hvatningu að halda áfram þar sem frá var horfið í greininni um Eyjamið, en hefði þó viljað fá fleiri ábendingar um nöfn á miðunum við Surtsey.

Athugasemdir.
Ég hef ekki fengið aðrar athugasemdir en þær að „Drangasker“ vestan við Þrídranga hefðu sjómenn í Vestmannaeyjum aldrei nefnt annað en „Blindskerin.“ Þetta er rétt, en án athugasemda hefur nafnið þó verið í sjókortum frá því fyrir 1930 og í „Leiðsögubók fyrir sjómenn við Ísland 1932“ segir:
„Vestan við drangana [þ.e. Þrídranga] er óhreint. Vestasti boðinn er Drangaboði (Drangasker). Hann er um 3/4 sjóm. frá Þrídröngum. Á boðanum er 11 m dýpi.“
Í þessu sambandi má einnig minna á að umhverfis Blindskerin er fiskimiðið „Blindskerjahraun“. Í sömu leiðsögubók er aftur á móti ritað Hvítbjarnarboði, en í sviga Hvidbjörnsboði. Ég legg því enn einu sinn til að nafnið á boðanum verði ritað á íslensku í íslenskum sjókortum á sama hátt og við segjum og skrifum Kaupmannahöfn en ekki „Köbenhavn“!br> Í leiðsögubókinni frá 1932 eru þó sumar athugasemdir einkennilegar. T.d. er þar getið um „Bládrang“ norður af Geldungi sem var fast norðan við Þúfuskerið, sunnan við Hundasker, en árið 1932 var Bládrangur horfinn þar eð hann féll í brimi árið 1907. Nafnið „Einidrangur“ er fallbeygt: „Í ANA frá Einadranga er Ásugrunn. Þar er 16 m dýpi.“ En um Þrídranga segir: „Þrídrangar eru um 3 sjóm. í NAaA frá Einadranga.“

Enn um Sannleiksstaði.
Eftir að Sjómannadagsblað Vestmannaeyja kom út vorið 1995 var ég svo heppinn að finna viðtal sem ég átti við Pál heitinn Ingibergsson frá Hjálmholti og ritaði beint eftir honum. Ætíð skal hafa það sem sannara reynist og kemur þarna fram að Páll, sá mikli fiskimaður og ágæti sjómaður, lagði fyrstur Eyjamanna net í sjó á Sannleiksstöðum. Viðtalið er því birt hér orðrétt eins og ég skráði það 30. janúar 1982:
„Páll hafði verið með netin á Þjórsárhrauni og hafði séð færeyska skútu, sem var alltaf á sama stað og virtist vera í fiski. Þetta var á elsta Reyni VE 15. Þeir voru þá komnir með dýptarmæli og voru miklar lóðningar. Páll fékk þarna mikinn fisk. Hann lét Óskar Matthíasson vita, en þeir voru góðir vinir frá því að Óskar var vélstjóri á Glað með Páli.
Þeir Óskar og Páll voru þarna í góðum fiski, en þóttust aldrei fá bein úr sjó og réru seinna en aðrir til þess að leyna staðnum og komu seint að landi. Guðjón gamli Valdason á Kap hafði í fiskileysi austur af Eyjum dregið öll net í bátinn og ætlaði að flytja þau vestur fyrir Eyjar en hætti við allt saman þegar hann heyrði fréttir þeirra Óskars og Páls í talstöðinni. Þegar fiskisagan flaug var Guðjóni þess vegna að orði: „Það ætti bara að taka talstöðina af þessum strák í Hjálmholti!“
Svo var það einn daginn að Júlli á Skjaldbreið, sem var þá með Þorgeir goða, kom á fiskislóð þeirra vinanna, leggur þar trossur sínar og rótfiskar. Þegar Júlli var spurður að því hvar hann hefði verið á sjó hneggjaði hátt í Júlla og hann svaraði að bragði: „Hu, hu, nú ég var vestur á Sannleiksstöðum!“ Eftir þetta voru þessi mið aldrei kölluð annað og hafa ætíð síðan verið með gjöfulustu miðum Eyjabáta.“

Karginn.
Apalhraun rétt vestur af Einidrang. Ég hef það eftir föður mínum, Eyjólfi Gíslasyni, að þar hafi fyrst verið lögð þorskanet vetrarvertíðina 1928. Fram að þeim tíma var þetta óþekkt hraun, en fékk nafn af því hve þetta var vont hraun og mikið tapaðist þar af netum. Ef hittist á góða bletti fékkst þarna óvenjustór og góður fiskur. Um línulögn við Kargann ritaði ég sumarið 1961 eftir föður mínum og Stefáni Guðlaugssyni í Gerði:
„Sunnan við Karga: Góð lögn er í miðinu „Einidrang allt að því faðm inn úr Faxa,“ þó ekki hraunlaust, 2 til 4 strengir á hrauni. Ekki er laust sunnan við Karga, nema „Suðurey og Álsey séu aðeins lausar.“
Ef byrjað er að leggja fast upp í Einidrangi má leggja 10-12 strengi áður en komið er á austurbrún Kargans.

Innan við Karga: „Einidrangur má ekki fara norðar en á miðja Álsey.“ Frá Einidrang á vestari Kargabrún er 35 - 40 mínútna keyrsla á bát sem gengur 8 til 9 mílur.“

Um Bræðrabreka.
Ég hef ekki fengið neinar nánari fregnir af Bræðrabreka sem er ýmist nafn á grunni, hrauni eða einstökum klakki, standi eða boða. Ég sé að ekki rætist úr þessu!
Flestir hafa hinir einstöku naggar eða standar í Vesturflóanum fengið nafn. Ég legg því til að örmjór og brattur standur á 34 metra dýpi, rétt vestur af Álseyjarbreka, eða Breka eins og hann er oftast nefndur, verði kallaður Bræðrabreki.
Standurinn er stærri um sig í stefnunni norðaustur-suðvestur og er nærri því 40 metrar á hæð; þ.e. hann er hærri en vitinn á Þrídröngum sem frá yfirborði sjávar er í 36 metra hæð.
Sigurður heitinn Jóelsson sagði mér eftirfarandi um nafnið Bræðrabreka: Hann hafði heyrt að heitið væri kennt við bræðurna Árna og Stefán Finnbogasyni frá Norðurgarði sem eru löngu látnir en voru kunnir Vestmannaeyingar á sinni tíð. Árni var lengi formaður og útgerðarmaður og átti bátinn Vin VE 17 sem hann var með. Þeir ólust upp í Norðurgarði fyrir ofan Hraun upp úr síðustu aldamótum og var faðir þeirra, Finnbogi Björnsson, þekktur sjósóknari og skipstjóri. Sigurður sagði mér að þeir bræður hefðu róið þangað fyrstir manna á litlum báti eða juli úr Klaufinni eins og alsiða var frá bæjunum fyrir ofan Hraun. Ekki finnst mér ólíklegt að Bræðrabreki, „mjói drangurinn í sjónum“ eins og honum hefur verið lýst Þorsteinn í Laufási, gæti verið þessi boði. Einstakir boðar og grunn þarna í kring hafa fengið nafn og finnst mér því nafnið „Bræðrabreki“ vel við hæfi hvort sem brekinn heitir eftir þeim ágætu bræðrum frá Norðurgarði, sem settu svip á lífið í Eyjum á sinni tíð, eða litið er á boðann sem bróður Álseyjarbreka sem er þarna skammt frá með um 70 metra dýpi á milli, en 11 metra dýpi er á Álseyjarbreka.

Eyjabanki.
Þar voru ein gjöfulustu fiskimið Vestmannaeyjabáta um áratugi og nær Bankinn yfir talsvert svæði norðvestur og norður af Geirfuglaskeri.
Frá 1940 til 1960 má segja að sókn vertíðarbáta í Vestmannaeyjum, sem réru með línu og net, hafi í stórum dráttum verið þannig að á miðri vertíð, í kjölfar loðnugöngu vestur með landinu um miðjan mars, beittu allir línubátar nýveiddri loðnu í tvo til þrjá línuróðra og var þá landburður af fiski. Loðnuna veiddu flestir bátar sjálfir í sérstakan loðnuháf sem þeir dýfðu ofan í loðnutorfurnar eða drógu á eftir bátnum og var loðnan ekki nýtt til annars á þessum árum. Ekki var farið að beita loðnu fyrr en eftir 1940 og þá tekið eftir Hornfirðingum (Heimild: E.G.). Þó kom það fyrir að sérstakir bátar fóru út til að veiða loðnu í beitu, t.d. Örn litli. Þegar loðnan var gengin fram hjá Eyjunum var venjulega ördeyða á línu fyrst á eftir og lögðu þá allir bátar, nema þeir sem voru á togveiðum, net sín undir Sandi þar sem þorskurinn lá og jafnaði sig eftir sílið. Þorskanetin voru lögð þarna í fjórar til fimm lagnir og þá oft svo grunnt að endastjórarnir voru í grunnbrotunum. Í hafáttum gat þetta reynst hættuspil og komust margir Eyjabátar í hann krappan á netaveiðunum undan Landeyja- og Eyjafjallasöndum. Vélbáturinn Freyja VE 260, sem var um 20 tonna bátur, smíðaður úr eik og furu í Danmörku, fékk t.d. á sig brot á vetrarvertíðinni 1927, hinn 30. mars, þegar báturinn var að draga netin fram af Arnarhóli í Vestur-Landeyjum og rak bátinn í gegnum brimgarðinn og upp í sandinn. Skipstjóri var Hannes Hansson á Hvoli. Átta manna áhöfn var á bátnum, tveir menn drukknuðu, en af þeim sex sem björguðust slösuðust þrír. Freyja náðist ekki út og varð til þarna í sandinum.
Þegar fiskur fékkst ekki lengur í netin undir Sandi, í lok mars eða byrjun apríl, fluttu bátar oftast net sín út á djúpið og lögðu trossurnar við Mannklakk, Ledd, suður á Eyjabanka eða á hraunin við Dranga; miðin suður og austur af Einidrangi og Þrídröngum, við Hvítbjarnarboðann, Þokuklakk, Þorsteinsboða, Breka og fleiri mið í Vesturflóanum.
Eyjabankinn var fengsælastur þessara miða og fiskur þaðan jafnstór, sex til sjö ára gamall hrygningarfiskur, og voru bátar á þessum miðum fram í maí. Sumir voru þarna í sömu lögninni alla netavertíðina og lögðu á sama miðið vertíð eftir vertíð. Það kom jafnvel fyrir að formenn tóku það óstinnt upp ef einhver var kominn í bólið þeirra þegar þeir ætluðu að fara að leggja! Þetta voru því sannarlega vinsæl og gjöful fiskimið. Á vetrarvertíðinni voru þarna tugir báta, fjöldi íslenskra togara og hundruð erlendra fiskiskipa, enskir og þýskir togarar ásamt færeyskum og fyrr meir frönskum skútum en síðasta franska skútan var á Íslandsmiðum árið 1936. Togararnir gerðu oft mikinn usla í netatrossum báta sem áttu net á Eyjabanka þó að veiðarfæra væri sérstaklega gætt alla vertíðina af íslensku varðskipunum eftir að björgunar- og varðskipið Þór kom til Vestmanneyja á vetrarvertíðinni 1920.
Ég hef það eftir Eyjólfi föður mínum að þorskanet hafi fyrst verið lögð suður á Banka vetrarvertíðina 1918, en alltaf var sagt „suður á Banka“ þar til byrjað var að fiska á Selvogsbankanum upp úr 1950. Eyjólfur var þá háseti á m/b Goðafossi VE 189 og var Árni Þórarinsson frá Eystri-Oddsstöðum formaður. Áður en bátarnir fóru suður á Banka höfðu flestir verið með net sín í flóanum á milli Klettsnefs og Bjarnareyjar, suður með Urðum og austur í Leir eða undir Sandi í suðvestan ótíðarkafla, umhleypingum og brimi í sjó eftir að loðnan gekk í byrjun mars.
Eyjólfur segir svo frá vertíðinni 1918: „20. apríl fórum við suður á Banka með netin, tvær 12 neta trossur, ásamt fleiri bátum. Var það fyrsta sinn að lögð voru þar þorskanet. Aðra trossuna lögðum við í suðvesturhorni Bankapollsins. Mið: Frúin vel laus sunnan við Geirfuglasker og tveir þriðju af Hænu inni. Hina trossuna vestan við vestri Hryggi, mið: Sýling í Hanahausinn (laus við Ufsaberg) og Hábrandurinn í Stórhöfðavitann. ... Alltaf var nægur fiskur og því lagt á sama.“
„Þessa vertíð vorum við á Goðafoss með netin á Bankanum til 19. maí, þá fyrst tekin upp og hætt veiðum, en ekki af fiskileysi því ekki var þorskurinn allur farinn eftir ístöðunni að dæma þó mikið væri hann farinn að tregast, en þá var sjórinn orðinn svo heitur að netin fúnuðu ótrúlega fljótt svo ekki þótti borga sig að halda lengur úti.“
„Á lokadeginum 11. maí þessa vertíð voru öll net full af fiski á Bankanum svo enginn bátur gat þá tekið netin með í land vegna ofhleðslu, enda kominn austan kaldi.“
Goðafoss var hæstur vertíðarbáta í Vestmannaeyjum vertíðina 1918, fyrstu vertíð sem Eyjabátar lögðu net á Eyjabanka, og var aflinn 48 þúsund fiskar, en allur afli var þá talinn. Vertíðaraflinn fékkst í 76 róðrum og hefur sennilega vegið um 400 tonn upp úr sjó.

Mið næst Geirfuglaskeri.
Geirfuglaskershraun er umhverfis Skerið, einkum þó suðvestur og vestur af Geirfugli. Línulögn kennd við hraunið var þannig eftir miðum:
„Byrjað að leggja austur úr [austan við] Geirfuglaskeri, ekki vestar en Blátind í Nóngil“ [Nóngil er í Álsey, upp af Lækjarbrekku að vestan og veiðihúsi að austan] eða „Stórhöfðavitann rúma alin austur úr Suðurey.“
„Venjulega er lagt undan Álsey þar til Geirfuglasker fer að nálgast Hellisey, þá má beygja í vestur (NV) þar til Háukollar [hæsti kollur á Heimakletti, 283 m] eru á miðja Álsey, þá má beygja innúr, upp á Álsey inn í Bankapoll (inn að innsta hrygg).“
Ekki er auðvelt að setja þessa línulögn út í sjókortið enda vantar alveg þvermið, hvenær eigi nákvæmlega að breyta stefnu. Margir Eyjaformenn voru þó svo næmir fyrir umhverfi sínu áður en staðarákvörðunartæki eins og ratsjá og dýptarmælar komu í bátana að þeir þurftu varla annað en að líta út fyrir borðstokkinn til þess að sjá af sjólagi og jafnvel af lit sjávar hvar þeir voru staddir. En þessi línulögn og fleiri voru notaðar og uppgefnar áður en nokkur tæki önnur en kompás voru í bátum.
Mér virðist línulögnin hafa verið á sléttum botni í landgrunnsfætinum suðaustur af Geirfuglaskeri, en hann er allbrattur austan við Skerið og dýpkar skarpt frá 40 metra dýpi niður í 80 til 90 metra dýpi. Þegar komið er vel suður fyrir Geirfugl liggur lögnin meðfram Geirfuglaskershrauninu um svokallað Skarð. Miðið: „Hákollar um miðja Álsey“ liggur utan í grunninu Surtlu, austur af Surtsey. Lögnin upp á Álsey liggur þétt við Surtsey að austan. Þessi gamla línulögn hefur því verið hálfhringur umhverfis Geirfuglasker og Geirfuglaskershraun.

Hryggirnir: Hryggirnir eru þrír, sennilega móbrikur og tindar: Norðurhryggur, einnig nefndur „Vondi hryggur,“ Suðurhryggur eða Syðsti hryggur og Vesturhryggur.

Bankapollur: Skál eða „dalverpi“ norðvestur af Geirfuglaskeri, norður af Surtsey, sem Hryggirnir mynda. Svæðið var innan Hryggjanna, opnara til norðausturs og var nefnt Bankapollur. Frá Geirfuglaskeri og Geirfuglaskershrauni dýpkar allhratt niður í Bankapoll og má líkja botninum við bratta brekku. Það þótti mikil fremd og kunnátta að geta hringtogað Bankapoll.

Krókur: Rétt austan við Bankapoll var miðið Krókur og var talað um að leggja og toga austur í Krók. Komið var austur í Krók í miðinu: „Stórhöfðavitinn brennur rétt vestur af Suðurey“ eða „ Yddir á Hellutá austur af Stórhöfða“ og mátti ekki halda austar. Ekki mátti fara vestar en í miðið: „ Yddir rétt á Háubúrahausinn [efst á Sæfjalli] vestan undan Álsey” og var þetta talið fullvestarlega af sumum skipstjórum. Verið var inni í Krók þegar „Helgafell var við Álsey að austan“og þá austast við Suðurhrygginn.
Hvort sem veitt var með línu, þorskanetum eða botnvörpu á Eyjabanka varð að þekkja og glöggva sig á örnefnum við Geirfuglasker sem voru notuð við veiðar, lögn og togslóðir norðvestur og norður af Skerinu. Nú eru sum þessara kennileita horfin.

Stórusker: Austan við Geirfuglasker eru þrjú smásker eða flúðir sem eru samfastar. Skerin voru ýmist notuð öll saman eða þá hvert fyrir sig til miða: „Stórusker föst við Geirfugl“; þá var verið sunnan við Syðstahrygg. „Stórusker laus við Geirfugl“; þá var verið uppi á Syðstahrygg. „Stórusker inni, þ.e. í hvarfi við Geirfugl“; komið suður fyrir Syðstahrygg.
Skerin þrjú heita, talið frá austri (sjá mynd): Litla þúfan, Þúfan og Hófstallur sem var syðstur og vestastur þessara smáskerja.

Frúin: Smádrangur eða standur sem stóð þétt suðaustan við Geirfuglasker og hrapaði af í aprílmánuði árið 1968. Sennilega hefur smám saman verið að ganga á þennan stand af því að í „Leiðsögubók fyrir sjómenn við Ísland 1932“ stendur: „Geirfuglasker er 3 sjóm. í VSV frá Súlnaskeri. Það er 58 m hátt og sæbratt. Sunnan við það er drangur og nokkur smásker“. Í nýrri Leiðsögubók, sem var gefin út árið 1951, segir nærri því hið sama um Geirfuglasker og Frúna sem er þó ekki nafngreind: „Rétt sunnan við það [þ.e.Geirfuglasker] er drangur og austur af honum nokkur smásker.“ Í örnefnabók Þorkels Jóhannessonar, Örnefni í Vestmannaeyjum, eru þessi örnefni ekki nefnd á nafn. Miðin „Frúin föst“ og „Frúin laus“ voru mikið notuð við Hryggina og á miðunum norðvestur og vestur af Geirfuglaskeri.
Eflaust hefur Surtseyjargosið, ösku- og gjóskufall, breytt þarna mjög botnlagi. Enn finnst mér ergilegt að við skyldum ekki kanna þetta svæði betur við sjómælingar á Eyjamiðum sumarið 1961, þannig að góður samanburður hefði fengist eftir Surtseyjargosið á þessum slóðum. Þar sem Surtsey reis úr sæ, 14. nóvember 1963, var áður fiskimið sem hét „Skerin saman“ og var þar talsverður hóll á sjávarbotni, eflaust gömul eldstöð eins og flest grunn eru á Vestmannaeyjamiðum. Fiskimiðið var því einnig nefnt „Hóllinn“. Línu- og netalagnir voru utan í þessum móbríkum, hryggjunum eða inni á Bankapolli.

Skottið: Skottið var fiskimið syðst á „Syðstahrygg“ eða sunnan við hann.

Línulögn við Syðstahrygg: Austan við Syðstahrygg: „Helgafell aðeins laust við Lendina á Álsey.“
Sunnan við Syðstahrygg: „Fyrsta flúðin eða „Litla þúfan“ á Stóruskerjunum að festast við Skerið.“
Vestan við Syðstahrygg: „Hæna hálf inni.“ Þar er þó ekki hraunlaust, en aðeins hraundrag.
Norðan við Syðstahrygg: „Frúin aðeins laus sunnan við Geirfuglasker.“
Lagt vestan við Hryggina: Leggja mátti vestan við Hryggina þegar „sýling [þ.e. smábil frá Hanahausnum að Ufsbergi vestast á Dalfjalli] var í Hanahausinn“. Ekki mátti byrja fyrr en „Hófstallurinn var orðinn fastur við Geirfuglasker að innan.“

Bankapollur hringtogaður.
Sumarið 1961 skrifaði ég niður eftir frænda mínum, Stefáni Guðlaugssyni í Gerði (f. 1888 - d. 1965), hvernig Bankapollurinn var hringtogaður eftir miðum. Stefán var farsæll formaður í Vestmannaeyjum í um hálfa öld og hafði verið með öll veiðarfæri sem notuð voru á Eyjamiðum, færi, línu, net, dragnót og botnvörpu. Hann lét af formennsku 67 ára gamall árið 1956 og hafði þá verið elsti starfandi skipstjóri í Vestmannaeyjum í nokkrar vertíðir. Stefán var með Halkion VE 27 (áður Kára) á togveiðum frá 1945 til 1956, en hann átti og var með báta sem báru nafnið „Halkion“ nærri því alla sína skipstjórnartíð. Stefán byrjaði formennsku árið 1909 með Halkion VE 140 sem var tæplega 9 rúmlesta súðbyrðingur, sá fyrsti í röð vélbáta með því nafni, en áður hafði gengið áraskip frá Vestmannaeyjum og Skaftafellssýslum með nafninu „Halkion.“ Stefán togaði alltaf eftir miðum eins og var venjan þar til ratsjár og síðar asdikk urðu algeng staðarákvörðunartæki um borð í bátum.
Hringtog á Bankapolli:
„Kasta inn í Krók. Vitann í Suðurey að innan. Flúðina (Miðþúfan) fasta við Geirfuglasker að austan, toga undan Geirfuglaskeri þangað til að Hæna er að kyssa að neðan [við Ufsaberg], beygja þá vestur þangað til Frúin er langlaus, beygja þá norður þangað til Hæna er um það bil hálf inni, beygja þá austur og suður þangað til að stefnan er á Geirfuglasker, þá stefna suður í Krók, Flúðina um það lausa. Í Króknum má beygja í vestur -Frúna langlausa.“
Hægt var að toga vestur úr Bankapolli í gegnum þrönga rennu sem meðal sjómanna var kölluð „Valdaskuð“ og toguðu færir togbátaskipstjórar þar vestur í Skerleir.
Snjöllustu fiskimenn meðal enskra togaramanna, sem voru margir hverjum manni kunnugri á Eyjamiðum, t.d. skipstjórinn Snói, gátu einnig togað þessa leið. Snói þessi var þekktur meðal Eyjamanna, bæði sem mikill og góður sjómaður og hjálparhella við að leita að vélbátum ef á bjátaði í slæmum veðrum, en einnig sem einn ósvífnasti landhelgisbrjóturinn meðal enskra togaraskipstjóra.
Annað hringtog á Bankapolli var:
„Byrjað að toga syðst á Bankapolli. Frúin aðeins laus við Geirfuglasker að sunnan, togað undan því þar til aðeins yddir á Háubúrahausinn [efst á Sæfjalli] vestan Álseyjar, þá togað upp á miðja Álsey þar til miðflúðin - Þúfan - austan við Geirfuglasker er við. Hófstallurinn allur inni. Togað þá austur (SSA) upp á Geirfuglasker þar til yddir á Hellutá vestur úr Suðurey, þá togað undan því. Þar með er hringtogaður Bankapollur.“
Óhætt er að leggja undan miðinu „Hellutá austur úr Suðurey“ eins langt og lína nær. Leggja má eða toga norður úr Bankapolli í miðinu „ Ofanleiti við Álsey að vestan“.
Lýkur hér að segja frá Eyjabanka og miðunum þar um kring.
Guðjón Ármann Eyjólfsson