Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 2004/ Flóttamaður kemur með Sæfellinu á jólum 1942
Jólin ganga í garð.<br<
Síðdegis á aðfangadag jóla 1942, í miðri heimsstyrjöldinni síðari, sigldi Sæfellið VE 30 inn á höfnina í Vestmannaeyjum. Veður var milt þennan fimmtudag, 3-4 stiga hiti, suð-suðaustan strekkingur. Það hafði verið rysjótt undanfarna daga. Samkvæmt veðurdagbókum Finns í Uppsölum hafði verið að kalla samfellt austanrok í meira en viku og enginn bátur á sjó. A Þorláksmessu var suðvestan stormur og hryðjur, og þegar leið á nóttina var ofsarok á suðvestan með ljósagangi og þrumum. Það lægði með morgninum.
Sæfellið var að koma úr sölutúr til Fleetwood í Englandi með fisk og var með kolafarm á heimleiðinni. Þetta var mikil hættuför eins og allar siglingar skipa yfir Atlantshafið á stríðsárunum. Enginn gat verið öruggur um að snúa heill heim aftur úr slíkri för.
Aðeins einni klukkustund áður en hátíðin helga hófst lagðist skipið að bryggju. Skipverjar komust frá borði eftir tollskoðun og önnur formsatriði. Einn þeirra sem gekk á land var ungur flóttamaður, íslenskur, sem hafði tekist að flýja undan nasistum í Noregi, um Svíþjóð og Bretland, og steig nú fyrsta sinni fæti á ættjörð sína í 5 ár. Hann lét ekki fara mikið fyrir sér fremur en endranær, en átti eftir að verða stórbóndi, forustumaður sveitar sinnar og stéttar, alþingismaður og forseti sameinaðs Alþingis. Þetta var Ásgeir Bjarnason frá Ásgarði í Dölum, 28 ára gamall. Hann lést um síðustu jól, tæplega níræður að aldri.<br<<br<
Ásgeir í Ásgarði.
Ásgeir var fæddur 1914 á stórbýlinu Ásgarði sem er í miðri þjóðbraut í Dölum, — f „Hvammssveit“ en svo heitir sveitin eftir bæ Auðar djúpúðgu, Hvammi í Dölum. Ásgarður er á hægri hönd þegar ekið er frá Búðardal fyrir Hvammsfjörð áleiðis vestur á firði, um Svínadal, Saurbæ, Gilsfjörð o.s.frv.
Ásgeir var einn 17 systkina, en faðir hans, Bjarni Jensson, var landsfrægur fyrir gestrisni sína og höfðingsskap. Í riti, stórvirki, sem kom út fyrir síðustu jól að undirlagi Örlygs Hálfdánarsonar, segir þýskur ferðamaður frá komu sinni í Ásgarð til Bjarna að kvöldi 14. júní 1924. Hann fékk góðan viðurgjörning, en segir svo: „Þegar ég vildi alls ekki fá meira og hélt hendinni yfir bollanum hellti hann heitri mjólk á handarbakið og sagði: „Ég vil ekki hafa neina skarfa hér sem ekki geta étið og drukkið almennilega.“
Ásgeir hafði farið utan til Noregs snemma árs 1938 og lokið búfræðiprófi við Sem - skólann í Asker, skammt vestur frá Osló, sennilega seint á árinu 1940. Eftir að nasistar hernámu Noreg í apríl það ár var leiðin heim því lokuð, engar ferðir á milli, engar fréttir að heiman, og erfið tilhugsun að bíða heimferðar til styrjaldarloka — sem enginn vissi hvenær yrðu. Ásgeir var ekki búinn í náminu þegar á þriðja hundrað Íslendingar söfnuðust saman í Petsamo í Norður-Finnlandi í september 1940 og sigldu heim með Esjunni. Hann vildi ljúka prófi fyrst og sjá svo til. Eftir prófslok fór Ásgeir að búnaðarskólanum í Ási sem er skammt suð-austan Óslóar og fékk vinnu en mikil upplausn var þá þar og margir ungir menn horfnir frá námi, sumir verið kvaddir í herinn, aðrir fóru í andspyrnuhreyfinguna. Ásgeir dvaldist þarna nokkra mánuði við rýran kost. Um haustið 1941 varð Ásgeir sér hins vegar úti um leyfi hjá þýskum yfirvöldum til að skreppa í vikudvöl til Svíþjóðar. Hann hafði þó annað ; huga og steinþagði við alla yfir ráðagerð sinni, fór strax og leyfið fékkst og kvaddi engan. Það var hyggilegt og því slapp hann betur en Leifur Muller sem reyndi sömu leið (sagðist ætla í skóla í Svíþjóð), en trúði „vini sínum“ fyrir hinum sanna ásetningi og lenti fyrir bragðið í ólýsanlegum hörmungum í þýskum fangabúðum fram til loka styrjaldarinnar. Ásgeir hafði aðeins með sér það allra nauðsynlegasta, fór yfir til Svíþjóðar — og sneri aldrei aftur til Noregs að því sinni.
Í Svíþjóð dvaldist hann á annað ár, fékk vinnu við frærannsóknir í Bergshamra í grennd við Stokkhólm, en komst með hjálp sendifulltrúa Íslands í Svþjóð og Noregi, Vilhjálms Finsens, í leynilegt flug frá Brommaflugvelli við Stokkhólm til Norður-Skotlands 12. des. 1942.
Skyggnst á bak við söguna
.
Ásgeir ritaði stutta frásögn um þessa hættulegu heimför sína. Hún birtist fyrst í blaðinu Magna á Vesturlandi árið 1962 (í jólablaði) en var svo endurprentuð í Breiðfirðingi árið 2002.
Hér verður þessi frásaga rakin í stórum dráttum, sumpart með orðum Ásgeirs sjálfs, en jafnframt verður reynt að skyggnast bak við atburðina og sögupersónur. Það er sjóferð Ásgeirs með skipi úr Vestmannaeyjum og dvöl hans í Eyjum um jólin 1942 sem mesta forvitni vekur. Ásgeir var ókunnugur í Vestmannaeyjum og stiklar því á stóru um menn sem von er. Reynt verður að bregða ljósi á nafnlaust fólk í frásögn Ásgeirs og nokkra viðburði.
Flóttaferðin hefst.
Um flugferðina frá Bromma til Aberdeen segir Ásgeir:
„Náttmyrkur var og skýjað, og svört tjöld voru dregin fyrir glugga vélarinnar, sjálfsagt til þess að hennar yrði síður vart. Flogið var í mikilli hæð. Flugstjórar voru tveir og farþegarnir sex. Auk mín voru þarna fjórir pólskir flóttamenn og Norðmaður. Okkur leið vel, en við fengum hvorki vott né þurrt á leiðinni og töluðumst fátt við. Dimmt var inni í vélinni. Ekkert sérstakt bar til tíðinda. Eftir fjórar til fimm klukkustundir var flugið lækkað, og ferðin var á enda. Við vorum komnir yfir Skandinavíu og Norðursjó til Skotlands og lentum á flugvelli hjá Aberdeen. Þá var klukkan eitt eftir miðnætti. Þegar flugvélin lenti var flugvöllurinn umkringdur einkennisklæddum hermönnum, og fylgdu þeir okkur til húsa. Þar sátum við um nóttina á meðan farangur var rannsakaður og teknar af okkur skýrslur. Te og tvíbökur fengum við einu sinni um nóttina. Klukkan rúmlega 7 um morguninn var ég laus við yfirheyrsluna og mér var þá ekið á hótel þar skammt frá, en þar dvaldi ég þann dag allan.“
Ásgeir hélt áfram til Edinborgar og var þar í góðu yfirlæti hjá Sigursteini Magnússyni, fulltrúa SÍS þar á staðnum; hann var faðir Magnúsar Magnússonar sjónvarpsmanns. Hjörtur Eldjárn Þórarinsson frá Tjörn í Svarfaðardal var þá námsmaður í Edinborg og hafði ofan af fyrir Ásgeiri þennan tíma. Ásgeir hélt síðan áfram til Fleetwood með lest, en þaðan hafði Sigursteinn útvegað honum skipsferð til Íslands.<<br<
Í Fleetwood.
Í höfninni í Fleetwood lá Sæfellið frá Vestmannaeyjum, allmikill kláfur. Ásgeir fór að hitta skipstjórann, Ingvar E. Einarsson, sem honum þótti „traustlegur myndarmaður“. Stýrimaður var Magnús Einarsson, frændi Ásgeirs og sveitungi. Hann man ekki nöfn annarra skipverja sem voru „ungir menn og vasklegir“ en einn þeirra „var með annað augað grátt, en hitt mjög dökkbrúnt“!
Skipshafnarskrár úr Vestmannaeyjum fyrir Sæfellið frá þessum tíma hafa ekki komið í leitirnar, aðeins slitur frá seinni tíma. Einn skipverja er þó á lífi svo að vitað sé, Guðmundur Ágústsson frá Aðalbóli („Bubbur“), fæddur 1922. Hann var háseti á Sæfellinu, skráður þar fyrst 25. nóv. 1941 samkvæmt sjóferðabók hans, og var á skipinu samfellt fram á seinni hluta árs 1943. Hann man vel þessa ferð í desember 1942. Þegar hann kom heim til sín á Aðalból síðdegis á aðfangadag voru allir farnir til kirkju nema Viktoría, móðir hans, sem var að stella við jólamatinn; hún átti ekki von á syni sínum og vissi ekki fyrr en hann stóð inni á eldhúsgólfi hjá henni. Ekkert samband var við skipið á þessum styrjaldartíma, talstöð mátti ekki nota, og engar fréttir bárust um ferðir þess meðan það var á leiðinni heim.
Guðmundur segir að Magnús Dalamaður hafi verið 2. stýrimaður, en Guðjón Vigfússon var 1. stýrimaður. Tveir voru í vél, yfirmaður var Hermann Hjálmarsson, úr Stakkadal í Aðalvík, annar vélstjóri Sigurgeir Jónsson („Geiri“). Kyndarar voru tveir, sennilega Friðrik („Malli“) Sigjónsson frá Sjávargötu og Kristján Jónasson frá Múla. Kokkur gæti hafa verið Þórarinn Hallbjörnsson; „hundrað-prósent hótelkokkur“ segir Guðmundur. Fjórir voru á dekki; samtímis Guðmundi var ráðinn í nóv. 1941 Sigurður Guðmundsson í Viðey. Aðrir gætu hafa verið Ólafur Finnbogason frá Vallartúni og Einar Guðmundsson í Málmey.