Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 2003/ Jómsborgarfeðgar, formenn í fjóra ættliði

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 10. febrúar 2017 kl. 12:26 eftir Karibjarna2 (spjall | framlög) Útgáfa frá 10. febrúar 2017 kl. 12:26 eftir Karibjarna2 (spjall | framlög) (Ný síða: <big><center>'''HELGI BERNÓDUSSON'''</center></big><br><br> <big><big><big><center>'''Jómsborgarfeðgar'''</center></big></big></big><br> <big><center>'''— formenn í fjóra æt...)
(breyting) ←Fyrri útgáfa | Nýjasta útgáfa (breyting) | Næsta útgáfa→ (breyting)
Fara í flakk Fara í leit
HELGI BERNÓDUSSON



Jómsborgarfeðgar


— formenn í fjóra ættliði —



Íslendingafundur í Lapplandi. „Hún er komin, danska konan sem við sögðum þér frá, — manstu ekki, frá Vestmannaeyjum?“ „Ha? Hver?“
Ég sat niðursokkinn í verkefni, með sumarsólina á glugganum í skrifstofu minni í virðulegu og gömlu húsi við Kirkjustræti í miðbæ höfuðborgarinnar. Þetta var sumarið 2001, fyrir tveimur árum. — „Ég kem niður í anddyri.“
Þrjár samverkakonur mínar höfðu haustið áður farið á merka ráðstefnu í Rovaniemi í Finnlandi, eða raunar í Lapplandi, sem liggur á norðurheimskautsbaugnum, til að fræðast um lagamál, þýðingar og skjalaútgáfu. Lex et lingua (lög og tunga) var yfirskriftin. Þetta var fjölmennt mót sérfræðinga úr mörgum heimshornum, norrænir menn og fólk úr höfuðstöðvum Evrópusambandsins í Brussel og Lúxemborg. Þær stöllur héðan héldu hópinn, svo sem von er um Íslendinga, en brátt fór að sækja í félagsskap þeirra kona ein frá Lúxemborg, nett og treffileg, hún hét Eva, var Dudzinska að giftingarnafni, pólskt. Eva sagði að sér liði vel innan um Íslendinga því að sjálf væri hún hálfur Íslendingur. „Ha?“ Alltaf jafn spennandi að hitta Íslendinga í útlöndum, jafnvel þó að þeir séu hálfir (í einhverjum skilningi). — Jú, móðir hennar var íslensk, fædd á Íslandi, átti íslenskan föður og danska móður. Fædd í Vestmannaeyjum! „Ja, hvað er að heyra, þetta þurfum við að segja honum Helga þegar við komum heim!“ Þær vinkonur mínar, Finnlandsfarar, létu ekki undir höfuð leggjast að greina frá þessu vestmanneyska kyni sem þær höfðu fundið í Lapplandi, en ekki festist það þó mjög í minni. Þær héldu sambandi við Evu, vinkonu sína í Lúxemborg, sem puðaði þar við þýðingar á flóknum reglum ESB úr mörgum málum á mörg mál, og samkvæmt jólakorti frá henni var ekki útilokað að hún kæmi í heimsókn á næsta sumri, kannski með hana mömmu gömlu, hana langar svo að sjá Ísland, og sérstaklega Vestmannaeyjar, einu sinni enn, hálfníræða konuna. Og svo varð. Þær stóðu þarna í anddyrinu, Eva frá Lúxemborg með börn sín tvö og tvö systurbörn, og svo móðir hennar. Hún bar aldurinn vel, var snotur kona og svipmikil. Ég heilsaði henni, hún hafði krepptan fingur á hægri hendi, og það brá fyrir einhverjum svip sem ég kannaðist við. Hún talaði bara dönsku, fáein orð kunni hún þó í íslensku. Greta Thisted hét hún. „Og þú ert úr Vestmannaeyjum?“ spyr ég gömlu konuna.
„Ja, ég er fædd þar, það var 1916, en ég fór þaðan fjögurra ára gömul árið 1920 til Kaupmannahafnar, hef verið þar síðan, í 80 ár. En ég man enn ýmislegt frá Vestmannaeyjum.“
Hún spurði mig hvort ég væri úr þessum eyjum. „Já, það er svo!“
„En gaman, ég hef komið tvívegis til Vestmannaeyja síðan við fórum þaðan mæðgur 1920, í fyrra sinnið 1946, eftir stríðið, og svo 1996, á áttræðisafmæli mínu. Í fyrri ferðinni hitti ég föður minn. Hann hét Þorsteinn Johnson.“
„Nei. hvað segirðu, bóksali? Ég man hann vel, virðulegan mann við Garðhús, á dökkum fötum með vesti, þar sem hann vappaði í kringum bókabúðina sína.“
„Hvað, ungi maður, manst þú föður minn?“
„Ja, heldur betur, hann var oft í Garðhúsum hjá systur sinni, Kristínu, sem var gift Jóni Waagfjörð bakara, „Vogsa“ sem við kölluðum svo (ættarnafnið dregið af Vogsósum). Stáki, sonur þeirra (Jón samkvæmt kirkjubókum), átti þar heima á efri hæðinni og Kristinn sonur hans er æskuvinur minn. Ég þekkti í því stóra húsi hverja vistarveru og var þar uppi um öll rjáfur; þvældist um niðri í bakaríi sem var í kjallaranum; stundum vorum við Kristinn settir á tvíbökuvélina til að létta undir, við sátum þá andspænis hvor öðrum og stigum sitt sagarhjólið hvor og mötuðum vélina með brauðbollum en sögin, sem við drógum, skar í sundur bollurnar sem voru svo bakaðar á ný, sannkallaðar tvíbökur!“
Hún sagðist muna Kristínu, föðursystur sína, vel og Jón, mann hennar, duglegan mann, sem fékk sér stundum í staupinu eins og margir fleiri góðir menn; þau komu nokkrum sinnum í heimsókn til Danmerkur þar sem Jón Waagfjörð var lengi við nám og störf (málari) á yngri árum.
„Sæmundur, föðurbróðir minn, bjó þarna skammt frá“ sagði Greta. „Já, já, ég hef heyrt um hann en ég man hann ekki, en Guðbjörgu konu hans man ég. Þau bjuggu á Gimli; þar var mjólkurbúð á jarðhæðinni.“ Og svo bætti ég við: „Systir mín, Elínborg, býr þar núna!“
„Ja, hérna! Manstu kannski eftir honum Óskari, bróður mínum?“
„Honum Óskari í Bókabúðinni! Ég er nú hræddur um það, hafði hann fyrir augunum á hverjum degi alla mína bernsku. Við krakkarnir vorum eins og gráir kettir í búðinni hjá honum eða lágum á búðargluggunum, og stundum stóð hann, einkum í góðviðri, í búðardyrunum í kringum hádegið og fylgdist með mannaferðum, fólki, sérstaklega ungum skvísum, á leið úr eða í vinnu. Við bjuggum rétt hinum megin við götuna. Kristinn, sonur hans („Diddi í Bókabúðinni“), var einkavinur Birgis, bróður míns heitins.“
„Ja, hvur röndóttur“ sagði konan upp á dönsku. Og dóttir hennar, Eva, og barnabörn voru orðin nokkuð langleit meðan stóð á þessum fundi ömmu við fortíðina og blauta bernsku hennar í Vestmannaeyjum fyrir 80 árum, svona óralangt í burtu í tímanum. En þau fundu samt að hún hafði hitt á réttan mann! Það fannst þeim gott.

Hver er þessi danska kona? En hver var þessi kona? Greta Thisted heitir hún og er fædd í Vestmannaeyjum árið 1916, 17. júlí, dagstætt ári yngri en Óskar bróðir hennar. Foreldrar hennar voru Þorsteinn Johnson, sem kallaði sig svo, hann var Jónsson eins og síðar verður að vikið, og Anna Margrethe Madsen, kona hans. Sennilega hafa þau kynnst í Danmörku þar sem Þorsteinn var við nám og störf. Þau fluttust til Íslands árið sem fyrri heimsstyrjöldin hófst, 1914, giftu sig og eignuðust þrjú börn. Elstur var Óskar Emanúel Þorsteinn, fæddur 1915, síðan Greta, fædd 1916, og loks Þorsteinn, fæddur síðla árs 1917. Þau hafa sjálfsagt verið ólík, hjónin, hún sjö árum yngri en hann, og erfitt fyrir unga konu úr Kaupmannahöfn, rétt rúmlega tvítuga, að setjast að í Vestmannaeyjum á árum fyrri heimsstyrjaldar og eftir hana og búa með tengdaforeldrum sínum með þrjú ung börn. Vestmannaeyjar hafa varla náð hátt á umgengnis- og þrifnaðarskölum Kaupmannahafnar. Margrét bjó við ágæt efni í Höfn, faðir hennar, Emanuel Madsen, var umsvifamikill matreiðslumaður, lést 1920, en móðir hennar lifði til 1936. Hún hafði sjálf lært „nútíma-matargerð“ en aldrei komið nálægt börnum. Það er því líklegt að þrjú börn á skömmum tíma, sambúð með tengdaforeldrum, tungumálaerfiðleikar, söknuður eftir ættingjum og vinum, hafi reynst skapmikilli konu ofraun. Greta segir að sér sé í barnsminni, innan við tveggja ára aldur, þegar hún lá í hálsbólgu og lék sér með vasaklúta(!) — ekki var leik-föngum fyrir að fara — að hafa séð móður sína hálfærast yfir því að geta ekki kveikt eld á prímusnum sem þau notuðu til að hita vatn. En Greta segir að hún hafi sótt sér skilning og traust hjá Dönum sem bjuggu í bænum. Þorsteinn í Jómsborg og Halldór Gunnlaugsson læknir voru góðir vinir, voru oft á fiskiríi saman. Margrét átti trúnaðarvini í frú Önnu Gunnlaugsson og Ellu Therp, systur hennar, sem dvaldist í Eyjum um tíma. Greta segist muna vel þegar þær mæðgur voru að koma frá frú Gunnlaugsson. stundum seint um kvöld og í myrkri, hún var svo hrædd við skuggaverur, sauðfé, hunda og ketti! Ella Halldórsdóttir (Gunnlaugssonar), sem lifir í hárri elli í Reykjavík, segist muna Margréti vel, sérstaklega hvað hún var mikill spírittsti! „Indælis manneskja, en lifði mjög spart.“ Vinskapurinn við frú Önnu Gunnlaugsson hélst lengi.
Betri samgöngur voru milli Eyja og Kaupmannahafnar á þessum tíma en síðar, flest millilandaskip sem sigldu til Íslands frá meginlandinu, skip Eimskipafélagsins og Sameinaða gufuskipafélagsins, komu við í Eyjum. Og e.t.v. hafa þau hjón, Margrét og Þorsteinn, brugðið sér utan þessi árin. Þannig segir Greta að móðir sín hafi farið utan snemma árs 1918 með yngsta barn sitt, Þorstein, dvalist þar um tíma, látið skíra barnið, en komið svo aftur „heim“. Greta var hjá föður sínum og afa og ömmu í Jómsborg á meðan og man það vel. Nema hvað, tveimur arum síðar, 1920, fer