Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 2002/ Breskir togarar á Eyjamiðum
Enska öldin
Bretar og þá sérstaklega enskir sjómenn, hafa sótt á Íslandsmið, einkum fiskimiðin suðaustur af Íslandi og við Vestmannaeyjar frá því um 1400. Björn Þorsteinsson sagnfræðingur og prófessor,sem ritaði m.a. Íslandssögu ásamt Bergsteini Jónssyni sagnfræðingi, hefur skrifað manna mest um Ensku öldina sem tímabilið frá 1415 -1475 hefur verið nefnt í Íslandssögunni. Hann segir þar: „Á síðasta fjórðungi 14. aldar óx sigling til Íslands og einkum á hafnir sunnan og vestan lands. Árið 1396 var „veginn Þórður bóndi saklaust í Vestmannaeyjum um nótt, er hann gekk af sæng. Lágu þar sex skip“ segir í samtímaannál.“
Árið 1412 er getið um ensk skip á Íslandsmiðum og árið 1413 sigldu þangað 30 fiskiduggur eða fleiri auk kaupskipa. Í sögu enskra fiskveiða frá því um 1300, England's Seafisheries, segir að þrátt fyrir fregnir af miklum og góðum fiskimiðum við Nýfundnaland eftir að John Cabot endurfann norðurhluta Ameríku þá hafi Englendingar haldið áfram siglingum til Íslands og fiskveiðum á Íslandsmiðum. Í þessari bresku heimild, er þess sérstaklega getið að Cabot hafi haldið út frá Bristol, sem er í suðvestur Englandi og sú borg hafi verið brautryðjandi í Íslandssiglingum. Þangað hafi verið flutt mikið af skreið og „hugsanlega hafi hann [Cabot] heyrt um Norður-Ameríku í Íslendingasögunum.“
Með þessum siglingum og fiskveiðum frá Bristol hösluðu Bretar sér í fyrsta skipti völl á heimshöfunum. Íslandssiglingarnar voru undanfari hinna miklu siglinga og landvinninga Englendinga sem sjóveldis, en verið getið minna en skylt væri eftir landafundi Cabots á Nýfundnalandi.
Fiskveiðar og siglingar til Íslands voru Englendingum því ekki aðeins mikilvægar vegna þorsks og skreiðar sem þeir veiddu eða fengu í vöruskiptum og sigldu með heim að haustinu, heldur einnig vegna þess að í Íslandsferðunum fengu enskir sjómenn, mann fram af manni, í arf sjómennsku og þjálfun á erfiðu hafsvæði. Þegar fram liðu stundir varð til í Bretlandi traust sjómannastétt, sem átti eftir að verða undirstaða mesta sjóveldis í heimi. Úr röðum þeirra voru sjómenn sem mönnuðu flota aðmírálanna Nelsons og Howes (upphafsmaður siglingareglna), en í nýlendum breska heimsveldisins var flotinn undanfari kaupskipaflotans, sem sigldi með margs konar vörur frá nýlendunum heim til Bretlands. Þessar siglingar lögðu grunninn að breska heimsveldinu, sem náði hátindi sínum í lok 19. aldar og byrjun þeirrar 20.
Í þessu sambandi má minna á að James Cook, sem er vafalaust snjallasti landkönnuður sem hefur verið uppi og nefndur er Könnuður Kyrrahafsins, var fæddur í Jórvíkurskíri(Yorkshire). Hann fékk sinn skóla sem sjómaður á skútunum í Whitby, sem er nokkuð fyrir norðan Humber og borgina Scarborough, þaðan sem var mikil útgerð seglatogara og siglinga til Íslands.
Um miðja 15. öld voru Íslandssiglingar frá öllum höfnum í Bretlandi, frá Newcastle á austurströndinni til Bristol í suðvestri. Á vorin, í april og maí, lögðu um eða yfir hundrað skip úr enskum höfnum og sigldu norður í höf. Skipin voru flest duggur af hollenskri gerð, 30 til 80 tonn að stærð. Þau sigldu síðan heim aftur síðari hluta sumars, hin síðustu í september, hlaðin skreið og söltuðum þorski. Árið 1528 sigldu um 150 skip til Íslands frá Suffolk og Norfolk í suðaustur Englandi. Þetta skipti Englendinga miklu máli og árið 1659
skrifar flotaforingi í skýrslu sína að hann hafi fylgt 77 skipum frá Íslandi til Englands. Þegar kemur fram á síðari hluta 17. aldar dregur úr þessum siglingum vegna dönsku verslunareinokunarinnar, sem var komið á 1602 og skatti Englandskonungs á salt til verkunar þorsks en ekki síldar. Árið 1675 sigla 28 ensk skip til Íslands. Rétt eftir aldamótin 1700 leggjast þessar siglingar að mestu af. Árið 1702 segir í einni enskri heimild: „Fyrrum voru á Íslandsmiðum og í Norðurhöfum yfir 10.000 menn til fiskveiða, nú eru þeir innan við eitt þúsund.“
Í þingskjali neðri deildar breska þingsins frá 1785 er getið um að eitt sinn hafi um 200 skip siglt frá borginni Yarmouth til Íslandsveiða. Þegar kom lengra fram á 18. öld lögðust Íslandsveiðar Englendinga af. „Smám saman gleymdu meira að segja frammámenn í fiskveiðttm á 18. öld þessum miklu flskveiðum við Ísland, nefndu þær varla á nafn og beindu öllum kröftum sínum að síldveiðum og síldarverkun“, segir í sömu heimild.
Gufutogarar
Með tilkomu gufuknúinna togara um 1890 hófust þessar siglingar og fiskveiðar Englendinga við Ísland aftur af krafti. Fiskimiðin umhverfis Vestmannaeyjar og út af suðurströnd landsins urðu þéttsetin hundruðum skipa og mikið kapp og oft blóðug barátta var um þann gula í rúm 85 ár. Stóð svo frá upphafi togveiða erlendra skipa hér við land til 1975, er Íslendingar fengu alla stjórn á Íslandsmiðum með útfærslu fiskveiðilandhelginnar í 200 sjómílur.
´
Íslenskar heimildir
Hér verður í stuttu máli fjallað um enska togara á Vestmannaeyjamiðum og talin upp ensk heiti sem þeir gáfu miðunum og lýst togi á togbleyðum við Eyjarnar.
Í íslenskum ritum er víða getið um veiðar breskra togara á Íslandsmiðum. Hér skulu nefnd nokkur. Rit Jóns Þ. Þórs sagnfræðings - Breskir togarar og Íslandsmið 1889 - 1916, sem kom út 1982 er merkileg heimild um þetta tímabil. Togaröldin eftir Gils Guðmundsson sem kom út árið 1981 er mjög skemmtileg aflestrar. Í ævisögum íslenskra togaraskipstjóra er víða getið um samskipti Íslendinga og Englendinga, en margir þeirra voru á fyrstu áratugum 20. aldar og fram undir síðari heimsstyrjöldina 1939, skipstjórar á enskum togurum. Hér má nefna þekkta aflamenn, sem síðar á ævinni hösluðu sér völl á öðrum sviðum, t.d. Tryggva Ófeigsson, Þórarin Olgeirsson, Jón Oddsson og Agúst Ebenezarson, en þrír þeir síðastnefndu voru búsettir í Englandi.
Ensk áhrif - háskóli togaramanna
Stuttu eftir 1920 fengu enskir útgerðarmenn aðstöðu í Hafnarfirði, þeir bræðurnir Owen og Orlando Hellyer, sem venjulega voru nefndir Hellyersbræður. Á árunum 1924 - 1929 gerðu þeir út 10 enska togara frá Hafnarfirði og hafði þessi útgerð afgerandi áhrif á þróun íslenskrar togaraútgerðar. Á skipunum voru blandaðar áhafnir, skipstjórar og stýrimenn voru íslenskir, en á hverju skipi voru svonefndir flaggskipstjórar eða „leppar“, sem voru enskir og einnig voru „leppar“ fyrir stýrimenn. Vélstjórar og kyndarar voru yfirleitt enskir. „Vera mín hjá Hellyershræðrum í fimm ár var minn háskóli,“ segir Tryggvi Ófeigsson í ævisögu sinni.
Vélvæðing breska fiskiskipaflotans
Fram undir 1880 var fiskveiðifloti Breta sem veiddi umhverfis Bretlandseyjar og í Norðursjónum einvörðungu áraskip og seglskútur, svonefndir seglatogarar (sailing trawlers). Nokkru fyrir 1880 hófst vélvæðing flotans.
Fyrstu vélknúnu fiskiskipin í Bretlandi voru skip sem höfðu verið notuð sem dráttarskip. Þetta voru svonefnd hjólaskip, þ.e. skóflur snerust á hvorri hlið skipsins og knúðu það áfram. Í nóvember 1877 var fyrsta hjólaskipinu breytt í fiskiskip og áður en vertíðinni lauk hafði 43 hjólaskipum verið breytt í togara, sem notuðu bómutroll eins og seglatogararnir. Þessi skip vom gerð út frá North Shields, Hartlepool og Scarborough.
Árið 1881 komu fyrstu eiginlegu gufutogararnir í Grimsby og Hull. Þessi skip sönnuðu strax yfirburði sína og aldamótaárið 1900 var enginn seglatogari lengur til í Hull. Árið 1901 voru 435 gufutogarar í Grimsby og 410 í Hull. Þessar borgir höfðu forystu í togaraútgerð og voru ásamt Fleetwood á vesturströndinni og Aberdeen í Skotlandi stærstu og öflugustu fiskveiðiborgir í Bretlandi.
Á hverjum gufutogara var að meðaltali 10 manna áhöfn, þannig að á togaraflota þessara tveggja borga voru um níu þúsund manns upp úr aldamótunum 1900.
Minni skipin voru ekki traust og iðulega urðu stórslys, t.d. fórust sex togarar frá Hull í febrúarmánuði aldamótaárið 1900.
En sjómenn fyrri tíðar alls staðar í heiminum höfðu alltaf stundað sín störf við mikið öryggisleysi; t.d. fórust í desember árið 1863, 24 enskir seglatogarar með 144 mönnum, í mars árið 1877 fórust 36 skútur með 215 manns. Þar eins og hér við Íslandsstrendur krafðist sjósóknin og hafið sinna fórna.
Fyrstu ensku togararnir, „fískigufuskip“, á Íslandsmiðum
Það var um 1890, eða nánar talið sumarið 1889, að fyrstu ensku gufutogararnir hófu veiðar hér við Ísland, út af suðausturlandi.
Ensku togurunum fjölgaði mjög ört og voru árið 1892 orðnir 9 talsins, en eftir 1895 skiptu Íslandsveiðarnar orðið verulegu máli fyrir enska sjómenn og útgerðarmenn. Hinn 20. júlí 1892 birtist í landsmálablaðinu Ísafold fréttabréf frá Vestmannaeyjum og er þar sagt frá því, að 7. júlí hafi strandað tvö bresk fiskigufuskip í Leiðinni, annar togarinn strandaði á Hörgeyri og hinn sunnan við Leiðina á Hringskerinu. Togararnir voru frá Hull og Grimsby og stóðu þarna í sólarhring. Ef sjór hefði brimað eða hvesst hefði af austri hefðu bæði skipin eyðilagst og orðið að strandi. Þetta var nefndur nýstárlegur atburður, sem hann vissulega var. Útlendu togararnir, jafnt enskir sem aðrir, gerðust brátt aðgangsfrekir og margir skipstjóranna virtu hvorki lög né rétt Íslendinga og sópuðu burtu netalögnum og öðrum veiðarfærum hér á grunnmiðum, t.d. inni í Faxaflóa og víðar. Með reglulegu millibili birtust kvartanir yfir þessum yfirgangi og oft rányrkju í íslenskum og erlendum blöðum.
Örtröð á fiskimiðunum
Erlend fiskiskip voru í hundraða tali á Eyjamiðum og hér út af suðurströndinni á vetrarvertíðinni, frá janúar og fram í maí allan fyrri hluta 20. aldar fram yfir 1950. Árið 1929 voru t.d. yfir 1000 togarar skráðir í Grimsby. Þetta voru skip sem voru að veiðum um allt Norður- Atlantshaf.
Árið 1904 voru um 200 togarar á Íslandsmiðum, þar af um 150 enskir, 35 þýskir, 8 franskir og nokkrir hollenskir og belgískir.
Þegar gerði slæm veður eða um hátíðir eins og á páskum, sem Færeyingar héldu t.d. alltaf helga, var fram undir 1950 unnt að telja um og yfir eitt hundrað erlend skip, sem lágu í vari við Eyjarnar og inni í höfn. Um og eftir 1910 voru þau samt enn fleiri. Eitt sinn taldi faðir minn, Eyjólfur Gíslason (f.1897) á þessum árum milli 1910 og 1920 nærri 120 skip, sem í suðvestan átt lágu í vari á Víkinni og í Flóanum.
Erfíð landhelgisgæsla
Landhelgisgæsla meðan landhelgin var aðeins þrjár sjómílur og fylgdi öllum flóum og annesjum var erfið. Þar til Vestmannaeyja-Þór kom til Eyja 26. mars 1920, var gæslan nær eingöngu í höndum danska flotans, sem hafði allt of lítinn skipakost til eftirlits með þeim mikla fiskveiðiflota sem