Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1969/ Frá Reykjavík til Vestmannaeyja veturinn 1919-20

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 4. júlí 2016 kl. 11:10 eftir Mardis94 (spjall | framlög) Útgáfa frá 4. júlí 2016 kl. 11:10 eftir Mardis94 (spjall | framlög)
Fara í flakk Fara í leit

Ferðasaga eftir Erlend Árnason:

Frá Reykjavík til Vestmannaeyja veturinn 1919-20


Erlendur Árnason.

Erlendur Árnason trésmiður, Gilsbakka, var fæddur 5. nóvember 1864 í Neðra-Dal undir Eyjafjöllum. Foreldrar hans voru Árni Indriðason bóndi og kona hans Sigríður Magnúsdóttir, Þórðarsonar frá Krossi í Landeyjum. Erlendur var í foreldrahúsum til 18 ára aldurs, en réðst þá vinnumaður til Sighvats Árnasonar alþm. í Eyvindarholti. Hjá Sighvati var Erlendur í 4 ár, en þá 10 ár hjá Sigurði Tómassyni bónda í Árkvörn í Fljótshlíð.
Árið 1896 hóf Erlendur trésmíðanám í Reykjavík. Eftir það voru trésmíðar lífsstarf hans að mestu. Árið 1902 fluttist hann til Vestmannaeyja, og árið 1907 byggði hann húsið Gilsbakka.
Erlendur tók þátt í útgerð um árabil. Stundaði sjó a vertíðum en smíðar hina tíma ársins. Hann var formaður á vertíðarskipi, allt þar til vélbátarnir komu til sögu. Lengi síðan var hann formaður á árabát vetur og vor. Munu þeir nágrannarnir Gottskálk í Hraungerði og Erlendur hafa verið síðustu formenn á árabát í Eyjum. Erlendi fórst formennskan giftusamlega. Þótti mönnum gott með honum að vera sökum léttlyndis hans og gamansemi. Formaður var Erlendur sem næst 20 vertíðir.
Erlendur var mikill félagsmálamaður. Hann gekk í Góðtemplararegluna um aldamót og starfaði í henni síðan af fádæma elju. Vann hann mikið með ungtemplurum, enda jafnan ungur í anda sjálfur. Hann var kjörinn heiðursfélagi Stórstúku Íslands. Safnaðarfulltrúi var Erlendur á þriðja tug ára. Í nokkur ár átti hann sæti í stjórn Ísfélags Vestmannaeyja, og formaður Bátaábyrgðarfélags Vestmannaeyja var hann í 12 ár, 1916-1928.
Erlendur var einn stofnenda Rangæingafélagsins í Eyjum og ritnefndarmaður félagsblaðs, sem hét Hekla. Hann var aldursforseti félagsins, og þá er honum þótti seint sækjast róðurinn í félagsstarfinu, stóð hann upp gamli maðurinn, og hélt hvatningarræður af eldmóði. Hann skrifaði mikið í blaðið og í því er m.a. ferðaþáttur sá, er hér verður prentaður. Trúlega hafa ýmsir gaman af að lesa þessa ferðasögu. Það gat verið tafsamt að komast frá Reykjavík til Eyja fyrir hálfri öld — og er raunar enn á stundum.

Erlendur á Gilsbakka var einn þeirra manna, er um áratugi setti svip á bæinn. Hann var hagmæltur vel og hraðkvæður og stundum ómyrkur í hendingum.
Erlendur kvæntist árið 1903 Björgu Sighvatsdóttur frá Vilborgarstöðum (d. 1955). Börn þeirra: Dagmar, ekkja Ólafs St. Ólafssonar forstjóra (d. 1962) og Júlíana, kona Ragnars Jónassonar í Reykjavík.
Erlendur andaðist 28. nóvember 1946.
H.G.

Varðskipið Islands Falk.

Sunnudaginn 3. marz 1920, kl. 7 síðdegis, fór ég ásamt nokkrum farþegum öðrum um borð í varðskipið Islands Falk, sem átti að fara til Vestmannaeyja með kol og steinolíu, sem þá vantaði þar mjög tilfinnanlega.
Þetta áminnzta sunnudagskvöld, er ég fór um borð, var veður heldur skuggalegt og útlit að því skapi, þó hægur á suðaustan með krapaéljum.
Var nú lagt af stað klukkan hálfátta. En er komið var skammt út fyrir eyjar, sem kallað er, eða langleiðina út að Gróttu, rauk á suðvestan stormur með krapahríð. Var þá snúið við í skyndi og haldið inn á ytri höfnina og lagzt þar - og beðið birtu næsta dags. Veðri hafði heldur slotað, og bjart var í lofti milli élja.
Var nú enn létt akkerum og lagt af stað kl. um það bil 9 f.h. En ekki var komið langt úr, er vindur og sjór tók að ýfast svo, að ekki þótti tiltækilegt að halda áfram fyrir Garðskaga, og því síður fyrir Reykjanes.
Var því breytt um stefnu og haldið til Keflavíkur. Þar var legið það sem eftir var mánudagsins og fram á þriðjudagsmorgun. Þá var veðurútlit þannig, að vindur var hægur af austri, kafþykkt loft að öðru leyti en því, að stormgina var um Keili, eins og sjómenn þar syðra kölluðu það, er loftsútliti var þannig háttað. Blámi var með öllu hafi og tjaldað yfir með hvítu.

Þetta var á þriðjudagsmorgun á níunda tímanum.
Á þiljum uppi hitti ég þá yfirvald okkar Eyjabúa, er þá var einnig þingmaður Vestmannaeyinga. Hann var farþegi á skipinu (var að koma af þingi). Þetta var Karl Einarsson. Og eftir að við höfðum boðið hvor öðrum góðan dag, mælti hann á þessa leið: „Nú fáum við gott í dag. Það er logn með öllu hafi." „Allvel spáð, ef eftir gengur", svaraði ég, „en líkara þykir mér, að ekki verði komið fyrir Garðskaga áður en kominn verður stormur og hríð."
Skömmu efrir þetta samtal var samt haldið af stað. Og svo að segja samstundis datt á fjúk, og frískur vindur færðist svo ört í aukana, að ekki var komið langt út fyrir Hrafnkelsstaðaberg áður en kafaldið varð svo myrkt, að ekki grillti land þó haldið væri örskammt frá ströndinni.
Vélagnýr skipsins gaf til kynna að haldið væri áfram, en í hvaða átt vissi ég ekki lengur, því ekki sást úr fyrir borð skipsins að kalla mátti. Öðru hvoru, er leið á daginn, var farið að stöðva skipið og mæla dýpi, því dýptarmælir var þá ekki til á Islands Falk, en aðeins svokölluð djúpsakka. Og eftir því sem lengra leið á daginn, var þetta mælingatæki oftar notað.
Klukkan rúmlega 4 e.h. var varpað akkerum og vélin stöðvuð, og í sama bili sást til lands;- en mér til mikillar undrunar var landið, sem við kenndum, Vogastapi, og við komnir inn á Vogavík í ægilegu austanroki.
Þannig var þá þeirri dagleið lokið, að ferðin hafði gengið meira afturábak en áfram, þótt alltaf væri verið að ferðast.
Nú var legið þarna um nóttina og fram á næsta morgun, miðvikudag. Enn var sama ofsaveðrið að kalla, aðeins með þeirri breytingu, að seinni hluta nætur gekk í suðvestur með nálega sömu veðurhæð og var daginn áður. Var þá létt akkerum og farið til Keflavíkur, því þar var betra lægi í suðvestanátt heldur en undir Stapanum.

Í Keflavík lágum við svo í sama stórviðri það sem eftir var miðvikudags og fram á fimmtudag, en heldur tók að lægja þann dag. Klukkan um þrjú var farið í land til að taka kost, fisk og annað. Voru skipverjar, þeir er í land fóru, svo góðir við okkur farþegana, að bjóða okkur með í land, og þáði ég það boð fegins hugar, því tóbakslaus var ég búinn að vera síðustu daga, og svo átti ég ágætan kunningja þar búsettan, er tók mér tveim höndum. Ég held, að þessi heimsókn hafi verið aðal rúsínan eða kryddið í þessu ferðalagi; þó má vera, að sögulegra þyki það sem fyrir kom á síðasta áfanganum, er verður líka lokaþáttur sögunnar. Þegar við, er í land fórum í Keflavík, komum um borð, var veður stórbreytt til hins betra, komið nærri logn, og leit helzt út fyrir norðlæga átt. Klukkan var nú nál. 5 e.h. Var þá farið að hugsa til ferðalags, gert klárt um borð og lagt af stað. Um svipað leyti hitti ég Karl Einarsson að máli, og spurði hann mig hið bráðasta, hvernig mér litist nú á ferðalagið, og svaraði ég þá fljótlega: „Ekki öðruvísi en vel. Í nótt fáum við gott veður og góða landtöku heima á morgun upp úr fótaferðinni eða seinna."

Hugsaðu til mín með útsæði góði minn, ef þið skrapið nálægt þykkvabænum!!! - Landhelgin var rýmkuð að 3 sjóm. vertíðina 1969.png

Var nú lagt af stað klukkan um 6 e.h. í góðu veðri, en farið hægt og rólega. Bar nú ekki til tíðinda.
Fyrir Reykjanes sigldum við í glaðatunglsskini klukkan 12 á miðnætti í mikið til sléttum sjó, og í dögun var komið undir Þrídranga.
Veit þá enginn fyrr til en hrópað er um allt skipið stafna á milli frá manni til manns: „Togari, togari!" Þessi köll og háreysti stafaði af því, að varðmenn sáu togara í landhelgi í norðaustur frá þeirri stefnu, er haldin var. Sást þá fljótt að togarinn setti á fulla ferð í suðaustur og ætlaði sýnilega að sleppa á haf út milli Þrídranga og Eyja.
Breytti „Fálkinn" þá lítillega stefnu og hélt meira til hafs, og hefur um leið skothríð í allmikilli fjarlægð, enda aðeins viðvörunarskot. Var þannig skotið úr bakborðsfallbyssunum 5 skotum, svo að segja samtímis, en ekki virtist það hafa minnstu áhrif á þá togaramenn. Togarinn virtist nú tjalda því sem hann átti til í því augnamiði að flýja undan „Valnum". En ekki varð þess vart að valurinn herti flugið, en skotið var enn tveim skotum úr bakborðsfallbyssunum, en án árangurs.
Nú var orðið allbjart og togarinn hafði nálgast, vegna þess að hann hélt svo mjög til hafs, og farið þannig í veg fyrir „Fálkann".
Ekki er ráð nema í tíma sé tekið! - Þú verður að fara niður og ræsa kallinn! Herðir „Fálki" nú heldur ferðina og stefnir beint á togarann og hefur skothríð að nýju, og nú úr framkanónunum. Fóru þau skot yfir skut togarans. Það sást glöggt á því, hvar kúlan kom í sjóinn hinumegin skipsins. Aftur er skotið úr sömu byssu, og fór það skot þétt við framstefni togarans. Við það skot gafst hann algerlega upp, stöðvaði alla ferð og veitti enga vörn eða sýndi viðleitni til að komast undan.
Nú var uppi fótur og fit á þilfari varðskipsins, þar sem flestir skipverjar biðu vopnum búnir að fara um borð í togarann, þegar skothríðinni og eltingarleiknum væri lokið. Enda var nú ekki beðið lengi, en hið ógæfusama og yfirunna skip tekið hernámi og skipstjórinn færður sem fangi um borð í varðskipið. Að öllu þessu loknu, var svo haldið áfram heim til Eyja með togarann í eftirdragi. Lentum við þar loks heilu og höldnu föstudaginn 8. marz, klukkan nálega 10 árdegis.
Á meðan verið var að skjóta fallbyssukúlunum 9 að hinum margnefnda togara, sem var frá Bretlandi spurði ég skipstjóra varðskipsins hvers vegna þeir eyddu svo mörgum skotum á skipið í stað þess að auka svolítið hraðann í eltingarleiknum. Svaraði hann þessu til: „Ég vil heldur eyða púðri en kolum."
Skipherra þessi var fullorðinn maður, eftir útliti á að gizka 60 ára eða þar um bil. Og eftir ýmsu að dæma, leit svo út sem hann væri enginn sérlegur sjóhestur. Hann bað mig mjög alvarlega að reyna að sjá um að lokið yrði við að losa vörurnar, sem hingað áttu að fara, svo fljótt sem unnt væri, svo hann þyrfti ekki að liggja hér næstu nótt, austanáttin hér væri svo vond. Lofaði ég að gera mitt ýtrasta til að svo mætti verða. Flutti ég þessa ósk foringjans í land, með þeim árangri, að lokið var við að losa skipið, áður en aldimmt var orðið um kvöldið.
Um leið og þetta samtal okkar fór fram hér á Víkinni, áður en ég fór í land, vildi ég fá að vita, hvað ég ætti að borga í fargjald og ferðakostnað á þessari nær 5 sólarhringa reisu. Það var 5 krónut til matsveinsins. Með það skildum við og báðum hvorn annan vel að lifa. Og þar með er þessari sögu lokið í sem allra fæstum dráttum. Hún er alveg sönn, en illa skrifuð og illa samin. Hún er því alveg eftir höfundinum, og má því vel heimfæra upp á hann í þessu tilfelli, það sem Páll skáldi kvað til Jóns skálds Torfabróður: „Sem ei færð mælt orð, óskælt úr þínum trant, það er svo grannt, ljót er en sönn þó sagan."
Erlendur Árnason