Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1963/ Mesta aflaverðmæti ársins 1962

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 23. júní 2016 kl. 08:44 eftir Mardis94 (spjall | framlög) Útgáfa frá 23. júní 2016 kl. 08:44 eftir Mardis94 (spjall | framlög)
Fara í flakk Fara í leit
Mesta aflaverðmæti ársins 1962


Rafn Kristjánsson skipstjóri.

Mörg undanfarin ár hefur það verið venja á Sjómannadaginn að heiðra þann formann og skipshöfn hans, sem mestan afla hefur fært að landi á undangenginni vertíð og gáfu niðjar Hannesar lóðs á sínum tíma fagurt silfurskip í þessu tilefni. Verðlaun þessi eru eingöngu fyrir þorskafla og mun svo verða áfram.
Nú hafa, svo sem öllum er kunnugt, orðið slík þáttaskil í fiskveiðum okkar Íslendinga með tilkomu vetrarsíldveiðanna að margir bátar stunda nú þorskveiðar aðeins um eins til tveggja mánaða skeið um há netavertíðina og og sumir alls ekki. Margir af þessum bátum skila margföldu aflaverðmæti á við þá sem þorskveiðarnar stunda.
Nú á Sjómannadaginn verður í fyrsta sinn veitt viðurkenning til þess formanns og skipshafnar, sem mest aflaverðmæti hefur yfir árið og mun svo verða í framtíðinni, og þá miðað við aflann undangengið ár.
Ingólfur Theódórsson netagerðarmeistari og kona hans hafa látið gera forkunnar fagra fánastöng, sem afhendast skal á Sjómannadaginn í þessu tilefni. Fánastönginni, sem er farandgripur, fylgir skrautritað heiðursskjal til hvers manns af skipshöfninni.

Farandgripur sem gefinn er af Netagerðinni Ingólfi(eigendur: Ingólfur Theódórsson og Sigríður Sigurðardóttir). Skal hann veitast þeim skipstjóra og skipshöfn, er landar mestu aflaverðmæti frá ári til árs.

Ingólfur er sjómönnum þessa bæjar að góðu kunnur. Hann hefur um mörg ár rekið hér umfangsmikið netjaverkstæði. Nú á Sjómannadaginn senda sjómenn í Vestmannaeyjum honum og konu hans beztu kveðjur og innilegar þakkir fyrir þessa stórhöfðinglegu gjöf og það vinarþel, sem hún felur í sér. Slíkt kunna sjómenn vel að meta.
Þessi verðlaun hlýtur nú á Sjómannadaginn skipshöfnin á m/b Gjafar VE 300, skipstjóri Rafn Kristjánsson. Rafn er Norðlendingur að ætt og hefur stundað sjó frá barnsaldri. Hann kom ungur hingað til Eyja og var lengst af í skiprúmi hjá hinum kunna aflamanni Guðmundi Vigfússyni frá Holti og hafði Guðmundur mikið álit á þessum unga manni og mun margur segja að Guðmundur hafi ekki orðið fyrir vonbrigðum. Rafn lauk meira fiskiniannaprófi við Stýrimannaskóla Íslands árið 1950 með mjög góðum vitnisburði. Formennsku sína byrjaði Rafn á m/b Lagarfossi árið 1954 hjá Tómasi heitnum Guðjónssyni.
Árið 1956 réðst Rafn, ásamt tveim öðrum, í að láta byggja sér bát í Hollandi og hlaut sá bátur nafnið Gjafar. Þennan bát áttu þeir félaga í 4 ár, eða þar til 1960 að þeir fengu annan, Gjafar þann, sem nú er, og á yfirstandandi ári eiga þeir von á þeim þriðja. Þetta sýnir betur en mörg orð að Rafn hefur frá fyrstu formannstíð verið mjög aflasæll og vaxandi maður í sínu starfi. Hann hefur alla sína formannstíð verið það sem við köllum toppmaður, sem byggt hefur sitt starf á dugnaði og forsjálni. Undanfarin ár hefur Rafn nær eingöngu stundað síld og er í dag einn af kunnustu síldveiðiskipstjórum Íslands. Á Gjafari er valinn maður í hverju rúmi, enda þarf að taka hraustlega til hendi á skipi, sem færir að landi aflaverðmæti fyrir rúnilega 7,6 milljón krónur á einu ári. En það var aflaverðmæti Gjafars árið 1952 og mun það vera meira aflaverðmæti en nokkur bátur hefur áður haft hér í Vestmannaeyjum.
Hversu geysilegt aflamagn þetta er sést bezt á því að það þykir gott á bát, sem stundar línu og netjaveiðar á vertíð og togveiðar á sumrum að hafa aflaverðmæti fyrir 2,5 milljón krónur yfir árið og er því afli Gjafars góður þriggja báta afli.
Sjómannadagsblaðið vill óska Rafni og skipshöfn hans til hamingju með þann fagra verðlaunagrip, sem þeim verður afhentur í dag og þeir hafa svo frækilega til unnið. Ennfremur óskar blaðið þess Rafni til handa, að hann megi enn um ókomin ár vaxa í sínu starfi, svo sem hingað til, sér og byggðarlagi sínu til heilla.

M/b Gjafar VE 300.
Unnið að löndun úr m/b Gjafari VE 300.