Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1969/ Hvar voruð þið að fá hann?

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 27. apríl 2016 kl. 13:53 eftir StefánBjörn (spjall | framlög) Útgáfa frá 27. apríl 2016 kl. 13:53 eftir StefánBjörn (spjall | framlög) (Ný síða: '''LOFTUR GUÐMUNDSSON:'''<br> <center><big><big>'''Hvar voruð þið að fá hann?'''</big></big></center><br> ÞEGAR mér verður litið um öxl - yfir farinn veg, segja menn á...)
(breyting) ←Fyrri útgáfa | Nýjasta útgáfa (breyting) | Næsta útgáfa→ (breyting)
Fara í flakk Fara í leit

LOFTUR GUÐMUNDSSON:

Hvar voruð þið að fá hann?


ÞEGAR mér verður litið um öxl - yfir farinn veg, segja menn á gamalsaldri - þá finnst mér eins og ég hafi alla ævina ferðast eftir hnitmiðaðri áætlun, sem ég þó hafði ekki minnstu hugmynd um fyrr en eftir á. Að sú áætlun hafi verið samin af einhverjum, sem var ekki að gera sér það ómak að leita álits míns, þegar hann var að velja mér leiðir — og enn síður, þegar hann var að ákveða mér viðkomustaðina. Að minnsta kosti hefur niðurstaðan, að mínum dómi, orðið sú, að ég hef sjaldnast komizt þangað, sem ég ætlaði mér, en hinsvegar er eins og ég hafi oft og tíðum verið teymdur þangað, sem ég ætlaði mér alls ekki. Annað mál er svo það, að sá sem áætlunina samdi virðist ekki hafa hagað þessu þannig í því skyni að ná sér niðri á mér. Ég veit að vísu ekki hvernig mér kynni að hafa liðið þar, sem ég vildi sjálfur vera, en hitt veit ég, að oft og tíðum hefur mér liðið eins og bezt varð á kosið á þeim viðkomustöðum, sem hann ákvað mér, að mér forspurðum - að ekki sé meira sagt.
Það mun hafa verið vorið 1932, sem ég steig fyrst á land í Vestmannaeyjum ásamt nokkrum samfarþegum mínum með gamla „Gullfossi". Að sjálfsögðu vorum við að koma utan úr hinum „stóra heimi", sem þá var enn þó nokkuð stór. Við röltum um kaupstaðinn, sögðum hver öðrum sögur frá Stokkhólmi og Berlín - einn hafði meira að segja dvalizt suður í Mílanó - og komumst að þeirri niðurstöðu, að þetta væri svo sem enginn kaupstaður, og guð minn almáttugur, ef maður ætti eftir að eiga þar heima. Þrem misserum síðar steig ég svo öðru sinni í land í Eyjum, þar sem ég dvaldist síðan í tólf vetur. Og Á einlægni sagt hefur mér óvíða liðið jafn vel, hvað þá betur.
Enn man ég vel fyrsta morguninn, sem ég dvaldi í Eyjum það haust. Ég vaknaði snemma, það var glaðasólskin og hægur strekkingur, sem þeir kalla logn þar, og ég labbaði mig inn í Herjólfsdal. Hitti þar fyrir nokkra menn, sem voru að moka gjalli á bíl uppi í brekku, settist þar og tók þá tali. Sá ég þá mann nokkurn koma upp úr Kaplagjótu, ganga löturhægt annan spölinn, hlaupa hinn, hringsnúast og veifa göngustaf þess á milli. Nema hvað ég spurði þá, sem voru að moka á bílinn, um deili á manninum, hvort hann væri eitthvað skrítinn?
„Þetta er gamall kennari hérna", varð einum þeirra að orði. „Krakkarnir gerðu hann hálfgeggjaðan — þau ganga yfirleitt þannig frá þeim, kennurunum sínum".
Lái mér svo hver sem vill, þótt ég væri dálítið hugsi, þegar ég hélt heim aftur í morgunkaffið hjá Kolka . . .
Á stundum finnst mér sem ég gæti skrifað þéttingsstóra bók um dvöl mína í Eyjum þessa tólf vetur. Skemmtilega bók, sem gagnrýnendur myndu tæta í sig, bera mér á brýn firrur og ýkjur og segja, að annað eins gæti ekki átt sér neinn stað í veruleikanum. Ég mundi ekki heldur lá þeim það. Ég efast jafnvel um það sjálfur, að sumt af því, sem rifjast upp fyrir mér, þegar ég lít um öxl þangað, hafi í rauninni gerzt annarsstaðar en í ímyndun minni. En ég get samt nefnt vitni að því öllu líka því, þegar við Júlíus á Skjaldbreið bárum á milli okkar fulla körfu af glænýjum fiski, ýsu, þorski, steinbít, lúðu og ufsa úr sjálfstæðishöllinni og heim til mín á Hásteinsveginn. - Þessi fiskur hafði nefnilega verið dreginn upp úr hljómsveitargrófinni í „Höllinni", og Júlli var í smóking og í hvítri skyrtu, þrælstífaðri . . .
Já, það eru víða fengsæl mið í Eyjum.
Þegar ég kom til Eyja, voru þær enn að vissu leyti eins konar smáríki; jafnvel smáheimur út af fyrir sig. Þar var þá enn við líði gömul og rótgróin menning, gamlar venjur og siðir, sem Eyjaskeggjar gerðu sér ef til vill ekki grein fyrir sjálfir, en aðkomumaðurinn hlaut að verða var, þegar hann hafði dvalizt þar um skeið og var farinn að kynnast fólkinu. Raunar var þessi menning þá sem óðast að líða undir lok, og oft hef ég hugleitt það síðan, hvað ég var heppinn að fá að dveljast þar um árabil, áður en hernám og bættar samgöngur rufu einangrunina - og Eyjarnar urðu aðeins hluti af meginlandinu, að svo miklu leyti sem þær geta orðið það. Ég geri til dæmis ekki ráð fyrir, að þeir sem annast nú kennslu þar, þurfi að taka afstöðu í eins viðkvæmu vandamáli og kom einu sinni fyrir mig í landafræðitíma, þegar einn nemandinn kallaði úti í bekk og vildi leiðrétta fáfræði mína í námsgreininni: „Við erum ekkert Ísland. . " Ég hafði að vísu landafræðina mín megin, en fann þó að hann hafði að vissu leyti lög að mæla.
Sú kynslóð Eyjaskeggja, sem þá var enn á manndómsaldri, hélt við arfi liðinna kynslóða, eins og hann hafði mórazt af einangraðri, erfiðri og hættulegri lífsbaráttu öldum saman. Lífsbaráttu, sem krafðist dirfsku og karlmennsku, samfara hyggni og forsjálni, en þó ef til vill fyrst og fremst nákvæmrar athygli og þekkingar á öllum aðstæðum, bæði á sjó og í björgum. Sennilega var það síðasta kynslóðin, sem stóð í jafn nánu sambandi við náttúruöflin og liðnar kynslóðir öldum saman. Veðurspár voru að vísu komnar til sögunnar, en menn tóku yfirleitt því aðeins mark á þeim, að þær samrýmdust þeirra eigin veðurmerkjum. Radarinn var þá óþekkt fyrirbæri, svo og fisksjáin. En þá dreymdi menn enn fyrir aflabrögðum, létu hugboð vísa sér á miðin og fundu á sér válega atburði. Og þá voru konur í Eyjum, sem minntu aðkomumanninn á þá kvenskörunga, sem mest reisn er yfir í fornsögum okkar, og sérkennilegir menn gæddir andlegu og líkamlegu atgervi, sem vakti í senn undrun hans og aðdáun. Nefni ég tvo sem dæmi - Gísla heitinn Lárusson, sem var allt í senn, frábær sjómaður, fjallamaður, þjóðhagi, sagnfræðingur og bjó yfir slíkri þekkingu á náttúrufræði, einkum varðandi fugla og fiska, að margur vísindamaður hefði mátt vera hreykinn af og Magnús Guðmundsson í Vesturhúsum, sem var jafningi hans um flest og hélt dagbækur um veiðar, veðurfar og margt annað af vísindalegri nákvæmni, og spanna þær yfir marga áratugi. Og báðir höfðu þessir menn svo höfðinglegt yfirbragð og göfugmannlega framkomu, þótt ólíkir væru í sjón, að jafna mátti til víðförulla, hámenntaðra heimsmanna.
Og þá áttu Eyjarnar fræga garpa, víkinga, sem vart gátu talizt einhamir, einkum ef þeir voru við skál, og sáust þá ekki fyrir. Mundi nú enginn trúa frásögnum af tiltektum þeirra og afrekum, þótt sízt væru orðum auknar; manna eins og bræðranna, Jóns og Guðna frá Ólafshúsum, Guðjóns einhenta Valdasonar og sona hans, hins frábæra glæsimennis og kraftajötuns, Þorvaldar Guðjónssonar, sem var þessum víkingum þó ólíkur að því leyti, að hann brá varla skapi við öl. Og hver gæti skrifað sanna lýsingu á sægarpinum Binna í Gröf, og yrði þó trúað? Ég hef aldrei vitað jafn margar manngerðir samanar í ekki stærri líkama, og aldrei tekið hann svo tali, að ég hafi ekki kynnzt nýjum og óvæntum þáttum í skaphöfn þessa harðsnúna og viðkvæma, glaðværa og góða drengs, sem er ör og síbreytilegur eins og hafið sjálft.
Þá á ég mjög skemmtilegar minningar um þátttöku mína í leiklistarlífinu í Eyjum. Minnist þess alltaf með nokkru stolti, þegar ég lék Vermund í Ævintýrinu af svo sannfærandi snilld, að lífsreynd og gegn kona lét svo um mælt, að enginn þyrfti að segja sér, að ég hefði góðan mann að geyma. Ég minnist þess líka í sambandi við sýningar á öðru leikriti, að steinolíuflaska hafði með einhverjum dularfullum hætti komizt inn í skáp á sviðinu í stað viskíflösku með vatni, sem við Georg heitinn Gíslason áttum að snafsa okkur af. Georg hellti á staupin og vissi ekki fyrr en hann drakk, hvað það var, en kyngdi því samt og hvíslaði um leið að mér: „Helvítis steinolía!" Sneri sér síðan að áhorfendum og dæsti svo ánægjulega af áhrifum hins ljúffenga viskís í munni og kverkum, að vatn mun hafa komið í munninn á sumum. Ég laumaði innihaldinu í blómsturpott, bar síðan staupið að vörum mér, og þóttist drekka í botn. Þegar ég hef síðan minnzt á ríka innlifun í leiklistargagnrýni, hefur mér ævinlega komið Georg Gíslason í hug. Það þarf ríka innlifun til að kyngja gúlsopa af steinolíu og dæsa ánægjulega á eftir, eins og það hefði verið gúlsopi af Jóni á rökinu. . . .
Svo fór ég að fúska við að skrifa leikrit sjálfur. Ég á líka skemmtilegar minningar um það. Til dæmis þegar ég samdi leikþátt fyrir sjómannasamtök í Eyjum og kvað rímu um alla formenn þar þá vertíðina, sem felld var inn í þáttinn og kveðin á leiksviðinu. Ekki mun þar hafa verið um stórbrotinn skáldskap að ræða, en sviðsetningin var óvenjuleg - og mér liggur við að segja óvenjulega snjöll. Við gerðum bátsúð með borðstokki fremst á sviðinu, og út við borðstokkinn stóðu sjóarar í fullum skrúða á skaki og kváðu við raust. Færum var rennt úr fyrir borðstokkinn eins og vera bar, niður í hljómsveitargrófina. En það hygg ég, að mörgum úti í sal hafi komið skemmtilega á óvart, þegar Eyjólfur á Búastöðum dró fyrsta fiskinn og Kristinn í Litlabæ annan rétt á eftir, og síðan hvern af öðrum, bæði þeir og aðrir um borð. Svo vel var leikið og svo raunhæf var sviðsetningin, að margir úti í sal fullyrtu eftir á, að fiskurinn hefði spriklað á króknum hjá þeim Eyjólfi og Kristni — og svo er verið að tala um leikstarfsemi í dreifbýlinu, sem eins konar vanþróaða list. Kannski er hún það líka — nú orðið.
Á eftir bárum við Júlli á Skjaldbreið aflann heim til mín í stórri körfu. Ég hafði orð á því við Júlla, að hann yrði að fara gætilega, svo ekki kæmi slor á smókinginn. „Hann er keyptur fyrir slorugan fisk", sagði Júlli, og þar með var það útrætt mál. Á leiðinni mættum við tveim samkvæmisklæddum, ungum stúlkum, sem voru að fara á dansleikinn, eftir leiksýninguna. „Guð - sjáðu!" hvein í annarri. „Hvar voru þið að fá hann?" „Gettu!" svaraði Júlli. Vissi að slíkar furður þýðir ekki að bera á borð fyrir neinn, sem ekki sér þær eigin augum, jafnvel ekki samkvæmisklæddar stúlkur undir lágnættið. Ég komst líka að raun um það áratugum síðar, þegar ég vildi fræða félaga mína á sjóstangaveiði um það, hvar ég hefði séð Eyjamenn draga óðastan fisk. Þeir töluðu ekki við mig það sem eftir var dagsins.. . .