Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1966/ Um aflamenn

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 23. mars 2016 kl. 14:41 eftir Kristinsigurlas (spjall | framlög) Útgáfa frá 23. mars 2016 kl. 14:41 eftir Kristinsigurlas (spjall | framlög) (Ný síða: <big><big><center>Um aflamenn</center></big></big><br> Ég held að fáir eða engir verðlaunahafar séu eins vel að verðlaunum komnir og þeir miklu aflamenn og vaskar skipshafn...)
(breyting) ←Fyrri útgáfa | Nýjasta útgáfa (breyting) | Næsta útgáfa→ (breyting)
Fara í flakk Fara í leit
Um aflamenn


Ég held að fáir eða engir verðlaunahafar séu eins vel að verðlaunum komnir og þeir miklu aflamenn og vaskar skipshafnir þeirra, sem eru heiðraðar á hverjum sjómannadegi í Vestmannaeyjum.
Í frjálsum íþróttum þykir maraþonhlaup — 42ja km. sprettur — ein hin erfiðasta íþrótt — og þeir frægir mjög, sem þar bera sigur úr býtum. Í mörgu finnst mér góðir aflamenn vera sem góðir maraþonhlauparar, og þó í sumu fremri.
Að baki aflamannsins liggur mánaðastarf, elja og útsjónarsemi, glöggskyggni, kjarkur og kapp, andvökunætur og vomur í hríðarbyljum vetrarins.
„Siglir, særokinn, sólbitinn slær, stjörnuskininn stritar.“

Með skipstjóranum vinnur hörðum höndum hin vaska skipshöfn. Að draga sem flest net úr sjó, kasta sem oftast, keppast við — það er mátinn til sjós. Allir vita hvers virði harðskeyttir sjómenn eru aflaskipinu.
Á góðu skipi eru allir eitt, skip og áhöfn, ein órjúfanleg heild, sem á sér það eitt takmark að fanga sem mest úr greipum hins gjöfula en þó oft duttlungafulla hafs.
Þetta er ekki einvörðungu vegna fjáraflavonar, heldur eru menn knúðir hinum ólýsanlega ákafa gleði veiði- og fiskimannsins yfir góðum feng. Og þegar haldið er til hafnar með hlaðinn bát er gleðin og ánægjan yfir góðri veiði sönn, svo að þreyta, vökur og erfiði gleymast í svipinn.
Í landi er æðasláttur byggðarlagsins í nánu sambandi við aflabrögðin. Í góðu fiskiríi er allt á flugi og ferð. „Já, þeir eru að fá 'ann“ segja menn í óspurðum fréttum og það er létt yfir öllum. Í verzlun og viðskipti, allt bæjarlífið færist nýtt og frjótt líf, þrungið trú á bjartar framtíðarhorfur. Hvar sem menn starfa, í iðnaði, verzlun, bönkum, skólum eða við búskap, fylgjast menn með aflabrögðunum af lífi og sál.
Þeir menn, sem eru heiðraðir, eru því vel að sínum heiðurstitli komnir.

G. Á. E.