Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1975/Þegar Ceres VE 151 fórst 2. marz 1920

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 18. janúar 2016 kl. 17:23 eftir Kristinsigurlas (spjall | framlög) Útgáfa frá 18. janúar 2016 kl. 17:23 eftir Kristinsigurlas (spjall | framlög)
Fara í flakk Fara í leit
ÞEGAR CERES FÓRST 2. MARS 1920


Mótorbáturinn Ceres VE. 151 var 10,34 tonn að stærð með 12 hestafla Dan-vél, súðbyrðingur úr eik, smíðaður í Danmörku 1911.

Eigendur bátsins voru þessir menn: Kristmann Þorkelsson Steinholti, N. B. Nilsen Reykjavík, Ólafur Arinbjarnarson Garði og Jóhann Jónsson á Brekku. Fyrstu tvær vertíðirnar, 1912 og 1913, var Jóhann á Brekku formaður á bátnum. Árið 1914 tók við bátnum Bjarni Hávarðsson frá Norðfirði, og var hann með Ceres þá vertíð. Magnús Hjörleifsson var ráðinn fyrir bátinn á vertíðina 1915, en hann hafði verið háseti á Ceres frá því að báturinn kom til landsins.

Eftir fyrstu vertíð Magnúsar með Ceres var sett ný vél í bátinn; eins sílyndra (strokks) 12-15 hesta Alfa-vél skömmu eftir þetta varð Magnús einn af meðeigendum bátsins og reri hverja vertíð af annarri og fiskaði ávallt vel. Hann var meðal fyrstu formanna í Eyjum, sem lögðu net.

Vetrarvertíðin 1920 er sjötta vertíð Magnúsar með bátinn. Hinn 2. mars 1920 hafði verið stormur og hafsjór alla nóttina og fram á morgun. Þá lygndi og fóru allir á sjó um morguninn. Margir reru austur fyrir Bjarnarey, að Róu og Sandahrauni. Ceres var einn þeirra báta, sem fóru austur fyrir Bjarnarey. Þegar buið var að leggja línuna, rýkur veðrið upp með suðaustan stormi og ýfist sjór mjög; með útfallinu versnaði sjólagið ennþá meira. Allir sem á sjó voru fóru að leita lands.

Mótorbáturinn Málmey átti línuna við Mannklakkinn, og hélt hann til lands á fjórða tímanum og tók stefnu fyrir sunnan Bjarnarey. Formaður á Málmey var Gísli Jónsson Ben á Haukafelli. Hann sá bát á undan sér á landleið, en bilið var langt á milli bátanna. Gísli keyrði hæga ferð og missir sjónar af bátnum, sem var á undan. Eftir góða stund, kemur Gísli að báti á hvolfi, kjölur er upp og skrúfan. Hefur þá báturinn að líkindum fengið á sig ólag og stafnstungist. Ekki þekkti Gísli bátinn, og ekkert var á floti í kringum hann nema línubelgur ómerktur. Þetta var í álnum suður af Bjarnarey.

Þegar Málmey kom að landi, spurðist Gísli fyrir um, hverjir væru ókomnir, og var honum sagt, að allir væru komnir nema Ceres. Hansína VE 200, Kópur VE 212 og Skarphéðinn VE 145 voru þá allir nýkomnir.

Þarna fórust fjórir dugnaðarmenn. Þeir voru: Magnús Hjörleifsson Reyni. Hann var fæddur 5. desember 1891 að Naustahvammi í Norðfirði. Foreldrar hans voru hjónin Hjörleifur Marteinsson og Margrét Diðriksdóttir. Magnús byrjaði ungur sjómennsku á opnum skipum og var sjómaður alla sína tíð, sótti fast sjó og var aflamaður mikill. Magnús fór á vetrum til Vestmannaeyja og mun fyrst hafa komið hingað á vertíð 1910. Hann hafði verið á Ceres síðan vertíðina 1912. Áður en Magnús kom til Eyja hafði hann verið formaður á Norðfirði með mb. Hrólf Gautrekson. Það sagði einn af hásetum Magnúsar, sem var með honum á Ceres gaddaveturinn 1918, að aldrei hefði hann verið með manni eins heitfengum og Magnúsi. Honum hefði aldrei verið kalt og ekki hefði hann farið í sjógalla nema til hlífðar bleytu. Að sama skapi var hann frískur og hraustmenni hið mesta. Eitt sinn voru þeir að draga net austur af Bjarnarey í veltubrimi. Slitnuðu þá báðir teinarnir á rúllunni, en Magnús náði í teinana um leið og þeir slitnuðu og gat fest þá á rúllunni og haldið þeim þar til hásetar hans komu til hjálpar. Dáðist skipshöfnin að þessu.

Með Magnúsi fórst bróðir hans Halldór Hjörleifsson. Hann var fæddur 13. janúar 1897 að Naustahvammi Norðfirði og hafði verið hér í Eyjum nokkrar vertíðir á Ceres; var hann dugnaðarmaður eins og bræður hans og hafði einnig stundað sjó frá Norðfirði.

Þriðji maðurinn, er fórst þarna, var Guðjón Sveinbjörnsson, sem var fæddur í Mjóafirði 2. apríl 1893. Foreldrar hans voru Sveinbjörn Hallgrímsson og kona hans Jónína Jónsdóttir, búandi á Krossi. Með þeim fluttist Guðjón til Norðfjarðar. Hann byrjaði sjómennsku um fermingu og varð síðan formaður fyrir Lúðvík Sigurðsson á Norðfirði. Hann var úrvalsmaður til sjós og var jafnvígur á allt, sem að sjó laut. Guðjón Sveinbjörnsson var bróðir Katrínar, sem lengst bjó að Geithálsi hér í bæ ásamt eiginmanni sínum Hirti Einarssyni frá Þorlaugargerði.

Sá fjórði, sem fórst með Ceres var Grímur Grímsson, sem fæddur var að Nikhól í Mýrdal 10. mars 1892. Foreldrar hans voru þau hjón Grímur Sigurðsson bóndi þar og kona hans Vilborg Sigurðardóttir. Með þeim ólst Grímur upp. Hann fór ungur til sjós á skútu frá Reykjavík og var þar nokkur úthöld; var hann með í hópnum, þegar bræðurnir frá Efstu-Grund urðu úti á Rangárvöllum árið 1912.

Vertíðin 1920 mun hafa verið fyrsta vertíð Gríms í Vestmannaeyjum.