Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1968/Vestmannaeyjaferð. Skráð eftir blöðum Guðjóns Jónssonar hreppstjóra

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 15. janúar 2016 kl. 13:46 eftir Kristinsigurlas (spjall | framlög) Útgáfa frá 15. janúar 2016 kl. 13:46 eftir Kristinsigurlas (spjall | framlög) (Ný síða: <big><center>SÉRA ÞORSTEINN L. JÓNSSON:</center></big><br> <big><big><center>Vestmannaeyjaferð úr Landeyjum</center></big></big><br> Það mun...)
(breyting) ←Fyrri útgáfa | Nýjasta útgáfa (breyting) | Næsta útgáfa→ (breyting)
Fara í flakk Fara í leit
SÉRA ÞORSTEINN L. JÓNSSON:


Vestmannaeyjaferð úr Landeyjum


Það mun hafa verið laust fyrir aldamótin, að faðir minn, Jón Guðnason, hafði ákveðið Eyjaferð. Var á þeim árum gripið hvert tækifæri, sem bauðst, til slíkra ferða, þar sem nálega öll verzlunarviðskipti Landeyinga voru við Vestmannaeyjar.
Um vorið, laust eftir lok, gerði sjódeyðu og gott veður. Þrátt fyrir það leizt föður mínum ekki á veðurútlitið um morguninn og veifar því ekki, eins og þá var venja, þegar tekið var leiði til Eyja.
En þann sama dag komu þeir úr Vestur-Landeyjum, sem ráðnir voru til ferðar með honum. Voru þeir með sauðfé, sem þeir vildu fyrir hvern mun koma til Eyja. Hvöttu þeir mjög til fararinnar, þar sem veður var mjög gott og sjór brimlaus.
Verður það að ráði, að þeir fara. Gengur ferðin greiðlega til Eyja. Var ætlunin að hafa þar skamma viðdvöl og komast til lands um kvöldið, þar eð veðurútlit var mjög ótryggt.
Eitthvað þurftu menn að komast í búðir. En svo óheppilega vildi til, að þegar þeir þurftu að fá sig afgreidda, hittist þannig á, að komið er að matmálstíma hjá verzlunarþjónunum, og var landmönnum neitað um afgreiðslu fyrir þá sök. Seinkar för þeirra um a.m.k. klukkutíma, og var almennt talið, að ferðin hefði gengið að óskum, ef þessi töf hefði ekki orðið.
Þegar þeir voru loks tilbúnir að leggja af stað, var kominn suðaustan stormur. Var því haldið skemmstu leið undir Sand, ef takast mætti að lenda áður en sjór yrði ófær.
En veðrið þyngdi stöðugt, og auðséð þótti, að sjó væri farið að brima, enda reyndist það rétt.
Þegar komið er undir Sand, er orðið ófært að lenda, en hinsvegar orðið svo hvasst af suðaustri, að ekkert viðlit var að komast til Eyja aftur.
Þá var tekið það ráð að setja upp segl og sigla til Þrídranga. Vissi faðir minn þar af afdrepi, sem hægt var að liggja í fyrir austanátt.
Skipið, sem hét Sigursæll, var sexahringur (sexæringur) að stærð og fullfermt af þungavöru og hertum þorskhausum, sem ævinlega þótti vondur flutningur vegna háfermis.
Var nú séð, þegar veður versnaði, að nauðsynlegt mundi að létta skipið. Faðir minn vildi þó ekki varpa út flutningi inni á grunni, ef vera kynni, að eitthvað af því ræki upp á fjörurnar, sem gæti orðið til þess, að menn í landi óttuðust frekar, að þeim hefði hlekkzt á. Var því haldið á djúpið og þar varpað út nokkru af flutningnum. Gaf þeim síðan greiðlega til Dranga, og lögðust þeir í hlé við Klofadranginn.
Nokkru eftir að þeir voru lagztir þar, gengur upp með suðvestan hvassviðri, og jafnframt eykst brimið svo mjög, að engin tök voru á að liggja lengur við Drangana.
Þá var ekki um annað að velja en setja upp og sigla til Eyja. Og það hef ég eftir gömlum manni, sem var með föður mínum í þessari ferð, en er nú látinn, að þá hefði sjór verið mjög úfinn, en vel hefði tekizt að verja skipið, og gæfusamlega gekk þeim ferðin til Vestmannaeyja. Tepptust þeir þar í viku, áður þeim gæfi leiði til Iandsins.
Víkur nú sögunni að þeim, sem heima biðu í óvissu um afdrif skipsins.
Frá Önundarstöðum, og ef til vill fleiri bæjum, sást til ferða þeirra, þegar skipið kom undir Sand um kvöldið, en lagði svo frá og út á djúpið.
Þessi fregn barst til móður minnar einum til tveim dögum síðar. Geta má nærri, hvernig henni hafi þá verið innan brjósts þennan tíma. - Þá var ekki síminn kominn eins og nú til að bera fréttirnar á milli manna, svo að fjarlægðir í þeim skilningi hafa orðið lítið að þýða.
Í fjarveru föður míns gætti móðir mín að lambfénu, því að sauðburður stóð þá yfir. Og oft var þá skyggnzt út á sjóinn, hvort ekki færi nú að lægja, því að í lengstu lög vildi fólk halda í vonina um, að þeir hefðu náð til Eyja, þótt til þess væru ekki mikil líkindi eins og vindurinn hafði staðið þetta kvöld En svo var það einn morgun snemma, þegar móðir mín er að koma frá fénu, að hún sér skip koma siglandi austan með Sandi.
Var þetta hann, sem hún þráði, eða var það eitthvert annað skip?
Það gat svo sem vel verið annað skip. Ef svo væri, hlaut að vera úti um þá. Við getum getið okkur nærri um þá eftirvæntingu, sem þá hefur gripið hana og allt fólkið á bænum, og það hljóta að hafa verið heitar og fölskvalausar bænir, sem þá stigu upp til himnaföðurins, þótt allt færi hljóðlega fram, meðan búizt var til farar fram í Sand til að taka á móti skipinu,
En Guði sé lof! Eftir hið lamandi farg ofvænis og óvissu, kemur kyrrðin og friðurinn, sem andar fögnuði og þakklæti, því að nú sjást þeir koma, heimtir úr helju, þar sem þeir taka landróðurinn.
Hún hafði verið erfið síðasta vikan. Og hafi tár fallið af votum hvarmi, þegar heilsazt var, eftir að lent hafði verið, var það ekki angrið, sem gerði tárin höfug, því að nú höfðu kvíði og áhyggjur liðinna stunda gleymzt við fögnuð endurfundanna.
Guðjón Jónsson, fyrrv. hreppstjóri í Austur-Landeyjum og bóndi í Hallgeirsey, bróðir Óskars Jónssonar í Sólhlíð hér í Eyjum hefur leyft mér að birta þessa frásögn, sem hann hafði eftir móður sinni. Foreldrar þeirra bræðra voru merkishjónin Jón Guðnason og Elín Magnúsdóttir, sem flest búskaparár sín bjuggu í Hallgeirsey á móti afa mínum og ömmu, Guðlaugi Nikulássyni og Margréti Hróbjartsdóttur. Mun það tvíbýli hafa átt fáa sína líka, hvað snerti samlyndi og góða vináttu.

Þorsteinn L. Jónsson