Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1968/Minningarsjóður hjónanna Áslaugar Eyjólfsdóttur & Guðmundar Eyjólfssonar

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 7. janúar 2016 kl. 13:27 eftir Kristinsigurlas (spjall | framlög) Útgáfa frá 7. janúar 2016 kl. 13:27 eftir Kristinsigurlas (spjall | framlög) (Ný síða: <big><big><center>Minningarsjóður hjónanna Áslaugar Eyjólfsdóttur og Guðmundar Eyjólfssonar</center></big></big><br> Þ...)
(breyting) ←Fyrri útgáfa | Nýjasta útgáfa (breyting) | Næsta útgáfa→ (breyting)
Fara í flakk Fara í leit
Minningarsjóður hjónanna Áslaugar Eyjólfsdóttur og Guðmundar Eyjólfssonar


Þegar Stýrimannaskólanum var slitið 11. maí s.l., afhentu þeir bræður Björn og Tryggvi Guðmundssynir skólanum sparisjóðsbók með 50.000 kr. til minningar um foreldra sína, hjónin Áslaugu Eyjólfsdóttur og Guðmund Eyjólfsson.
Er áformað að stofna með upphæð þessari styrktarsjóð fyrir efnalitla sjómenn og styrkja þá til náms við Stýrimannaskólann í Vestmannaeyjum.

Gjöf þessi lýsir í senn mikilli ræktarsemi þeirra bræðra við minningu foreldra sinna og hlýhug til sjómannastéttarinnar og stofnunar þeirra. - Stofnun þessa styrktarsjóðs er merkilegt framtak til stuðnings íslenzkum sjómönnum, og mun fyrsti beini styrktarsjóðurinn til eflingar sjómannamenntun í landinu. Er það Vestmannaeyingum mikið ánægjuefni, að slíkt framlag kemur frá borgurum hér í bæ.
Með sjóðstofnuninni er jafnframt minnzt sjómannsins og sjómannsekkjunnar, sem brauzt áfram með barnahópinn af miklum dugnaði. - Minnzt er eins hinna mörgu sjómanna, sem komu hingað á fyrstu árum vélbátaútgerðar, en féllu fyrir aldur fram í kaldan mar. Öllum er okkur hollt að minnast fólks sem þessa. Á erfiðum tímum eru ævikjör þeirra okkur hvatning.
Guðmundur Eyjólfsson var fæddur 27. október 1885 að Björnskoti undir Vestur-Eyjafjöllum. Hann ólst upp undir Eyjafjöllum, en fór strax á unglingsárum, svo sem títt var um unga menn, á vetrarvertíð til Vestmannaeyja. Stundaði hann sjóróðra og var sjómaður alla tíð, en á sumrin var hann til sjós á Austfjörðum eins og fjöldi Eyjamanna á þeim tímum.
Árið 1914 kvæntist Guðmundur Áslaugu Eyjólfsdóttur, sem var fædd 26. september 1880 að Bæ í Lóni í Austur-Skaftafellssýslu. Guðmundur og Áslaug hófu hér búskap það sama ár og reistu skömmu síðar húsið Miðbæ við Faxastíg, þar sem þau bjuggu allan sinn búskap. Þau hjón eignuðust 5 börn, og eru 2 þeirra á lífi, Björn og Tryggvi, báðir kunnir Vestmannaeyingar.
Hinn 16. desember 1924 varð hörmulegt sjóslys við Eiðið, og fórst Guðmundur Eyjólfsson í þessu slysi. Eftir að Áslaug missti mann sinn, bjó hún áfram með börnum sínum. Hún bjó í Miðbæ allt fram til ársins 1948, en hún andaðist 24. júlí árið 1952.
Minningarsjóður Áslaugar Eyjólfsdóttur og Guðmundar Eyjólfssonar mun verða Stýrimannaskólanum í Vestmannaeyjum til mikillar eflingar og trausts um ókomna tíð.
Fyrir hönd skólans og sjómanna allra er þetta framlag þakkað. Það er von okkar og trú, að sjóðurinn muni verulega glæða áhuga og framsækni ungra sjómanna.
Minningargjöf þessi er gefin af mönnum, sem þekkt hafa kröpp kjör, en hafa með eigin framtaki og dugnaði, studdir kærleiksríkri móður komizt vel áfram og skipað sitt sæti með prýði.
Hafi þeir heila þökk fyrir, en blessuð sé minning foreldra þeirra, hjónanna frá Miðbæ.

Ritstj.