Marín Halldórsdóttir (Svaðkoti)
Marín Halldórsdóttir frá Syðri-Steinsmýri í Meðallandi, vinnukona í Svaðkoti, síðar húsfreyja í Utah fæddist 9. ágúst 1848 og lést 18. desember 1926 í Utah.
Foreldrar hennar voru Halldór Eyjólfsson bóndi, f. 26. apríl 1805 á Syðri-Steinsmýri, d. 12. desember 1868 í Hraunkoti í Landbroti, og síðari kona hans Halldóra Ólafsdóttir húsfreyja, f. 3. nóvember 1808 á Undirhrauni í Meðallandi, d. 1. júní 1873 í Efri-Ey þar.
Marín var hálfsystir Halldóru Árnadóttur húsfreyju í Utah, áður gift Lofti Jónssyni frá Þorlaugargerði, síðar Gísla Einarssyni dýralækni í Spanish Fork í Ytah.
Marín var hjá foreldrum sínum á Syðri-Steinsmýri til ársins 1861, í Hraunkoti 1862-1868 og með ekkjunni móður sinni þar til 1870.
Hún fluttist til Eyja 1870 og var vinnukona í Svaðkoti, var vinnukona á Undirhrauni 1873-1875, á Syðri-Steinsmýri 1875-1877. Þá fór hún á Eyrarbakka, var þar vinnukona í Einarshöfn. Þaðan fór hún til Vesturheims 1881 á vit Halldóru hálfsystur sinnar, sem hafði sent henni fé fyrir farinu.
Hún bjó hjá hjónunum og Gísli vildi kvænast henni sem annarri konu sinni í fjölkvæniskerfi mormóna á þeim árum. Það gerði hann á afmælisdegi sínum 24. nóvember 1881.
Fjölkvæni var bannað þá um öll Bandaríkin, þó að það væri þá viðurkennt og stundað innan mormónasiðarins. Yfirvöld voru því á eftir Gísla Einarssyni vegna fjölkvænis hans. Hann var handtekinn og ákærður. Meðan á málaferlum stóð dvaldi Marín í Kanada um tveggja ára skeið. Gísli var að lokum fundinn sekur um fjölkvæni.
Maður Marínar, (24. nóvember 1881), var Gísli (Einarsson) Bjarnason bóndi og dýralæknir, f. 25. nóvember 1849 og lést 17. ágúst 1934. Hann var þá kvæntur hálfsystur Marínar, Halldóru Árnadóttur.
Börn þeirra voru:
1. Magnus Christian Bjarnason, f. 8. febrúar 1885, d. 16. október 1916.
2. Halldóra Bjarnason, f. 17. apríl 1886, d. 15. september 1887.
3. Gísli Bjarnason, f. 6. maí 1888, d. 1. júní 1888.
Heimildir
- Samantekt: Víglundur Þór Þorsteinsson.
- Google. Gisli and Halldora Bjarnason family group.
- Our Pioneer Heritage Vol. 7. Kate B. Carter. Daughters of Utah Pioneers. Salt Lake City 1964.
- Prestþjónustubækur.
- Vestur-Skaftfellingar 1703-1966. Björn Magnússon. Leiftur 1970-1973.
Þessi grein tilheyrir Æviskrám Eyjafólks eftir Víglund Þór Þorsteinsson.