Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1961/ Sjóferð á Þyrsklingi 1903
Blaðið hefur verið svo lánsamt að ná í eina af hinum snjöllu samtalsgreinum Skriffinns Skrafs til birtingar. Skriffinnur er eins og alþjóð veit einn af þjóðarinnar færustu blaðaskriffinnum og þó sérdeilis kunnur fyrir samtöl sín við ýmsa merka borgara þjóðarinnar. Í grein þeirri er hér fer á eftir ræðir hann við sæbarinn öldung í Vestmannaeyjum.
Það er heiðbjartur, ja sona sæmilega bjartur, þriðjudagur í endaðan febrúar. Við göngum, svona til að liðka okkur sem og til að leita frétta, niður Nausthamarsbryggjuna í Vestmannaeyjum.
Hér er allt í fullu fjöri, mótorskellir, köll, bílaflaut og allskyns háreisti. Það er semsé hávertíð í Eyjum.
Venjulega þegar blaðamenn safna efni um afla og aflabrögð hafa þeir tal af formönnum á hundrað tonna bátum og þar yfir.
Ég er nú að hugsa um að breyta út af þessari venju og ræða nú við einn gamlan og lotinn trillukarl, sem búinn er að stunda sjóróðra á opnum bátum í yfir sjö áratugi.
Hann situr hér í bát sínum við Bæjarbryggjuna gömlu og er að dytta að bát sínum. Nafn hans kannast allir Vestmannaeyingar við, en það er Hrannberg Hrafnsson.
„..Góðan daginn. Hrannberg.“ segi ég.
„Daginn, sosum.“
„Værir þú ekki til í að veita mér smáviðtal og segja lesendum mínum frá einhverju úr þinni viðburðaríku sjómannsævi?“
„Ojújú, mér er sosum sama um það sosum.“
„Segðu mér þá fyrst, Hrannberg. hvenær byrjaðir þú að sækja sjóinn fyrst og hvar?“
„Ja, það er nú það, sko eiginlega byrjaði ég fyrst að róa með honum föður mínum heitnum, sáluga, þá var ég sosum ekki nema þriggja ára sko, það var nefnilega þannig að móðurmyndin mín fékk sér sko annan ektamaka og leyfði mér bara hjá kallinum, svo hann neyddist til þess að taka mig með í róðrana svo þar með má segja að sjómennska mín hefjist.“
„Já eininitt það, en segðu mér, ekki hefur þú nú fengið fullan hlut strax?“
„Onei, onei, ekki fékk ég nú nema hálfan hlut fyrstu tvo róðrana, en eftir það hafði ég sko fullan hlut og ekki var ég nema bert sloppinn yfir á sjötta árið þegar ég var kominn með hálfan annan.“
„Jæja, svo það má með sanni segja, að þú hafir byrjað sjómennsku þína með glæsibrag.“
„Ja, glæsibrag, segirðu, ojá lagsi, þetta var nú eitt sinn lenzka í þá daga.“
„Já einmitt, hófu menn almennt róðra svo ungir í þinni æsku?“
„Já aldeilis, drengur minn, það þóttu sko ekki menn með mönnum sem ekki höfðu farið minnst einn eða tvo róðra sem formenn áður en þeir voru teknir í kristinna manna tölu.“
„Jajæ, það hefur aldeilis verið annar bragur á útgerðinni i þá daga, þykir mér.“
„Ojá, ojá.“
„Segðu mér, Hrannberg, kannt þú ekki að herma mér einhverja krassandi sjóferðasögu frá þínu blómaskeiði sem sjósóknari?“
„Ja, atburðaríka sögu segirðu, ha, krassandi, það voru sko allt atburðaríkir og krassandi róðrar í þá daga, sko sérðu til þegar ég réri með honum Jóhanni á honum Þyrsklingi gamla, það voru sko engir lognmolluróðrar, lagsi minn. Nei, aldeilis ekki.“
Gamli maðurinn virðist yngjast allur upp við þessar gömlu minningar og það kemur fjarrænn glampi í fölnuð augun, sem sjórinn er búinn að upplita í sælöðri liðinna áratuga. Vér látum ekki til okkar heyra, en bíðum með eftirvæntingu eftir því að sá gamli taki til máls á ný.
„Ég man sérstaklega eftir hvítasunnuróðrinum árið 1903, það var sko róður, já lagsi, þá vorum við taldir af í sex daga, sex daga, kall minn. en hann Jóhann heitinn hann skilaði okkur samt öllum heim aftur, ojá, ojá, þá var gaman að koma heim, drengur minn.“
- Ojá, manni var fagnað eins og týnda syninum í Biblíunni, ojájá“
Við lögðum upp í þennan róður á laugardagsmorgni fyrir hvítasunnu og vorum sex á, Jóhann, formaður, Mangi í Koti, Narfi úr Tóftum, Jónas öngull, sem kallaður var, ég og svo hann fimm nafna Siggi, en hann hét sko hvorki meira né minna en Sigurður Smári Stefán Bergur Hans Anason og var ættaður ofan af landi en við hinir vorum allir héðan úr Eyjum. Við vorum með línu og var ætlunin að sækja austur fyrir Bjarnarey eða eitthvað austur í Fjallasjóinn.
Auðvitað höfðum við allir með okkur færin okkar, en það var siður í þá daga að menn renndu með færum á meðan legið var yfir línunni.
Ég man greinilega að við bjuggumst við góðum róðri í þetta sinn vegna þess að okkur hafði tekizt að fá nýja síld til beitu og austurloftið virtist boða ágætisveður, en það fór nú allt á annan veg en við var búizt eins og oft vill verða á sjónum, drengur minn.
Við vorum komnir með góðu leiði austur í Fjallasjó og ég held við höfum lagt línuna hálft Hrútafell í eystri bungu og hafði það allt gengið að óskum. Við höfðum róið aðeins inn og austur og vorum farnir að keipa þegar Jóhann fer að hafa orð á því, að hann sé farinn að flóka sig í norðrinu og eins og jafnan þegar veðrabreytinga var von byrjaði kallinu að demba bæði í nös og vör og hefðu stólpanaut stráfallið fyrir slíkum inntökum, en karl bara fnussaði, og því oftar og hærra sem hann fnussaði því nær vissum við að dró veðraskiptunum.
Fiskur var sæmilega undir og veittum við karli því ekki mikla athygli, enda dró hann sem jafnan tvo fiska á móti hverjum okkar og þótti ekki tiltökumál. Allt í einu öskrar karlinn að við skulum draga inn og gerum við það að vísu hálf undrandi þar sem enginn okkar hafði veitt veðrinu athygli.
Við sjáum þó að hann er orðinn býsna svartur í norðrinu og karl segir okkur að setjast undir árar og róa fast, því hann sé að skella á með norðanhret og okkur sé fyrir beztu að vera fljótir að draga stubbann okkar og koma okkur heim því að stuttum tíma liðnum sé ekki smábátum óhætt.
Við rérum hvað af tók og söng og gneistaði í keipunum, en báturinn skar hafflötinn sem nú þegar var farinn að ýfast.
Við náðum fyrsta bólinu og fórum að draga og eins og vant var á honum Þyrsklingi stóð fiskur á hverju járni.
Nú var komið talsvert norðankul sem fór ört vaxandi.
Við náðum að öðru bóli en nú var kominn talsverður sjór, og létum við nú heldur hendurnar standa fram úr ermunum lagsi.
Þegar við komum að síðasta bólinu er skollin á okkur iðulaus stórhríð og sáum við varla handaskil í svörtustu hryðjunum.
Báturinn var orðinn talsvert siginn og farinn að taka inn sjó. Karlinn skipaði nú fimmnafna Sigga að fara í austurinn, en Mangi, Narfi, Jónas andæfðu, ég dró en karlinn lagði niður. Skyndilega ríður hnútur á bátinn að framanverðu og skolar öllu lauslegu aftur í skut og fimm nafna Sigga útbyrðis.
Karlinn, sem jafnan var snar í snúningum, náði í kragann á skinnstakk Sigga og hélt honum þangað til við hinir náðum honum inn. Var hann þá með næstum heilt bjóð vafið um hálsinn en sæmilega hress.
Lét nú karl skera á og hleypa undan.
Sást nú vart út úr auga og settist karl við stýrið og tók rösklega til tóbaksins. Við hinir kúrðuin okkur niður fram í barkanum og báðum Guð að skila okkur öllum heilum heim og þó lá mér afar þungt að komast ekki heim því næsta dag, hvítasunnudag, ætlaði ég að ganga í hjónabandið.
Eg hef gaman að segja þér, að þá var enginn fastur prestur hér, en prestur ofan af landi staddur í Eyjum yfir hátíðarnar.
Við hleyptum nú undan eins og ég sagði áðan og alltaf var sjórinn að aukast. Var sjór orðinn það mikill að karl sagðist aldrei hafa séð hann eins úfinn. en þá var mikið komið þegar hann Jóhann á Þyrsklingi lét heyra slíkt frá sér. Okkur var nú öllum hætt að standa á sama. Fimm nafna Siggi var aftur tekinn til við austurinn og var Narfi farinn honum til hjálpar, enda gekk sjórinn óbrotinn yfir bátinn.
Nú tók að skyggja og lét karl hengja upp segl og ætlaði að hleypa suður fyrir Hofðann og leitast við að ná landi í Klaufinni.
Jókst nú svo skriðurinn á bátnum að hann nánast sveif ofan á öldutoppunum. Hraðinn var orðinn svo gífurlegur að þrátt fyrir norðanrokið mátti heita logn í bátnum, var það einkennileg tilfinning, drengur minn, að sjá ólgandi hafið vellandi allt í kringum sig og allt útsýni rammað af af kolsvartri stórhríðinni.
Var nú fyrirsjáanlegt að við myndum ekki ná landi í Vestmannaeyjum það kvöldið, enda vorum við þá þegar komnir langt suður fyrir Eyjar.
Gekk svo alla nóttina og fram á morgun, aðeins urðum við varir við birtinguna, enda virtist hríðin þá aðeins gegnsærri.
Svo var vel stýrt hjá Jóhanni, sem hafði setið við völinn allan tímann að ekki hafði komið dropi inn í bátinn alla nóttina.
Allt í einu heyrum við karlinn ræskja sig allferlega, bölva síðan slíkt að jafnvel okkur blöskraði og vorum við þó ýmsu vanir í þeim efnum. Síðan öskrar hann: „Þessi andskoti dugar ekki lengur!" Síðan kúvendir hann dollunni í bak og það urðu þau ferlegustu læti sem ég hef nokkurn tíma upplifað. Báturinn hentist milli risabrotsjóa og marraði annað slagið í kafi og nú fyrst varð okkur ljóst hvílíkt afbragðs skip hann Þyrsklingur gamli var og hvílíkur formaður hann Jóhann.
Við hömuðumst allir við austurinn og höfðum varla undan, héldum við að hér væri okkar síðasta komið.
Allt í einu, mitt í einni blótdembunni, siglir báturinn inn á sléttan sjó og sjáum við að við erum komnir upp undir land. Reyndust það vera Shetlandseyjar, sem eru vestan undir Skotalöndum eins og þú kannski veizt lagsi.
Ja hvílíkt ferðalag, nútímabátarnir gera sko ekki betur, karl minn, skal ég segja þér, onei, onei.
Jæja nema hvað við leggjumst fyrir fast og förum að huga að bátnum sem reyndist alls óskemmdur og var það okkur öllum mikið gleðiefni. Var hann nú ausinn og síðan lögð¬umst við allir til svefns, nema karlinn sem hélt vakt vegna vinda og veðurs, enda sást hríðarbakkinn skammt undan til norðvestursins.
Hvað lengi við sváfum man ég nú ekki gerla, en karlinn ræsti okkur og spurði hvort við værum að hugsa um að sofa hér til eilífðar. Hélt hann að okkur væri nær að hundskast að árunum og reyna að koma okkur eitthvað heimleiðis. Þegar við fórum að líta í kringum okkur, sáum við að sjór var sléttur sem í vatnsglasi væri og svo langt sem augað eygði í allar áttir.
Var nú setzt undir árar og hvatti karlinn okkur með bölvi og formælingum um slóðahátt og ræfilsskap. Var nú svo fast róið að innan tíðar varð að hella sjó í ræðin, sem farið var að rjúka úr.
Hélt svo áfram allan þann dag og þann næsta. Þá nótt fengum við aðeins að blunda smáhænublund, en ekki held ég karlinn hafi hallað auga hvað þá lokað.
Karl ræsti okkur strax í birtingu og var strax tekið til við róðurinn. Sumir okkar höfðu átt smávegis eftir af nestisbitum sínum sem étið var nú, en eftir það vorum við allslausir. matarlausir og vatnslausir.
Var enn tekið hraustlega til áranna og einn maður hafði það verk að halda ræðunum köldum, enda fast róið, og skilaði okkur vel áfram.
Þegar leið á fimmta daginn fórum við loksins að greina land og kenndum við þar Hvannadalshnjúk. Vörpuðum við þá öndinni léttara og vissum að við mundum ná heim að lokum. Sú varð líka reyndin á, drengur minn. Að vísu náðum við ekki Vestmannaeyjum fyrr en að kveldi næsta dags og þegar við komum inn á lægið heima í Eyjum vorum við svo aðframkomnir af þreytu að suma okkar varð að bera í land, en mig og Narfa varð að losa með heitu vatni frá árunum, því hendur okkar höfðu krampafest sig um þær. Þóttust heimamenn aldeilis hafa heimt okkur úr helju, enda hafði sama dag farið fram minningarathöfn um okkur í Landakirkju, en henni hafði verið hraðað þar sem prestur fór úr bænum þennan sama dag með Islands Falk til Reykjavíkur sem og unnusta mín sem í sorgum sínum leitaði á fund foreldra sinna í Hafnarfirði.
Var þetta eitt stærsta lán mitt í lífinu, enda hef ég sloppið ógiftur í gegnum lífið fyrir bragðið."
Ég hafði hamazt við að punkta niður sögu gamla mannsins og vona að mér hafi tekizt það sæmilega.
„Þið hafið náttúrlega verið fegnir að komast heim í hvíldina, Hrannberg, að aflokinni slíkri frægðarför?"
„Fegnir, segirðu, hvíldina segirðu. Ojæja, ojæja, það var nú sjaldnast til setunnar boðið á honum Þyrsklingi, lagsi, nei sko við máttum gera svo vel að róa næstu nótt, drengur minn. Ojájá, o sussujá, það dugði sko ekkert minna hjá honum Jóhanni, onei, onei."
Sá gamli er aftur sokkinn inn í heim fornra atburða og til þess að stugga ekki við honum, höldum við burtu og undrumst hve margir gamlir sjómenn eru enn á lífi eftir allar svaðilfarirnar.
Skriffinnur.