Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1993/Einar J. Gíslason 70 ára
Það hefur ekki tíðkast í Sjómannadagsblaði Vestmannaeyja að minnast á afmæli manna. Hér verður gerð undantekning. Ritstjóri þessa blaðs bað undirritaðan að minnast 70 ára afmælis Einars Jóhannesar Gíslasonar frá Arnarhóli sem var 31. janúar sl. Enginn hefur sinnt störfum lengur á sjómannadaginn en Einar, þess vegna er þessara tímamóta í lífi hans minnst hér. Daginn fyrir afmælið héldu safnaðarsystkinin í Betel honum veglegan fagnað þar sem fjöldi bæjarbúa heilsaði upp á Einar og fjölskyldu hans. Þar var glatt á hjalla, mikið sungið og spilað og margir ávörpuðu afmælisbarnið. Daginn eftir, á sjálfan afmælisdaginn, var hátíðarguðsþjónusta. Þar var Einar aðalræðumaðurinn og börnin hans önnuðust aðra þætti samkomunnar.
Frá árinu 1957, hvern sjómannadag í 38 ár, hefur hann staðið á lóð Landakirkju við minnismerki drukknaðra, hrapaðra og þeirra sem farist hafa í flugslysum og minnst þeirra sem hafa látist í þessum slysum frá sjómannadegi til sjómannadags. Allt á sinn endi og þetta líka. Víst er að margir munu sakna hans þegar þar að kemur. Honum hefur tekist þetta einstaklega vel þannig að í minningu margra verður þetta minnisverðasta stund sjómannadaganna.
Starf hans sem sjómanns í 17 ár, skipaskoðunarmanns í 14 ár, forstöðumanns í Betel í 22 ár og í Fíladelfíu í Reykjavík í 20 ár, ásamt bjargfastri trú á fagnaðarerindið, hefur auðveldað honum að ná til áheyrenda við grafalvarlega athöfn. Þar hefur sjómannsstarfið verið sterkur tónn í föstum tengslum við boðskap Biblíunnar.
Hann á gott með að halda athygli fólks. Trúlega er það bæði meðfæddur og áunninn eiginleiki. í ræðunum kemur hann víða við og er fróður og minnugur þannig að flestir sem á hlýða geta heimfært eitthvað upp á sjálfan sig. Hann predik-ar af sannfæringu en ekki af skrifuðum blöðum. Það er stíll sem fólkið metur og hlustar á. Sem predikari Guðsorðs er það innblástur Hallgríms Péturssonar og krossdauði Jesú Krists sem oftast kemur fram hjá honum. Og þekking hans á Biblíunni er einstök að fróðra manna sögn. Þegar við þetta bætist hár og skýr rómur svo undir tekur í nálægum björgum er von að vel fari.
Einars á Arnarhóli verður minnst hér í Eyjum sem predikara af Guðsnáð, og þegar tímar líða mun sú minning ekki dvína.
Tækifærisræður Einars eru einnig frábærar. Hann kann svo sannarlega að grípa augnablikið. Glettni, gáski og góðvild einkenna þær og ekki gleymist þá trúarsannfæringin sem hann kann manna best að flétta saman við strauma líðandi stundar. Ekki má heldur gleyma orðheppni hans þegar gáskafullir áheyrendur á útisamkomum hafa gripið fram í hjá honum. Þá hefur hann verið einstaklega fljótur að svara með biblíulegri tilvitnun, orði Guðs, þannig að hitt hefur beint í mark.
Einar er fæddur á Arnarhóli hér í Eyjum 31. janúar 1923, sonur hjónanna Guðnýjar Einarsdóttur og Gísla Jónssonar skipstjóra og útvegsbónda þar í 40 ár. Hann á ættir að rekja til Presta-Högna, Fjalla-Eyvindar og Guðbrands biskups á Hólum. Fyrri kona hans var Guðný Sigmundsdóttir. Hún lést 6. október 1963, öllum harmdauði. Börn þeirra eru fjögur. Síðari kona Einars er Sigurlína Jóhannsdóttir og eiga þau eina dóttur.
Ég veit að ég mæli fyrir munn allra sjómanna í Vestmannaeyjum og allra annarra hér, og ekki síst syrgjandi ástvina, þegar ég flyt Einari þakkir fyrir minningarathafnirnar hans undanfarin 38 ár hér í Eyjum.
Vonandi endist honum líf og heilsa sem lengst til þess að vera hér á sínum stað marga ókomna sjómannadaga. Það er ósk og von okkar hér í Eyjum.