Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1991/Þú ert verri en nokkur krókur

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 7. september 2015 kl. 14:15 eftir Kristinsigurlas (spjall | framlög) Útgáfa frá 7. september 2015 kl. 14:15 eftir Kristinsigurlas (spjall | framlög) (Ný síða: Sigurgeir Jónsson:<br> <big><big><big>Þú ert verri en nokkur krókur!</big></big></big><br> <big><big>Samvera með Bjarnhéðni Elíassyni á sjó og landi rifjuð upp</big><...)
(breyting) ←Fyrri útgáfa | Nýjasta útgáfa (breyting) | Næsta útgáfa→ (breyting)
Fara í flakk Fara í leit

Sigurgeir Jónsson:

Þú ert verri en nokkur krókur!

Samvera með Bjarnhéðni Elíassyni á sjó og landi rifjuð upp

Maður er nefndur Bjarnhéðinn Elíasson. Fáir munu þeir Vestmannaeyingar sem ekki þekkja hann, annað hvort af eigin raun ellegar af afspurn. Hér verður ætt hans ekki rakin en rétt er að geta þess að hann er fæddur árið 1921 að bænum Oddhóli í Rangárvallasýslu, sonur hjónanna Sveinbjargar Bjarndóttur og Elíasar Steinssonar. Sighvatur heitinn í Ási var móðurbróðir hans.

Hingað til Eyja kom Bjarnhéðinn, ungur maður, hóf hér sjóróðra bæði á bátum og togurum og festi skjótt ráð sitt, gekk að eiga frænku mína, Ingibjörgu Johnsen. Sjálfur hefur hann lýst því með þeim orðum að Ingibjörg hafi ekki getað staðist strákinn á sauðskinnsskónum af Rangárvöllum. Þá hefur hann oft sagt frá því í sínum kunna hálfkæringi að Ingibjörg hafi drifið hann upp á vörubílspall í hríðarhraglanda og beint upp í kirkju þar sem hann hafi svo gott sem verið neyddur til að segja já við ráðahagnum.
Þessar tilvitnanir lýsa ef til vill manninum nokkuð; flestar hans sögur líta í augum ókunnugra út sem einkar kaldhæðnar en þeir sem betur þekkja til, vita að þarna fær útrás kímnigáfa af sérstakri tegund.
Alla tíð hefur gustað um Bjarnhéðin, bæði til sjós og lands enda hefur hann sjálfur sagt að hann kunni illa við einhverja lognmollu kringum sig, vilji frekar að eitthvað sé að gerast. Hann þótti með harðari sjósóknurum meðan hann stundaði formennsku og sjaldnast var nokkur lognmolla kringum hann á sjónum. Orðbragðið þótti kynngimagnað og einhverju sinni komu kollegar hans þeirri sögu á framfæri að hann hefði sprengt talstöðina með munnsöfnuði. Á samkomum og árshátíðum fékk hann venjulega sinn skerf af skensi hjá skemmtikröftum og kunni því ekki illa, frekar að honum þætti miður væri hans ekki að einhverju getið.

Að tafli og spilum.
Ég kynntist manninum ungur að aldri og kunni vel við hann þótt talsverður sé aldursmunur á okkur. Þessi kunningsskapur hefur haldist nær fjörutíu ár og sjaldan borið skugga á þótt oft hafi orðbragðið gefið mönnum tilefni til að ætla að ekki væri allt með felldu um samskipti okkar tveggja.

Fyrstu kynnin voru bundin skáklistinni. Skömmu eftir fermingu var ég orðinn daglegur gestur á Skólaveginum og var skákborðið jafnan dregið fram um leið og gesturinn var kominn inn úr dyrunum. Nú voru báðir aðilar nokkuð tapsárir og eru enn, og því kostaði hver skák jafnan hin verstu gífuryrði þó held ég hálfu kjarnmeiri hjá húsbóndanum. Oftar en ekki var taflmönnum grýtt ofan í öskjur sínar að tafli loknu svo glumdi í.
Þá lærðum við Suðurgarðsfrændur að telja punktana í brids í jólaboðum og öðrum ámóta boðum sem áhorfendur og verða þær kennslustundir lengi í minnum hafðar. Yfirleitt spiluðu þeir fjórir, Árni heitinn Johnsen, synir hans Gísli og Sigfús og svo Bjarnhéðinn tengdasonur og mágur. Allt voru þetta hinir mestu skapmenn og dró spilamennskan oft dám af því. Oftlega enduðu spilakvöldin á einn og sama veg, einhver þeirra fjórmenninga stóð upp frá spilaborðinu, þrútinn af bræði, ásakaði hina um aulahátt eða rangindi í spilum nema hvort tveggja væri og grýtti síðan spilunum annað hvort í borðið ellegar í fangið á næsta manni og rauk á dyr. Svo næsta kvöld var sest að spilum á nýjan leik eins og ekkert hefði í skorist. Þau rifrildi sem ég hef orðið vitni að við spilaborð á undanförnum árum hafa verið sem hjóm eitt miðað við þau ósköp sem stundum áttu sér stað milli þessara einstöku skapmanna.

"Vesgú og Vebekommen!"
Bjarnhéðinn rak sína eigin útgerð hér um árabil og gekk vel. Á þeim árum var sá háttur á ef mannskapinn vantaði aura að farið var heim til útgerðarmannsins og hann beðinn um fé. Var það oftast auðsótt mál ættu menn aura inni.

En Bjarnhéðinn var alla tíð fastheldinn á fé við skipverja sína og brýndi fyrir þeim hófsemd og sparsemi hvort sem þeir áttu fé inni eður ei. Það kom ósjaldan fyrir í landlegum á vertíð og setið var við spil eða tafl að Skólavegi 7 að dyrabjöllunni var hringt. Nú háttar þannig til á Skólavegi 7 að vel sést út á útidyratröppur úr húsbóndasætinu við eldhúsborðið og ber húsráðandi venjulega kennsl á þá sem kveðja dyra. Því var ekki óalgengt að heyra orðræðu sem slíka þegar bjallan hringdi:
Er hann kominn einn, karldjöfullinn! Og vantar pening! Það er meiri djöfullinn hvað þessir andskotar geta farið með af peningum, ég á bara ekkert einasta djöfulsins orð yfir það.

Ævinlega var samt farið til dyra og þá get átt sér samtal í likingu við þetta:
-Komdu blessaður, Bjarnhéðinn minn.
-Sæll sjálfur og hvað er þér á höndum?
Þegar hér var komið, stundi komumaður upp erindinu sem oftast nær var fjárhagslegs eðlis. Þá brást ekki að húsbóndinn hellti úr eyrunum og sagði hreint ekki skilja hvern sjálfan andskotann þeir gerðu við alla þessa peninga og bara ekkert víst að þeir ættu nokkuð inni. Yfirleitt tóku þá komumenn að bera sig heldur aumlega og var þá af hálfu útgerðarmannsins slegið nokkuð úr.
-Jæja, ætli ég reyni ekki að bjarga einhverju handa þér og þú verður þá að reyna að láta það endast eitthvað.
Svo komu báðir inn fyrir, húsbóndinn settist við skrifborðið inni í stofu en skipverjinn tyllti sér á stól meðan tékkinn var skrifaður. Síðan var tékkinn afhentur með einu orði:
-Vesgú!
Komumaður þakkaði auðvitað náðarsamlega fyrir sig og enn mælti útgerðarmaðurinn á framandi tungu og sagði:
-Velbekommen!
Svo átti hann til að bæta enn betur um og segja:
- Og út með þig, þitt svínabesti!

Var hann þá greinilega búinn að taka gleði sína á nýjan leik, brosti og mátti glöggt heyra að ekki fylgdi hugur máli, líkt og reiðin hefði gufað upp með tékkanum. Var komumanni boðið upp á kaffi og kvöddust síðan með virktum.

Mér er svo sem sama!
Sumarið 1966 réðist ég í skiprúm hjá Bjarnhéðni sem háseti. Sú ráðning fór fram á venjubundinn hátt af hans hálfu, þ.e.a.s. hann bað sjaldnast nokkurn mann um að róa með sér heldur leit svo út sem pláss væri laust um borð og margir um hituna að komast í það. Aldrei heyrði ég hann biðja nokkurn mann að koma til sín í skiprúm, hans háttur var að bíða þess að menn bæðu um pláss. Sennilega hefur þetta í einhverjum tilfellum orðið til þess að hann missti af góðu fólki en hefur þó tæpast komið að sök því að hans sögn var hann alla tíð með úrvalsmannskap með sér. Og aldrei hef ég heyrt hann hallmæla nokkrum manni sem með honum reri meðan hann gerði út.

En nú var mér tilkynnt að vorlagi við eldhúsborðið að Skólavegi 7 að laust sé hásetapláss á Elíasi Steinssyni á komandi sumarvertíð. Samtalið hófst með þessum orðum:
-Hvað ert þú að gera í sumar?
Nú var undirritaður ekkert of ráðinn í því en hafði á orði að hann væri að hugsa um að prófa sig sem leiðsögumaður á erlendri grund þá um sumarið.
-Hva, þú hefur ekkert upp úr því helvíti. Svo kom þögn.
-Það er laust pláss hjá mér í sumar.
-Nú? sagði ég.
-Já, mér er svo sem sama þótt þú fáir það. Annars er hægt að fá fullt af mönnum. En mér er sama þótt þú fáir það, segðu bara til.
Og þetta samtal varð til þess að undirritaður missti af því gullna tækifæri til að verða ferðamálafrömuður á franskri grund og réðist þess í stað sem hásetablók á troll hjá Bjarnhéðni Elíassyni.

Hann verður sóttur upp á græn grös.
Þetta reyndist einstaklega gjöfult sumar til fiskifangs, jafnvel svo að stundum þótti hásetanum nóg um og þóttist þó sæmilega vanur til sjós. Ævinlega var sótt austur að Ingólfshöfða en þetta sumar var þar mikil ýsugengd og sú ýsan fremur af smærri sortinni. Tók því aðgerðin oftlega nokkurn tíma.

Venjulega tók túrinn þetta þrjá til fjóra sólarhringa, þá var búið að fylla skipið og var það viðburður ef menn fóru í koju í túrnum nema svo sem hálftíma til klukkutíma í senn. Ekki yrði sagt í dag að þessi afli hafi verið heiðarlega fenginn en á þessum árum þótti fiskirí innan landhelgi ekki bara sjálfsagður hlutur heldur var lítið á þá sem ekki fóru inn fyrir línu sem einhverja furðufugla.
Og Bjarnhéðinn var þar engin undantekning á. Einhverju sinni tók blaðamaður við hann tali á bryggjunni, gott ef sá var ekki frá útvarpinu og innti eftir hvort ekki væri hægt að ná fiski annars staðar en í landhelgi. Þá svaraði Bjarnheíðinn þeim orðum sem landsfræg urðu:
- Hann verður sóttur, þó við þurftum að sækja hann upp á græn grös!

Venjulega var það mikill afli á dekkinu þegar hætt var við Höfðann að aðgerðin duði mannskapnum vestur undir Alviðru. En þar með var ekki látið staðar numið, heldur var kastað þar eina til tvær mílur frá landi og togað í tvo tíma. Og þar brást ekki að upp komu þetta eitt og hálft til tvö tönn af kola sem dugðu í aðgerð að Bjarnareyjarhorninu. Og þá var rétt tími til að skola út slorinu áður en farið var að landa.
En það mátti Bjarnhéðinn eiga að ævinlega stóð hann jafnlegni og mannskapurinn og stundum lengur þótt farin væru stundum að síga á honum augnlokin ekki síður en á hinum um borð.

Þú ert segulasni!
Við vorum sex á þetta sumar, þar af tveir sem voru ineð Bjarnhéðni um árabil, Ragnar Guðnason stýrimaður og Hreinn Gunnarsson 2, vélstjóri. Einhverju sinni hafði Bjarnhéðinn af því einhverjar áhyggjur að mannskapurinn væri orðinn langstaðinn og impraði á því við stýrimanninn hvort ekki væri rétt að menn skiptust á um að fara í koju. Ragnar gaut augunum upp í stýrishússgluggann og sagði:
-Hvað, ertu orðinn syfjaður?
-Nei, ég er ekkert syfjaður, kvað skipstjórinn á móti. Ég hélt kannski að þið væruð orðnir syfjaðir.
-Nei, það er allt í lagi með okkur, svaraði Ragnar að bragði. -En það er allt í lagi að leysa þig af ef þú vilt leggja þig.
Að sjálfsögðu taldi Bjarnhéðinn slíkt hreinan óþarfa, jaðraði jafnvel við móðgun og því fór svo að enginn fór í koju.

Það getur nærri að menn hafa einhvern tíma verið orðnir nokkuð þrekaðir þegar löndun var lokið á föstudögum eftir slíkar tarnir enda er það ein af uppáhaldssögum Bjarnhéðins að segja frá hásetablók einni er með honum var sumarlangt og var svo aðframkomin eftir túrinn að hann varð að skríða yfir uppstillinguna á dekkinu eftir löndun. Þá sögu hefur undirritaður margoft fengið að heyra með síbreytilegu orðalagi og ávallt því kjarnyrtara sem árin hafa liðið fleiri frá umgegnu sumri.
Í hlutarins eðli liggur að ekki gáfust margar frístundir um borð og voru þær frístundir þá yfirleitt notaðar til að ná sér í kríublund. Þó kom fyrir á útstíminu að hásetinn hafði hug á að líta í bók. Ekki var þó margt bókmennta um borð í Elíasi Steinssyni. Eina bókin fyrir utan sjómanna almanakið var siglingafræðin sem skipstjórinn geymdi sér til halds og trausts aftur í. Frekar en hafa ekkert til aflestrar fékk hásetinn þá bók léða og var auðsótt maí. Oft var spjall á mönnum í aðgerðinni og tók Bjarnhéðinn virkan þátt í þeim samræðum. Oft var þar kastað hnútum á báða bóga og þótti skemmtan að.
Sérstaklega hafði hásetinn gaman af að varpa spurningum úr siglingafræðinni upp í stýrishússgluggann og albest ef eitthvað stóð á svari. Slíkt gerðist þó sárasjaldan, ef kafteinninn stóð ekki klár á réttu svari, lét hann fjúka einhverjar heimatilbúnar glósur og athugasemdir niður á dekkið sem margar hverjar áttu ekkert skylt við siglingafræði. Einhverju sinni kallaði hásetinn upp í brúarglugga:
-Bjarnhéðinn! Geturðu útskýrt fyrir mér muninn á misvísun og segulskekkju?
Ekki stóð á svari frekar en fyrri daginn.
-Þú ert segulasni!

Í hartnær þrjátíu ár hef ég síðan oft fengið það framan í mig frá sama manni að enn sé ég segulasni.
Stöku sinnum kom rifið upp og þó ekki oft því Bjarnhéðinn fór vel með veiðarfæri. Þyrfti að gera við, var hann fyrstur á dekk með hníf og nál. Hásetinn hafði venjulega þann starfa að halda í hjá honum og fylgdu því oftlega ýmsar aðfinnslur. Einhverju sinni í bætingu þótti Bjarnhéðni hásetinn í meira lagi annars hugar við íhaldið; hafði þá verið að huga að fuglalífi kringum bátinn. Og þá heyrðist:
-Þú ert verri en nokkur krókur, helvítið þitt!

Þegar María Júlía varð að Sæbjörgu.
Í síðasta túrnum þetta sumar dró nokkuð til tíðinda. Við höfðum híft inn trollið við Ingólfshöfðann í síðasta sinn þetta sumar og nú voru menn svona að óska og vona með sjálfum sér að kallhelvítið léti það nú vera að fara að kasta í kolanum við Alviðruna, svona í síðasta túr og það með kjaftfullan bát.
En sjaldan bregður mær vana sínum og við Alviðruna var trollið látið laggóa í sjóinn, tæpar tvær sjómílur frá landi sem segir nokkuð til um hversu löglegt þetta fiskirí var.
Að þessu sinni lét kafteinninn sér ekki að heldur duga að taka eitt tog þarna heldur dengdi trollinu aftur útbyrðis þegar í ljós kom að rúmlega tvö tonn af lemmasólkola voru í því eftir fyrra togið. Vakti þetta athæfi hans lítinn fögnuð skipshafnarinnar sem búin var að fá nóg af aðgerð þetta sumarið. Nú er frá því að segja að jafn skipulegar landhelgisveiðar og stundaðar voru af flotanum á þessum árum. Kröfðust að sjálfsögðu allnokkurra varúðarráðstafana. Í gangi voru hin ýmislegustu kerfi í talstöðvaviðskiptum milli báta sem öll áttu það sameiginlegt að vara menn við ásókn varðskipa og flugvéla sem gera vildu mönnum lífið leitt við þessar veiðar. Sum kerfin voru hin einföldustu í sniðum, til dæmis var nóg ef bátur í Skeiðarárdýpi tilkynnti að hann hefði fengið slöttung í síðasta hali, þá hífðu allir við Höfðann og flýttu sér út fyrir. Enda brást ekki að skömmu síðar sigldi grátt skip hjá.
Einhvern tíma galaði líka Sævar heitinn í Gröf í talstöðina og var þá búinn að týna öllum kvótum:
-Bjarnhéðinn, hún amma þín er að koma og vertu fljótur að hífa.

Annars voru sum kerfin mjög ýtarleg. Allt fiskirí var á þessum árum gefið upp í tölum, svipað nafnnúmerakerfinu gamla og í gangi var kerfi þar sem hvert varðskip hafði sínar tölur ásamt landssvæðum þannig að mjög einfalt var með tveimur talnarunum að gefa upp viðkomandi varðskip ásamt stað þess.
Og nú gerist það þegar við erum að toga síðasta tog sumarsins með fullan bát af fiski við Alviðruhamra að kallaðar eru í talstöð til okkar nokkrar talnarunur. Öll áhöfnin stóð í aðgerð frammi á dekki að kafteininum undanskildum sem var á sínum stað í brúnni og gætti þess árvökrum augum að kolanum væri ekki rótað út um lensportin.
Þá berast honum af því fregnir að varðskip sé á leið að austan og stafni vestur með landi. Nánari fregnir herma að þetta sé varðskipið María Júlía.

Nú tekur Bjarnhéðinn eitthvað skakkan pól í hæðina í þessum viðskiptum. Síðast er við vorum inni, hafði legið þar við bryggju hvítmálað skip, fyrrverandi varðskip að nafni Sæbjörg og var gert út þetta sumar sem skólaskip með peyja á skaki og var ekkert á vegum landhelgisgæslunnar. Nema hvað Bjarnhéðinn annað hvort tekur feil á skipum eða les vitlaust út úr kvóta að hann kallar til okkar út á dekk og spyr hvort ekki sé alveg öruggt að Sæbjörg litla sé bara skólaskip í sumar og ekkert viðkomandi gæslunni.
Að sjálfsögðu kváðum við jáyrði við því og hélt því kafteinninn áfram sínu togi í landhelgi enda óviðbúinn því að skólaskip færi að gera athugasemdir við hans fiskveiðar.
Nú líður alldrjúgur tími og kemur skip í sjónmál í austri og stækkar og hafa menn af því engar áhyggjur fyrr en allt í einu þegar skipið kemur enn nær að við dekkmenn heyrum hrópað upp í hól:
-Hann er grár!
Og ekki bar á öðru en skipið væri grátt og vendilega merkt landhelgisgæslunni. Hér var raunar komið varðskipið María Júlía og var skipherranum aldeilis ómögulegt að horfa með blinda auganu á þetta athæfi okkar, togandi þarna á miðri siglingaleið, hálfa aðra mílu frá landi. Enda var skotið út báti og Bjarnhéðinn ferjaður yfir í varðskipið. Þar mátti hann viðurkenna sitt brot enda óhægt um vik annað. Seinna sagði hann mér að skipherrann hefði spurt sig hvers vegna í andskotanum hann hefði ekki verið búinn að hífa og margbúið að aðvara hann. Tilfellið var nefnilega að varðskipin gjörþekktu alla þá kvóta sem í gangi voru.

Og svona var nú það. Við vorum hirtir á síðasta togi í síðasta túr og allt fyrir tóma vitleysu.
Ekki var Bjarnhéðinn á því að viðurkenna að honum hefði orðið á mistök, sagði að við hefðum logið því í sig að María Júlía væri skólaskip. Annars var víst ekki skaðinn skeður þótt skip væri hirt í landhelgi, oftast nær var allt slíkt látið niður falla. Og þetta sinn held ég að hvorki afli né veiðarfæri hafi verið gert upptækt og þá býður mér einnig í grun að kafteinninn hafi sloppið við sektir.

Óráðsía í fjármálum Hluturinn var drjúgur eftir slíkt sumar og höfðu menn ekki haft til þess mörg tækifæri að ganga á hann. En bæði var að nú nálgaðist þjóðhátíð og sömuleiðis hafði hásetinn ákveðið að splæsa á sig Frakklandsferð fyrir hluta sumarhýrunnar. Var nú gengið á fund útgerðarmanns og honum tjáð að vantaði fé bæði fyrir ferð og gjaldeyri.
-Ætlarðu að fara að spreða hlutnum í svoleiðis djöfulsins vitleysu? var svarið.
Og hásetinn var staðráðinn í því og lækkaði þar með drjúgum inneignina á hlaupareikningi útgerðarmannsins þar sem einnig þurfti nokkuð risnufé til þjóðhátíðar sem var á næsta leiti. En sem nú hásetinn er búinn að ganga frá farseðli og gjaldeyri verður honum gengið fram hjá fataverslun einni og sér þar hanga dýrindis leðurjakka, gulbrúnan að lit, hina eigulegustu flík og verðið að sjálfsögðu eftir því. Því var stormað að nýju á fund Bjarnhéðins og honum tjáð að nú vantaði meira fé. Að sjálfsögðu vildi hann vita til hvers ætti að nota aurana og jafnforstokkað sem honum þótti að eyða fé til ferðalaga og gjaldeyriskaupa þótti honum þetta þó sýnu lakara.
-Ertu orðinn alvitlaus! sagði hann. -Eyða sexþúsund krónum í eina jakkadruslu!
En tékkinn var skrifaður og afhentur með þeim orðum að óráðsía sumra manna ætti sér engin takmörk.

Og á fimmtudeginum fyrir þjóðhátíð þegar við tjölduðum saman eins og við raunar gerðum um margra ára skeið, þurfti hann mörg og velvalin lýsingarorð til að lýsa áliti sínu á jakkanum góða og eiganda hans og taldi báða heldur í lakari kantinum með innræti og útlit. Svo lengi hafði ég þekkt Bjarnhéðin Elíasson að ég vissi orðið að slíkt tal flokkaðist heldur undir hrósyrði hjá honum heldur en hitt. Ef hann einhvern daginn tæki til við að hrósa mér upp í hástert fyrir einhverja hluti, þættist ég þess fullviss að eitthvað væri athugavert við hátterni mitt. Meðan hann hins vegar pundar föstum skotum, ég tala nú ekki um ef hann kallar mig segulasna inn á milli, þykist ég klár á að allt sé í lagi.

Flaggað á 1. maí. Oftlega höfðum við Bjarnhéðinn eldað grátt silfur saman um dagana, bæði við spilaborðið og utan þess. Ýmsir hrekkir hafa oft fylgt á báða bóga, þó ævinlega græskulausir og verður hér í lokin sagt lítillega frá tveimur slíkum.

Þau Bjarnhéðinn og Ingibjörg frænka mín drógu yfirleitt fána að húni á lögskipuðum fánadögum og sömuleiðis í hálfa stöng ef dauðsföll eða jarðarfarir voru í bænum.
Þá eru þau og hafa verið eitthvert sanntrúaðasta sjálfstæðisfólk sem fyrirfinnst í þessum bæ og þótt víðar væri leitað.
Af þeim sökum skilst víst flestum að einn hinna lögskipuðu fánadaga fékk alveg að eiga frí á flaggstönginni að Skólavegi 7 þótt aðrir flögguðu. Það var fyrsti maí.

-Mér dettur ekki í hug að fara að flagga á einhverjum helvítis kommúnistadegi, sagði húsbóndinn þegar ég færði það eitt sinn í tal við hann að fáninn væri ekki við hún, jafnvel þingmaðurinn flaggaði.
-Djöfulsins kommúnistadagur og ekkert annað, var sama svarið.
Ekkert stoðaði þótt saga þessa dags væri rakin fyrir honum og meðal annars rifjað upp að fyrstir manna til að halda þennan dag hátíðlegan hefðu verið Bandaríkjamenn.
Því fór svo fram að fáni var ekki dreginn að húni þennan dag eins og þó tíðkaðist um aðra merkisdaga í almanakinu.

Nú var ég einhverju sinni á rölti í bænum fyrsta maí, var raunar að koma úr kaffi í Alþýðuhúsinu og verður gengið fram hjá Skólavegi 7. Strax tek ég eftir að ekki er flaggað þar og dettur í hug að líta við þó ekki beint til að huga að fánamálum, þau þóttist ég gjörþekkja.
Svo vill til þegar ég geng í bæinn að þar er engan mann að finna á hæðinni og grunar mig að húsbóndinn hafi fengið sér miðdegislúr. Nú kemur mér í hug að reyna að bæta úr vanrækslu heimilisfólks í fánamálum, finn fánann í forstofunni, geng með hann út og flagga fyrir hönd húsbænda. Fer síðan aftur inn.

Svo var sem mig hafði grunað að húsbóndinn hafði fengið sér blund eftir matinn en var nú afhvíldur og vildi spila. Sitjum við nú og spilum góða stund. Þá birtist í dyrunum Árni Óli frændi minn og vill taka þátt í spilamennskunni. Þegar hann hefur tyllt sér, verður honum að orði að ekki sé það oft sem flaggað sé á þessum degi að Skólavegi 7.
Húsbóndinn tilkynnir honum að slíkt hafi aldrei verið gert og verði aldrei gert.
-Annað sýndist mér nú, segir Árni Óli. Ég fékk ekki betur séð en hér væri flagg við hún.
-Helvítis kjaftæði er þetta, segir húsbóndinn.
-Ég veit ekki hverjum dytti það í hug hér.
Til vonar og vara gengur hann þó fram að glugga og lítur út. Sér þá sem er að fáninn blaktir uppi í norðan gjólunni.
-Djöfullinn bara er þetta! segir hann.
-Er hún Ingibjörg orðin vitlaus!
-Heyrðu segir hann síðan og snýr sér á hæli. Og málrómurinn bendir til þess að hann hafi allt í einu uppgötvað hinn stóra sannleika.
-Já, já, ég held ég viti hver hér hefur verið að verki. Ég held ég viti hver sökudólgurinn er.
Í þeim orðum töluðum snarast hann út á skyrtunni, þrátt fyrir norðanhraglandann, dregur niður flaggið og gengur síðan frá því á forstofuhillunni. Snýr sér síðan að okkur við spilaborðið I með sigurglampa í augum og segir brosandi:
-Þú platar sko ekki sveitamanninn! Svo var haldið áfram að spila.
Og hafðu Míkadóið með þér!

Fyrsta árið sem ég kenndi hér í Eyjum, var það nokkuð föst rúta að farið var eftir kennslu niður á Skólaveg að spila. Værum við tveir einir við spilamennskuna, við Bjarnhéðinn, spiluðum við oft japanska pinnaspilið Míkadó og höfðum af hina ágætustu skemmtan.
Nú hafði ég nýlokið skólanámi, var nokkuð skuldugur, skuldaði þar með talið nokkurt fé í opinberum gjöldum og hafði nýlega samið um það við Freymóð fógeta að fá að greiða þá skuld niður með jöfnum afborgunum sem teknar yrðu af kennaralaununum. Þetta gerðist á fimmtudegi og hafði ég greint Bjarnhéðni frá því glaður í bragði að ég gæti haldið upp á helgina án nokkurs ótta með að hið opinbera myndi hreinsa allt út af tékkheftinu.
Í hádeginu á föstudag er svo hringt í mig.
-Þetta er Jóhannes hjá bæjarfógeta, er sagt í símann.
-Já, komdu blessaður, segi ég.
-Þú skuldar talsvert af opinberum gjöldum, segir Jóhannes.
-Já, ég veit það, svara ég. -Ég var búinn að semja um það.
-Það gengur ekki, segir Jóhannes.
-Þetta er allt gjaldfallið og þú verður að gera skil á þessu.
Nú hálffýkur í mig.
-Ég var hjá honum Freymóði í gær, segi ég.
-Hann sagði að ég mætti gera þetta upp smám saman.
-Já, það var bara misskilningur, segir Jóhannes.
-Þú verður að koma í dag og gera þetta upp annars verður þetta sett beint í lögfræðing.
Ég horfði fram á upplyftingu helgarinnar hverfa í sjóð bæjarfógeta og heldur argur í bragði sagði ég:
-Nú, þá verð ég víst að gera það. Er nóg að ég komi um þrjúleytið?
-Já, var svarað hinum megin á línunni.
-Og hafðu Míkadóið með þér!

Svo hófst mikill hlátur í símann og mér varð ljóst að sá Jóhannes sem ég hafði verið að tala við, var enginn Jóhannes, heldur kafteinninn á Skólaveginum.
Og að sjálfsögðu var Míkadóið tekið með þangað eftir kennslu.

Hér verður látið staðar numið í frásögnum um Bjarnhéðin Elíasson. Af nógu er þó enn að taka.
Hitt er annað ef lengra yrði haldið, þá færi þetta að bera keim af minningargrein og það var nú ekki meiningin að fara að skrifa hana strax. Hún fær að bíða. En þetta má alveg eins skoðast sem afmælisgrein, söguhetjan verður nefnilega sjötug í haust. Bæði af þeim sökum og öðrum þótti mér það nokkuð við hæfi að festa þetta á blað. Það eru nefnilega ekki svo margir sem ná því að verða þjóðsagnarpersónur í lifanda lífi.