Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1975/Ný skip til Vestmannaeyja

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 28. ágúst 2015 kl. 11:19 eftir Kristinsigurlas (spjall | framlög) Útgáfa frá 28. ágúst 2015 kl. 11:19 eftir Kristinsigurlas (spjall | framlög)
Fara í flakk Fara í leit

Ný skip til Vestmannaeyja

Á liðinni vetrarvertíð bættust tvö ný skip í Eyjaflotann, Gullberg VE 292 og Huginn VE 55. Bátar þessir eru báðir smíðaðir í Noregi eftir sömu teikningu. Guðmundur Ingi Guðmundsson skipstjóri og hlutafélag hans eiga Hugann, en Gullberg á hlutafélagið Ufsaberg. Eru aðalhluthafar og eigendur skipsins Guðjón Pálsson skipstjóri. Ólafur Sigmundsson vélstjóri og Jón Guðleifur Ólafsson fiskmatsmaður frá Garðsstöðum hér í bæ, þekktari sem Leifi í Laufási.

Þetta eru myndarleg skip og burðarmikil og ætluð til allra veiða hér við land. Skipin eru mjög vel útbúin tækjum og öðrum búnaði, og byggð í Mandal í Noregi.

Hér á eftir fer stutt lýsing á Gullbergi*. Gullberg er mælt 347 rúmlestir brúttó, en burðarmagn skipsins af loðnu eru rúm 400 tonn. Skipið er með þrjár fiskilestar, sem eru aðskildar með vatnsþéttum skilrúmum auk tveggja skilrúma, sem liggja langsum í lestinni, þannig að hverri lest er skipt í þrjú hólf. Er mikið öryggi að þessu fyrir stóðugleika skipsins. Lestar eru kældar og er unnt að halda 10 stiga frosti við 30 gráðu hita á Celcíusmæli.

Mannaíbúðir allar eru aftur í skipinu og hinar vistlegustu. Aftast á bátaþilfari, aftan nótakassa eru toggálgar fyrir skuttog.

* Í 4. tbl. Ægis 1975er ítarleg og tæmandi lýsing á Gullbergi.

Gullberg er búið 1250 hestafla Wichmann aðalvél með skiptiskrúfu, snúningshraði 375 snúningar á mínútu; fyrst um sinn er vélin bremsuð niður í 990 hestöfl. Ganghraði í reynsluferð var 12,6 sjómílur á klukkustund. Auk aðalvélar eru þrjár hjálparvélar um borð, tvær Scania Vabis 175 hestafla ljósavélar, sem knýja hvor sinn riðstraumsrafal. Þá er undir hvalbak sérstök hafnarljósavél - 42ja hestafla Deutz.

Eitt hið merkilegasta við stjórnbúnað Gullbergs eru tvær hliðarskrúfur að framan og aftan; eru þær knúnar háþrýstivökvamótorum. Þá mun það alger nýlunda í fiskiskipum Eyjaflotans, að þessi skip, Gullberg og Huginn, eru búin sérstökum geymum til að draga úr veltu. Um borð er Atlas-tæki sem framleiðir 2,5 tonn af ferskvatni á sólarhring og ísvél, sem framleiðir 6 tonn af ís á sólarhring.

Gullberg er útbúið mjög góðum spilum á þilfari og eru þrjú tog- og nótaspil um borð. Spil fyrir snurpuvírinn er úti í borði bakborðsmegin, þannig að átakið kemur beint á vinduna. Þá er það nýlunda, að hvert spil hefur aðeins eina tromlu og eru vindurnar í sitt hvoru borði fram við hvalbak notaðar til togveiða. Togátak hvorrar vindu er 8,5 tonn. Auk þess eru um borð línuspil með 3,3 tonna togátaki og á bátapalli er sérstakt hjálparspil við nótaveiðar. Þá eru auk spilanna tveir vökvaknúnir losunarkranar, annar aftast á bátaþilfari, en hinn miðskipa framan við brú. Á loðnuveiðum eru um borð 2 fiskidælur með tilheyrandi sjóskiljurum.

Skipið er búið öllum nýtízku siglingatækjum: Furuno-ratsjá með 100 sjómílna langdrægni; sjálfvirkum Atlas-loran C og tveimur Atlas-dýptarmælum, þráðlausri netsjá eða höfuðlínumæli og svo geysimiklu fiskileitartæki, Simrad SU 2 - svonefndum úthafssonar. Er þetta mikið tæki, sem kostar heilt húsverð. Gullberg kom til heimahafnar á jóladag 1974 og hreppti hið versta veður á leiðinni heim. Reyndist skipið í hvívetna hið bezta, þó að syði á keipum.

Fyrsti stýrimaður er Óskar Ólafsson; 2. vélstjóri Borgþór Pálsson, matsveinn er Ingimundur Reimarsson.

Í tilefni af þessum skipakaupum kynnir Sjómannadagsblaðið stuttlega Guðjón Pálsson skipstjóra á Gullbergi, sem hefur verið í fremstu röð sjómanna í Vestmannaeyjum á undanförnum árum. Er hann í senn dugmikill sjómaður og góður og vaxandi aflamaður.

Guðjón er fæddur í Reykjavík, 10. maí 1936 og byrjaði kornungur til sjós. Hann fór 14 ára gamall á vélbátinn Valdís frá Reykjavík og var sín unglingsár á ýmsum bátum frá Reykjavík og Keflavík og m.a. í 5 ár með hinum kunna aflamanni Valgarði Þorkelssyni frá Keflavík á Steinunni gömlu. Guðjón kom til Vestmannaeyja á vertíð 1958 og var stýrimaður á Sigurfara með Óskari á Garðsstöðum næstu tvö árin. Guðjón lauk hinu meira fiskimannaprófi frá Stýrimannaskólanum í Reykjavík árið 1957. Hann hóf formennsku árið 1960 og var þá með Hafbjörgu fyrir Ingólf Theódórsson, og var með hana í eina vertíð. Næstu tvær vertíðir var hann stýrimaður á Baldri og Ófeigi III.

Árið 1963 tók Guðjón við skipstjórn á Stefáni Þór og hefur verið í hólnum síðan. Árið 1964 fór hann til útgerðar Ólafs M. Ólafssonar og Jóns Pálssonar á Seyðisfirði og var með Gullver.

Árið 1965 tók Guðjón við Gullbergi, myndarlegu tréskipi, sem smíðað er hér í Vestmannaeyjum 1963. Hefur Guðjón verið sérlega farsæll og aflað mikið á því happaskipi.

Guðjón og meðeigendur hans, Ólafur Sigurmundsson og Guðleifur tengdafaðir hans, keyptu Gullbergið af Ólafi Ólafssyni árið 1970; en þegar nýja skipið kom seldu þeir eldra Gullberg ungum mönnum í Vestmannaeyjum og er það nú Glófaxi VE 300. Ólafur Sigmundsson, 1. vélstjóri og meðeigandi skipsins, er ungur maður, borinn og barnfæddur Eyjamaður, sonur Sigmundar Karlssonar vélstjóra og konu hans. Þeir Ólafur og Guðjón hafa verið saman til sjós síðastliðin 12 ár, eða síðan árið 1963.

Guðjón Pálsson er kvæntur Elínborgu Jónsdóttur frá Laufási og eiga þau tvö börn.


Þessi nýju skip eru í alla staði hin vönduðustu, en við gengisfall íslenzku krónunnar hækkuðu þau mikið og óvænt í verði frá því smíðasamningar voru undirritaðir. Þegar eigendur Gullbergs skrifuðu undir samninga 5. ágúst 1973 var áætlað verð skipsins 117 milljónir króna og þá fullur grundvöllur fyrir útgerð þannig skipa miðað við þáverandi afurðaverð og tilkostnað.

Í dag, á vordögum 1975, er verð skipsins orðið um 270 milljónir íslenzkra króna og með veiðarfærum um 300 milljónir króna. Það má því nærri geta, að ýmsir erfiðleikar blasa við bjartsýnum mönnum á sama tíma og afurðaverð, einkum á loðnu, sem mikið var byggt á við áætlanir, hefur nánast hrunið á erlendum mörkuðum.

Guðjón á Gullbergi var samt að vanda hress og í sumar gerir hann ráð fyrir að fara á togveiðar, jafnvel rækjuveiðar, ef tilskilin leyfi fást.

Gullberg og Huginn eru mikilvæg viðbót við fiskveiðiflota Vestmannaeyja og bjóða allir þau velkomin.

Útgerðum og áhöfnum skipanna er árnað gæfu og gengis með ósk um, að þau megi bera mikinn og góðan afla á land á næstu árum.

{{SJómannadagsblað Vestmannaeyja]]