Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1952/ Hæg og skemmtileg sjóferð, fyrir aldarmót
ÞORSTEINN Í LAUFÁSI:
Hæg og skemmtileg sjóferð, fyrir aldamót.
Eitt af því marga, sem horfið er í aldanna skaut, og aldrei kemur aftur, en lifir þó ennþá í minningum nokkurra hinna eldri Eyjabúa eru hinar mörgu og fríðu frönsku skonnortur sem veiðar stunduðu í hundraðatali við strendur Íslands, fram á þessa öld, og vöktu aðdáun hjá flestum, sem sáu þær á siglingu í góðum byr.
Því það var sannarlega tíguleg sjón, að sjá þær ösla um sjóinn fyrir þöndum seglum, og menn fundu enn sárar til, um þann kotungsbrag, sem einkenndi fararlæki okkar íslendinga á sjónum, þegar gjörður var samanburður á fiskiskipaflota okkar, og annarra þjóða. Ég hugsa að þessi tilfinning í hugum manna, ásamt hagnýtri þýðingu aukinna stórátaka, á þessu sviði, hafi flýtt fyrir þilskipakaupunum fyrir aldamótin, og svo eftir þau, togara og mótorbátakaupum þjóðarinnar; svo að nú 50-80 árum eftir, að naumast var hægt að kalla, að nokkur haffær fleyla væri í eigu landsmanna, sem fullnægði þeim kröfum, sem gjörðar voru til skipa yfirleitt hjá öðrum þjóðum, er allt öðruvísi um að litast nú hjá íslendingum.
Sú þróun, sem átt hefur sér stað á millilanda siglingaflota landsmanna, hefði naumast átt sér stað, nema þessi bylting á fiskveiðaflotanum hefði ekki áður verið framkvæmd, á jafn myndarlegan hátt og raun ber vitni um.
Fyrir aldamótin síðustu, og víst frá því elztu menn þá mundu til, hafði mikill fjöldi franskra fiskiseglskipa haldið sig hér í kring um Vestmannaeyjar, þó aðallega hér austur í Fjallasjó, frá því Þeir komu frá Frakklandi, fyrst í Marz, og fram undir lok, Það kom oft fyrir að Fransmennirnir flögguðu eða gáfu merki á annan hátt til bátanna héðan, að þeir ættu við þá erindi, sem oftasr var í því fólgið, að koma bréfum á póstafgreiðsluna hér.
Þeir sem voru svo heppnir, að fara í fransmann, sem svo var kallað, voru öfundaðir, því oft voru þeir í óvenju léttu skapi og höfðu frá ýmsu að segja, þó þeir væru berhentir, því flestir losuðu sig við vettlingana, í skiptum fyrir eitthvað, sem þeir girntust, einnig kom það fyrir, að rausnarlega var borgað fyrir að taka bréf í land, og engin kvöð var á því, að borga undir þau, það víst líka ekki gjört, það ég man til, nema í eitt skipti, en þá komum við á rausnarbæ, því risnu frakkanna var líkt við að heimsækja rausnarbæ, eða koma á nirfilskot og allt þar á milli.
Vertíðina 1898 var ég háseti hjá Magnúsi Þórðarsyni í Sjólyst, á skipinu Ísak. Þennan dag, sem ég hér minnist, hafði verið norðan stormur fram til fótaferðar, fór þá lygnandi svo, að fært Þótti að sigla austur í Fjallasjó, því enginn vindkúfur var á Eyjafjallajökli, en það var og er öruggt merki þess, að þá er lygnt í Fjallasjónum.
Þegar búið var að leggja lóðina, hófust umræður um, að gaman væri að fara í fransmann, því þeir voru þarna á víð og dreif í tugatali, sumir vildu nauðga þeim, en svo var það kallað, þegar lagt var að þeim án óska þeirra, en sjaldan var neitt upp úr því að hafa, en til þess kom ekki í þetta skipti, því ein af þessum stóru og glæsilegu skonnortum frá Paimpol kom siglandi til okkar með flaggi, sem benti til, að þarna þyrfti engra nauðgana við.
Skip þetta, sem strax var róið að, þá það hafði hlaðið seglum hét „Marital" P. 18, er mér sérstaklega minnisstætt, því það var sérstæður glæsibragur yfir því sjálfu, og áhöfn þess. Formanninum var nú bent að koma upp, tóku tveir á móti honum, eins og þetta væri hvítvoðungur, hjálpuðu honum úr sjóskóm og skinnbrók, sem var skoðuð í krók og kring með handapati og miklu málæði, því yfirleitt fannst mönnum frakkar þegar vel lá á þeim, ekki eingöngu tala með munninum heldur einnig með öllu andlitinu að ógleymdum handleggjum og höndum. Formanninn leiddu þeir til káetu og hurfu síðan allir niður í skipið. Eftir stutta stund birtist maður, sem hafði meðferðis stórt blikkmál og lítið ölglas, og fór að skenkja innihald málsins, sem reyndist vera þessi orðlagða veig, sem heitir franskt koniak. Tvö glös, þó ekki full, fékk hver maður, en þrír af þeim, sem á Ísak voru, vildu ekki vínið, en vildu að aðrir fengju þeirra skammt, en sá franski teygði upp tvo fingur, sem þýddi aðeins tvö glös, en enginn meira, þar næst sótti hann stóran bakka með einhverjum kálrétti, sem féll misjafnt í smekk manna, og kex, fékk hver maður eina köku, en þrjár þeir, sem ekki neyttu vínsins, hvarf hann síðan niður og virtist nú skipið mannlaust með öllu.
Ég hafði sumurin 1896 og 1897, verið á Fáskrúðsfirði, og numið þar sárfá orð í þeirri frönsku, sem þar var brúkuð, þetta vissu félagar mínir, var ég því sendur upp í skipið, þá okkur fór að leiðast biðin, og ekki sást neitt lifandi á skipinu nema hundurinn, sem hélt vörð.
Ég leit niður í lúgarinn, sátu og stóðu festir þar við skriftir. Þá kölluðu þeir á mig á Ísak, sögðu að tappinn hefði farið úr vatnsílátinu, sem var 10 potta kútur, og yrði ég að fá á hann helzt koníak. Ég sá út úr þeim skömmina, þeir höfðu narrað mig upp, helt vatninu niður á meðan. Það var í mínum verkahring, sem bitamanns, að sjá um vatnsílátið.
Rétt í þessu kom maður úr káetunni, og fór fram í skipið, ég ýtti nú kútnum í hann, en hann skeytti því engu, en hvarf niður í lugarinn, en kom að vörmu spori upp aftur, sýndi ég honum nú kútinn á ný og sagði koniak, það var víst eina orðið yfir drykk, sem ég kunni, hann tók við kútnum, og benti mér að fylgja sér niður í káetuna.
Þegar þangað kom varð ég undrandi yfir, hve hér var vistlegt, meðal annars voru þar fögur lifandi blóm neðan við háglugga káetunnar, slíkt hafði ég hvergi séð, mennirnir sem þarna voru önnum kafnir við að skrifa, voru allir hver öðrum gjörfulegri. Magnús formaður sat þarna, mitt í allri þessari dýrð, og hafði yfir engu að kvarta, hvað veitingar áhrærði, ekki var ég grunlaus um, að hann væri ofurlítið hýr, þó í bindindi væri, um þessar mundir.
Ég tjáði honum að hásetarnir væru orðnir óþolinmóðir að bíða, og kominn væri nógum legutími, aflabrögðin yrðum við þó að meta mest, hann sagði að það væri nú ekki á hverjum degi, sem maður kæmi á svona bæi, var það sannleikur. Okkur kom nú saman um að bíða í klukkutíma til viðbótar ef veður spilltist ekki. Ég benti þá á klukku sem hékk þar, og sagði á lélegri ensku, því frönskunni minni treysti ég ennþá ver, að þegar hún væri orðin þetta, að þá færum við.
Þegar tíminn var liðinn héldum við á brottu, höfðum við meðferðis 30-40 bréf, poka með kartöflum, annan af kexi, nokkra lóðastrengi, og kútinn fullan af koníaki, sem var ekki hvað sízt litinn hýru auga.
Þar sem formaðurinn var í bindindi, fól hann mér umsjá kútsins, en sagði þó sjálfsagt, að gefa þeim að súpa á, sem óskuðu þess, en gæta þó hófs, þess skal getið að ég var á átjánda ári, þegar þetta átti sér stað, því ekki kominn á þann aldur, að sæmandi þætti, að drekka áfengi svo á bæri, þótti það óheillavænlegt ef menn innan lögaldurs vöndu sig á slíkt.
Það var ekkert ílát með á Ísak, sem hægt var að nota, til að mæla með koníakið, handa hverjum manni, en að láta hvern drekka eftir geðþótta, gat verið hæpin ráðstöfun, að minnsta kosti á meðan lóðin var ódregin, og mörg önnur störf óunnin, var því tekið það ráð að ég losaði um minni tappann, sem var á hlið kútsins, og taldi, einn, tveir, þrír, og kippti svo frá, létu sér þetta flestir vel líka.
Góð ástaða var á lóðinni svo að Ísak var létt hlaðinn að lóðardrætti loknum, vorum við þá komnir aftur í norðan vindinn, svo að mátulegur byr var í land, þurfti því naumast að leggja út ár hvoruga leiðina, var það fágætt.
Fjórum sinnum frá því við skildum við „Marital" fengu þeir, sem það vildu, að drekka upp á þrjá, þangað til í land var komið, voru allir glaðir og ánægðir, nema einn, hann sagðist aldrei hafa fengið neitt koniak, það hefði verið tómur vindur, sem hann hefði náð úr kútnum, þó var það svo, að hann var sá eini, sem var dálítið valtur á fótum, þegar í land kom, enda varð ég þess var, að hann saug legilinn fastar en nokkur hinna.
Þessi sjóferð gekk svo vel, að oft var til hennar vitnað, rausn og alúð hinna frönsku manna einstök, svo að ekki þótti ofmikið, að kaupa frímerki á öll bréfin, annað gátum við ekki gjört til endurgjalds fyrir þær góðgjörðir, sem við höfðum orðið áðnjótandi og þóttu stórkostlegar á þessum árum.
Þau tíu ár, sem ég stundaði sjóróðra á vertíðarskipunum gömlu, fórum við oft í fransmenn, þetta gjörðu víst allir, sem sjó stunduðu á þessum árum. Oftast kom eitthvað það fyrir, sem sögulegt þótti, í fásinni því, sem menn almennt áttu þá við að búa. Það yrði víst of langt mál, að ryfja það allt upp, á þessum vettvangi, þó má nefna, þegar við vorum fleiri klukkutíma, að flytja hvolpa á milli skipa, og skipshöfnin varð þannig á sig komin, að hún gat ekki sett skipið, þá loksins í land var komið. Þetta skeði á laugardaginn fyrir páska veturinn 1896. Þetta var fyrsta vertíðin, sem ég var ráðinn sem hálfdrættingur í skiprúm, áður hafði ég gengið með skipum, af því var enginn öfundsverður. Ég var ekki nema 15½, árs gamall þegar þetta skeði og þótti því ekki hlutgengur vegna æsku minnar að taka þátt í drykkjunni, en ég gleymi því seint hve mér vegnaði illa innan um hina kátu og ölvuðu menn.
Annars gæti Jón Jónsson spítalaráðsmaður sagt frá þessum hvolpaflutningum, hann er sá eini eftir fyrir utan mig, af átján sem á skipinu voru, og sá eini sem gat talað við Frakkana, á þeirra máli.
Þá minnist ég sögunnar, sem sögð var af því, er framgjarn maður einn fór ofan i lugar á fransmanni, án þess að boðinn væri, og steig ofan í pott, sem nýbúið var að taka ofan, því honum var dimmt fyrir augum. Ekki var frökkunum láandi, þótt þeim fyndist lítið til koma að fá karlmannsfót í skinnbrók og sjóskó ofan í matinn, sem þeir ætluðu að fara að neyta.
Að lokum ætla ég að minnast á, þegar ég var tekinn og leiddur fyrir sýslumann, þá ég kom úr róðri. Það út af fyrir sig að taka mann í sjóklæðunum vakti athygli, því almennt var álitið á þessum árum að sjómenn væru friðhelgir á meðan þeir voru í sjóklæðunum.
Það voru báðir hreppstjórarnir, sem gripu mig þarna glóðvolgan, og leiddu mig fyrir sýslumanninn Magnús Jónsson, sem hafði þá aðsetur í Godthaab Sökin var, að hafa farið um borð í franskt fiskiskip, eða lagt að því, hér skammt fyrir austan Eyjar, og þar með brotið sóttvarnarlögin, sem þá voru víst, sem ný á nálinni.
Þetta var allt saman satt, en þeir hvorki sáu né nefndu, sem kærðu okkur, að fransmaðurinn var með neyðarmerki uppi, að skipið var brotið ofanþilja, björgunarbáturinn burtu, og seglin rifin. Og því auðvitað ekki trúað, að skipið hafði verið þannig útleikið, heldur að ég væri að ljúga þessu mér til málsbóta. Talað var um að setja okkur fjórtán í sóttkví, ásamt ýmsu fleiru, þó var mér sleppt eftir alllangt þref með áminningu.
Að þeim dytti í hug, að sinna hinu laskaða skipi, nei, þeir færu ekki að hlaupa eftir ósannindunum úr mér, þó breyttist þetta nokkuð, þegar tveir hásetar mínir vottuðu að skipið hafði verið brotið ofan þilja, og að bátinn, sem flest þessi skip höfðu á hekkbjálkum, hafði vantað. Hásetar mínir gátu náttúrlega ekkert sagt um hvernig seglin voru útleikin, því vont var að leggja að skipinu, þó komst ég upp í það, og sá að mikil spjöll höfðu á sumum þeirra orðið. Þó held ég að skipið hafi verið ólekt, það var allt „Bon" í fransaranna munni, þegar loksins átti að fara að liðsinna skipinu, var það farið.
Ég gat skilið aðstöðu sýslumannsins í þessu máli, en síður hreppstjóranna, sem báðir höfðu framið það verk, sem ég var sakaður um, þó lagabrot hafi þá að líkindum ekki verið. Einnig hefði verið allra hluta vegna réttast, að fara um borð í skipið aftur án tafar og kynna sér ástand þess.
Ekki hefði heldur staðið á mér, né hásetum mínum, að skreppa hér austur fyrir Bessann, til þess að aðstoða þessa nauðleitarmenn, sem þegar höfðu sýnt, að þeir voru ósparir á góðgjörðir þær, sem þá voru mjög eftirsóttar, sem var franskt kex og koníak.
Þegar hér var komið sögu, var ég kominn á þann aldur að ekki þótti neitt athugavert við, að neyta víns í hófi, en að sporna við vínbrúkun unglinga, innan tvítugs aldurs, eins og þá var gjört, væri ekki síður þörf nú en þá.