Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1975/Þegar Helga VE 180 fékk áfallið vertíðina 1922
Þegar Helga VE 180 fékk áfallið vertíðina 1922.
Það var veturinn 1922, að Árni Finnbogason frá Norðurgarði, 28 ára gamall, var formaður með mb. Helgu. Hann hafði haft formennsku á henni fjórar undanfarnar vertíðir og var þetta sú fimmta. Árni var glöggur og athugull formaður.
Helga var 11 lestir að stærð, súðbyrt með 14 hestafla Alfavél (eins strokks). Helga var með stýrishúsi, sem var hleypt niður í þilfarið um 11/2 fet. Gengið var inn í það að aftan. Óþétt var gólf stýrishússins. Þrír gluggar voru að framan og einn á hvorri hlið. Ofan í vélarhúsið var gengið niður bakborðsmegin. og var þar kappi með dragloki. Helga var með „rekkverki" eins og flestir bátar þeirra tíma. Fjórar árar voru bundnar við rekkverkið, og voru þær bundnar í hvern stólpa. Tvær handpumpur voru í Helgu, önnur framan við vélarhúsið, en hin bakborðsmegin.
Helga var talin góður bátur á þeim tíma.
Verður nú sagt frá eftirminnilegum róðri 14. febrúar 1922.
Sjósókn hafði verið mjög stirð undanfarið, stormasamt og mikið brim í sjó. — Árni formaður kallaði háseta sína kl. 3 um nóttina. Róðrartíminn mun þá hafa verið kl. 4. Byrjað var að keyra niður bjóðunum, sem voru 15 að tölu. Síðan var róið út í Helgu og bjóðin látin niður í lest, eins og þá var venja. Útlit var heldur ískyggilegt, dimmt í lofti, töluvert brim í sjó. Skipverjar á Helgu voru, auk formannsins, Björgvin Jónsson, Úthlíð, 23ja ára; Jóhann Jakobsson frá Stokkseyri, 23ja ára, og Jón Sigurðsson, Múla, 22ja ára, sem ritar þessa frásögn.
Blússmerkið er gefið, og allir bátar halda úr höfninni. Munu um það bil 65 bátar hafa róið þessa nótt. Þegar út fyrir hafnargarða kom dreifðu bátarnir sér á miðin. ýmist suður, inn með Kletti og austur, eins og kallað er í Vestmannaeyjum.
Við á Helgu rerum austur þessa nótt, héldum í suðaustur af Bjarnarey. Veður var sæmilegt. Við byrjuðum að leggja línuna og allt hefur sinn gang. Það hafði hver sitt verk. Árni formaður stýrði út línuna. Björgvin lagði línuna, því þá var ekki kominn línukarl. Jóhann „stoppaði", en Jón Sigurðsson lét bjóðin upp úr lestinni. Allt gekk þetta með eðlilegum hætti. Við lögðum alla línuna, og erum við komnir austur undir Holtshraun. Er þá kominn kaldi við austur. Við liggjum yfir línunni fram í birtu, sem mun hafa verið 2 klst., og er þá kominn stormur á austan. Við fórum þá að draga og höfðum heldur hraðan á. Við drógum undan. Það var reytings fiskur og allt gekk sinn gang. Við drógum alla línuna, og munum við hafa fengið á fjórða hundrað fiska. Er við höfðum lokið að draga, löguðum við það sem laga þurfti, skorðuðum bjóðin bakborðsmegin, pumpuðum bátinn o.s.frv. Er kominn stóra stormur, en ekki mikill sjór, að okkur sýndist. Ég segi við Björgvin: „Eigum við ekki að láta skálka á lúgurnar?" Hann samþykkti það. Síðan er haldið heim á leið.
Er við höfðum gengið frá öllu fórum við niður. Þeir Björgvin og Jóhann fóru niður í lúkarinn, en ég fór niður í vélarhús. Ég var með ullarvettlinga. Ég tók þá af mér þegar niður kom og fór að vinda þá. Setti þá svo á mig aftur og bjó mig til að fara upp. Þegar ég kom upp í stigann kemur ofan á mig grængolandi sjór. Ég saup hveljur og vissi hvorki í þennan heim né annan. Mér heyrðist vélin vera að þagna. Svona gengur það góða stund. Ég hugsa með mér: Báturinn er víst kominn á hvolf. Annað hugsaði ég ekki. Loks finnst mér birta fyrir augum, og stend ég þá í vélarhúsgatinu. Ég snara mér upp. Sé ég þá Árna formann stýrishúsinu að skyrpa út úr sér. Hann er berhöfðaður, og sjórinn rennur af honum. Það er spýtnabrak í kringum hann og glerbrot, og hann er klemmdur í spýtnabrakinu. Árni kallar til mín og segir. „Pumpið þið bátinn!"
Þeir Björgvin og Jóhann koma í sömu svipan upp úr lúkar. Við fórum allir að pumpa og létum hendur standa fram úr ermum við verkið. Báturinn sat á skutnum, og allt var á floti í vélarhúsinu. Stýris húsið var brotið, aðeins eftir framþilið og lítið eitt af hliðunum, allar árarnar kubbaðar, þær sem bundnar voru við rekkverkið. Línubjóðin löfðu útbyrðis, og allt var í slæmu ásigkomulagi. Við hömuðumst við að létta bátinn, og loks tókst það. Síðan fórum við að taka línuna og koma henni í bjóðin og ganga frá öllu eftir því sem hægt var. Það var alltaf sami stormur. Við keyrðum með hægri ferð. Þegar við erum suður af Bjarnarey segir Árni okkur að hella út steinolíu úr brúsa sem sé í afturlestinni, og gerum við það og lægði sjóinn, sem var þá þetta stór suður af Bjarnarey. Eftir þetta gekk allt að óskum, og við komum til lands um sexleytið.
Þessi sjór, sem kom á Helgu tók sig upp laust við bátinn. Árni Finnbogason sagði, að það hefði orðið Helgu til happs, að hann tók eftir sjónum. Hann setti þá vélina á fullt aftur á bak. Annars hefði ekki þurft að spyrja um afdrifin. Hann sagði að báturinn hefði farið fyrst á hliðina og svo á svarta kaf, og hefði sjórinn verið uppfyrir mitt mastur. Fiskurinn, sem í lestinni var, og skilrúmin, sem héldu, björguðu bátnum frá að fara á hliðina. Það voru krossskilrúm.
Þannig endaði þessi róður, og fór betur en á horfðist um tíma. Helga var smíðuð í Vestmannaeyjum 1915. Guðmundur Jónsson á Háeyri var yfirsmiður, Siggeir Torfason lét smíða Helgu ásamt tveim öðrum bátum, sem hétu Silla og Lára. Siggeir gerði þessa báta út frá Eyjum í tvær vertíðir, en 1917 seldi Siggeir alla bátana. Silla og Lára fóru til Stokkseyrar, en Helgu keypti Gísli J. Johnsen. Árni Finnbogason var formaður á henni til vertíðarloka 1924. Síðar voru með hana ýmsir formenn. Eftir 1930 var Helga smíðuð upp og gerð kantsett og var þá lengi dráttarbátur. Síðar fór Helga upp í slipp og var þar nokkur ár, en 1958 var Helga gerð upp og sett í hana ný Tuxham-vél. Var hún síðan seld til Þórshafnar og heitir nú Björg.