Ritverk Árna Árnasonar/Magnús Guðmundsson (Hlíðarási)
Kynning.
Magnús Guðmundsson útgerðarmaður í Hlíðarási fæddist 1. ágúst 1867 og lést 2. ágúst 1949.
Foreldrar hans voru Guðmundur Þorkelsson bóndi í Háagarði, f. 7. júlí 1834, d. 14. febrúar 1897, og kona hans Margrét Magnúsdóttir húsfreyja, f. 28.október 1838, d. 11. mars 1891.
Kona Magnúsar (1900) var Guðbjörg Magnúsdóttir húsfreyja, f. 30. júní 1872 að Hofsstöðum í Garðahreppi, d. 14. desember 1940.
Börn Magnúsar og Guðbjargar:
1. Magnús Guðbergur, f. 29. júní 1901, d. 1. júlí 1963.
2. Signý Vilhelmína, f. 20. júní 1910, d. 11. janúar 1965.
3. Vilhjálmur, dó 2ja ára.
Úr fórum Árna Árnasonar símritara:
Bjargveiðimannatal.
Magnús var hár og þrekinn í vexti og mikill kraftamaður, breiðleitur með dökkt hár og yfirvaraskegg, skoljarpt, fremur fríður í andliti og sviphýr, léttlyndur og ræðinn, góður heim að sækja, veitull og gestrisinn. Hann var mjög vinnukær, vel að efnum búinn og hélt vel á hlutunum. Enginn var hann léttleikamaður, en þungur í hreyfingum og stirður, handfastur og orðlagður kraftakarl.
Magnús var allmikið við veiðar, bæði á Heimalandinu og í úteyjum, góður liðsmaður á mörgum sviðum, en veiðimaður vart í meðallagi. Sigamaður enginn, en traustur við undirsetu við bjargsig, og tók töluverðan þátt í bjargferðum fyrr meir.
Hann var sjómaður harðduglegur, síðar útgerðarmaður, heppinn og aflasæll. Frægur fyrir kröftugleg átök, m.a. þegar hann bjargaði Sigurði hreppstjóra úr klóm skipstjóra um borð, er skip hans var tekið í landhelgi, en hann hafði þá rokið á Sigurð, komið honum undir og þjarmaði að honum. Magnús sneri þá koparlæsingu í sundur, braut upp og frelsaði Sigurð.
Önnur umfjöllun á Heimaslóð: Magnús Guðmundsson (Hlíðarási)
Úr fórum Árna Árnasonar, efnisyfirlit
Heimildir
- Samantekt: Víglundur Þór Þorsteinsson.
- Eyjar og úteyjalíf – Úrval verka Árna Árnasonar símritara frá Grund. Sögufélag Vestmannaeyja í samstarfi við Safnahús Vestmannaeyja 2012.
- Heimaslóð.
- Íslendingabók.is.
- Manntöl.
Þessi grein tilheyrir Æviskrám Eyjafólks eftir Víglund Þór Þorsteinsson.