Blik 1978/Samvinnusamtökin í Vestmannaeyjum II. hluti

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit

Efnisyfirlit 1978



ÞORSTEINN Þ. VÍGLUNDSSON:


Samvinnusamtökin í Vestmannaeyjum
(Framhald frá árinu 1976)
(II. hluti)


7. Kaupfélag alþýðu


Mér er saga þessa kaupfélags viðkvæmnismál.
Ég stofnaði sjálfur þetta kaupfélag veturinn 1932. Þó er mér það ekki auðvelt að skrifa sögu þess svo vel og rækilega, sem ég hefði kosið. Ástæðurnar eru þær, að ég hefi engin gögn í höndum eða lítil, sökum þeirra endalykta, sem þessi samtök fengu, og þó sérstaklega hvernig mér var bolað frá þeim. — Þá skráði ég ekki dagbók nema um þróun unglingafræðslunnar í bænum, stríðið við hin andstæðu öfl, reynslu og fyrirbrigði.
Ég var alinn upp við samúð með hinum „vinnandi stéttum“ í landinu, eins og þá var almennt komizt að orði, en það voru verkalýðsstéttirnar til sjós og lands, og svo bændastéttin og iðnaðarmennirnir í þjóðfélaginu. Málsvarar þessara stétta í þjóðfélaginu okkar voru þá tveir stjórnmálaflokkar, Alþýðuflokkurinn og Framsóknarflokkurinn, af sjónarhóli þess fólks, sem næst stóð mér.
Þegar ég kom heim frá námi í Noregi sumarið 1924, tók ég brátt að vinna að gengi Alþýðuflokksins á Nesi í Norðfirði. Samvinna okkar Jónasar Guðmundssonar, sem síðar varð landkunnur verkalýðsforingi á Austurlandi og félagsmálafrömuður, varð brátt náin. Ég reyndi eftir megni að styrkja hann í starfi, af því að mér féllu vel í geð hugsjónamál hans og lífsstefna. Hinn mikilhæfi og hógværi foringi Alþýðuflokksins, Jón Baldvinsson, var okkur vel að skapi, vitur maður og hógvær, fastur fyrir og sækinn að sama skapi, — trúr hugsjónamálunum. Þá þekktist ekki í landinu neinn annar stjórnmálaflokkur, sem hafði það sérstaklega á stefnuskrá sinni að bæta eftir föngum hag eða kjör verkalýðsstéttanna við sjávarsíðuna. „Félagar Stalins“ voru þá ekki á dagskrá. Hugtakið var óþekkt á Austurlandi þá, að ég bezt veit.
En tímarnir tóku að breytast og mennirnir með. Ekki höfðum við hjónin dvalizt lengi í Vestmannaeyjum, þegar við urðum þess áskynja, að andinn og einingin í samtökum verkalýðsins þar var ekki hin sama og fyrir austan. „Félagar Stalins“ óðu þarna uppi með stóryrði, brigzlyrði og sleggjudóma. Þeir virtust ekki sjá sólina fyrir rússneskum stjörnum á himni stjórnmálanna. Þeir komust brátt í andstöðu við vissa forustumenn Alþýðuflokksins í Reykjavík. Auðvitað var upphaf þessa klofnings í skoðunum og starfi sótt til „höfuðborgarinnar.“ Þar sauð og vall. Og ylgja þessi barst fyrr til Norðurlandsins og vestfjarða en austur á bóginn.
Hið kommúnistíska fyrirbrigði í landinu eignaðist fljótlega flokk málsvara í Vestmannaeyjum. Þeir fóru sér þó hægt í fyrstu, meðan grafið var undan fylgi Alþýðuflokksins og foringjar hans gerðir sem allra mest tortryggilegir í hug og hjarta þeirra, sem njóta skyldu „samtakanna.“ Og svo tóku brigzlyrðin að ganga á víxl manna á milli og á fundum, svo að sögur spruttu af.
„Þú hefur klofið, Jónhildur,“ fullyrti Þorgerður verkakona með þjósti á verkakvennafundi og beindi orðum sínum að aldraðri verkakonu, sem þekkt var fyrir ötult starf í „samtökunum.“ — „Fjarri fer því,“ sagði Jónhildur. „Vissulega ert það þú, sem hefur klofið, Þorgerður mín. Sú sök verður ekki af þér skafin.“ Svona gátu þær þjarkað í sundurlyndi og samtakaleysi, og gárungarnir á næsta leiti hlógu dátt og túlkuðu orðin á sína vísu. Þessi skaðvænlegu fyrirbrigði í „samtökunum“ komu ekki við gáskapeyjana, voru þeim fjarri, — flestum að minnsta kosti. Og sumir skemmtu sér konunglega.
Þannig var oft þráttað um það, hver eða hverjir ættu upptökin að þessari ógæfu verkalýðssamtakanna, klofningnum skaðsamlega í Vestmannaeyjum, hinum pólitíska klofningi, sem gagnsýrði líka afstöðu manna til kaupgjaldsmálanna í bænum.
Kommúnistadeildin í Vestmannaeyjum naut stuðnings Kaupfélags verkamanna í kaupstaðnum. Við Alþýðuflokksmenn sáum ofsjónum yfir þeirri velgengni og vildum líka eiga verzlunarsamtök flokki okkar til stuðnings og samheldni.
Við afréðum að stofna sérstakt kaupfélag, sem safna skyldu fyrst og fremst fjölskyldum Alþýðuflokksmanna undir væng sinn. Ef þetta fyrirtæki okkar heppnaðist vel, gat það dregið að sér fylgi og pólitískan mátt og eflt þannig um leið verkalýðssamtökin í bænum og haldið í skefjum „ofstækinu hinummegin,“ eins og sumir orðuðu það.
Við ræddum þessi verzlunarmál vel og ýtarlega. Peninga höfðum við enga til þess að hefja þetta starf. Og ekki voru líkindi til þess, að þeir lægju svo auðveldlega á lausu, þar sem fátækasti hluti fólksins átti hlut að máli.
En við vorum samhuga og einbeittir. Og við afréðum að láta til skarar skríða og til stáls sverfa, eins og þar stendur, og hefjast handa. Flokksmenn mínir fólu mér framkvæmdir um stofnun kaupfélagsins og rekstur þess. Þeir hétu mér hinsvegar öllum stuðningi sínum, eftir því sem þeir gætu bezt gert.
Þarna hafði ég við hlið mér Högna Sigurðsson í Vatnsdal, drengskaparmann, hygginn, og að mínum dómi stórgáfaðan. Hann hafði nokkra reynslu af rekstri kaupfélags, því að hann var einn af stofnendum k/f Fram árið 1917 og hafði verið í stjórn þess um árabil. Hann var sem kunnugt er, hálfbróðir Einars ríka Sigurðssonar, samritara „meistarans mikla.“
Við sömdum kaupfélaginu okkar lög og reglur. Það skyldi heita Kaupfélag alþýðu. Ég var kjörinn formaður stjórnarinnar. Með mér í stjórn var m.a. Högni Sigurðsson, einlægur flokksmaður og að reynslunni ríkari um rekstur kaupfélags.

ctr


Verzlunarhúsið Kaupangur er næst á myndinni, nr. 31 við Vestmannabraut. Austan við Kaupangur sést Hrafnagil, nr. 29 við Vestm.br. og austar sést Garðsauki, nr. 27.


Við fengum leigt húsnæði í Kaupangri, húsinu nr. 39 við Vestmannabraut, alla neðri hæðina að vestanverðu. Það var þá eign Helga Benediktssonar, kaupmanns og útgerðarmanns m.m. — Þetta gerðist á vertíð 1932.
Og svo var það vandinn fyrsti, sem leysa þurfti. Hann var sá, að fá vörur í búðina án þess að hafa eyri milli handa. Við vorum veltufjárlausir með öllu. Hinar fáu krónur, sem félagsmenn höfðu greitt í félagssjóðinn, urðum við að nota til þess að greiða þeim, sem lagfærðu búðarholuna fyrir okkur og sköpuðu okkur aðstöðu þar til afgreiðslu á vörunum, og svo auðvitað til kaupa á nauðsynlegum áhöldum.
Um lán í bankanum í bænum var ekki að ræða. Vitaskuld var ekkert vit í því að lána rekstrarfé fyrirtæki, sem stofnað var til höfuðs öðru fyrirtæki, sem skuldaði þá bankanum drjúgan skilding. Og svo var enginn okkar í þessum verzlunarsamtökum í flokki „hinna heldri manna“ í bænum, en stéttaskipting í kaupstaðnum lét þá býsna mikið á sér bera. Og svo var enginn okkar þekktur á viðskiptasviðinu, aldrei borið það við að pranga eða braska. Ofan á allt þetta var svo fjárhagskreppa herjandi um allan heim.
Í von og óvon fór ég til Reykjavíkur til þess að „slá út“ vörurnar. Fá þær lánaðar út á „andlitið á mér“, eins og stundum er komizt að orði um þá, sem fá lán án allra trygginga og lítillar fjárhagslegrar getu. Og vörurnar fékk ég í svo ríkum mæli, að við fylltum búðina okkar. Mest voru það matvörur og svo aðrar nauðsynjar til daglegrar notkunar í heimilisrekstri. Aðrar vörur rúmuðust ekki í litlu búðarholunni okkar þarna í Kaupangi.
Ég réð sjálfan mig afgreiðslumann í búðina án allra launa til þess að geta safnað sem fyrst eilitlu veltufé. Ég hafði búðina opna síðari hluta dagsins eða eftir klukkan þrjú á daginn, þegar ég hafði lokið starfi mínu í Gagnfræðaskólanum. Þannig var þetta einnig á laugardögum. Hugsjónin var mér allt. Og voru það nokkur undur, þó að ég á þessum tímum væri nefndur „hugsjónaangurgapi“ á opinberum stjórnmálafundi. Ég hafði þá aldrei heyrt þetta orð fyrr og mér þótti það býsna hnyttið. Víst var það angurgapalegt að ætla sér að móta og reka verzlunarfyrirtæki peningalaus, allslaus, og líka án allrar reynslu og þekkingar á verzlunarrekstri. Ég hló að þessu uppnefni af því að mér fannst það bráðfyndið. Og það kom af vörum kaupmanns, sem hafði eiginhagsmuna að gæta gagnvart þessum „angurgöpum“ á verzlunarsviðinu. — En samt tókum við að græða á verzlunarrekstrinum meira en sem svaraði launagreiðslum til mín, sem vann auðvitað kauplaust mánuðum saman við að koma á fót og efla þessa hugsjón mína. Ég hafði satt að segja mikið yndi af þessu starfi. Þarna fann ég, hvar ég hefði átt að hasla mér völl í lífinu, ef ég hefði kosið að lifa því til þess „að safna fé og deyja ríkur“. „Það hlýtur að vera yndislegt að deyja ríkur,“ sagði eitt sinn ríkur embættismaður við mig. Hann hafði jafnan haft mörg járn í eldinum til þess að safna fjármunum.
Eftir að hafa rekið Kaupfélag alþýðu þannig í eitt ár eða þar um bil, áttum við orðið sjóð, sem nam um kr. 8000,00, — að mestu handbært fé, en að nokkrum hluta bundið í vörulager. Þetta var ekki lítið fé þá, þegar árslaun mín námu kr. 3900,00 við kennslu- og skólastjórastörfin.
Ég gætti þess vandlega, og sá var vandinn mestur, að kaupa ekki aðrar vörur en þær, sem líklegar væru til þess að seljast fljótlega til þess að festa ekki fé í vörulager. Það gat riðið fjárvana fyrirtæki að fullu strax í upphafi rekstursins. Þetta lánaðist mér mæta vel. Dómgreind kom þar til. Hana átti ég. Ein hugsjónin fæðir aðra af sér. Við afréðum að byggja verzlunarhús á góðum stað í bænum. Ég ráðgaðist um þessa fyrirætlan við Jón Baldvinsson, sem þá var einn af bankastjórum Útvegsbankans í Reykjavík. Hann hvatti mig til þess að hefja þetta framtak hið allra fyrsta.

Við keyptum húslóð eða réttara sagt leiguréttindi á lóð af Jóni Jónssyni, útvegsbónda í Hlíð við Skólaveg, lóð gegnt verzlun Einars Sigurðssonar kaupmanns, sem rak mikla verzlun í Vöruhúsi Vestmannaeyja. Lóð þessa fengum við með góðum kjörum, enda var útvegsbóndinn einn í hópi okkar og vildi hlynna að hugsjón þessari.

ctr


Hús Kaupfélags alþýðu, nr. 2 við Skólaveg, byggt sumarið 1932.


Sumarið 1933 vann ég að því kauplaust að byggja þetta verzlunarhús. Þar unnu margir félagsmenn Kaupfélags alþýðu fyrir lítil laun það sumar. Þeir voru býsna margir þar hugsjónaangurgaparnir eins og ég, og þeir brunnu af áhuga á verzlunarsamtökum sínum, þegar þeir sáu, hvað allt þetta bauk lánaðist vel og spáði góðu.
Í fórum mínum er reikningur yfir keypt efni til þessara framkvæmda sumarið 1933. Það er ekki ófróðlegt plagg að ýmsu leyti. Þar gefst athugulum lesanda nokkur hugmynd um það magn af byggingarefni, sem við þurftum til að byggja verzlunarhæðina með kjallara undir nokkrum hluta hennar:


1933 keypt efni krónur
29. maí sement 2.361,75
17. júlí bindijárn 18,70
31. júlí steypujárn 534,18
3. ágúst saumur 6,60
5. ágúst mótavír 17,63
7. ágúst saumur 18,60
17. ágúst steypujárn 615,48
22. ágúst saumur 10,30
24. ágúst bindivír 2,55
4. sept. saumur 25,70
13. sept. þakjárn 437,25
16. sept. þaksaumur 16,50
20. sept. pappasaumur 1,10
20. sept. þakpappi 48,00
20. sept. kalk 70,00
3.-28. okt. saumur 18,80
Keypt byggingarefni alls 4.275,14

Svo að segja allt byggingarefnið var keypt í sömu verzluninni, hjá H. Benediktsson og Co. í Vestmannaeyjum, en sú verzlun var útibú frá aðalverzluninni í Reykjavík. Umboðsmaður eða trúnaðarmaður þessa fyrirtækis í Eyjum var þá Óskar Sigurðsson frá Bólstað (nr. 18) við Heimagötu. Hann var síðar kunnur endurskoðandi og fulltrúi útgerðarmanna í Vestmannaeyjakaupstað. — Því miður er ekki tekið fram í reikningi þessum, hversu vörumagnið er mikið, sem keypt var, en við byggðum þarna hús, sem var ein hæð, ??? ferm. að stærð með kjallara undir hálfri hæðinni. (Sjá hér mynd af húsbyggingu þessari.)
Þarna hefur nú Flugfélag Íslands bækistöð sína í kaupstaðnum, og svo er rekin verzlun í norðurenda byggingarinnar.
Veðdeildin veitti okkur lán, kr. 12000,00, út á bygginguna. Ég samþykkti víxla fyrir andvirði efnisins fyrst í stað. Síðan greiddum við þessar efnisskuldir með veðdeildarláninu. Allt lék þetta í lyndi fyrir okkur. Margir hrifust með og voru okkur hjálplegir. Þess minnist ég.
Einhvernveginn tókst okkur að greiða fagvinnuna með arðinum af verzlunarrekstrinum, en félagsmenn gáfu mestan hluta vinnu sinnar og hún var mikil. Þannig sigruðumst við á þessum erfiðleikum. Við fengum að skila aftur því steypujárni og sementi, sem við ekki þurftum að nota og höfðum flutt til okkar umfram þarfir. Samtals skiluðum við aftur sementi og steypujárni fyrir kr. 415,46. Þetta atriði þætti líklega dálítið sérstætt í viðskiptalífinu nú á tímum.
Ljósmyndin, sem fylgir þessu greinarkorni mínu, gefur okkur nokkra hugmynd um, hversu mikið tókst þá að gera eða framkvæma fyrir lítið fé í bæjarfélaginu okkar.
Þrátt fyrir nokkurn meting og mikla samkeppni milli Kaupfélags verkamanna og Kaupfélags alþýðu, þá sýndum við Ísleifur Högnason kaupfélagsstjóri þann þroska og manndóm að panta kol sameiginlega handa félagsmönnum beggja kaupfélaganna, af því að þeir fengu kolin þannig við mjög hagstæðu verði. Þarna létum við sem sé skynsemina ráða gjörðum okkar og óskina þá, að verzlunarsamtök þessi mættu í hvívetna reynast „sverð og skjöldur“ félagsmanna í harðri lífsbaráttu, hvað svo sem stjórnmálaskoðunum okkar liði.

Þetta gerðist haustið 1932.
Það mun hafa verið fyrir jólin 1933, sem við fluttum verzlun Kaupfélags alþýðu í nýja verzlunarhúsið okkar að Skólavegi 2, gegnt Vöruhúsi Vestmannaeyja, þar sem Einar Sigurðsson rak verzlun sína af miklum krafti. — Þó að undir niðri værum við Einar þá í mikilli samkeppni innbyrðis á verzlunarsviðinu var samkomulagið ávallt gott á milli okkar. Það var ekki smávægilegur mælikvarði á innri mann Einars Sigurðssonar, að hann leiðbeindi mér um færslur verzlunarbókanna, kenndi mér bókfærslu, þegar samkeppnin á milli okkar var hvað hörðust á verzlunarsviðinu. Síðar gerðist ég verkstjóri hjá honum að sumrinu. Þá frysti hann kola til útflutnings. Þar ruddi hann brautir í kaupstaðnum.
Og Einar Sigurðsson undraðist stórum viðgang og vöxt Kaupfélags alþýðu.
Með þessi minni í vitund sinni segir þessi merki atvinnurekandi, hraðfrystihúsaeigandi og stórútgerðarmaður í bók sinni Fagur fiskur í sjó: „Ég held, að Kaupfélag alþýðu hefði orðið stórfyrirtæki, ef Þorsteins hefði notið þar við framvegis. En hann var ofurliði borinn af mönnum, sem ekki voru vandanum vaxnir.“
Þegar ég las þessi orð Einars ríka Sigurðssonar, gladdist ég, því að ég þekkti það af reynslu, að hann vissi jafnan hvað hann sagði á þessu starfssviði. Þar var hann næsta óvenjulega glöggskyggn maður. Meðfæddar gáfur og mikinn manndóm sannaði hann ávallt í öllum atvinnurekstri sínum.

En brátt þyrmdi yfir mig. Þá minnist ég þeirrar vanlíðunar, sem ég varð að þola sökum þessa framtaks míns.
Kaupfélag alþýðu í Vestmannaeyjum hafði vaxið svo ört og örugglega, að ég sá engin tök á að annast hinn daglega rekstur þess með öllu því starfi öðru, sem ég hafði þá á minni könnu. Næsta skrefið var þess vegna það, að útvega kaupfélaginu duglegan og hygginn kaupfélagsstjóra. — Þá urðu menn ekki alveg á eitt sáttir. Meiri hluti ráðandi manna kaupfélagsins vildi leita til flokksforustu Alþýðuflokksins í Reykjavík og biðja hana að útvega valinn mann í kaupfélagsstjórastöðuna, þar sem kaupfélagið væri öðrum þræði rekið til eflingar stefnu Alþýðuflokksins í kjaramálum verkalýðsins.
Vissir forustumenn flokksins tóku vel þessari málaleitan. Þeir sendu okkur fljótlega manninn með miklum og góðum meðmælum. Við vonuðum innilega, að hann væri ekki einn af þessum „gáfuðu prinsum“, sem Alþýðuflokkurinn virtist þá svo býsna ríkur af. Þar leituðu þeir sér helzt skjóls og frama.
Og „prinsinn“ kom von bráðar og gerðist kaupfélagsstjórinn okkar.
Við höfðum komið lánum þeim, sem við höfðum fengið út á nýbygginguna okkar, vel fyrir. Meginlánið var veðdeildarlán til margra ára. Og byggingin varð okkur ódýr, því að mikið var unnið þar ókeypis. Tíminn leið og verzlunin okkar hélt áfram að blómstra. En ekki leið á ýkjalöngu þar til við urðum þess varir í stjórninni, að ekki var allt orðið með felldu um rekstur kaupfélagsins. Við reyndum með leynd að bæta úr misfellunum eftir föngum, en nýi kaupfélagsstjórinn hlustaði lítið á okkur. Honum fannst víst, að hann væri yfir þær aðfinnslur hafinn. Óánægja okkar magnaðist, þegar við urðum þess áskynja, að skuldir fyrirtækisins hlóðust upp og vörulagerinn óx jafnframt af óseljanlegum vörubirgðum. Þetta hlaut að enda á einn veg. Óregla og óreiða voru okkur stjórnarmönnunum hvimleið fyrirbrigði. Og svo höfðu vissir menn fengið lánaðar vörur, höfðu þarna vörureikning og söfnuðu skuldum, sem ekki fengust greiddar.
Við Högni Sigurðsson létum í ljós megna óánægju með rekstur kaupfélagsins. Tveir félagar okkar í stjórninni voru okkur sammála, en sá fimmti gerði lítið úr og dró fjöður yfir mistökin. Hann virtist blindur eða skilningslaus á þessu sviði, en var þó kosinn í stjórn fyrirtækisins vegna „réttra og ákjósanlegra flokkssjónarmiða.“ Hann hafði orðið gjaldþrota á fyrsta ári kreppunnar eða þar um bil.
Bráðlega barst stjórn Kaupfélags alþýðu bréf. Það var undirritað af rúmlega þriðjungi allra félagsmanna Kaupfélags alþýðu. — Efni bréfsins var áskorun til okkar stjórnarmanna að boða til almenns fundar í félaginu til þess að ræða kaupfélagsmálin. — Hvað var að? — Auðvitað boðuðum við til félagsfundarins, þar sem áskorun félagsmanna var gjörð samkvæmt lögum kaupfélagsins.
Efni fundarins var að ávíta okkur í stjórninni fyrir tilefnislausar aðfinnslur við kaupfélagsstjórann. Hæst höfðu þeir á fundinum, sem fengið höfðu vörulán hjá kaupfélagsstjóranum og skulduðu félaginu drjúgan skilding.
Einn stjórnarmaðurinn stóð með kaupfélagsstjóranum í átökum þessum. Hann fékk að vera áfram í stjórninni, en samþykkt var að reka okkur fjóra úr henni og kjósa menn í stað okkar þarna á fundinum. Okkur varð það ljóst síðar, að þessar athafnir voru framkvæmdar samkvæmt ráðum vissra foringja flokksins í Reykjavík og án vitundar Jóns Baldvinssonar. Farið var þar bak við hann um eitt og allt. Það sagði hann mér síðar og harmaði örlögin.
Við fjórmenningarnir litum svo á, að við með lubbahætti þessum hefðum verið reknir úr Alþýðuflokknum, ekki sízt, þar sem við vissum sönnur á þvi, að áberandi forgöngumenn í Rvk. stóðu að gjörðum þessum.
En hvað svo um Kaupfélag alþýðu? Fjármálafávitarnir, sem ráku okkur, hrósuðu sigri. Þeim var það hulið með kaupfélagsstjóranum í fararbroddi, að hinir tveir þriðju hlutar félagsmannanna mundu í meira lagi óánægðir. Óánægja þess félagsfólks og ýmislegt fleira olli því, að viðskipti kaupfélagsins fóru minnkandi og áróður andstæðinganna í kaupmannastétt vaxandi að sama skapi okkur fjórmenningunum til framdráttar. Nú var það talið óhætt, þar sem við vorum úr sögunni í viðskiptalífinu í bænum, máttvana og hættulausir!
Ég vissi, að Kaupfélag alþýðu safnaði miklum skuldum við visst fyrirtæki í Reykjavík, þar sem ég hafði fengið góða fyrirgreiðslu. Það hafði umboðsmann í Vestmannaeyjum. Eitt sinn barst það í tal við hann, hversu miklar væru skuldir Kaupfélagsins við hann eða fyrirtækið. Hann tjáði mér í trúnaði, að þær væru miklar og útlitið geigvænlegt. En engu yrði þar breytt að svo stöddu nema hvað dregið yrði úr vörulánum til kaupfélagsins eins og hægt væri. Ástæðurnar fyrir því, að ekki yrði að svo stöddu gengið að kaupfélaginu væru þær, að fyrirtækið í Reykjavík skipti svo að segja einvörðungu við Útvegsbankann þar, og Jón bankastjóri Baldvinsson væri áhrifaríkur maður í stöðu sinni. Hann vildu ráðandi menn lánafyrirtækisins ekki styggja. Þess vegna yrði það að bíða síns tíma, að fyrirtækið léti loka búð Kaupfélags alþýðu og gera það gjaldþrota.
Svo liðu stundir, mánuðir og fá ár. Viðskipti Kaupfélags alþýðu rýrnuðu ár frá ári. — Í marzmánuði 1938 lézt Jón Baldvinsson, bankastjóri. Ekki hafði hann verið borinn til grafar, þegar auglýsing stóð á búðarhurð Kaupfélags alþýðu í Vestmannaeyjum. Aðeins tvö orð: Búðinni lokað.
Sölubúð Kaupfélags alþýðu í Vestmannaeyjum var aldrei opnuð eftir þetta.
Snuddað var við að gera upp gjaldþrotafyrirtæki. — „Prinsarnir“ hafa orðið dýrir Alþýðuflokknum íslenzka á undanförnum áratugum.

————————


Örlög og endalyktir Kaupfélags alþýðu gengu nærri mér, ömuðu mér á sál og sinni. Ég var þó ríkari af reynslu eftir á, en sú reynsla var mér dýrkeypt, því að ég unni þessu fyrirtæki, enda hafði ég fórnað því miklu starfi og gefið því nokkurn hluta af sjálfum mér. Eilítið var ég vitrari eftir. Það var allur fengur minn af félagssamtökum þessum og starfi mínu fyrir góðan málstað.


Til baka