Þóranna Kristjana Hallsdóttir
Þóranna Kristjana Hallsdóttir húsfreyja fæddist 1801 á Mælifellsá ytri í Skagafirði og lést 5. febrúar 1874.
Foreldrar hennar voru Hallur Jónsson bóndi í Lýtingsstaðakoti neðra 1816, f. 1769 á Þorljótsstöðum í Skagafirði, d. 12. júní 1806, og kona hans Jóhanna Jónsdóttir húsfreyja, f. 1779 í Hátúni í Skagafirði.
Þóranna og John komu að Kornhól frá Reykjavík 1826, voru húsfólk á Vesturhúsum 1828, á Miðhúsum 1830, í Tómthúsi 1831. Hún er skráð Þóra Anna við giftingu 1827 og við fæðingu barns síns 1828.
Hjónin fluttust til Keflavíkur 1833 og þar var John verslunarstjóri.
Hann lést 1836.
Þóranna fluttist í Vestur- Skaftafellssýslu 1837, var bústýra hjá Guðmundi Jónssyni bónda í Gamlabæ (Syðri-Steinsmýri) í Meðallandi á því ári, giftist honum í nóvember.
Hún var húsfreyja í Gamlabæ 1837-1840, í Prestbakkakoti á Síðu 1840-1843, á Fossi þar 1843-1847, í Mosakoti þar 1847-1852.
Þóranna var húskona í Mörk á Síðu 1852-1856, í Eystra-Hrauni í Landbroti 1856-1865, húsfreyja í Hátúnum þar 1865-1869.
Þau Guðmundur fluttust að Ártúnum við Reykjavík 1869 og bjuggu þar síðan.
Hún lést 1874.
Þóranna var tvígift.
I. Fyrri maður hennar, (26. júní 1827), var John Good Robert Charles Hansen, f. 1804, d. 28. október 1836.
Barn þeirra hér var
1. Andvana fætt stúlkubarn 22. október 1828 á Vesturhúsum.
II. Síðari maður Þórönnu, (21. nóvember 1837), var Guðmundur Jónsson Austmann bóndi í V-Skaftafellssýslu og í Ártúnum við Reykjavík, f. 1811, d. 8. maí 1876 í Ártúnum.
Þau voru barnlaus.
Heimildir
- Samantekt: Víglundur Þór Þorsteinsson.
- Íslendingabók.is.
- Manntöl.
- Prestþjónustubækur.
- Vestur-Skaftfellingar 1703-1966. Björn Magnússon. Leiftur 1970-1973.