Sigfús Maríus Johnsen
Sigfús Maríus Jóhannsson Johnsen fæddist í Vestmannaeyjum þann 28. mars 1886. Foreldrar hans voru Jóhann Jörgen kaupmaður og útvegsbóndi og Anna Sigríður Árnadóttir frá Hofi í Öræfum. Eiginkona Sigfúsar var Jarþrúður Pétursdóttir Johnsen, fædd 3. júní 1890. Hún starfaði mikið og farsællega að ýmsum félagsmálum í Vestmannaeyjakaupstað og gat sér góðan orðstír fyrir þau störf. Jarþrúður lést í Vestmannaeyjum 9. október 1969. Sigfúsi og Jarþrúði varð ekki barna auðið, en fyrir þeirra kynni átti hann einn son.
Sigfús varð stúdent í Reykjavík árið 1907 og lauk lögfræðiprófi frá Kaupmannahafnarháskóla árið 1914.
Sigfús var fulltrúi í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu í Reykjavík frá árinu 1917 til 1940. Frá 1929 til 1936 starfaði hann jafnframt sem hæstaréttarritari, en árið 1940 varð hann bæjarfógeti í Vestmannaeyjum og gegndi þeirri stöðu í níu ár.
Þá stundaði Sigfús í þrjú ár fræðirannsóknir í Kaupmannahöfn um ættir Íslendinga í Danmörku. Hann skrifaði að auki nokkrar bækur, svo sem Saga Vestmannaeyja í tveimur bindum (Reykjavík 1946), Herleiddu Stúlkuna (Reykjavík 1960), Uppi var Breki, Svipmyndir úr Eyjum (Reykjavík 1968) og Yfir fold og flæði (Reykjavík 1972).
Heimildir
- Guðlaugur Gíslason: Eyjar gegnum aldirnar. Frásagnir af mannlífi og atburðum í Vestmannaeyjum frá gamalli tíð og nýrri. Reykjavík, 1982.
- Sigfús M. Johnsen. Saga Vestmannaeyja, I. bindi. Reykjavík, Fjölsýn forlag, 1989.